Mánudagur, 5. júní 2017
Eftirspurn án framboðs = ríkisafskipti
Þegar komið er auga á eftirspurn en ekkert er framboðið má telja víst að ríkisafskipti séu að verki.
Væri markaðslögmálunum leyft að ráða væri að sjálfsögðu búið að mæta allri hugsanlegri eftirspurn. Líklega myndi hún í upphafi kosta meira en niðurgreidd, opinber þjónusta en á móti kemur þá væri sú þjónusta til staðar. Vel borgandi viðskiptavinir myndu laða að sér fjöldann allan af einkaaðilum sem kæmu hlaupandi til að veita allt sem vantar. Peningarnir rynnu í leiðir til að auka enn framboðið. Samkeppnisaðilar kæmu aðvífandi til að krækja í bita af kökunni. Þar með yrði til samkeppni sem hefði áhrif á verðlagið - það þrýstist niður. Til lengri tíma myndu einkaaðilar byggja upp dreifi- og sölukerfi sem væri aldrei í klessu, sama hvernig viðrar, til að tryggja sér varanlegar rekstrartekjur. Einkaaðilar fá jú ekki borgað nema hafa eitthvað að selja, annað en opinber rekstur.
Þegar menn sjá óuppfyllta eftirspurn blasir við að haldið er aftur af einkaaðilum.
![]() |
Uppistöðulónið orðið söndug auðn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 5. júní 2017
Baráttan byrjar á heimavelli hryðjuverkamanna
Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að næstum því öll hryðjuverk á Vesturlöndum undanfarin ár eru framin af fólki sem á rætur að rekja til Miðausturlanda.
Vonandi átta margir sig líka á því að margir hafa fallið í árásum vestrænna ríkja í Miðausturlöndum. Miklu, miklu fleiri en hafa fallið í hryðjuverkaárásum á Vesturlöndunum sjálfum.
Slíkar árásir réttlæta ekki málstað hryðjuverkamanna, en þær auðvelda þeim að manna sig og fjármagna.
Vesturlönd eiga að draga alla sína hermenn út úr Miðausturlöndum hið fyrsta og taka upp frjálsa verslun við þau í staðinn. Olían er nánast það eina sem Miðausturlönd hafa upp á að bjóða og hún er fallin í verði enda er framboð af olíu frá öðrum heimshlutum orðið töluvert.
Hið lága olíuverð hefur nú þegar sett fjármögnun miðausturlenskra hryðjuverkamanna í ákveðið uppnám. Það er gott.
Áður en olían fór að streyma frá Miðausturlöndum var það svæði svo að segja merkingarlaust fyrir umheiminn. Þar tókust á einhverjir ættbálkar sem skiptust á að kúga hvern annan en svipaða sögu má segja af Afríku. Svona var staðan í Suðaustur-Asíu áður en það svæði tengdi sig við umheiminn, tók upp frjálsari verslun, auðgaðist með viðskiptum og gátu af sér millistétt sem hafði þrek og fjármagn til að heimta frjálsara stjórnarfar.
Það er gott að ákveðin arabaríki séu nú byrjuð að beita önnur slík þrýstingi til að þau láti af stuðningi við hryðjuverkasamtök, ýmist beinan eða óbeinan. Baráttan byrjar á heimavelli. Að loka landamærum til Vesturlanda dugir skammt og má líkja við að berjast við einkennin en ekki sjúkdóminn.
Vesturlönd þurfa að aðstoða í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökum því að hætta að hegða sér eins og slík sjálf. Vesturlönd eiga að hætta að senda vopn og lifandi sprengjur inn í Miðausturlönd og hætta að senda hermenn úr eigin röðum þangað inn.
Miðausturlönd eru alls ekki dæmd til að vera fátækt óeirðarsvæði. Ríki eins og Jórdanía eru staðfesting á því. Þau þurfa hins vegar að byrja á tiltekt í eigin garði. Og kannski hvíla sig á lestri Kóransins eins og bókstaflegs leiðbeiningabæklings.
![]() |
Slíta stjórnmálasambandi við Katar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4. júní 2017
Stjórnmálamenn eyða fé annarra til að laga eigið klúður
Höfum eitt á hreinu:
Svokallað ójafnvægi á húsnæðismarkaði í Reykjavík er heimatilbúið, reykvískt vandamál. Sama vandamál er ekki að finna í nærri því sama mæli í öðrum sveitarfélögum jafnvel þótt þar sé minna landrými til að byggja á og straumur fólks liggi þangað úr skattpíningunni í höfuðborginni.
Núna ætlar ríkisstjórnin að koma borgarstjóra út úr klípunni sem hann hefur sjálfur hannað. Skattgreiðendur geta gert ráð fyrir að þurfa borga brúsann. Borgarstjóri, sem mætir bara í viðtöl þegar hann getur sagt frá einhverju sem er ekki vandræðalegt fyrir hann, fær myndir af sér í fjölmiðla.
Kosningabaráttan á sveitastjórnarstigi er hafin á fullu og útsvarsgreiðendur fá því að finna rækilega fyrir útgjaldagleðinni á næstu mánuðum, sérstaklega þar sem allt er nú þegar í ólestri eins og í Reykjavík.
![]() |
Ríkislóðum verði komið í byggð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 1. júní 2017
3%
Svo virðist sem 3% af reykvísku Airbnb-húsnæði uppfylli allar kröfur yfirvalda um skráningu. Ég er viss um að svo gott sem allt þetta húsnæði er vel íbúðarhæft, sæmilega hreint og yfirleitt heilsusamlegt. En 3% er löglega skráð.
Hvað segir þetta okkur? Að Íslendingar eru glæpamenn? Að ferðamönnum stafi hætta af heimagistingum í Reykjavík? Að voðinn sé vís?
Eða segir þetta okkur að lögin séu bjánaleg - svo bjánaleg að flest venjulegt fólk brýtur þau vísvitandi?
Ég hallast að því síðarnefnda.
Þegar lög eru bjánaleg og venjulegt fólk er farið að brjóta þau skapast nokkurs konar siðferðilegur háski. Sá sem brýtur bjánaleg lög gæti freistast til að brjóta skynsamleg lög líka. Þegar lög eru bjánaleg minnkar virðingin fyrir löggjöfinni almennt.
Er þetta ósk yfirvalda? Ég neita að trúa því. Líklega eru yfirvöld bara að hegða sér kjánalega þótt ásetningurinn sé einlægur.
![]() |
Aðeins 154 með leyfi í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 30. maí 2017
Góð hugmynd!
Núna hljóta íslenskir forræðishyggjupostular að kætast!
Yfirvöld í Úsbekistan hafa bannað fjölmarga tölvuleiki sem eru sagðir bjaga gildi.
Góð hugmynd! Má ekki skoða eitthvað svipað á Íslandi?
Það hlýtur að liggja fyrir að úr því það má banna fullorðnu fólki að reykja í eigin húsnæði, bölva þeldökku fólki opinberlega, flytja inn tóbak til að sjúga í nefið eða troða í vörina, kaupa áfengi á sunnudegi, horfa á ótextað sjónvarp, slást óvarið fyrir peninga, spila alvöru póker, ganga með frjóvgað egg annarrar konu, velja sína eigin viðskiptavini eða starfsfólk í frjálsum viðskiptum osfrv. þá hlýtur bann við tölvuleikjum að vera rökrétt viðbót.
Íslendingar herma jú oftar en ekki eftir því strangasta sem fyrirfinnst í víðri veröld. Ef Svíar banna eitthvað umfram Dani þá skal sænska fordæminu fylgt. Ef Danir banna eitthvað meira en Svíar þá skal danska fordæminu fylgt.
Kannski íslensk forræðishyggja ætti að gefast upp á þessum norrænu fyrirmyndum og líta lengra til austurs? Heilbrigðiskerfið er jú nú þegar að sovéskri fyrirmynd! Af hverju þá ekki lagaumgjörðin almennt?
Tölvuleikir á Íslandi - hypjið ykkur!
![]() |
Banna tölvuleiki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 29. maí 2017
Gallaður mælikvarði á kaupmátt krónunnar
Einhvern tímann fengu hagfræðingar þá furðulegu hugmynd að það væri hægt að mæla kaupmátt gjaldmiðils með gagnasöfnun og vísitölusmíði. Núna sjáum við hvað þetta er galin hugmynd. Kaupmáttur krónunnar hefur aukist töluvert undanfarin misseri. Samt sýna mælingar að hann sé að rýrna - að það sé verðbólga en ekki verðhjöðnun.
Það er einnig furðulegt að hugsa til þess að ef ríkið hækkar skatta á eitthvað, t.d. áfengi, þá er það túlkað sem rýrnun á kaupmætti krónunnar.
Og þegar skattur er lækkaður - þegar fé er hætt að streyma jafnhratt úr vasa launþega og í ríkishirsluna - þá mælist kaupmáttur krónunnar meiri!
Þetta er glapræði.
Kaupmátt gjaldmiðils má á sérhverjum tímapunkti áætla með því að skoða breytingar á magni hans í umferð (og gera ráð fyrir að allt annað sé stöðugt, svo sem framboð á vörum og þjónustu og þess háttar). Þótt það sé ekki alltaf auðvelt mál þá er það bara tæknilegt aukaatriði. Að það sé ekki hægt að búa til hina einu sönnu vísitölu er það líka. Kaupmáttur gjaldmiðils fer eftir magni hans í umferð og auðvitað trúðverðugleika hans.
Þessu gleymdu menn þegar Excel var fundið upp, eða svo virðist vera. Núna þarf ríkisvaldið auðvitað á allri þessari tölfræði að halda til að keyra samfélagið ekki lóðbeint fram af kletti í afskiptasemi sinni.
En sem sagt: Ferðamenn dæla milljörðum inn í landið og auka kaupmátt krónunnar um tugi prósenta. Dagur B. Eggertsson ákveður að leyfa engum að byggja í Reykjavík. Niðurstaðan: Verðbólga!
Kæru hagfræðingar, er ekki kominn tími til að hugsa þetta mál upp á nýtt?
![]() |
Húsnæðisverð drífur áfram verðbólgu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 28. maí 2017
Hugmyndir fyrir umræðuefni
Mér skilst að hið nýstofnaða Framfarafélag leyti nú að einhverju góðu umræðuefni.
Ég er með nokkrar hugmyndir:
Fjölmenningarsamfélagið: Hafa Íslendingar almennt gert sér góða grein fyrir kostum og göllum fjölmenningarsamfélagsins, þar sem hátt hlutfall íbúa er jafnvel andsnúið því samfélagi sem það býr í? Vilji t.d. auka við forréttindi ákveðinna einstaklinga eða hópa á kostnað annarra? Vilji jafnvel banna ákveðnum einstaklingum að gera hluti á grundvelli kynferðis, kynhneigðar eða jafnvel húðlitar?
Hlutverk ríkisins: Það eru ekki allir sammála um hvert hlutverk hins opinbera eigi að vera. Stjórnarskráin gefur ákveðnar leiðbeiningar sem ég held að flestir séu sáttir við, en hvað svo? Það er auðvitað augljóst að ef hið opinbera þjappar á sínar hendur valdi ríkiseinokunar þá er engin leið að velja aðra kosti. Hversu langt á ríkið að ganga í að þjappa völdum saman í sínar hendur? Hvenær á fólk að fá að velja? Hvenær á ríkið t.d. að taka við meðhöndlun líkamlegra meina? Það virðist vera í lagi að hafa samkeppnismarkað fyrir sjóndapra en ekki fyrir mjaðmaveika. Er hægt að leggjar einhverjar línur hér?
Gjaldmiðlamál: Ríkið bannar, beint og óbeint, frjálsa útgáfu peninga á Íslandi. Hefur einhver fært sæmilega rök fyrir því að svo eigi að vera? Hvaða rök eru það? Hvaða mótrök má finna?
Þetta eru bara hugmyndir en vonandi veita þær einhvern innblástur.
![]() |
Fæddist inn í flokkinn og drepst út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 27. maí 2017
Getið þið ekki bara hætt að reykja!
Ég heyrði nýlega sögu sem gerðist á íslensku hjúkrunarheimili. Kona nokkur var Alzheimer-veik og gat orðið lítið gert. Hún kunni samt að reykja og naut þess út í ystu æsar að fá far út á svalir og kveikja sér í einni. Þegar dóttir hennar kom í heimsókn ljómaði hún upp því þá fékk hún að komast út á svalir. Hún var deyjandi og heilabiluð en hafði þó þetta til að færa sér gleði.
Hjúkrunarfræðingarnir voru ekki hrifnir af þessu og nenntu aldrei að keyra konunni út á svalir.
GETUR ÞÚ EKKI BARA HÆTT ÞESSU? ... var hreytt í hana.
Þetta viðhorf gegnsýrir íslenska löggjöf og jafnvel almennt viðmót fólks. Nú hafa menn fundið upp rafrettuna sem er 99% skaðminni en tóbakið og sennilega skaðminni en útiloftið á Miklubrautinni. Rafretturnar hafa alla kosti reykinga og enga af ókostunum. Er þetta ekki frábær tækni? Eigum við ekki að gera hana sem ódýrasta og aðgengilegasta, a.m.k. fyrir sjálfráða einstaklinga?
Nei.
GETIÐ ÞIÐ EKKI BARA HÆTT ÞESSU? ... er hreytt í reykingafólkið.
Greyið konan sem sat deyjandi í hjólastól og var upp á náð og miskunn annarra komin til að njóta seinustu augnablikanna á ævi sinni gat ekkert gert. Hjúkkurnar áttu hana og réðu henni.
Þurfa sömu örlög að bíða allra annarra líka?
![]() |
Rafrettufrumvarp á úreltum forsendum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 26. maí 2017
En hvernig á þá að fjármagna óráðsíuna?
Það liggur fyrir að rekstur Reykjavíkurborgar er í molum. Borgin hækkar og hækkar skatta en ekkert dugir til að hægja á skuldsetningunni og fjármagna öll gæluverkefnin.
Þegar skattahækkanir duga ekki er gripið til þess ráðs að finna upp nýja skatta. Nú er víst búið að úrskurða einn slíkan ólögmætan. Það mun samt engu breyta. Borgaryfirvöld finna bara upp á einhverju öðru.
Kannski væri hægt að setja upp aðgangshlið við alla skóla sem nemendur þurfa að setja smápeninga í til að opna. Það mætti kalla það ræstingargjald eða rekstrargjald vegna viðhalds og kyndingar á húsnæði sveitarfélagsins.
Svo mætti setja á sérstakt verndargjald að hætti mafíunnar sem óvinsæl fyrirtæki þurfa að borga til að vera ekki beint eða óbeint hent út úr borginni.
Síðan er auðvitað bara hægt að safna skuldum. Þegar kjósendur fá nóg kjósa þeir Sjálfstæðisflokkinn í eitt eða tvö kjörtímabil sem tekur að sér að greiða niður skuldirnar og létta aðeins á skattbyrðinni. Vinstrimenn geta svo tekið við aftur og byrjað að sóa fé.
Kjósendur í Reykjavík eru ólíkir þeim í nágrannasveitarfélögunum, sem hafa flestir áttað sig á því að það er ekki góð hugmynd að hleypa vinstrimönnum í stjórn sveitarfélags. Sjálfstæðisflokkurinn er að sjálfsögðu langt frá því að vera fullkominn en þar virðast menn samt skilja einföldustu grunnatriði heimilisbókhaldsgerðar.
![]() |
Innviðagjaldið ólögmætt? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 22. maí 2017
Pilsner-Grímur rifjar upp gamla takta
Íslendingar halda að með því að setja löglegan neysluvarning í hefðbundnar verslanir sé stórhættuleg og róttæk breyting. Svo er ekki. ÁTVR er með rúman opnunartíma, opið víða um land og jafnvel staðsett innan veggja matvöruverslana.
Það sem breytist með aðeins vestrænna fyrirkomulagi er að ríkið hættir að vasast í smásöluverslun, starfsmenn verða starfsmenn einkafyrirtækja og kaupmaðurinn á horninu getur aftur keppt við stórmarkaðina sem deila bílastæði með ÁTVR í dag.
Þingmenn ætla samt að láta þetta vefjast fyrir sér og margt er gert til að koma í veg fyrir að þeir geti gengið til atkvæðagreiðslu og afhjúpað afstöðu sína. Og það er hið furðulega í þessu máli.
![]() |
Forsætisráðherra órólegur og roðnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |