Bloggfærslur mánaðarins, maí 2021

Vonandi

Ég held að ef einhverjir standi í lappirnar og spyrni við sóttvarnaryfirvöldum, svokölluðum, þá séu það þeir hópar sem bera hvað mesta ástríðu fyrir samkomum sínum.

Þetta var ekki tilfellið í tilviki Eyjamanna þegar Þjóðhátíð 2020 var blásin af. Og raunar ekki tilfellið hjá neinum í fyrra enda var þá sú goðsögn enn bráðlifandi að um glænýja veiru væri að ræða sem enginn vissi neitt um þrátt fyrir endalausar rannsóknir og flóðbylgju af gögnum.

Teikn eru á lofti um að Þjóðhátíð 2021 verði blásin af í nafni sóttvarna og hætt við að Eyjamenn beygi sig aftur í duftið. En þá er Gleðigangan vonandi ekki eins veik í hnjánum. Að henni stendur fólk sem brennur á líkama og sál fyrir viðburðinum. Kannski Gleðigangan verði múrbrjóturinn sem bjargar Íslendingum frá þríeyki. Og Eyjamenn og gestir þeirra gætu notið þess.

Sjáum hvað setur.


mbl.is Stefnt að því að halda Gleðigönguna í ágúst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þægileg innivinna auglýst

Dómsmálaráðuneytið auglýsir nú eftir upplýsingafulltrúa. Sennilega er sá sem nú gegnir starfinu á förum eitthvert annað. 

Þetta er þægileg innivinna og eflaust eftirsótt. Árið 2018 sóttu 25 einstaklingar um starfið og viðbúið í öllu heimatilbúna atvinnuleysinu að þeir verði mun fleiri að þessu sinni.

Annars tek ég eftir því að ekki hefur enn verið ráðið í starf sérstaks ritara skrifstofustjóra í ráðuneytinu og fjölmiðlafulltrúinn er horfinn, en í apríl störfuðu bæði upplýsinga- og fjölmiðlafulltrúi í ráðuneytinu. Eða yfirsést mér eitthvað?

Kannski núverandi upplýsingafulltrúa hafi verið tjáð að hann þurfi núna líka að sinna skyldum fjölmiðlafulltrúa og við það gat hann ekki unað. 

Nema þá að hann hafi ekki verið talinn hæfur til að auka svona við skyldur sínar.

Það er greinilega ýmislegt í gangi á bak við tjöldin. Ég fylgist spenntur með!


Á meðan í útlöndum

Á meðan Íslandsmeistaramótið í hugmyndum um rándýra innviði fer fram (lestir, tvöfaldir strætisvagnar) eru menn víða um heim að hugsa í öðrum lausnum, t.d. því hvernig má koma fólki frá A til B án þess að leggja heilu landflæmin undir malbik og teina. 

Í Danmörku eru nú þegar komnir sjálfkeyrandi strætisvagnar sem binda t.d. saman miðbæ og háskólasvæði. Fleiri eru á döfinni [1|2]. Þetta eru litlir og hægfara strætisvagnar en sennilega fínar staðbundnar lausnir. Áform um stærri rútur eru víða farin af stað [1|2].  

Flugrúturnar hafa dugað Íslendingum vel enda þola þær öll veður, eru oft þægilegar og rúmgóðar og verðlagið engin blóðtaka. Samkeppni er um rekstur þeirra og það kemur fram í sveigjanlegum ferðatímum og fínni þjónustu. Fólki er jafnvel skutlað alveg upp að anddyrum hótelanna. 

Fín viðbót við rúturnar væri meiri fjölbreytni á leigubílamarkaðinum. Uber og Lyft og fleiri slíkir aðilar gætu t.d. komið í stað skutlaranna svokölluðu þótt skutlarana megi ekki vanmeti. Þeir bjóða upp á mikilvæga og eftirsótta þjónustu (sem er því miður ólögleg). 

Með auknum sveigjanleika, meiri samkeppni og notkun nýjustu tækni mætti nýta þá innviði sem nú þegar eru til staðar mun betur. Færri finndu sig knúna til að keyra eigin bíl á fjarlægt bílastæði gegn háu gjaldi og gætu í staðinn hoppað í annan ferðamáta og látið keyra sig. Ekki þyrfti að leggja meira malbik, og hvað þá teina með tilheyrandi viðhaldi, umstangi og kostnaði. 

En nú ætla ég ekki að eyðileggja andrúmsloftið á Íslandsmeistaramótinu í hugmyndum um rándýra innviði. Stórhuga fólk má ekki letja, er það nokkuð?


mbl.is Fluglestin á biðstöð en áformin enn uppi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með milljónirnar sjötíu?

Sigurður Guðjón Gíslason, einn landeigenda að Hrauni, staðfestir í samtali við mbl.is að gjaldskylda verði á bílastæði við gönguleiðina að eldgosinu. 

„Það er komið að því að það þurfi að fara í tals­verða upp­bygg­ingu á svæðinu þannig það er óumflýj­an­legt fyr­ir land­eig­end­ur að fara út í þetta,“ seg­ir Sig­urður.

Gott mál. Aðstaða kostar fé og betri er göngustígur í gegnum náttúru en tröðkuð náttúra án stígs. Þetta vita allir sem hafa skoðað Skógafoss, Gullfoss, Kerið, Geysi og aðrar náttúruperlur.

En hvað þá með milljónirnar sjötíu sem einhver ráðherrann var búinn að lofa að skattgreiðendur reiddu fram? Má þá ekki hætta við þær og leyfa landeigendum að sjá um land sitt með gjaldtöku á þá sem vilja njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða?

Ríkissjóður er galtómur, fólk á ekki að borga fyrir afþreyingu annarra og landeigendur eru fullfærir um að passa land sitt á eigin ábyrgð og eigin kostnað.


mbl.is Segir gjaldskylduna óumflýjanlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gósentíð hjá lögfræðingum

davidÁTVR undirbýr nú beiðni um lögbann á hendur vefverslununum sem selja áfengi í smásölu til neytenda hér á landi og höfðun dómsmáls í framhaldi af því. Samhliða er hafinn undirbúningur lögreglukæru vegna starfseminnar. Einn kaupmaður veltir því fyrir sér gegn hverjum lög­bannskrafan eigi að beinast. Sig­rún Ósk Sigurðar­dóttir, að­stoðar­for­stjóri ÁTVR, segir að þau séu að­eins á byrjunar­stigi með mál sitt og það muni skýrast þegar þau eru komin lengra með málið gegn hverjum það beinist ná­kvæm­lega.

Spennandi, ekki satt?

Hvað sem því líður er ljóst að mikil gósentíð er framundan hjá lögfræðingum. Ríkisfyrirtækið ÁTVR hefur virkjað ríkisstarfsmenn hjá dómstólum og lögreglu. Einkaaðilar búast til varna. Lögfræðingum verður teflt fram í lögbannsmálum og lögreglukærum. Innan stjórnsýslunnar munu lögfræðingar einnig taka til starfa. Væntanlega er einhver ráðherrann nú þegar búinn að ræsa slíka vinnu. 

Og til hvers?

Jú, til að tryggja að sala löglegs neysluvarnings fari fram með óbreyttum hætti: Í gegnum verslanir ÁTVR og erlendar netverslanir sem senda eina flösku í einu með póstinum til Íslands, með tilheyrandi umstangi, kostnaði og biðtíma.

En það mun ekki takast. Árið 1980 var mönnum sýnt hvar Davíð keypti ölið. Nú er komið að öllu hinu áfenginu.


Bóluefni og börn

Eitthvað er á reiki hvaða áætlanir eru í gangi víða um heim varðandi börn og bóluefni gegn COVID-19. 

Landlæknisembættið segir til dæmis:

Þau bóluefni sem eru komnir lengst hafa ekki verið prófuð á börnum og ungmennum. Börn smitast síður en aðrir íbúar. Ekki er mælt með bólusetningu fyrir börn og unglinga yngri en 18 ára.

bola

Landspítalinn segir að "börn á aldrinum 5-15 ára gætu komið til greina í undantekningatilfellum". 

Engu að síður vilja 60-70% íslenskra foreldra barna niður í 4 ára aldur sprauta börnin sín. Var einhver að tala um að hlusta á vísindin og láta ekki glepja sig af hræðsluáróðri?

Einu sinni var talað um aldraða og áhættuhópa. Núna er verið að stækka möskvana og tala um bólusetningar sífellt yngri barna sem leiðina út úr sóttvarnaraðgerðum. Danir ætla ekki að sleppa tökunum alveg fyrr en 16 ára og eldri hafa fengið sprautuna (eða boð um hana). Mér finnst blasa við að íslensku umræðunni verði þrýst í þessa átt og að 18 ára viðmið Landlæknis verði gert að 16 árum, eða jafnvel 12 árum. Alltaf er fundin ný átylla til að viðhalda sóttvarnaraðgerðum.

Þjóðhátíð í Eyjum 2021 er dauðadæmd.


Af hverju fá opinberar stofnanir föst fjárframlög?

Þú sem neytandi verslar sennilega oft við sömu verslanir. Kannski ferðu í Bónus vikulega. Kannski notar þú oftast sömu bensínstöðina. Er líklegt að Bónus hefði samband við þig dag einn og lofaði að sinna þínum innkaupaþörfum fyrir fast fjárframlag einu sinni á ári? Eins konar eingreiðsla sem nær til heils árs?

Nei, auðvitað ekki, af mörgum ástæðum. Þér gæti t.d. dottið í hug að þegar þú ert búinn að greiða þitt árlega framlag að þá færi Bónus að taka þér sem sjálfsögðum hlut. Hillurnar byrja að tæmast, brauðið að renna út og mjólkin að súrna. Þú kvartar og segist hafa greitt fyrir betri þjónustu en þeirra en þeir segja bara: Þú getur bara tekið rúgbrauðið í staðinn fyrir heilhveitibrauðið eða drukkið undanrennu í staðinn fyrir nýmjólk. Við erum svo sannarlega að veita þér umsamda þjónustu og þú færð ekki krónu endurgreitt.

Þú vilt líka sem neytandi hafa val. Kannski viltu eitthvað sem fæst ekki í Bónus. Kannski ákveður þú á miðju ári að gerast grænmetisæta og finnst úrvalið í Krónunni henta þér betur. Kannski viltu kaupa magnpakkningar af klósettpappír og ferð í Costco. Þú vilt aldrei skuldbinda þig til heils árs fyrir stóran hluta launa þinna. Þú vilt láta keppa um viðskipti þín í hverri heimsókn í verslun.

Þess vegna finnst mér sífellt furðulegra að skólar og heilbrigðisstofnanir fái föst fjárframlög af nákvæmlega sömu ástæðum og það væri furðulegt að þú borgaðir Bónus einu sinni á ári. Í sumum ríkjum eins og Svíþjóð fylgja peningarnir skjólstæðingunum, hvort sem það eru grunnskólabörn eða sjúklingar. Opinberar og einkareknar stofnanir fá ekki greitt nema sinna þjónustu. Og þjónustan er fersk eins og nýmjólkin í Bónus í dag en ekki súr eins og í Bónus sem gerði þig að áskrifanda. 

Á meðan þetta er rökrétt fyrirkomulag þá er það líka hvetjandi. Í Svíþjóð hafa einkareknir skólar bætt þá opinberu með aðhaldi. Foreldrar taka reglulega afstöðu til skólastarfsins og skipta um skóla ef þeir eru ósáttir. Peningarnir fylgja svo með barninu. 

Í Reykjavík er minnihluti Sjálfstæðisflokksins nú að fara fram á aukin fjárframlög til einkaskóla. Það er plástur á sárið. Peningarnir eiga að fylgja nemandanum, óháð rekstrarformi skólans. Samkeppni, eða ógnin af yfirvofandi samkeppni, er góð, alltaf.


Heimatilbúna atvinnuleysið

„Það hef­ur nú ekki verið erfitt fyr­ir okk­ur að finna fólk“ seg­ir Gylfi Þór Þor­steins­son, for­stöðumaður far­sótt­ar­húsa Rauða kross­ins.

Auðvitað ekki. Ríkið er búið að bola svo mörgum af atvinnumarkaðinum að fjöldi manns grípur nú hvert hálmstrá. Meðal annars það að klæðast grímubúningum til að halda Pólverjum á Íslandi með öll heimsins neikvæðu próf frá því að hitta fjölskyldur sínar og vinnufélaga.

Sögubækurnar verða fróðlegar.


mbl.is Gera ráð fyrir 600 gestum á sóttkvíarhótelum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar það dugir ekki að ráða skoðunum 90% fólks

Í baráttunni gegn útbreiðslu COVID-19 er búið að finna upp fjöldan allan af bóluefnum. Öll voru þau búin til á methraða og hleypt í gegn á undanþágum. Flestir hafa síðan staðið spenntir í sinni röð, tilbúnir að bretta upp ermina og fá sprautu.

Maður hefði haldið að stuðningsmenn bólusetninga væru himinlifandi með þetta. Svo er ekki. Allt kapp er lagt á það að þagga niður í mjóróma röddum sem gagnrýna bóluefnin eða bólusetningar á ýmsa vegu. Fjölmiðlar tala um samsæriskenningar, óupplýsta umræðu, þvaður ólærðra og rangfærslur af ýmsu tagi. Samfélagsmiðlarnir eru vel með á nótunum líka og loka á síður, umræður, athugasemdir og deilingar. 

Talsmenn umsvifamikilla bólusetninga tala um mikilvægi þess að bólusetja. Fyrst var talað um aldraða og áhættuhópa en núna nánast alla (niður í 16 ára unglinga, sem er í staðinn lofað grímulausu hausti, og já þetta er á Íslandi). Og fólk stendur í röðum. Engin gagnrýni, engar spurningar. Talsmenn bólusetninga ættu að vera að fagna stórsigri.

En nei, þess í stað er rosalega miklu púðri eytt í að mæta allri gagnrýni á bóluefni og bólusetningar af fullum þunga með öllum ráðum. 

Auðvitað mun það ekki virka, eða jafnvel virka öfugt. Það mun koma sumum á óvart hvað er mikil áhersla lögð á að allir séu sammála, líka í tilviki fordæmalausra aðstæðna þar sem hver dagur færir okkur nýja lærdóma (og er meðal annars að leiða til endalausra breytinga í ráðgjöf um hvaða bóluefni henta hverjum best).

Það er ekki nóg að 90% almennings keppist um að fá sprautuna sína, jafnvel þótt slíkt ætti alveg að duga til að ná fram svokölluðu hjarðónæmi. 

Nei, allir skulu vera sammála. Frávik eru ekki leyfð.

Minnir óneitanlega á einhver önnur form stjórnskipunar en lýðræði.


Afþreying á föstudegi

Nú er föstudagur og við hæfi að bjóða upp á afþreyingu. Hér eru 16 mínútur af forseta Bandaríkjanna að segja allskonar.

Góða helgi!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband