Af hverju fá opinberar stofnanir föst fjárframlög?

Þú sem neytandi verslar sennilega oft við sömu verslanir. Kannski ferðu í Bónus vikulega. Kannski notar þú oftast sömu bensínstöðina. Er líklegt að Bónus hefði samband við þig dag einn og lofaði að sinna þínum innkaupaþörfum fyrir fast fjárframlag einu sinni á ári? Eins konar eingreiðsla sem nær til heils árs?

Nei, auðvitað ekki, af mörgum ástæðum. Þér gæti t.d. dottið í hug að þegar þú ert búinn að greiða þitt árlega framlag að þá færi Bónus að taka þér sem sjálfsögðum hlut. Hillurnar byrja að tæmast, brauðið að renna út og mjólkin að súrna. Þú kvartar og segist hafa greitt fyrir betri þjónustu en þeirra en þeir segja bara: Þú getur bara tekið rúgbrauðið í staðinn fyrir heilhveitibrauðið eða drukkið undanrennu í staðinn fyrir nýmjólk. Við erum svo sannarlega að veita þér umsamda þjónustu og þú færð ekki krónu endurgreitt.

Þú vilt líka sem neytandi hafa val. Kannski viltu eitthvað sem fæst ekki í Bónus. Kannski ákveður þú á miðju ári að gerast grænmetisæta og finnst úrvalið í Krónunni henta þér betur. Kannski viltu kaupa magnpakkningar af klósettpappír og ferð í Costco. Þú vilt aldrei skuldbinda þig til heils árs fyrir stóran hluta launa þinna. Þú vilt láta keppa um viðskipti þín í hverri heimsókn í verslun.

Þess vegna finnst mér sífellt furðulegra að skólar og heilbrigðisstofnanir fái föst fjárframlög af nákvæmlega sömu ástæðum og það væri furðulegt að þú borgaðir Bónus einu sinni á ári. Í sumum ríkjum eins og Svíþjóð fylgja peningarnir skjólstæðingunum, hvort sem það eru grunnskólabörn eða sjúklingar. Opinberar og einkareknar stofnanir fá ekki greitt nema sinna þjónustu. Og þjónustan er fersk eins og nýmjólkin í Bónus í dag en ekki súr eins og í Bónus sem gerði þig að áskrifanda. 

Á meðan þetta er rökrétt fyrirkomulag þá er það líka hvetjandi. Í Svíþjóð hafa einkareknir skólar bætt þá opinberu með aðhaldi. Foreldrar taka reglulega afstöðu til skólastarfsins og skipta um skóla ef þeir eru ósáttir. Peningarnir fylgja svo með barninu. 

Í Reykjavík er minnihluti Sjálfstæðisflokksins nú að fara fram á aukin fjárframlög til einkaskóla. Það er plástur á sárið. Peningarnir eiga að fylgja nemandanum, óháð rekstrarformi skólans. Samkeppni, eða ógnin af yfirvofandi samkeppni, er góð, alltaf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það þarf nauðsynlega að aðlaga menntakerfið að nútímanum. Það eru gífurlega miklir fjármunir sem fara í menntamál sem er engin nauðsyn. Það er svo auðvelt að læra hvað sem er án þess að ríkið skipti sér af því og án mikils kostnaðar.

Það er algjör tímaskekkja að það skuli verða að læra allskonar sem kemur ekki að neinu gagni til að fá titil sem mark er tekið á. Þessi tryllta eyðsla opinbera geirans kemur í veg fyrir mannsæmandi líf hjá stórum hópi fólks, en það er búið að heilaþvo þann hóp fólks að það heldur að lífskjörin séu svona légeg vegna þess að útgerðamenn greiði ekki nóga skatta. 

Lítið dæmi: öll veiðleyfagjöldin sem útgerðir greiða duga til að reka eina litla ríkisstofnun sem er RUV. Það eru að mér skilst 160 svona stofnanir og heldur áfram að vaxa stjórnlaust.

Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 18.5.2021 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband