Endalausar afsakanbeiðnir - en gaman!

Í kjölfar þess að komið var upp um langa runu endurtekinna lyga á starfsferli þar sem viðkomandi einstaklingur var áreittur í starfi sem hann hafði aldrei unnið hefur farið að af stað nokkurs konar bylgja afsökunarbeiðna sem nær til allskyns fortíðarsynda, og fjölmiðlar gleypa glaðir. Að vísu er enginn að játa að ganga um með falsaða starfsferilskrá (sem kallast í dag að lýsa ekki með réttum hætti stöðu sinni gangvart ákveðnum fyrirtækjum), en sniðugt samt að hreinsa aðeins út beinagrindurnar í skápnum og um að gera að taka þátt í því.

Ég hef því miður aldrei falsað starfsferilskrá mína en í einni atvinnuumsókn sagðist ég kunna aðeins fyrir mér í forritun í PHP. Ég hafði fiktað aðeins við PHP-kóða í tengslum við vefsíðu sem ég átti og ekki fundist neitt sérstaklega flókið við það og var því kokhraustur. Sem betur fer fékk ég samt ekki starfið.

Ég hef stundum lofað upp í ermina á mér í ýmsu samhengi, meðal annars og mögulega fyrst og fremst í vinnunni. Mér finnst erfitt að segja nei við spennandi verkefnum og það bitnar á bæði mér og öðrum. 

Ég hef stolið ýmsum smámunum, kveikt í sinu, keyrt eftir einn, búið til heimagerða sprengju úr flugeldum, verslað áfengi án þess að hafa aldur til, reykt jónu, svindlað á skatti, notað ólöglega leigubíla, afritað kvikmyndir og þætti án heimildar, brotið mögulega allar tegundir sóttvarnaraðgerða, logið því hvar ég var staddur, ýkt tímaskýrslur og mögulega verið of ágengur í samskiptum við fólk í ýmsu samhengi án þess samt að gera ör á sálir viðkomandi, eða það ætla ég rétt að vona. 

Fleira dettur mér ekki í hug í fljótu bragði, og ég sem hélt í að ég gæti skrifað frekar safaríka færslu. 

Atriði sem munu aldrei fara á listann yfir drauga fortíðar hjá mér eru að reyna þagga niður í fólki sem ég er ósammála, svindla á starfsferilsumsókn, lofa eyðslu á peningum annarra, siga lögreglunni á ungmenni að skemmta sér á friðsælan hátt, brjóta trúnað og mála mig sem einhvern dýrling sem má labba um og krossfesta aðra fyrir breyskleika þeirra.

Því miður, því þetta takmarkar allt möguleika mína til að stofna vinsælt hlaðvarp á Íslandi og fá jafnvel ríkisstyrki og pláss á RÚV til að tala út úr rassgatinu á mér. Ég þarf bara að sætta mig við það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband