Sunnudagur, 21. maí 2017
Þegar sósíalisminn nær að þroskast til fulls
Íbúar Venesúela sjá nú fram á að lífskjör þeirra haldi áfram að hrapa. Þeir reyna því í örvæntingu að mótmæla stefnu yfirvalda. Sú stefna var samt ekki önnur en sú sem fólkinu var lofað: Endurdreifing veraldlegra auðæfa og sama fátækt fyrir alla.
Sósíalismi hljómar vel í eyrum margra en ástæðan er skilningsleysi. Það er ekki hægt að halda uppi stjórnmálastefnu þjófnaðar án þess að lokaniðurstaðan sé jafnmikil fátækt fyrir alla (nema e.t.v. best tengdu toppana í stjórnmálaskipuritinu).
Ef sósíalisminn fær að þróast og þroskast er lokaniðurstaðan alltaf sú sama. Það er ekki hægt að ná markmiðum sósíalismans um jöfn kjör nema sætta sig við hina hlið sama penings: Jöfn fátækt.
Sósíalismi er eitur hvers samfélags sem hann smitar. Það er vissulega hægt að lifa af vægan skammt af þeirri eitrun en ekki ítrekaða skammta í sífellt stærri skammtastærðum. Sósíalisma þarf að halda í skefjum og helst útrýma svo skaðinn af völdum hans nái til sem fæstra og í sem stystan tíma.
![]() |
Annar mótmælandi skotinn til bana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 20. maí 2017
Gott að sjávarútvegurinn svari fyrir sig
Íslensk umræða á það til að vera einhliða. Kannski er það vegna þess að fjölmiðlafólk er upp til hópa vinstrisinnað og telur ekki ástæðu til að fjalla um önnur sjónarmið en þau sem samrýmast þeirra eigin.
Sjávarútvegurinn hefur orðið nokkuð fyrir barðinu á þessari einhliða umfjöllun. Hann virðist þó vera byrjaður að svara fyrir sig, sérstaklega eftir að SFS réð til sín nýjan framkvæmdastjóra. Það er gott. Umræðan þarf að vera í jafnvægi. Blaðamenn eiga ekki að fá að stjórna henni.
Sjávarútvegurinn er samt ekki eini boxpúðinn sem vinstrimenn lemja á. Allur hinn frjálsi markaður er bitbein vinstrisinnaðra fjölmiðlamanna. Allir sem skila hagnaði eru tortryggðir. Þeir sem tapa fé skattgreiðenda eru lofaðir. Sem betur fer heldur atvinnulífið úti ýmsum samtökum sem tala máli frjálsra fyrirtækja. Að vísu tala þau gjarnan út frá sínum þröngu hagsmunum. Samtök ferðaþjónustuaðila tala t.d. ekki fyrir almennum skattalækkunum - bara áframhaldi á sínum eigin undanþágum. Vonandi munu hin ýmsu samtök bráðum átta sig á því að hagsmunir þeirra eru þeir sömu - að á Íslandi sé hófsamt ríkisvald sem skattleggur lítið og framfylgir fáum en gegnsæjum reglum, og setur fáar hindranir á viðskipti við útlönd.
Eins og nýleg dæmi sanna þá er alltaf hætta á því að yfirvöld misnoti völd sín. Þau þarf því að takmarka. Og á meðan þau eru mikil þarf samt að veita aðhald - mikið og hávært aðhald, en um leið málefnalegt og yfirvegað.
![]() |
Misskilningur um fiskveiðilög |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 17. maí 2017
Neytendastofa mun koma að allri stjórnmálaumfjöllun
Nýleg reglugerðarbreyting var gerð fyrir skömmu og fjallar um aukið hlutverk Neytendastofu í allri umfjöllun og umræðu um stjórnmál á Íslandi. Héðan í frá verður gerð aðför að svokölluðum duldum auglýsingum í tungutaki stjórnmálamanna.
Í reglugerðinni segir meðal annars:
Koma skal í veg fyrir að stjórnmálamenn geti, með duldum hætti, hvatt kjósendur til að líta til þeirra með jákvæðum augum með fjárútlátum á kostnað annarra nema það sé skýrt tekið fram að um loforð á kostnað annarra sé að ræða. Þannig má ekki lofa göngum, tónleikahúsum, styrkjum, niðurgreiðslum og viðskiptahindrunum nema viðkomandi stjórnmálamaður taki skýrt fram kostnað skattgreiðenda við innleiðingu, bæði beinum og afleiddum. Skal þá miða við svokallaða vísitölufjölskyldu þar sem á heimili búa tveir fullorðnir og tvö börn undir 18 ára aldri. Eftir tilvikum þarf einnig að nefna kostnað á hvern einstakling búsettan á Íslandi. Neytendastofa skal vera viðstödd alla fundi, ræður, málþing, heitapottsumræður og aðrar samkomur þar sem loforð stjórnmálamanna heyrast af fleiri en þremur í einu.
Um leið er mælst til þess að allir sem tjá sig í samræðum um stjórnmál merki sig sérstaklega með flokksmerki ef um flokksbundinn eða flokkshollan einstakling er að ræða en að öðrum kosti með lýsandi orði eða orðasamhengi svo ekki verði um villst hvar viðkomandi standi í stjórnmálum.
Dæmi er gefið í viðauka við reglugerðina:
Stjórnmálamaður hefur gefið það út að hann vilji láta gera göng fyrir 9 milljarða, en að líkur séu á að þau muni kosta 20 milljarða. Skal hann þá láta það fylgja að kostnaður við göngin verði 59 þúsund krónur á hvert mannsbarn á Íslandi m.v. mannfjölda 1. janúar 2017. Að auki komi til gjaldtaka ef einhver ætlar sér að ferðast um þau göng. Skulu þessar upplýsingar endurteknar í hvert skipti sem viðkomandi stjórnmálamaður notar fyrirhugaða framkvæmd til að varpa á sig jákvæðu ljósi. Til vara getur blaða- eða fréttamaður á staðnum séð um að koma þessum upplýsingum áleiðis.
Það er svo tekið fram í skýringum við reglugerðina að hún taki ekki til þess þegar stjórnmálamenn eða aðilar þeim tengdir lofa að skila sjálfsaflafé skattgreiðenda aftur til þeirra, t.d. í tilfelli loforða um skattalækkanir og tilheyrandi afnámi ákveðinna ríkisafskipta. Í skýringum við reglugerðina er þessu líkt við að þegar þjófurinn stelur ber að stöðva hann, og eins bregðast við yfirlýsingum hans um að ætla sér að stela, en þegar hann skilar þýfi sínu sé óhætt að leyfa honum að framkvæma verknaðinn óhindraður.
Nú má vona að stjórnmálaumræðan á Íslandi verði skýrari.
![]() |
Notuðu duldar auglýsingar á Instagram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 17. maí 2017
Hvað vantar í löggjöfina?
Ísland er lítið land en á Íslandi gilda mörg lög og margar reglur. Landslögin eru vitaskuld á sínum stað en einnig allskyns alþjóðlegir sáttmálar, t.d. aðild að Mannréttindadómstól Evrópu.
Má spurja: Hvað finnst "Nýja-Ísland" liðinu að vanti upp á svo meinta spillingu megi uppræta? Eru einhverjar gloppur í íslenskri löggjöf sem þarf að fylla upp í? Eru einhverjar lagakrækjur í gangi sem má benda á?
Getur verið að öll þessi meinta spilling sé fyrst og fremst í huga fólks? Að hún finnist varla í raunveruleikanum?
Annars kæmi mér ekkert á óvart að einhver spilling kraumaði á Íslandi. Ríkisvaldið er gríðarlega stórt og innan hins opinbera regluverks er mikið rými til að taka geðþóttaákvarðanir. Það má t.d. ekki alltaf fá vínveitingaleyfi nema maður sé vel tengdur. Ríkisvaldið er mjög valdamikið, og miklum völdum fylgir gjarnan spilling. Einkafyrirtæki eru upp á náð og miskunn neytenda komin og miklu viðkvæmari fyrir skoðuðum viðskiptavina sinna, og spilling innan þeirra er sjálfstortímandi.
En hvað um það: Hvað vantar upp á löggjöfina og hvar er þessi meinta spilling? Ég er í einlægni forvitinn.
![]() |
Ég er búin að fá nóg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 17. maí 2017
Ein athugasemd: Kjaftæði
Fyrir Alþingi liggur frumvarp um svokallaða jafnlaunavottun. Eins og það sé ekki nógu slæmt þá er frumvarpið sagt vera í forgangi! Skaðinn af þessu frumvarpi er því nú þegar tvöfaldur.
Á frjálsum markaði keppa fyrirtæki um besta starfsfólkið. Þau keppa um það! Mismunandi aðferðir eru notaðar. Sum bjóða sveigjanlegan vinnutíma, önnur ekki. Sum bjóða möguleikann á mikilli yfirvinnu, önnur leggja áherslu á að allt eigi að vinnast á hefðbundnum skrifstofutíma. Sum bjóða upp á mikla ábyrgð undir miklu álagi en önnur leggja áherslu á að allir vinni saman eins og hópur. Sum bjóða upp á líkamsræktarkort eða greiddan síma eða aðgang að bíl. Listinn er endalaus. Laun koma ekki alltaf við sögu. Ekki höfðar allt til allra.
Með því að skikka fyrirtæki til að líta eingöngu á launin er verið að binda hendur þeirra og gera ráð fyrir að allir vilji það sama.
Með því að innleiða opinbert eftirlit með einhverju er gert ráð fyrir að það sé eitthvað til að hafa eftirlit með, og í þessu tilviki er forsendan sú að það þurfi að athuga hvort konur og karlar fái sömu laun fyrir sömu vinnu. Það fá allir sömu laun fyrir sömu vinnu. Það gæti ekki verið öðruvísi því annars væri eitthvað fyrirtækið búið að sópa til sín öllum einstaklingum af því kyni (eða hárlit eða líkamshæð eða trú) sem fær lægri laun fyrir sömu vinnu og ná samkeppnisforskoti á þau sem borga hærri laun en nauðsynlegt er fyrir sömu vinnu.
Jafnlaunavottun mun leiða til kostnaðarauka fyrir atvinnulífið sem verður velt út í verðlagið. Innlend fyrirtæki missa þá viðskipti til útlanda. Neytendur missa fé sem hefði geta farið í annað en opinbert eftirlit.
Þeir einu sem græða eru opinberir starfsmenn. Þeir fitna þegar aðrir horast.
Og þetta mál er í forgangi!
Af hverju ættu kjósendur nokkurn tímann að kjósa annað en vinstriflokkana þegar hinir svokölluðu hægriflokkar eru svona langt til vinstri?
![]() |
Jafnlaunafrumvarpið í forgangi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 16. maí 2017
Óvinsæl umræðuefni á Íslandi
Íslendingar eru bölvaðar teprur, svo það sé sagt hreint út. Í Danmörku þar sem ég bý er vissulega tepruskapur líka en af miklu vægari tegund.
Á Íslandi má helst ekki tala um ástæður þess að kynsjúkdómar herja nú á samkynhneigða sem aldrei fyrr. Það má a.m.k. ekki gefa það til kynna að á meðal margra samkynhneigðra ríkir afslappað viðhorf til óvarins kynlífs.
Það er ekki óhætt að selja bækurnar Tinni í Kongó og Tíu litlir negrastrákar.
Það er ekki óhætt halda fyrirlestur um það sem stendur í raun og veru í Kóraninum, í öllu sínu fulla og óskerta samhengi.
Í Danmörku hafa um árabil verið spilaðar auglýsingar um hluti sem konur skilja ekki (við tungutak íþróttaáhugamanna). Væri þorandi að spila svipaðar auglýsingar á Íslandi? Ég sá líka auglýsingu um daginn þar sem tvær konur voru í koddaslag á nærfötunum. Eitthvað segðu femínistarnir á Íslandi við að sjá slíkt!
Það má ekki sýna allan löglegan neysluvarning í verslunum (tóbak), eða selja allan löglegan neysluvarning í hvaða verslun sem er (áfengi), og hvað þá segja neytendum frá honum (auglýsingar)!
Á Íslandi má segja fullorðnu fólki hvenær það á að fara sofa.
Það má ekki segja að konur almennt sækist í starfsöryggi í skiptum fyrir lægri laun umfram karla sem sæki frekar í áhættu í von um hærri tekjur.
Allir sem hafa einhvers konar hneigð eða áráttu skulu fá sín eigin hagsmunasamtök þar sem það er predikað allan daginn að hvítir, miðaldra karlmenn séu fordómafull svín sem ráði öllu og kúgi aðra.
Það má helst ekki tala um þann hóp fólks sem ferðast um langan veg til að komast á spenann í einhverju velferðarkerfinu í Evrópu. Nei, allt er þetta fólk sárþjáðir flóttamenn sem vill læra tungumálið og aðlagast samfélaginu, þó með þeirri undantekningu að það vill innleiða sharia-löggjöfina ef það kemst í meirihluta einhvers staðar.
En já, svona er það. Íslendingar virðast telja að opinská og beinskeytt umræða sé af hinu slæma og að óvinsælar skoðanir hverfi við það eitt að vera úthrópaðar eða bannaðar með lögum. Íslendingar tala mikið um mikilvægi lýðræðis þar sem allir fá að kjósa stjórnmálamenn, en telja um leið að sömu stjórnmálamenn eigi eftir kjör að hafa vit fyrir öllum öðrum. Það má muna litlu að þessir alvitru stjórnmálamenn fái ekki hreinlega að tilnefna sjálfa sig sem stjórnmálamenn svona miðað við það hvað þeir telja almenning vera sjálfum sér hættulegur.
![]() |
Telur að eitrað hafi verið fyrir sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 15. maí 2017
Lækkun skatta borgar sig
Skattalöggjöfin er orðin svo flókin að yfirvöld treysta á stolin gögn frá útlöndum til að hafa eftirlit með skattgreiðslum einstaklinga og fyrirtækja.
Hefur engum dottið í hug að í staðinn mætti einfalda skattkerfið og lækka skatta?
Íslendingar komast ekki hjá því að leyfa fólki og fyrirtækjum að geyma fé erlendis. Slíkt er einfaldlega hluti af því að tilheyra alþjóðlegu hagkerfi. Íslendingar vilja geta fjárfest erlendis og vilja vonandi að útlendingar geti fjárfest á Íslandi.
Um leið þarf Ísland að vera aðlaðandi fyrir alþjóðlegar fjárfestingar. Maður sem græðir milljarð á Íslandi vill vonandi nýta þann milljarð á hagkvæman hátt, t.d. í fjárfestingar og þá helst á Íslandi. Það er allra hagur að honum finnist Ísland vera aðlaðandi kostur. Háir skattar ýta ekki undir slíkt viðhorf. Flókið skattkerfi opnar á löglegar leiðir til að koma fé úr landi, sem um leið verður ekki aðgengilegt til fjárfestinga á Íslandi.
Þegar skattalöggjöfin er orðin jafnflókin og raunin er, og skattarnir jafnháir og þeir eru, þá borgar sig að lækka skatta og einfalda skattalöggjöfina. Yfirvöld þurfa þá væntanlega ekki að treysta á stolin gögn frá útlöndum til að rækja hlutverk sitt því skattarnir streyma inn í gegnum gegnsætt og hófsamt skattkerfið.
![]() |
Kaup á skattagögnum þegar borgað sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 14. maí 2017
Nei, það "verður" ekki að ljúka framkvæmdinni
Vaðaheiðargöng ætla að verða enn einn minnisvarðinn um glórulausar ríkisframkvæmdir sem sjúga úr vösum skattgreiðenda í fjöldamörg ár. Harpan varð að hrunhöllinni. Vaðlaheiðargöng verða að hrungatinu.
Þetta sáu margir fyrir en fengu litla áheyrna. Þeir sem sjá fyrir glóruleysið í mörgu af því sem á sér stað í dag, t.d. stjórnlausan vöxt á lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs, fá sömuleiðis litla áheyrn. Það heyrist mest í þeim sem heimta fyrir hönd fárra á kostnað marga.
Vaðlaheiðargöng þarf ekki að klára. Göngunum má loka strax í dag, framkvæmdir má stöðva, kostnaðinn afskrifa og svo má selja svæðið hæstbjóðanda. Bara þannig verður þessu blæðandi svöðusári lokað. Um leið verður það góður minnisvarði um kjördæmapot og níðslu á skattgreiðendum.
![]() |
Málið var pínt í gegn á sínum tíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 12. maí 2017
Úlfur, úlfur
Höfum eitt á hreinu: Svokallaðir umhverfisverndarsinnar eru ekki að fara bjarga umhverfinu. Það eina sem þeir hafa fram að færa eru dómsdagsspádómar og svona hefur það verið undanfarna áratugi, eða síðan sósíalistar misstu Sovétríkin sín og þurftu að finna nýtt barefli til að berja á frjálsum markaði með.
Þar með er ekki sagt að mengun sé góð og að hún sé sjálfsögð. Henni má hins vegar stilla í hóf með öðrum leiðum en dómsdagsspádómum. Til dæmis mætti gefa landeigendum aukið svigrúm til að lögsækja þá sem spilla eignum þeirra, hvort sem það er með sótögnum eða eiturefnum.
Svo má nú til gamans geta að mörg af þessum háfleygu yfirlýsingum stjórnmálamanna hefur nú þegar verið náð, án aðkomu þeirra, t.d. í sjávarútvegi. Og á Íslandi er nóg að moka í skurði til að ná öllum markmiðum stjórnmálamanna um minnkandi losun.
Sé mönnum alvara að það þurfi að minnka útblástur á heimsvísu er raunhæfast að gera olíu og gas aðgengilegt fyrir þá sem nota kol í dag, og gera þá sem nota kol ábyrga fyrir þeirri sótmengun sem hlýst af kolabruna.
![]() |
Þurfum líklega að draga úr um 35-40% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 11. maí 2017
Ríkisreksturinn er eintóm tímabundin átaksverkefni
Á Íslandi þarf að bíða eftir mörgu. Einu sinni beið ég í 2 klukkutíma eftir að geta endurnýjað vegabréf sonar míns. Sjúklingar þurfa að bíða mánuðum og jafnvel árum saman eftir meðferð og aðgerðum. Foreldrar bíða lengi eftir dagvistarplássum fyrir börn sín.
En það þarf ekki að bíða eftir öllu. Yfirleitt er hægt að komast fljótt að í dekkjaskipti. Ekki þarf að bíða lengi eftir afgreiðslu í gleraugnaverslun. Og undanfarin ár hefur ekki verið mikil bið eftir heyrnamælingu. En svona var það ekki alltaf.
Einu sinni þurftu heyrnaskertir að bíða í löngum röðum eins og sjúklingar og vegabréfsumsækjendur. En svo var gerð lagabreyting. Ekki var lengur bannað að bjóða upp á heyrnamælingar og sölu heyrnatækja. Ríkið hélt áfram að mæla heyrn og selja heyrnatæki en hætti einfaldlega að banna öðrum að gera það sama.
Og hvað gerðist? Jú, biðlistarnir gufuðu upp! Margir fóru úr hinni opinberu röð og yfir í hina sem var rekin af einkaaðilum.
Af hverju má ekki stíga svipað skref í allri annarri heilbrigðisþjónustu? Af hverju eiga bara sjóndaprir og heyrnaskertir að njóta þess munaðar sem frjáls markaður er, í hið minnsta sem valkost fyrir þá sem vilja og geta?
![]() |
13 milljónir fyrir aðgerðir erlendis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |