Bloggfærslur mánaðarins, maí 2021

Nokkuð viss um að þetta sé ólög­legt

Vín­inn­flytj­end­ur sem Morg­un­blaðið ræddi við um sölu á víni í gegn­um netið, beint til viðskipta­vina, í gegn­um er­lenda net­versl­un, líkt og San­te.is er byrjuð að gera, segja að fram­takið sé spenn­andi og þeir fylg­ist vel með fram­vind­unni. Jón Erl­ing Ragn­ars­son, fram­kvæmda­stjóri vín­inn­flytj­and­ans Mekka Wine & Spi­rits segist samt ekki hafa neinar áætlanir um að feta í sömu fótspor í bili, og bætir við: „Enda er ég nokkuð viss um að þetta sé ólög­legt.“

Gott og vel. Þetta er skiljanlegur fyrirvari. 

Arnar Sigurðsson, forsprakki Sante.is, var í viðtali hjá Dagmálum Morgunblaðsins fyrir skömmu til að ræða þetta framtak sitt. Aðspurður um lögmætið sagði Arnar að þeir hefðu látið gera nokkur lögfræðiálit til að ganga í skugga um að engin lög væru brotin.

Arnar sagði líka að hann hefði ekki fengið neinar lögregluheimsóknir eða viðbrögð frá hinu opinbera önnur en svolitla athugasemd frá einum aðila í stjórn ÁTVR sem fólu í sér það sem mætti kalla dulbúna hótun eða ákall til stjórnvalda um að grípa inn í.

Eftir stendur því:

  • Fyrirtæki hefur rekstur með lögfræðiálit í farteskinu
  • Stóri samkeppnisaðilinn sendir hvatningu á stjórnvöld um að grípa inn í
  • Aðrir samkeppnisaðilar telja fullvíst að reksturinn brjóti í bága við lög

Framhaldið verður spennandi. Sjáum hvað setur.


mbl.is Víninnflytjendur fylgjast með Sante
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðþægingin étur börnin sín

Nú gengur yfir mikil friðþæging við örlítinn háværan minnihluta með mikil áhrif og aðgang að öllum fjölmiðlum. 

Þessi friðþæging hefur komið fram með ýmsum hætti en algengast er að einhverjar ásakanir séu bornar á borð fjölmiðla og samfélagsmiðla sem miða að því að flæma einhvern einstakling, yfirleitt karlmann, úr starfi sínu. Stundum en yfirleitt aldrei eru slíkar ásakanir í farvegi hjá lögreglu. 

Um daginn lýsti Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, því yfir að hann muni ekki sækjast eftir sæti á framboðslista flokksins fyrir næstu Alþingiskosningar. Í kjölfarið hafa misvísandi fréttir og frásagnir streymt úr fjölmiðlum.

Til dæmis er stundum talað um að fjöldi kvartana hafi borist vegna Kolbeins en stundum að bara sé um að ræða eina kvörtun sem hafi ekki verið talin tilefni til frekari aðgerða, hvað þá kæru til lögreglu. Einn blaðamaður kallar þetta mál dularfullt

Þegar þingmaðurinn gaf út sína tilkynningu var hann fullur iðrunar yfir því hvað hann hafi verið kaldur og fjarlægur. Þetta setti andlit hans á skotskífu femínistanna sem tala nú um hann eins og ofbeldismann. Af hverju ætti hann annars að biðjast afsökunar? Varla er meintur glæpur hans eingöngu sá að hafa hafnað konu um ástarsamband. Hann hlýtur að hafa framið ofbeldisverk, ekki satt? Með því að leita í friðþæginguna má segja að maðurinn hafi málað af sér mun verri mynd en ástæða er til. Hann gaf sig fram fyrir glæp sem hann framdi ekki en verður nú dæmdur á slíkum forsendum.

Þeir sem höfðu séð í Kolbeini pólitíska samkeppni um sæti á framboðslistum fagna auðvitað ákvörðun hans. Samkeppnisaðilinn ákvað jú sjálfur að loka sjoppunni og yfirgefa plássið. Um leið hnýta samkeppnisaðilar í hann og tala um allan þennan fjölda mála sem þurfti auðvitað að bregðast við, en ekki bara eina kvörtun sem enginn sá ástæðu til að fylgja eftir.

Kolbeinn henti sjálfum sér flötum á magann fyrir framan úlfana sem ætla sér svo sannarlega að japla á honum eins lengi og þeir geta. Hann féll fyrir friðþægingunni. Þegar úlfarnir hafa borðað sig sadda fara þeir aftur á veiðar. Hver ætlar að bjóða sig fram næst?


mbl.is Segir ákvörðun Kolbeins skynsamlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menn sem berja konur

Er einhver þátttakandi í opinberri umræðu að halda því fram að karlmenn megi berja konur eða að konur megi beita karlmenn ofbeldi? 

Nei, auðvitað ekki. Um það er engin umræða. Nákvæmlega engin, enda óþarfi því allir eru sammála. Enginn að boða ofbeldi og aðrir að andmæla því. Enginn að reyna réttlæta ofbeldi. Enginn að styðja við ofbeldismenn á neinn hátt.

Í nýlegu myndbandi segir ungur maður, íbygginn á svip, að við feður, bræður og synir þurfum að tala saman. Annar ungur maður hvetur okkur strákana til að taka þátt í umræðunni.

Já, gott og vel, en hvaða umræðu?

Þeirri að þolendur ofbeldis eigi að stíga fram? Ég held að allir styðji það.

Þeirri að þolendur ofbeldis leiti réttar síns? Ég er nokkuð viss um að um það ríki almenn sátt.

Þeirri að ofbeldi eigi að vera refsivert þegar slíkt hefur sannarlega verið framið? Það er nú hreinlega grunnstoð réttarríkisins og ég hef ekki séð neinn reyna að vefengja hana.

Nei, sennilega er ekki átt við neitt af þessu.

Hvað eigum við strákar, feður, synir og bræður að vera ræða sem stelpur, mæður, dætur og systur eru ekki hvattar til að ræða?


Hvað varð um réttarríkið?

Stanslausar fréttir af ásökunum vella nú út úr fjölmiðlunum. Þessi og hinn, eða hin, á að hafa gert þetta og hitt og þetta borið á borð almennings. Hneykslun fylgir í kjölfarið og fólk gert atvinnulaust eða rekið frá verkefnum.

Einu sinni var mér kennt að manneskja sé saklaus uns sekt sé sönnuð. Sönnuð! Sönnuð í dómssal með notkun vitnisburða og sönnunargagna.

Þetta virðist vera liðin tíð. Í staðinn er búið að endurreisa gapastokkinn og fólki fleygt í hann við fyrstu ásökun. Dómsmál verður nánast óþarfi því skaðinn er skeður og ekkert þarf að sanna. Manneskjan í gapastokknum er búin að missa lifibrauðið.

Maður hefði haldið að allir þessir áreitarar og þuklarar hefðu sig hæga í svona andrúmslofti og pössuðu sig á því hvað þeir segja og hvar þeir káfa. En nei, það mætti ætla að ásakanamenningin hafi aukið tíðni áreitis og ofbeldis. Furðulegt, ekki satt?

Síðan er það auðvitað athyglin sem þeir fá sem ásaka aðra. Hún er mjög mikil. Þjáist einhver manneskja af athyglissýki þá er sennilega mjög heppilegt að henda í eina ásökun.

Auðvitað er gott að fórnarlömb ofbeldis og áreitis af hverju tagi tjái sig og reyni að ná fram réttlæti. En hvað með að byrja á því að leggja fram ákæru og sjá hvort hægt sé að sanna mál sitt og fara svo í fjölmiðla og viðtalsþætti?


mbl.is Ætlar ekki að vinna með Franco vegna ásakana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkageirinn

„Ég er mjög spennt að vera kom­in aft­ur yfir í einka­geir­ann“ segir Maríjon Ósk Nóa­dótt­ir sem hef­ur verið ráðin til al­manna­tengsla­fyr­ir­tæk­is­ins Kvis þar sem hún kem­ur til með að sinna fjöl­miðla- og lög­fræðiráðgjöf.

Hérna fagnar ung kona því að vera aftur komin í einkageirann. Kannski er það óráðlegt. Hún var jú í öruggu starfi hjá hinu opinbera með tryggðan lífeyri, stanslausar launahækkanir og sennilega frekar afslappaðan vinnudag. Nú tekur við veðmál á kaupmátt lífeyris, troðfullur vinnudagur og hætta á atvinnumissi.

Kannski hefði Marijón Ósk frekar átt að sækja um stöðu upplýsingafulltrúa á skrifstofu Alþingis (100% starfshlutfall) og tryggja sér rólega vinnudaga. 

stjr

En kannski ekki. Kannski Kvis sé hinn rétti áfangastaður fyrir Marijón Ósk. Nógu vel er a.m.k. búið að tilkynna um ráðningu hennar! (mbl, visir, vb, frettabladid) Maður er hreinlega orðinn spenntur fyrir frekari fregnum af Marijón!


mbl.is Maríjon Ósk ráðin til Kvis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kryddið í annars bragðsdaufum graut

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, býður sig fram í 2. sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík. Ég vona að Sjálfstæðismenn styðji við hann og stuðli að því að Brynjar verði endurkjörinn til þings. Hann er nefnilega krydd í annars bragðdaufum graut.

Alþingi þarf fleiri þingmenn eins og Brynjar: Menn með starfsreynslu og nokkur ár á bakinu og þora að tjá sig. Þessir ungu þingmenn eru auðvitað alveg ágætir en þeir eru allir að stefna á frama sem stjórnmálamenn og vilja ekki rugga bátnum of mikið. Þeir vefja skoðunum sínum í óljós fyrirheit og styðja við allskyns furðumál sem gagnast engum en kosta auðvitað skattgreiðendur sitt.

Á þessu eins og öllu eru auðvitað undantekningar en þær eru alltof fáar. 

Ef ég væri að taka þátt í kosningum til framboðslista væri ég líklegur til búa til stigakerfi til að vega og meta frambjóðendur, og væri það eitthvað á þessa leið:

  • 1 stig fyrir hvert nei-atkvæði á þingi (flest þingmál eru bull og ber að hafna)
  • 1 stig fyrir hvert ár á almennum vinnumarkaði (reynsla af raunveruleikanum skiptir máli)
  • 1 stig fyrir hverja blaðagrein í fjölmiðli (þingmenn eiga að setja skoðanir sínar á blað fyrir kjósendur)

Gangi þér vel, Brynjar!


mbl.is Býður sig fram í 2. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á land landeigenda?

Landeigendur Hrauns og Ísólfsskála hafa mótað í grófum dráttum stefnu um aðkomu þeirra að rekstri og uppbyggingu á gossvæðinu í Geldingadölum, sem er á þeirra landi. Það eru góðar fréttir. En hvernig á að fjármagna uppbygginguna? Með fé skattgreiðenda sem sumir og sumir ekki ætla sér á gosstað í framtíðinni eða á kostnað þeirra sem njóta bættrar aðstöðu?

Kerið í Grímsnesi er svæði sem hefur tekið stakkaskiptum til hins betra eftir að landeigendur þar fóru að taka mjög hóflegt gjald af gestum og leggja sitt af mörkum til að verja umhverfið fyrir ágangi.

Sjálfsagt væri fyrir eigendur gossvæðis að gera það sama. Nokkrir hundraðkallar, e.t.v. fyrir 16 ára eldri, ættu ekki að hræða neinn frá gossvæði og um leið tryggja aðgengi, aukið öryggi og bætta umgengni við óspillta náttúru á gönguleiðum. Ekki þarf að reisa neinar girðingar. Á Þingvöllum, við Seljalandsfoss og á fleiri stöðum greiða menn einfaldlega fyrir bílastæði og gjaldið notað til að halda svæðinu við.

Það er ekki eftir neinu að bíða.


mbl.is Uppbygging áformuð á gosslóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með sóttvarnir!

Veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar, svo sem veitingahús, kaffihús, krár og skemmti­staðir, spilasalir og spilakassar skulu ekki hafa opið lengur en til kl. 21.00 alla daga vik­unnar segir í gildandi reglugerð sem hefur það markmið að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins.

Og af hverju segir reglugerð að einhver þurfi að loka á bjórkranann kl. 21? Jú, því í venjulegu árferði er fólk komið aðeins í glas á þessum tíma og byrjað að faðmast og knúsast og annað mannlegt og ægilega smitandi.

En reglugerðasmiðir gleymdu kannski að gera ráð fyrir svolitlu fyrirbæri: Dagdrykkju!

Með því að byrja að drekka fyrr er hægt að verða ölvaður fyrr.

Er von á uppfærðri reglugerð?

Hugmynd að nýju ákvæði: Veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar, svo sem veitingahús, kaffihús, krár og skemmti­staðir, spilasalir og spilakassar skulu ekki afgreiða áfengi til sama einstaklings í meira en 4 klst á sama sólarhring og yfirgefi viðkomandi einstaklingur staðinn skuli hann skráður í þar til gerðan gagnagrunn sem aðrir staðir hafa aðgang að og geta neitað viðkomandi um afgreiðslu hafi hann klárað 4 klst útivistartíma sinn. Lögregla færi viðkomandi heim í rúmið ef hann neitar að hætta að faðma vini sína. 

Ég bíð spenntur.


mbl.is Þessir héldu uppi stuðinu á Miami
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftslagsbreytingar

Það blasir við að loftslagsbreytingar eru að eiga sér stað. Hitavik apríl-mánaðar (af vef Veðurstofu Íslands):

hitavik_4-2021

Menn hafa auðvitað vit á því að tala ekki lengur um hlýnun Jarðar. Þess í stað er talað um "loftslagsbreytingar" þegar ný matartrog eru smíðuð fyrir opinbera starfsmenn, sem er auðvitað eilífðarverkefni sem verðskuldar endalausa styrki á kostnað skattgreiðenda. Loftslag Jarðar hefur aldrei verið stöðugt í neinum eiginlegum skilningi og verður það aldrei. 

Auðvitað eiga menn að verja sig gegn náttúrunni. Hafnargarðar, holræsakerfi, ofanflóðsvarnir, hitaveitur, loftkæling, vararafstöðvar, stíflur og fleira slíkt eru mannanna verk. En skreytum okkur ekki með einhverjum háfleygum yfirlýsingum um að með því að gera fátæku fólki óbærilega erfitt að reka bíl og kveikja á ljósaperu að þá sé hægt að breyta loftslaginu.


Stjórnlyndinu vex fiskur um hrygg

Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður með meiru, skrifar mjög áhugaverða grein á mbl.is undir heitinu Frelsið hefur hopað í faraldrinum (aðgengileg öllum skráðum notendum vefsins). 

Þar segir hann meðal annars (og ég er hjartanlega sammála):

En mig grun­ar að það sé meira en ótti og óör­yggi sem er að ýta vax­andi hópi fólks í átt að hug­mynda­fræði og hag­fræðilausn­um vinst­ris­ins. Rót vand­ans er, öðru frem­ur, hvað hinn al­menni borg­ari er illa upp­lýst­ur um grund­vall­ar­atriði hag­fræði, stjórn­mála­fræði og hag­sögu.

Einnig:

Ef við [hægrimenn] ger­um ekki annað en að græða á dag­inn og grilla á kvöld­in held­ur bara áfram að molna úr frels­inu.

Þetta er heróp til okkar frjálshyggjumanna og ég vona að eftir því sé tekið.

Sem svolítið framlag til hugmyndafræðibaráttunnar langar mig að taka við ábendingum um einstaklinga sem hafa bæði þörfina og mögulega áhugann á að lesa bókina Hagfræði í hnotskurn, og ég mun senda einum aðila eintak af bókinni. Ábendingar sendist á netfangið geirag hjá gmail.com. Þekkir þú einhvern sem er að sjúgast inn í svarthol vinstrisins, jafnvel ómeðvitað eftir of mikið áhorf á einsleitan hræðsluáróður fjölmiðlanna seinustu 12 mánuði, og þarf björgunarhring?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband