Draumastarfið

Ég held svei mér þá að ég hafi fundið draumastarfið:

Starf sérhæfðs ritara skrifstofustjóra hjá Dómsmálaráðuneytinu.

Ekki skrifstofustjóri. Ekki ritari. Nei, sérhæfður ritari skrifstofustjóra.

Um er að ræða starf sérhæfðs ritara sem er skrifstofustjórum og eftir atvikum öðrum starfsmönnum til aðstoðar við ýmis úrlausnarefni, svo sem utanumhald verkefna á skrifstofunni, svörun erinda, ritun bréfa, skipulagningu funda, öflun gagna, úrvinnsla tölfræðilegra sem og annarra upplýsingar, vinna efni á heimasíðu, ofl.

Hæfniskröfur
Menntun á háskólastigi sem nýtist í starfi.
Þekking á stjórnsýslu í gegnum nám eða starf æskileg.
Mjög góð hæfni í mannlegum samskiptum.
Mjög góð tölvukunnátta og góð þekking á helstu ritvinnsluforritum.
Reynsla eða þekking á verkefnastjórnun kostur
Þekking og áhugi á málefnum samfélagsins.
Frumkvæði, sjálfstæði í vinnubrögðum og skipulagshæfni.
Ábyrgð, vandvirkni og þjónustulund.
Mjög gott vald á íslensku og góð kunnátta í ensku.

Í þessu starfi er eflaust auðvelt að hverfa í fjöldann í mannmargri stjórnsýslunni og viðveran sennilega lítil, sérstaklega á veirutímum. Erindum má svara í símanum á meðan maður drekkur kaffi á kostnað skattgreiðenda á einhverju huggulegu kaffihúsi. Að rita bréf og afla gagna er leikur einn, sérstaklega þegar ekki er gerð krafa um þekkingu á Norðurlandamáli. Viðhald heimasíðu sömuleiðis.

Sennilega munu mjög hundruð manns sækja um þetta starf í öllu atvinnuleysinu. Báknið er að bólgna út með slíkum hraða að það þarf hreinlega að ráða sérstakan starfsmann til að rita bréf og skipuleggja fundi svo allir hafi nú nóg að tala um og fá tímann til að líða.

Nú er bara að bíða eftir símtalinu frá ráðuneytinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Og fyrir hvaða vin er verið að búa þetta starf til.?

Það er bara staðreynd þegar svona störf verða til.

Enn eitt dæmið hversu grænt Ísland er af spillingu.

Sigurður Kristján Hjaltested, 15.4.2021 kl. 09:42

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það vekur svo sérstaka athygli að þótt auglýst sé eftir "sérhæfðum" ritara kemur hvergi fram í auglýsingunni krafa um neina sérhæfða þekkingu. Í hverju er þá sérhæfingin fólgin?

Þorsteinn Siglaugsson, 15.4.2021 kl. 10:04

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Þorsteinn,

Hérna gerist þú sekur um að vanmeta þörfina á stóru og miklu stuðningsneti fyrir þá sem vinna raunverulegu vinnuna.

Í tilviki Dómsmálaráðuneytisins felur þetta í sér:

- 6 skrifstofustjórar eða staðgenglar þeirra
- 2 skjalaverðir/skjalastjórar
- 2 ritarar (bráðum þrír með hinum sérhæfða ritara)
- 1 móttökufulltrúi
- 1 rekstrarstjóri
- 1 ráðuneytisstjóri

Svo þarf auðvitað að halda úti stjórnartíðindum sem þarf vitaskuld ritstjóra í fullu starfi. Það má ekki missa af neinu! Ónefndir eru svo: Fjölmiðlafulltrúinn, og upplýsingafulltrúinn. Og aðstoðarmenn ráðherra, auðvitað. 

Gróflega mætti því segja að þriðjungur ráðuneytisins snúist um að halda sjálfum sér uppteknum.

Geir Ágústsson, 15.4.2021 kl. 10:29

4 identicon

Verst að þú uppfyllir fæstar hæfniskröfurnar.

Vagn (IP-tala skráð) 15.4.2021 kl. 16:00

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Raunar er ég "over-qualified" og var að hugsa um að sækja um stöðuna og bjóðast til að vinna hana í 25% hlutastarfi sem verktaki samhliða öllu öðru hjá mér. Ég held að það væri ekkert mál og gæti sparað skattgreiðendum peninga (þyrfti t.d. ekki að punga út í lífeyri). 

Kannski ég bara vindi mér í það, Vagn. Takk fyrir hvatninguna!

Geir Ágústsson, 15.4.2021 kl. 16:14

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Starfar þá ósérhæfður ritari undir þeim sérhæfða?

Bara að reyna að átta mig á samhenginu...

Guðmundur Ásgeirsson, 15.4.2021 kl. 19:32

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðmundur,

Þetta er allt á reiki en ég held að Sigurður Kristján Hjaltested hafi hér í fyrri athugasemd hitt naglann á höfuðið. 

Hvað sem því líður þá er ég nú búinn að sækja um starfið sem verktaki með 25% starfshlutfall með yfirlýst markmið um að gera starfið óþarfi. Ég þarf kannski að eyða þessari færslu, eða fela hana, svo hún lendi ekki í bakgrunnsleit ráðuneytisins. 

Geir Ágústsson, 15.4.2021 kl. 19:49

8 identicon

Hvort þú fáir starfið snýst ekki um hvað þú, með þína slöku raunveruleikatengingu, heldur um sjálfan þig heldur hvað aðrir vita um þig og hvernig þitt hæfi er metið í raunheimum.

Vagn (IP-tala skráð) 16.4.2021 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband