Ábendingar? Who cares!

Núna hef ég lært nýtt orð: Sýndarsamráð.

Lof mér að stinga upp á skilgreiningu: Þegar ríkiseinokunaraðili tekur við ábendingum, situr fundi og hlustar en gerir ekkert.

Það er auðvelt að ímynda sér að sýndarsamráð sé eins og rauður þráður í gegnum allan rekstur í ríkiseinokun. Af hverju ætti það að vera öðruvísi? Skjólstæðingarnir komast ekkert. Verðmiðinn lækkar aldrei. Verklagið breytist hægt. Samkeppni er ekki til staðar. Það er helst þegar hægt er að kaupa spjaldtölvur fyrir stórfé að eitthvað breytist - spjaldtölvur sem skila takmörkuðum árangri en þar sem skínandi nýir skjáirnir gleðja alla. 

Svo já, á meðan stjórnmálamenn viðhalda ríkiseinokun er hætt við að allt samráð verði sýndarsamráð og að raddir óánægðra skjólstæðinga séu í besta falli hunsaðar en í versta falli er þaggað niður í. 


mbl.is Hvert vandamálið á fætur öðru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið opinbera nýtir kortaheimildina í botn

Það þurfa allir að lesa þessa frétt. Þarna er bent á að ríkisvaldið er að þenjast hraðar út en í aðdraganda 2008, og á þeirri forsendu að það verði blússandi hagvöxtur á Íslandi næstu mörgu árin.

Ríkið er að dæla fé í alla málaflokka og stjórnarþingmenn vonast væntanlega til þess að þagga allar óánægjuraddir með þeim hætti. Þeim verður samt ekki að ósk sinni. Krakki í dótabúð sem fær allt sem hann biður um hættir ekki að suða. Hann heldur áfram að suða þar til hann þarf að borga brúsann sjálfur eða er búinn að gera foreldra sína gjaldþrota.

Og þeir eru margir krakkarnir í dótabúð ríkisins: Verkalýðsfélög, yfirmenn opinberra stofnana, allskyns áhugamannahópar og auðvitað sósíalistar sem vilja stærra ríkisvald, nú fyrir utan alla nemendurna, sjúklingana og þess háttar. 

Um leið eru skattgreiðendur festir í snöruna og um leið og eitthvað bjátar á verður stólnum sparkað undan fótum þeirra. 

Núna er verið að vara yfirvöld við með mjög málefnalegum rökum. Ætla þau að hlusta?


Góður valkostur við dómskerfið

Þeir sem hafa lent í dómsmáli á einn eða annan hátt vita að það er langdregið ferli, dýrt, ómarkvisst og svifaseint og fyrir marga jafnvel óréttlátt að lokum. Kannski er kerfið svona með vilja gert. Það á ekki að vera létt að draga neinn fyrir dómstóla og að mörgu þarf að gæta. Á Íslandi er réttarkerfi og menn á að dæma samkvæmt lögum og það getur tekið tíma. Ekki bætir úr skák að lögin eru meira og minna óskiljanleg og marga sérfræðinga þarf til að komast að einhverri niðurstöðu jafnvel þótt óréttlætið blasi við. 

En þá er gott að það eru til valkostir við dómskerfið. Í Bandaríkjunum er lengri hefð fyrir slíku en á Íslandi. Þar hafa sjálfstæðir sáttamiðlarar lengi starfað og vinsældir þeirra fara vaxandi (þótt ríkið reyni vitaskuld að kremja þá þar sem það getur, enda ekki hrifið af samkeppni). Fólk leitar til þeirra af mörgum ástæðum: Það getur verið ódýrara, skilvirkara og gegnsærra ferli að nota sáttamiðlara, sumir vantreysta dómstólunum og sumir vilja bara fá aðstoð þriðja aðila til að hlusta á alla deiluaðila og mæla með lausn. Í sumum tilvikum bjóða sáttamiðlarar upp á sérþekkingu og reynslu sem er ekki að finna meðal jakkafatanna í lögfræðiheiminum og hvað þá meðal dómara sem hafa ekki haft aðra vinnu í áratugi. 

Og svo er auðvitað það sem mér finnst best við allt þetta: Sáttamiðlarar eru hér að bjóða upp á þjónustu í samkeppnisrekstri og sem valkost við dómskerfi ríkisins. Hérna geta því bæði einstaklingar og fyrirtæki valið um eitthvað annað en svifaseint ríkisbatteríið. Sögulega, og áður en ríkið tók að sér einokun á úrskurðarvaldinu, er ekkert nýtt við þetta. Það er engin nauðsyn að ríkið reki dómstóla, þótt fyrir því sé hefð. Dómarar verða ekkert minna daufir af einokun en hvert annað ríkisfyrirtækið. Lélegur dómari heldur áfram að vera dómari. Lélegur sáttamiðlari missir vinnuna. Góður sáttamiðlari verður vinsæll og virtur.

Ég vona að sáttamiðlarar fái góða fótfestu á Íslandi og verði að raunverulegum valkosti við dómskerfið, og muni jafnvel með tíð og tíma geta leyst það af hólmi


mbl.is Eiga ekki öll heima í dómskerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttir um hættuna við stjörnur að reykja hættulegri en reykingar

bpHvenær tók einhver upp sígarettu í fyrsta skipti og kveikti í af því einhver kvikmyndastjarna sást reykja á skjánum eða í tímariti eða á netinu? Ég bíð spenntur eftir að einhver sýni mér raunverulega rannsókn sem sýnir að þessi áhrif stórstjarnanna séu svona mikil.

Ég held að flestir byrji að reykja af því einhverjir í vinahópnum reykja. Skiptir þá engu máli hvort einhverjar stjörnur reykja á klósetti eða ekki. Hver nennir svo að reykja inni á klósetti? Fæst klósett ilma af dýrum ilmvötnum og eru full af ölvuðum fyrirsætum.

Segjum svo að einhver finnist viðkomandi þurfa að eyða stórfé í ávanabindandi efni, hætta heilsu sinni og lykta illa. En nei, tóbakið sést ekki í búðinni og engin stórstjarna sést reykja í tímaritunum. Hættir þessi manneskja við að hefja reykingar? Nei. 

Segjum sem svo að einhver hafi alla tíð ákveðið að reykja ekki. Svo birtist allt þetta tal um að sígarettur megi hvergi sjást, hvorki í búðum né á myndum. En spennandi! Þetta er eitthvað sem fer í taugarnar á einhverjum predikurum! Best að hefja reykingar!

En kannski þurfa menn bara að sætta sig við að ef þeir vilja búa í frjálsu samfélagi þá þarf að leyfa öðrum að gera eitthvað, þótt það sé þeim hættulegt eða dýrt. Þeir sem vilja fórna öllu fyrir heilsu allra fórna um leið frjálsu samfélagi og geta allt eins kallað sig fasista. 


mbl.is Stjörnur gagnrýndar fyrir reykingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt orð: Gæluverkefni

Þá á að skjóta enn einu gæluverkefninu í gang, og í þetta skipti verður það eilífðarverkefni með óendanlegum verðmiða.

En gott og vel, hluti má skoða og ræða og allt það. Í Álaborg var svipuð umræða í gangi á sínum tíma.

Í borginni búa um 112 þúsund manns, en í sveitarfélaginu öllu um 210 þúsund manns. Sem sagt, svipaðar tölur og gilda um höfuðborgarsvæðið.

Norðan við Álaborg er flugvöllur sem fer stækkandi.

Í Álaborg er þröngur miðbær sem krefst lagni að komast í, sérstaklega um helgar, en utan við miðbæinn er stærri verslunarkjarni. Í Álaborg er stór spítali en verið er að byggja annan. Í Álaborg er víðfeðmt og fjölmennt háskólasvæði.

Sem sagt, svipuð lýsing og gæti gilt um Reykjavík.

Umræða um léttlest (d. letbane) var komin á flug í Álaborg á sínum tíma. Menn gerðu áætlanir og fengu sérfræðinga til að reikna og teikna. Svo komu í ljós kostnaðartölur og sveitarfélagið fór á hnén við fætur ríkisvaldsins til að betla. Sem betur fer kom ekkert út úr því. Verkefnið var sett á ís.

Í kjölfarið gerðist... ekkert. Strætó keyrir ennþá. Enginn kvartar yfir því. Enginn. 

Kannski lærðu Danir af reynslu ríkisrekstursins á venjulegum lestum? Það hefur vægast sagt verið saga klúðurs, seinkana, ásakana og fjárútláta.

Það er mikilvægt að þetta léttlestartal á höfuðborgarsvæðinu verði slegið af borðinu sem fyrst. Það sem vantar er betri nýting á vegunum, en þeir eru troðfullir tvisvar á dag og greiðir á öðrum tímum. Það þarf að selja vegakerfið og leyfa einkaaðilum að búa til eðlilega hvata til vegalagningar og verðlagningar á veganotkun. Það þarf að afnema skatta á eldsneyti og farartæki og færa fé úr hirslum ríkis og sveitarfélaga og í hendur einstaklinga og fyrirtækja. 

Enn eitt meingallað kerfi, sem byrjar með lúðrablæstri en endar í niðurníðslu eins og vegakerfi Reykjavíkur, er engin lausn. Milljarður settur í lestarspor er milljarður tekinn af viðhaldi vega og öryggisráðstöfunum á þeim. Og strætó verður auðvitað vanræktur þótt enginn láti sjá sig í léttlestunum. 

En það er erfitt að drepa gæluverkefni. Í stað eins sem er drepið skjóta gjarnan þrjú önnur upp kollinum. Það þýðir samt að menn verða bara að berja þau niður þrisvar sinnum hraðar. 


mbl.is Milljarðatugir í borgarlínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott er óskilvirkt þing

Sem betur fer fáum við ekki allt það ríkisvald sem við borgum fyrir. Þessi orð eru eignuð Bandaríkjamanninum Will Rogers og ég er þeim hjartanlega sammála.

Í svipuðum dúr mætti segja: Sem betur fer verðum við ekki veik af öllum bakteríunum sem herja á okkur. 

Óskilvirkni ríkisvaldsins getur verið góð. Hún þarf ekki alltaf að leiða til biðlista, sóunar, gæluverkefna og skrifræðis. Stundum bitnar óskilvirkni hins opinbera á því sjálfu, og það er gott. Við fáum ekki eins mörg lög yfir okkur og annars. Þingmenn ná ekki að banna allt sem þeir vilja. Stjórnsýslan nær ekki að flækjast fyrir öllu sem hún vill. Fyrir vikið verður svigrúm okkar aðeins meira. 

Það þarf enginn að hafa áhyggjur af neikvæðum afleiðingum óskilvirkni á þingi. Hún er betri en hinn möguleikinn - að þingið nái að setja öll þau lög sem það vill. Fórnarkostnaðurinn er að góðum lagabreytingum er líka frestað en þær eru svo fátíðar að þann kostnað má sætta sig við.

Þingmenn, masið að vild! Takið langt sumarfrí, helst fram að jólum! Farið á ráðstefnur erlendis! Skiptið ykkur út fyrir varamenn ykkar í tíma og ótíma! Pantið þykkar skýrslur og nefndarálit sem þið þurfið að eyða löngum tíma í að lesa! Við hin getum þá haldið áfram með líf okkar á meðan. 


mbl.is Níu í fullri vinnu við málþóf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hótelgeirinn hefði átt að bregðast við fyrr

Á Íslandi ríkir mjög flókið skattaumhverfi fyrir fyrirtæki, svo flókið að ráðgjafar úti í bæ geta gert sér mat úr því að kortleggja hvað fyrirtæki borga í skatt. Þetta er greinilega svo flókið verk að til þess þarf sérstaka, sérmenntaða og sérþjálfaða starfsmenn.

Í grunninn er eitt virðisaukaskattsþrep en frá því eru fjölmargar undanþágur og undantekningar. Á meðan einn aðili getur stundað vátryggingastarfsemi án virðisaukaskattsálags þarf annar aðili að bæta 24% við gjaldskrá sína áður en viðskiptavinurinn fær reikninginn.

Ferðaþjónustan hefur vissulega notið góðs af þessu og geta byggt sig upp í skjóli lægri skattheimtu. En hélt hún í alvörunni að það gæti gengið endalaust? Greinilega, því ekki man ég eftir því að neinn ferðaþjónustuaðili hafi sagt neitt til að krefjast þess að aðrir gætu notið sömu góðu kjara. Hún kvartaði þegar gistináttagjaldið var sett á, en þagði þegar aðrir voru undir smásjá ríkisins á sama tímabili. 

Enginn úr ferðaþjónustunni hefur sagt eitthvað í þessum stíl:

"Stjórnmálamenn, sjáið hvað gengur vel í ferðaþjónustunni! Hún er samkeppnishæf við ferðaþjónustu í öðrum ríkjum! Að hluta má þakka því hinum lága virðisaukaskatti. Leyfið nú öðrum atvinnugreinum að njóta sömu kjara! Við skulum sitja við sama borð! Þá geta aðrar greinar líka vaxið og dafnað!"

Nei, ferðaþjónustan sagði ekki orð. Núna fær hún flengingu og mátturinn verður dreginn úr henni (sérstaklega úti á landi). 

En ferðaþjónustan er ekki ein um að misreikna íslenska pólitík, þar sem skattþrep eru alltaf samræmd upp á við, að hæsta mögulega skattþrepi. Nei, tímaritaútgefendur, íþróttahreyfingar, ökukennarar og fasteignaleigur, svo eitthvað sé nefnt, eru í sama leik. Þar njóta menn undanþága frá himinháum virðisaukaskatti en þegja þunnu hljóði á meðan ferðaþjónustan er sett í bás með öðrum sem greiða níðþungan virðisaukaskatt. 

Atvinnulífið heldur vissulega úti ýmsum samtökum eins og SA, SI og FA. Þaðan kemur oft ýmislegt gott. Forstjórar fyrirtækjanna þurfa samt að gera sig sýnilegri og tala út frá daglegum raunveruleika sínum, sem er sá að skattar kæfa, svæfa og flæma á brott á meðan efnahagslegt svigrúm laðar að sér viðskiptavini, viðskipti frá útlöndum og launahækkanir til starfsfólks.

Nú á að slátra ferðaþjónustubeljunni. Hver er næstur?


mbl.is Hótel verða rekin með tapi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki-frétt

Af hverju telst það til frétta að einhverjir einstaklingar séu að setja vökva í hylki, hita hann upp og anda að sér? Er verið að reyna hræra í tilfinningum fólks og biðla til ríkisins um að siga lögreglunni á enn fleiri ungmenni sem hafa ekki gert nokkrum manni mein?

Límtúpurnar hafa jú alltaf fundist í hillum allra verslana. Þær innihalda efni sem gufar upp og þá uppgufun má sjúga fast upp í nefið á sér til að fara í vímu. Á það þá að vera daglega í fréttunum?

Svo er líka hægt að kaupa handspritt og appelsín, blanda saman og drekka til að komast í ölvunarástand. Væri þá ekki skárra að hleypa fólki í venjulegt áfengi? Nei, það er helst í ekki-fréttum að afnám ríkiseinokunar á áfengissölu sé slæmt fyrir heilsu þjóðar!

Nú þegar hafa ákveðnir stjórnmálamenn lýst því yfir að rafretturnar eigi að gera svo gott sem óaðgengilegar og þannig að síðri kosti fyrir þá sem vilja hætta að reykja tjörublandaðan tóbaksreyk. Niðurstaðan verður líklega sú að tjörublandaði tóbaksreykurinn verður áfram fyrir valinu.

Stjórnmálamenn eru líka upp til hópa ákveðnir í að halda fíkniefnaframleiðslu, -sölu og -dreifingu í undirheimunum þar sem finnast hvorki innihaldslýsingar né aldurstakmörk. Um leið haldast öll fangelsi full af óhörðnuðum ungmennum sem komast í þjálfun hjá hörðustu glæpamönnum landsins í götuslagsmálum. 

Blaðamenn þurfa aðeins að temja sér sjálfstæða hugsun og hugleiða neikvæð áhrif af öllum þessum ríkisafskiptum af því sem fólk ákveður að setja í eigin líkama. 


mbl.is Kannabisvökvi á rafrettur í umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sukkið er byrjað

Stjórnmálamenn eru að drukkna í fé almennings og lánsfé og eyða því eins og vindurinn. Um leið hlusta þeir ekki í viðvörunarorð, jafnvel ekki frá öðrum afkimum hins opinbera. Um leið er varla hægt að búast við því að ríkisstjórnin geti verið lengra til hægri í hinu pólitíska landslagi á Íslandi. Ef hún væri lengra til vinstri væri eyðslugleðin sennilega miklu meiri. 

Hvað er þá til ráða?

Auðvitað er hægt að vona að stjórnmálamenn taki mark á viðvörunum sem dynja á þeim úr öllum áttum. Það má samt telja ólíklegt.

Það er líka hægt að vona að ríkisstjórnin taki rækilega til í ríkisrekstrinum og dragi hann kröftuglega saman enda langt í kosningar og hægt að vona að tímabundnar þjáningar vegna róttækrar aflimunar ríkisskepnunnar verði orðnar að mikilli gleði þegar kjósendur þurfa næst að fara í kjörklefana. Það tekur oft svolítinn tíma að jafna sig eftir skurðaðgerð, líka skurðaðgerð á opinberum rekstri. En hér þarf að vera hóflega bjartsýnn á aðgerðir. 

Kannski eru hænuskrefin í rétta átt allt í lagi og það besta sem hægt er að búast við. Hlutabréf í banka eru seld, einkaaðili fær að opna nokkur sjúkrarúm eða kennslustofur. Einhver skatturinn er lækkaður um nokkrar kommur. Gallinn er bara sá að vinstrimenn þenja ríkið alltaf hraðar út en svokallaðir hægrimenn draga það saman. Alltaf! Og þegar hægrimenn greiða niður skuldir hægt og bítandi eru þeir bara að búa til svigrúm fyrir vinstrimenn til að bæta í þær aftur. 

Það er því bara eitt í stöðunni: Að nota tímabundið góðæri til að búa sig undir óumflýjanlega niðursveiflu. Spara í sem fjölbreyttustu formi. Bæta við sig verðmætaskapandi þekkingu og þjálfun. Koma sér upp nokkrum mismunandi möguleikum til tekjuöflunar. Eignast erlendan gjaldeyri af ýmsu tagi. Borga niður skuldir. Gera áætlun sem gengur út á að niðursveifla sé framundan, en ekki áætlun sem gerir ráð fyrir stöðugleika til langs tíma. 

Og vona það besta. 


mbl.is Stíga laust á bensíngjöfina í stað þess að bremsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dimmi bletturinn á gervihnattarmyndinni

Norður-Kórea er ríki sem kitlar ímyndunarafl okkar. En höfum eitt á hreinu: Þarna er fólk brytjað niður ef það hegðar sér ekki að hætti stjórnvalda, og ef þú stendur og nýtur sólarinnar í stað þess að strita á ökrunum þá er það bara af því hermennirnir leyfa þér það, beint eða óbeint.

Mynd frá: https://www.quora.com/Why-if-a-North-Korean-defector-crosses-the-border-at-the-Joint-Security-Area-they-get-shot-but-if-they-go-through-China-theyll-be-welcome-in-S-KoreaNorður-Kórea gætir landamæra sinna með tveimur landamæravörðum sem horfa á hvorn annan. Ef annar þeirra reynir að stinga af yfir landamærin er það hlutverk hins að skjóta hann. Stundum eru landamæraverðirnir þrír. Sá þriðji hefur það hlutverk að koma í veg fyrir að fólk flýi frá Norður-Kóreu.

Í Norður-Kóreu sýkist fólk eða blindast vegna meina sem tekur 5 mínútur að lagfæra á Vesturlöndum. 

Í Norður-Kóreu eru fangabúðir sem þekja gríðarmikið landflæmi. Þangað eru sendir þeir sem af einhverjum ástæðum hafa móðgað yfirstjórnina. Til dæmis lenda fjölskyldur þeirra sem flýja land í slíkum fangabúðum.

Reglulega blossa upp hungursneyðir í Norður-Kóreu. Enginn í yfirstjórn ríkisins sveltur. Nei, það er almenningur sem tekur höggið á sig. 

Fólki er stjórnað með blöndu af ægilegum aga og gríðarlegum ótta. Lífið þarna er ekki gott fyrir neinn. Þótt bláeygðir ferðamenn sjái bændur standa í sólinni og brosa og veifa þá breytir það engu. Þetta er nákvæmlega sama fólk og býr í Suður-Kóreu en er fast á myrkum miðöldum. Norður-Kórea er dimmi bletturinn á gervihnattamyndunum, og svarti bletturinn á landakortinu á alla hugsanlega vegu.

Ég legg til að við hættum að draga úr því hvað almenningur í Norður-Kóreu hefur það skítt.


mbl.is Hlupu maraþon í Norður-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband