Bloggfærslur mánaðarins, mars 2023
Miðvikudagur, 22. mars 2023
Báknið bætir á sig
Eitt af áhugamálum mínum, og þá sérstaklega þegar fréttir af botnlausum hallarekstri og stjórnlausri skuldsetningu hins opinbera eru sem háværastar, er að heimsækja hina ágætu síðu starfatorg.is, en það eru lausar stöður opinberra starfsmanna auglýstar (þ.e. þær stöður sem er ekki ráðið í á bak við tjöldin, með krókaleiðum). Oft hef ég þar rekist á allskyns tilgangslaus störf sem hefur svo jafnvel ekki verið ráðið í (eða starfsheitinu breytt - hver veit).
Í dag er boðið upp á alveg einstaklega góðan bita. Ekki er um að ræða eitthvað ákveðið starf enda meira og minna allar hæfniskröfur æskilegar frekar en nauðsynlegar. Ekki er um ákveðna þörf að ræða, og valið er í starfið eftir geðþótta (eða það sem er kallað heildstætt mat á umsækjanda). Nei, þess í stað vantar bara allskonar fólk með háskólagráður til að sinna ýmsu tilfallandi. Til leiks er kynnt starfið
Starfsauglýsinguna er vel þess virði að afrita í heilu lagi áður en hún hverfur í nóttina. Nánari kaldhæðnisleg skot á ýmsa þætti hennar verða að bíða seinni tíma.
Háskólamenntaðir sérfræðingar
Utanríkisráðuneytið óskar eftir að ráða háskólamenntaða sérfræðinga til starfa. Háskólamenntaðir sérfæðingar sinna ýmsum sérfræðistörfum á fagsviði og þeim verksviðum sem undir ráðuneytið heyra samkvæmt lögum og reglugerðum, t.d. tvíhliða og marghliða samskiptum við önnur ríki, þróunarsamvinnu, öryggis- og varnarmálum, grannríkjasamstarfi, hnattrænum málefnum, utanríkisviðskiptum, Evrópusamvinnu, borgaraþjónustu, lagamálum, almennri stjórnsýslu og rekstri.
Helstu verkefni og ábyrgð
- Undirbúningur og gagnaöflun vegna mála sem til úrlausnar eru í ráðuneytinu.
- Upplýsinga- og greiningarvinna svo sem ritun minnisblaða og talpunkta.
- Umsjón og afgreiðsla stjórnsýsluverkefna á starfssviðinu.
- Þátttaka í tvíhliða og marghliða samstarfi og samstarfi við stofnanir og ráðuneyti hérlendis og erlendis.
Hæfniskröfur
Kröfur til umsækjenda:
- Háskólapróf á meistarastigi.
- Mjög gott vald á íslensku og ensku í ræðu og riti.
- Góð greiningarfærni og geta til vinna með texta og talnaefni og setja það fram með tölfræðilegum eða myndrænum hætti.
- Að þessu sinni er sérstaklega leitað eftir einstaklingum til starfa á sviði varnarmála, þróunarsamvinnu, loftslags- og auðlindamála, fjármála og reksturs. Sértæk reynsla, menntun, þekking og eða tæknikunnátta á þeim sviðum er því áskilin.
- Viðkomandi þarf að vera íslenskur ríkisborgari og fullnægja skilyrðum um öryggisvottun hjá Ríkislögreglustjóra sbr. reglur nr. 959/2012 bæði við upphaf ráðningar og meðan hann gegnir starfinu.
Æskilegir kostir umsækjenda:
- Þekking og áhugi á alþjóðamálum.
- Þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu.
- Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum.
- Teymisfærni, sveigjanleiki og samstarfs- og samskiptafærni.
- Rík þjónustulund og góð geta til tengslamyndunar.
- Hæfni til að takast á við ólíkar aðstæður og menningarheima.
- Samskiptafærni í ræðu og riti í þriðja tungumáli, t.d. franska, þýska eða Norðurlandamáli.
Umsækjendur skulu senda inn ferilskrá (hámark 2 bls.) ásamt kynningarbréfi (hámark 1 bls.), bæði á íslensku. Þar skal gera grein fyrir þeirri þekkingu, reynslu og hæfni umsækjanda sem nýtist til að sinna starfinu í samræmi við hæfniskröfurnar í auglýsingunni. Umsóknir á erlendum tungumálum, án kynningarbréfa eða án ferilskráa verða ekki teknar til greina. Einnig skal fylgja umsókn staðfesting á prófgráðum. Við ákvörðun um boðun í starfsviðtal verður sérstaklega horft til gæða umsóknargagna. Umsækjendur sem boðaðir verða í starfsviðtal þurfa að gera grein fyrir íslensku og enskukunnáttu sinni með lestri og útskýringu á enskum texta.
Umsækjendum sem komast lengra áfram í ráðningarferlinu verður gert að leysa verkefni. Auk annarra hæfnisþátta koma verkefnin heildstætt inn í mat á hæfni umsækjenda til að sinna starfinu. Við ákvörðun um ráðningu verður, auk framangreindra hæfnisviðmiða, tekið mið af frammistöðu í starfsviðtali og umsagna sem aflað er.
Er eftir einhverju að bíða, fólk með háskólamenntun?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 21. mars 2023
Bílar og bændaánauð
Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) leggur til að svokölluðu kílómetragjaldi verði komið á fót. Gjaldið myndi koma í stað núverandi skattlagningar á eldsneyti ökutækja en með því myndu eigendur rafmagnsbíla einnig þurfa að borga fyrir afnot af vegakerfinu.
Á þetta verður auðvitað ekki hlustað. Yfirvöld vilja fleiri rafmagnsbíla sem þýðir meira slit sem þýðir hærri álögur á hagkvæma bíla og venjulegt launafólk endar því á að eiga engan bíl og við erum að nálgast miðaldir þar sem fæstir gátu komist mjög langt frá þorpinu sínu, sem heitir núna 15 mínútna hverfi.
En góð tilraun.
Er ég eitthvað að ýkja? Nei. Ég var staddur á íslenskri útihátíð seinasta sumar og þar var mýgrútur af hjólhýsum, fellihýsum og tjöldum og bílar á hverju tjaldstæði. Þeir voru meira og minna allir knúnir með jarðeldaeldsneyti, og þá sérstaklega þeir við hlið veglegustu hjólhýsanna. Ég sá eina Teslu, en frænka mín átti hana og hún svaf í venjulegu tjaldi sem þurfti ekki að draga neitt (og lenti í vandræðum með að finna hleðslustöð fyrir 90 mín rúntinn í bæinn).
Rafmagnsbílar veita ekki sama ferðafrelsi og bílar knúnir orkuþéttu eldsneyti, og þannig er það.
Kannski breytist það, en þyngdin, sem minnkar ekkert með minnkandi hleðslu eins og tankurinn með minnkandi magni, slítur vegum hraðar, og fjármagn til að laga það slit þornar upp með undanþágum rafmagnsbílaeigendanna, sem fer jú fjölgandi af ýmsum ástæðum (og sennilega þá helst þeirri að ríkt fólk er að kaupa sér flotta græju, umfram allt).
Rafknúin farartæki eru samt, svo þeirri skoðun minni sé haldið til haga, frábær. Rafmagnshjól má hér sérstaklega nefna og hafa gert mörgum kleift að lengja vegalengdir og fjölga brekkum á leið sinni. Rafmagnsskútur hafa minnkað álag á leigubíla. Rafknúin farartæki hafa marga kosti og minni galla en mörg þúsund kílógramma lúxusbílar og svifrykið sem þeir þyrla upp.
FÍB á þakkir skilið fyrir ágætt en að mörgu leyti gallað innlegg sitt í umræðu sem er nú þegar búið að skrifa í stein og heitir: Fáðu þér rafmagnsbíl en hafir þú ekki efni á því skaltu þakka fyrir að Borgarlínan er á leiðinni, samkvæmt glærunum.
FÍB vill að allir greiði kílómetragjald | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 20. mars 2023
Skjól frá rétttrúnaðinum
Pólitíski rétttrúnaðurinn dynur á okkur, stanslaust, og verður furðulegri og furðulegri. Listinn yfir það sem venjulegt fólk á að þurfa samþykkja í dag og var fáheyrt fyrir örfáum misserum er orðinn nokkuð langur. Kannski höfum við sem mannfólk á Vesturlöndum þroskast á algjörum ógnarhraða og klifið tinda hámenningar sem áður voru draumsýn ein, en mögulega höfum við einfaldlega látið selja okkur allskyns snákaolíu af ótta við að falla ekki í kramið hjá þeim sem í raun og veru hafa mokað fólki úr störfum sínum og jafnvel fjölskyldum fyrir að slá feilnótu í þessari ógnvænlegu sinfóníu.
Það er því gott að vita af skjóli frá þessu úrhelli áróðurs, upplýsingaóreiðu og andvísindalegum trúarbrögðum yfirvalda, alþjóðastofnana og jafnvel háskóla og læknasamfélaga, auk strengjabrúða sem láta stjórna hreyfingum sínum og vagna sem hanga aftan á þessum þvæluspýjandi eimreiðum.
Eitt dæmi mér nærtækt er vefmiðillinn Krossgotur.is. Þar birtast greinar eftir menn og konur á öllu hinu pólitíska litrófi, en það litróf hefur það sér til ágætis að umbera eitthvað fleira en hið eina sanna boðorð hins pólitíska rétttrúnaðar (sem í raun er bara: Fylgdu nýjustu dellunni í ystu æsar, annars kemur kannski eitthvað fyrir þig).
Í íslensku samhengi þarf líka að nefna Fréttina og blogg Kristínar Þormars, Ágríms Hartmannssonar, Páls Vilhjálmssonar og Arnar Þórs Jónssonar.
Annað dæmi í íslensku samhengi er hlaðvarpsveitan Brotkast sem hefur vakið nokkra athygli undanfarið fyrir afhjúpun á lygavef eins af dýrlingum hins pólitíska rétttrúnaðar. Eða þar til annað kemur í ljós sem virðist ólíklegt.
Erlendis má benda á Brownstone, The Daily Sceptic og The Epoch Times fyrir hið ritaða orð, hlaðvarp Tom Woods og TRIGGERnometry fyrir hið talaða orð og Babylon Bee fyrir satíruna, sem er ómetanleg (mynd við færslu þaðan).
Flest að ofan er auðvitað úthúðað sem áróður, samsæriskenningamiðlar og þaðan af verra. En veirutímar kenndu mér, og vonandi fleirum, eitt: Það er hrós! Auðvitað skjátlast öllum um eitthvað (daglegur lestur á ruv.is ætti að kenna okkur það). En við eigum að vera leitandi, gagnrýnin og hugsandi. Ekki flókið fyrir lærða fréttamenn myndi maður halda. En þeir eru einfaldlega ekki með okkur í liði. Þeir eru, svo fínt íslenskt orð sé notað um ákveðnar tegundir starfsmanna, rassasleikjur. Viltu hlusta á svoleiðis fólk? Þú um það.
Veirutímar hafa veitt mörg skjól sem voru áður ekki til staðar og framhald veirutíma eru að veita enn fleiri. Ég lít á þau sem einskonar strætóskýli í rigningu: Stað til að dvelja tímabundið á til að fá hlé frá úrhelli skíts og drullu sem spýjað er yfir allt og alla af vel borguðum fagmönnum, meðvitað eða ómeðvitað að reka áróður fyrir hönd fólks sem er skítsama um þig. Og gefur því skít í þig.
Auðvitað er ekki hægt að hanga endalaust í strætóskýli en það er gott að fá hlé, losna við illa lyktandi drulluna, og herða upp hugann fyrir næsta legg á ferðalaginu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.3.2023 kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 19. mars 2023
Rannsókn og hvítþvottur
Dönsk stjórnmál ætla af mikilli manngæsku að senda sérfræðinga til Úkraínu til að rannsaka stríðsglæpi.
Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að styðja við bakið á Úkraínumönnum og baráttu þeirra fyrir frelsi og réttlæti. Það er mikilvægt að rannsókn verði gerð og fólk verði látið svara til saka sem stendur á bak við stríðsglæpi í Úkraínu, sagði Peter Hummelgaard, dómsmálaráðherra Danmerkur, að því er danska ríkisútvarpið greindi frá.
Bíddu nú við.
Styðja við bakið á Úkraínumönnum?
Er þetta öll rannsóknin á stríðsglæpum í Úkraínu?
Hvað með öll voðaverkin sem við á Vesturlöndum hunsuðum frá árinu 2014, eftir valdaránið, og þar til Rússar réðust yfir landamæri Úkraínu? Teljast þau ekki með?
Hvað með voðaverkin sem báðir aðilar framkvæma í dag? Á að skipta þeim í tvennt og rannsaka bara annan hlutann?
Óháð afstöðu manna til atburða í Úkraínu seinustu árin þá hlýtur þetta að vekja athygli.
Hvað fá dönsk yfirvöld út úr því að hvítþvo voðaverk annars aðilans en setja voðaverk hins undir stækkunargler? Feita stöðu í NATO? Ókeypis vopn? Maður spyr sig.
Hópur danskra sérfræðinga til Úkraínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 18. mars 2023
Fjarlægðu grímuna fyrst
Ég var í flugi um daginn, á milli þriggja borga í Evrópu. Sem hluti af öryggisleiðbeiningum flugþjóna voru þau fyrirmæli að fjarlægja sóttvarnargrímu áður en súrefnisgríma er sett á andlitið.
Sennilega hefur verið ríkt tilefni til að benda á þetta. Mögulega voru farþegar að spyrja. Kannski féllu súrefnisgrímur niður í einhverju fluginu og farþegar voru að setja þær ofan á sóttvarnargrímuna. Hver veit!
En það er gott að við erum smátt og smátt að hrista af okkur seinustu leifar veirutíma. Enginn var með sóttvarnargrímu í flugunum sem ég var í þennan dag en leiðbeiningar flugþjóna eru jú þær sem þær eru og koma að ofan og verður ekki breytt dag frá degi eða frá einu flugi til hins næsta.
Á morgun fer ég aftur í flug hjá öðru flugfélagi. Það verður spennandi að sjá hvort það flugfélag biðji mig líka um að fleygja sóttvarnargrímunni áður en ég set á mig súrefnisgrímuna.
Miðvikudagur, 15. mars 2023
Frelsissprautan
Þessi svokölluðu bóluefni gegn COVID-19 hafa reynst lækning verri en sjúkdómurinn.
Fyrst áttu þau að veita 90% vörn gegn smiti og gegn því að smita aðra.
Þegar í ljós kom að þeir sprautuðu smituðust og smituðu eins og aðrir þá áttu sprauturnar að draga úr alvarlegum veikindum.
Þegar kom í ljós að meirihluti sjúklinga á spítala með COVID-19 voru sprautaðir þá var sú tölfræði fjarlægð og sprauturnar taldar hafa komið í veg fyrir ennþá fleiri innlagnir á spítala.
Og nú er komið í ljós að sprauturnar beinlínis veikja ónæmiskerfið. Eru verri en engar. Fjara út og skilja eftir sig sviðna jörð.
Á sama tíma tók veiran skæða sig til og stökkbreyttist í að verða vægari en smitast meira. Dæmigerð hegðun nýrrar veiru sem reynir að halda sér á lífi og drepa ekki of marga sem bera hana áfram. Það eru helst þeir sem hafa veikt í sér ónæmiskerfið með ýmsum aðferðum (t.d. að hanga of mikið heima, spritta sig og umhverfi sitt of mikið og sprauta í sig efnum) sem smitast og veikjast alvarlega, bæði af veiru og allskyns öðru.
Þetta vitum við núna eftir 3 ár.
En samt er ennþá verið að reyna halda því fram að það sé sprautunum að þakka að einhverju megi aflétta. Ríkisútvarp útvalinna viðhorfa (RÚV) býður okkur til dæmis upp á þennan þvætting í dag:
En er sjúkdómurinn ekki eins skaðlegur eða eru það bólusetningarnar sem draga úr alvarleikanum?
Við teljum það nú vera bólusetningarnar. Þjóðin er mjög vel bólusett. Það er alveg greinilegt að þetta er allt öðru vísi sjúkdómsmynd heldur en var í upphafi. Ég myndi nú ekki bjóða í það hvernig staðan væri ef við hefðum ekki fengið bóluefni þegar við fengum það, segir Hildur [Helgadóttir, formaður farsóttarnefndar Landspítalans].
Einmitt það já? Er þetta frelsissprautan sem átti að gera yfirvöldum kleift að létta öllum takmörkunum en enduðu bara á að valda umframdauðsföllum og veikindum?
Hildur þessi, sem fær beinlínis borgað fyrir að halda sér uppfærðri í farsóttum og veirusýkingum býður ekki í það hvernig staðan væri án sprautnanna. Hún þarf ekki að bjóða neitt. Gögnin eru til staðar. Það er enginn vandi að bera saman hlutfall sprautaðra og fjölda umframdauðsfalla. Myndin er ekki svart-hvít (ríki eins og Svíþjóð eru mikið sprautuð en hafa fá umframdauðsföll, svo dæmi sé tekið) en hún styður heldur ekki orð formannsins um að margar sprautur séu réttlæting fyrir afléttingu aðgerða.
En maður lætur svo sem ekkert koma sér á óvart. Heldur ekki það að í mars 2023 er ennþá verið að veifa sprautum fyrir framan fólk og segja því að taka þær í skiptum fyrir mannréttindi.
Þriðjudagur, 14. mars 2023
Viltu borða viðbjóðsleg skordýr eða ljúffengt kjöt?
Ég hitti nokkra vini í dag á veitingastað sem sérhæfir sig í að bjóða upp á gott kjöt. Hlaðborð staðarins býður upp á 15 mismunandi tegundir af kjötstykkjum og allt sem ég prófaði var gott. Kjöt er gott, hollt, nærandi og mettandi.
Flestir vilja geta borðað gott kjöt. Ein stærsta hindrunin er oft verðið, en menn láta sig oft hafa það. Nú eru hins vegar tímar fallandi kaupmátts peninga og íþyngjandi reglugerða á alla sem gera eitthvað verðmætaskapandi (þeir sem gera ekkert verðmætaskapandi fá undanþágur og niðurgreiðslur). Meðal afleiðinga er hækkandi kjötverð. Færri hafa efni á þeim mat sem þeir vilja.
(Ég veit að landbúnaður er yfirleitt niðurgreiddur í vestrænum ríkjum en það er uppbót fyrir ríkismiðstýringu, og er önnur saga.)
Þetta er ósköp einfalt, en hvernig getur blaðamaður flækt það? Jú, með þessum hætti:
Rætt hefur verið um kjötneyslu í samhengi við umhverfismál en margir hafa vaxandi áhyggjur af afleiðingum loftslagsbreytinga. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur reiknað út losun gróðurhúsalofttegunda frá kjötframleiðslu.
Áætlað er að framleiðsla á kjöti og dýraafurðum valdi tæpum 15% af allri losun gróðurhúsalofttegunda af mannana völdum. Framleiðsla nautgripaaafurða losar langmest en framleiðsla á kjúklingum og svínakjöti losar til dæmis þriðjungi minna af gróðurhúsalofttegundum.
Hvort samdrátt í kjötneyslu megi rekja til umhverfissjónarmiða skal ósagt látið eða hvort sífellt fleira fólk kjósi að borða ekki kjöt og kjötafurðir vegna sinna lífsskoðana.
Ef til vill hefur sambland af þessu tvennu áhrif eða kannski eru landsmenn farnir að borða minni skammta eða hlutfall kjöts á diskunum hefur minnkað.
Umhverfissjónarmið! Einmitt það. Svangur neytandi labbar um verslun, sér kjöt, hafnar því og hugsar: Umhverfið!
Auðvitað hugsar hann ekkert slíkt. Hann hugsar: Verðið!
Hann labbar síðar framhjá hillu sem hann hafði ekki séð áður og býður upp á gæludýrafóður en er selt sem mannamatur: Skordýr. Ódýrt, auðvitað, enda á undanþágum og jafnvel niðurgreiðslu. Gott og vel, engisprettur verða það frekar en lambakjöt.
Það má vel vera að það sé svokallað frjálst val að geta valið á milli rándýrs mannamats og niðurgreidds gæludýramats, en menn vilja mannamat og yfirvöld vilja eitthvað annað, og sá sem getur beitt mestu ofbeldi ræður.
Góða matarlyst, og láttu ekki engisprettuleggina standa í hálsinum á þér!
Landsmenn draga úr kjötneyslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 13. mars 2023
Katrín og Kolbrún bjarga Úkraínu
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra halda áleiðis til Úkraínu í dag til fundar við þarlend stjórnvöld.
Skemmtilegur angi þessarar ferðar er að hún er mjög leynileg en um leið fréttamatur:
Mikil leynd hefur hvílt yfir þessum áformum, m.a. af öryggisástæðum, en með í för verða nokkrir aðstoðarmenn ráðherranna og fréttamenn Ríkisútvarpsins.
Ætla þær stöllur að skríða í gegnum leynileg göng? Við þurfum ekki að spyrja okkur að því. Fréttin er skýr:
Ráðherrarnir fljúga til Póllands í dag, en gert er ráð fyrir að þær stöllur haldi með næturlest yfir til Úkraínu og eiginleg heimsókn þar í landi hefjist á morgun.
Næturlest, hvorki meira né minna! Þetta er eins og gott Bond-atriði, ef Bond-myndir væru framleiddar af sex ára krökkum.
Straumur kvikmyndastjarna og stjórnmálamanna til Úkraínu er slíkur að maður gæti haldið að þar ríkti hin mesta friðsæld og að loftvarnarflautur blási bara til að tilkynna komu gráhærðra karlmanna á hallarlóð.
Ríkisstjórn Íslands getur ekki gert nokkurn skapaðan hlut til að aðstoða almenning í Úkraínu. Hún getur málað skotmark á Ísland. Hún getur forgangsraðað útlendingum umfram Íslendinga. Hún getur baðað sig í dýrðarljóma nýjustu upplýsingaóreiðunnar. Hún getur sent heilan býflugnasveim af stjórnmálamönnum, opinberum starfsmönnum og blaðamönnum ríkisútvarps útvalinna viðhorfa (RÚV) til útlanda á blússandi dagpeningum. En hún getur ekki látið neitt gott af sér leiða í fjarlægum heimshornum. Og varla í eigin bakgarði, en ráðherrar í leit að verkefnum gætu látið duga að taka göngutúr um miðbæ Reykjavíkur og finna þar frosna heimilislausa og einstæða feður ef þeim vantar vandamál til að leysa.
Veruleikafirringin er slík að manni verður hugsað til frásagna frá föllnu Rómarveldi þar sem keisarar héldu veislur á meðan borgin brann. Erum við þar?
Katrín og Þórdís á leið til Úkraínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 13. mars 2023
Uppfyllir kosningaloforð og skapar störf og orkuöryggi
Ríkisstjórn Joe Bidens Bandaríkjaforseta hefur samþykkt að gefa heimild fyrir olíuleit á svæði í ríkiseigu í Alaska en í framboðsherferð sinni til forseta árið 2020 lofaði Biden að hann myndi ekki samþykkja slík leyfi.
Um leið lofaði Bidan að búa til störf og skapa verðmæti.
Hann er því að svíkja og uppfylla. Svíkja innantóma heimsendaspádóma og lausn á ímynduðu vandamáli og standa við mikilvægt loforð sem bætir líf fólks.
Fjölmiðlar velja auðvitað að einblína á ímyndaða vandamálið, en slíkt kemur ekki á óvart.
Mögulega var Biden, eða strengjabrúðumeistararnir sem láta handleggi hans sveiflast og munn hans opnast og lokast, að gera eitthvað rétt fyrir slysni. Því ber að fagna. Dag einn mun olía úr nýjum lindum Alaska mögulega halda íslenskum fiskimjölsverksmiðjum í gangi þegar græna rafmagnið svíkur, enn eina ferðina.
Svíkur kosningaloforð og heimilar olíuleit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 12. mars 2023
Tæknin auðveldar yfirvöldum að loka okkur inni
Veirutímar voru alveg einstök tilraun í samfélagsverkfræði. Þeir snérust að nafninu til um veiru en voru í raun eitthvað annað og meira. Jú, veiran var markmiðið og ég held ekki neinu öðru fram. En þeir sem fengu borgað fyrir að fækka veirum fengu í hendurnar verkfæri sem aldrei hafði sést áður: Það, að geta bókstaflega bannað fólki að yfirgefa heimili sín en - og hér er nýbreytnin - um leið ætlast til að það gæti unnið vinnuna sína!
Að hugsa sér!
Í þróuðum hagkerfum, þar sem mjög margir vinna megnið af vinnu sinni í tölvum og geta sótt fundi í gegnum þær, þá gafst þetta í raun ágætlega ef menn einblína á hagtölur og rekstratölur fyrirtækja (vanlíðan, brottföll úr skóla, álagsvandamál og ýmislegt annað kemur ekki endilega fram þar). Fyrir suma var þetta yndislegur bræðingur af vinnu og samverustundum með börnunum, fyrir aðra hrein martröð þar sem bæði börn og vinna voru vanrækt. En þetta gekk, einhvern veginn. Ferðatölvustéttin (e. laptop class) var varin. Sóttvarnalæknar og flestir fjölmiðlafulltrúar (stundum kallaðir blaðamenn) eru meðal annarra í ferðatölvustéttinni, svo því sé haldið til haga.
Þetta verkfæri yfirvalda - að geta bannað fólki að mæta í vinnuna en um leið ætlast til að það vinni vinnuna - er frekar nýtt, en það verður nýtt! Til hvers að fara út úr húsi ef þú þarft þess ekki ef það minnkar ferðalag veiru? Til hvers að standa upp? Til hvers að hitta fólk? Sóttvararráðstafanir eru farnar að hljóma eins og lífsheimspeki atvinnulausra tölvuleikjafíkla.
En gott og vel.
Ég horfði á kvikmynd um daginn sem var tekin upp á 8. áratug 20. aldar. Þar sitja menn við símann, sem er rækilega bundinn við snúru. Tónlist er spiluð á vinylplötum. Fólk þarf að veifa höndum úti á götu til að fá leigubíl eða finna síma og hringja og bíða. Ekki saklausir tímar en einfaldari að mörgu leyti. Ég er með blendnar tilfinningar sjálfur: Ólst upp nánast án raftækja en er núna með tvær og stundum þrjár tölvur á borðinu mínu, auk síma. Ég á ung börn sem kunna á raftæki og það hefur kosti og galla.
En það sem ég vildi segja hér er að tímar án raftækja, fjarvinnu, fjarfunda, snjalltækja og ferðatölva voru tímar þar sem hefði aldrei verið hægt að taka upp glæný kínversk veiruvísindi fram yfir þau aldagömlu vestrænu. Þau vestrænu (kortleggja áhættuhópa og verja þá, beita svæðisbundnum úrræðum frekar en allsherjarúrræðum og annað slíkt) þyrftu að duga.
Og ættu að duga áfram, enda duga þau betur en kínversku vísindin.
Freistingin er samt sú að loka okkur inni aftur, og gera það af sífellt minni ástæðu, af því það er hægt! Það er hægt án þess að ferðatölvustéttin verði atvinnulaus, því miður! Í innilokuninni er svo hægt að beita allskyns úrræðum til að halda fréttastreyminu að þér einhæfu, röngu og yfirþyrmandi.
Ég gæti skrifað langa ritgerð um kosti tækninnar - hvernig hún hjálpar okkur að tengjast fólki, varðveita tengsl og komast í fróðleik og upplýsingar sem voru áður óaðgengilegar venjulegu fólki - en tel það vera óþarfi. Tæknin er að mínu mati frábær. En hún er orðin vopn í höndum yfirvalda og því vopni verður beitt aftur. Það er hægt að draga úr biti vopnsins (gott tengslanet sem notar miðla sem verða ekki ritskoðaðir er meðal aðferða) en nægilega margir trúa ennþá á upplýsingaóreiðu yfirvalda svo það er á brattann á sækja.
En leyfum þeim að prófa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)