Báknið bætir á sig

Eitt af áhugamálum mínum, og þá sérstaklega þegar fréttir af botnlausum hallarekstri og stjórnlausri skuldsetningu hins opinbera eru sem háværastar, er að heimsækja hina ágætu síðu starfatorg.is, en það eru lausar stöður opinberra starfsmanna auglýstar (þ.e. þær stöður sem er ekki ráðið í á bak við tjöldin, með krókaleiðum). Oft hef ég þar rekist á allskyns tilgangslaus störf sem hefur svo jafnvel ekki verið ráðið í (eða starfsheitinu breytt - hver veit). 

Í dag er boðið upp á alveg einstaklega góðan bita. Ekki er um að ræða eitthvað ákveðið starf enda meira og minna allar hæfniskröfur æskilegar frekar en nauðsynlegar. Ekki er um ákveðna þörf að ræða, og valið er í starfið eftir geðþótta (eða það sem er kallað heildstætt mat á umsækjanda). Nei, þess í stað vantar bara allskonar fólk með háskólagráður til að sinna ýmsu tilfallandi. Til leiks er kynnt starfið

Háskólamenntaðir sérfræðingar

Starfsauglýsinguna er vel þess virði að afrita í heilu lagi áður en hún hverfur í nóttina. Nánari kaldhæðnisleg skot á ýmsa þætti hennar verða að bíða seinni tíma.

Háskólamenntaðir sérfræðingar

Utanríkisráðuneytið óskar eftir að ráða háskólamenntaða sérfræðinga til starfa. Háskólamenntaðir sérfæðingar sinna ýmsum sérfræðistörfum á fagsviði og þeim verksviðum sem undir ráðuneytið heyra samkvæmt lögum og reglugerðum, t.d. tvíhliða og marghliða samskiptum við önnur ríki, þróunarsamvinnu, öryggis- og varnarmálum, grannríkjasamstarfi, hnattrænum málefnum, utanríkisviðskiptum, Evrópusamvinnu, borgaraþjónustu, lagamálum, almennri stjórnsýslu og rekstri.  

Helstu verkefni og ábyrgð

    • Undirbúningur og gagnaöflun vegna mála sem til úrlausnar eru í ráðuneytinu. 
    • Upplýsinga- og greiningarvinna svo sem ritun minnisblaða og talpunkta. 
    • Umsjón og afgreiðsla stjórnsýsluverkefna á starfssviðinu. 
    • Þátttaka í tvíhliða og marghliða samstarfi og samstarfi við stofnanir og ráðuneyti hérlendis og erlendis. 

Hæfniskröfur

Kröfur til umsækjenda: 

    • Háskólapróf á meistarastigi. 
    • Mjög gott vald á íslensku og ensku í ræðu og riti.  
    • Góð greiningarfærni og geta til vinna með texta og talnaefni og setja það fram með tölfræðilegum eða myndrænum hætti. 
    • Að þessu sinni er sérstaklega leitað eftir einstaklingum til starfa á sviði varnarmála, þróunarsamvinnu, loftslags- og auðlindamála, fjármála og reksturs. Sértæk reynsla, menntun, þekking og eða tæknikunnátta á þeim sviðum er því áskilin. 
    • Viðkomandi þarf að vera íslenskur ríkisborgari og fullnægja skilyrðum um öryggisvottun hjá Ríkislögreglustjóra sbr. reglur nr. 959/2012 bæði við upphaf ráðningar og meðan hann gegnir starfinu. 

Æskilegir kostir umsækjenda:  

    • Þekking og áhugi á alþjóðamálum. 
    • Þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu. 
    • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum. 
    • Teymisfærni, sveigjanleiki og samstarfs- og samskiptafærni. 
    • Rík þjónustulund og góð geta til tengslamyndunar. 
    • Hæfni til að takast á við ólíkar aðstæður og menningarheima.  
    • Samskiptafærni í ræðu og riti í þriðja tungumáli, t.d. franska, þýska eða Norðurlandamáli. 

Umsækjendur skulu senda inn ferilskrá (hámark 2 bls.) ásamt kynningarbréfi (hámark 1 bls.), bæði á íslensku. Þar skal gera grein fyrir þeirri þekkingu, reynslu og hæfni umsækjanda sem nýtist til að sinna starfinu í samræmi við hæfniskröfurnar í auglýsingunni. Umsóknir á erlendum tungumálum, án kynningarbréfa eða án ferilskráa verða ekki teknar til greina. Einnig skal fylgja umsókn staðfesting á prófgráðum. Við ákvörðun um boðun í starfsviðtal verður sérstaklega horft til gæða umsóknargagna. Umsækjendur sem boðaðir verða í starfsviðtal þurfa að gera grein fyrir íslensku og enskukunnáttu sinni með lestri og útskýringu á enskum texta.   

Umsækjendum sem komast lengra áfram í ráðningarferlinu verður gert að leysa verkefni. Auk annarra hæfnisþátta koma verkefnin heildstætt inn í mat á hæfni umsækjenda til að sinna starfinu. Við ákvörðun um ráðningu verður, auk framangreindra hæfnisviðmiða, tekið mið af frammistöðu í starfsviðtali og umsagna sem aflað er. 

Er eftir einhverju að bíða, fólk með háskólamenntun?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Árnason

Jamm, æskilegt. Spurning hvort þetta tvennt getur farið saman:
"

    • Þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu. 

    • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum. 

    Haukur Árnason, 23.3.2023 kl. 12:52

    2 Smámynd: Geir Ágústsson

    Haukur,

    Ekki alltaf! Ég hef heyrt setningar eins og "og hún var í raun og veru hjálpsöm" og "mér var sagt að það finnist lausn", en fólk sem segir svona lagað er svo hissa að það telur sjálfsagða þjónustu vera fréttnæma og umræðuefni.

    Geir Ágústsson, 23.3.2023 kl. 21:18

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband