Miðvikudagur, 21. júní 2017
Stríð eru sterar ríkisvaldsins
Þessi misserin er víða verið að setja lög sem auka heimildir ríkisvaldins til að njósna, fangelsa, yfirheyra, ákæra og að öðru leyti gera það sem það vill.
Þetta er að hluta til gert sem viðbragð við meintri ógn af hryðjuverkamönnum.
Nú er ég enginn öryggissérfræðingur en ég er fullur efasemda um ágæti svona löggjafar. Stríð eru sterar ríkisvaldsins. Með því að hefja stríð gegn einhverju, t.d. hryðjuverkum eða eyðimerkurbúum Miðausturlanda, er hægt að þenja út valdheimildir ríkisins. Slíkum valdheimildum þarf svo vitaskuld að fylgja fjárheimildir svo skattar fá líka að hækka.
Stríð eru samt ekki einu sterar ríkisvaldsins. Í Bandaríkjunum tala frjálshyggjumenn gjarnan um "the welware/warfare state" - ríkisvaldið sem stækkar af tveimur ástæðum: Til að heyja stríð, og til að fjölga skjólstæðingum velferðarkerfisins. Velferðarkerfið er líka sterasprauta fyrir hið opinbera.
Því hvað gerist þegar þú þenur velferðarkerfið út? Þú býrð til flókið kerfi þar sem allir eru einhvern veginn bæði að greiða mikið í skatt og þiggja mikið af bótum og styrkjum af ýmsu tagi. Hvers konar freistingar býr slíkt sambland til? Jú, þær að borga eins lítið í skatt og hægt er, og þiggja eins mikið af bótum og hægt er. Það þarf því að reisa umsvifamikið eftirlitsapparat til að fylgjast með fólki, láta það telja fram minnstu upphæðir og gefa nágrönnum möguleika á að fletta manni upp í þar til gerðum skrám til að bera saman lífsstíl og uppgefnar tekjur.
Ríkisvaldið á sér margar klappstýrur sem fagna hverri útþenslu þess, hvort sem það er í nafni stríðsreksturs eða velferðarkerfis (eða bæði). Höfum það á hreinu að ásetningurinn er ekki einhver einlæg manngæska. Ekki eru talsmenn íþyngjandi og umsvifamikils ríkisreksturs að biðja um að tekjur Íslendinga jafnist niður að tekjum Afríkubúa eða að tekjur þeirra sjálfra jafnist niður að tekjum þeirra tekjulægstu. Nei, ásetningurinn er að jafna hæstu tekjur að tekjum jafnaðarmannanna sjálfra. Jafnaðarmenn sofa ekki rólegir vitandi af einhverjum sem hefur tekist að nurla saman í stærri sjóð en þeir eiga sjálfir.
![]() |
Umdeild lög samþykkt í Japan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 19. júní 2017
Ríkið dragi sig úr öllum rekstri
Af hverju rekur ríkisvaldið flugvelli? Vegi? Snyrtivöruverslun í Keflavík? Áfengissöluverslanir? Sjónvarps- og útvarpsstöðvar? Sjúkrahús? Skóla?
Er það af því enginn annar en ríkið getur rekið þessa hluti?
Nei, einkaaðilar geta rekið allt þetta og meira til.
Er það af því að einkaaðilar geta ekki náð ákveðnum pólitískum markmiðum með rekstri sínum?
Kannski það já.
En getur ríkið ekki náð pólitískum markmiðum án þess að standa í rekstri? Jú, mikil ósköp. Ef ríkið vill að það séu gerðar heimildamyndir um gamalt fólk úti á landi getur ríkið fjármagnað slík verkefni með verktakavinnu og boðið einkaaðilum að senda efnið út gegn gjaldi.
Ef ríkið vill að reykingasjúklingar fái niðurgreidda læknismeðferð við lungnaþembu getur ríkið boðið þá meðferð út til einkaaðila og þeir geta svo framkvæmt hana.
Með því að aðskilja pólitísk markmið og rekstur getur hið opinbera náð mörgum markmiðum.
Það sleppur við kjarasamningaviðræður.
Það sleppur við að þurfa eiga við eilífan rekstrarhalla af nánast öllu sem það snertir.
Það sleppur við þann eilífa hausverk sem fjármögnum lífeyrisskuldbindinga opinberra starfsmanna er.
Það sleppur við þann hausverk að yfir flestum opinberum stofnunum sitja pólitískt skipaðir einstaklingar með sína eigin stefnuskrá. (Líta stjórnmálamenn kannski á það sem blessun en ekki hausverk?)
Stjórnmálamenn hljóta að sjá þetta en vilja engu að síður að ríkið sé með fálmara sína ofan í hverri skoru í samfélaginu. Að baki slíku eru varla umhyggjusjónarmið. Miklu frekar láta stjórnmálamenn ranga hagfræði villa sér sjónir, t.d. þá sem segir að kostnaður af sérhverjum rekstri sé alltaf fasti (t.d. það að sauma sár eða kenna stafsetningu) og að hagnaður af rekstri sé eingöngu til kominn vegna kostnaðarauka.
Þarf að senda stjórnmálamönnum lesefni?
![]() |
Vilja aukinn einkarekstur flugvalla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Sunnudagur, 18. júní 2017
Ríkisstarfsmaður gagnrýnir ríkisstarfsmenn. Sjaldséðir eru hvítir hrafnar
Borgarstjóri London telur að mikill eldsvoði þar í borg, sem tók fjölmörg líf, sé afleiðing vanrækslu hins opinbera.
Þarna er ríkisstarfsmaður að gagnrýna aðra afkima hins opinbera reksturs og hreinlega beina spjótum sínum að ákveðnum aðilum.
Þetta er sjaldgæft meðal opinberra starfsmanna.
Þegar starfsmenn einkafyrirtækja gera mistök, gera sig seka um vanrækslu eða vanrækja viðskiptavini sína eru samkeppnisaðilarnir fljótir að gera sér mat úr því til að lokka til sín viðskiptavini. Sá sem gerir mistökin sér fram á flótta viðskiptavina, minnkandi tekjur og erfitt opinbert umtal. Þetta er bæði viðbúið og sanngjarnt. Menn eiga að benda á mistök.
Hjá hinu opinbera blasir þetta aðeins öðruvísi við. Venjulega fá opinberar stofnanir sem gera mistök meira fé en ekki minna til að sinna verkefnum sínum. Yfirmenn þeirra fá fleiri starfsmenn en ekki færri til að ráðskast með.
Ég efast um að borgarstjóri sé að fara leggja til að eftirlit með byggingum, brunavörnum, húsnæðisbyggingum, vottun og öðru eins verði komið á hinn frjálsa markað, en það má vona!
Sjaldséðir eru hvítir hrafnar en vekja eftirtekt í hvert skipti.
Eldsvoðinn í London er mikill harmleikur. Vonum að einhver hafi lært sína lexíu.
![]() |
Margra ára vanræksla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Föstudagur, 16. júní 2017
The Icelandic Toilet
Yfirvöld og fleiri aðilar klóra sér í kollinum þessi misserin. Þeir sjá stanslausan straum af ferðamönnum koma til landsins og tæma veskin sín, fylla hópferðarbifreiðar og stífla helstu ferðamannaperlurnar á Suðvestur- og Suðurlandi.
Af hverju dreifa þessir ferðamenn sér ekki meira um landið?
Af hverju kúka þeir í vegkanta og í skógarrjóður en ekki í klósett?
Af hverju tjalda þeir úti um allar trissur?
Af hverju þjappar þeir sér allir í miðbæ Reykjavíkur þegar þeir eru á höfuðborgarsvæðinu?
Yfirvöld og fleiri skilja ekki einföldustu atriði hagfræðinnar. Það er vandamálið, en ekki hegðun ferðamanna.
Það er enginn vandi að fá mann til að kúka í klósett. Það þarf bara að vera klósett til staðar. Til að svo megi verða þarf einhver að fá fjármagn til að reka sama klósett.
Það er enginn vandi að fá fólk til að dreifa sér á fleiri en örfáa staði. Það þarf bara að vera hægt að rukka inn í samræmi við eftirspurn. Eftirsóttustu staðirnir verða þá dýrari og aðrir hlutfallslega ódýrir í samanburðinum, og um leið eftirsóknarverðari.
Það er enginn vandi að fá menn til að tjalda á þar til gerðum svæðum og dvelja á höfuðborgarsvæðinu utan miðbæjarins. Einhver þarf bara að sjá sér hag í að opna tjaldstæði og leigja út húsnæði á þann hátt að það dreifist hæfilega úr fjöldanum.
Yfirvöld eru alveg ráðvillt. Ónei, hvað er til ráða! Það sem er til ráða er að yfirvöld drullist úr veginum og leyfi markaðnum að stilla af framboð og eftirspurn, deilulaust og sársaukalaust.
![]() |
Hvetja ferðamenn til ábyrgðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. júní 2017
Samkeppni sveitarfélaga
Úr frétt mbl.is:
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir mögulegt að íbúar bæjarins verði orðnir um 50 þúsund árið 2030, ef áætlanir ganga eftir. Íbúar Kópavogs eru nú rúmlega 35 þúsund og fer fjölgunin nærri íbúafjölda Akureyrar. ... Hann segir bæinn hafa aukið þjónustu en lækkað skatta.
Hérna sjáum við sveitarfélag með metnað. Sveitarstjórnin sýnir að það er hægt að gera allt í senn:
- Lækka skatta
- Auka þjónustu
- Fjölga íbúum (með tilheyrandi kostnaði við innviðauppbyggingu)
Ég held að það ættu allir að fagna því að höfuðborgarsvæðinu er skipt upp í mörg sveitarfélög. Því fleiri því betra! Það neyðir þau til að stunda einskonar samkeppni um íbúana. Fólk þarf ekki að flytja á milli landsfjórðunga og langt frá vinum og ættingjum til að losna úr sveitarfélagi eins og staðan er víða úti á landi. Nei, það er nóg að keyra í 10 mínútur til að komast í annað sveitarfélag sem býður upp á betri þjónustu, lægri skatta og möguleika til að stofna heimili.
Samkeppni Kópavogs við Reykjavík er auðveld. Það ætti ekki að vera mikill vandi að tappa eins og 10-20 þúsund manns af Reykjavík. Þar er allt á hvolfi í rekstrinum. Hafnarfjörður hefur líka tekið sig á undanfarin ár, og Garðabær og Seltjarnarnes og Mosfellsbær eru öll á réttri leið.
Það er íbúum höfuðborgarsvæðisins til happs að þurfa ekki að vera undir stjórn vinstrimannanna í Reykjavík. Megi sveitarfélögin halda áfram að vera sem flest! Samkeppni á milli þeirra er af hinu góða.
![]() |
Liður í að fjölga íbúum í 50 þúsund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Miðvikudagur, 14. júní 2017
Hinn lokaði dómaraklúbbur
Mikið hefur verið rætt og skrifað um dómaraval undanfarið. Mér virðist umræðan skiptast í tvö sjónarhorn:
- Dómarar einir eiga að ráða því hverjir geta orðið dómarar
- Kjörnir fulltrúar geta komið að því hverjir veljist sem dómarar
Nú á að hefja lögsókn gegn ríkinu, þar sem dómarar eiga að finna rétta túlkun á lögunum. Ætli þeir muni komast að þeirri niðurstöðu að þeir sjálfir eiga að ráða því hverjir geti orðið dómarar eða munu þeir túlka lögin þannig að þeirra eigin völd eru minni en ella?
Persónulega finnst mér að dómarastéttin þurfi aðhald eins og aðrar stéttir og að kjörnir fulltrúar eigi að fá að veita það aðhald. Senn kemur í ljós hvort lagaumhverfið leyfi slíkt eða ekki.
![]() |
Jóhannes höfðar mál gegn ríkinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 13. júní 2017
Aðskilnaður ríkis og banka mikilvægur
Sumir hafa lengi þulið upp að aðskilnaður viðskiptabanka- og fjárfestingabanka sé einhvers konar lausn á öllum heimsins vandamálum, a.m.k. þeim er tengjast fjármálakerfinu. Sumir segja að vandræði bankakerfisins hafi byrjað þegar hin svokallaða Glass-Steagall löggjöf var afnumin með undirskrift þáverandi forseta Bill Clinton.
Svo einfalt er málið ekki.
Það er enn einfaldara.
Vandamál fjármálakerfisins eiga rót sína í starfsemi seðlabanka og ríkiseinokunar á peningaútgáfu. Þessum ríkisafskiptum fylgir heill frumskógur af lögum og reglum sem eiga að koma í veg fyrir að spilaborg hins opinbera hrynji. Um leið er innistæðueigendum sagt að þeir þurfi ekki að veita bönkum sínum neitt aðhald - allar innistæður eru jú tryggðar, af hinu opinbera! Risastórir múrar eru reistir fyrir þá sem vilja stofna til samkeppnisreksturs við stóru bankana. Bara það að fylgja lögunum kostar fúlgur fjár þótt ekki sé einu sinni búið að opna fyrir viðskiptavinum.
Þetta skrímsli þarf að aflífa. Ríkið á ekki að prenta peninga frekar en bækur og ekki að ákveða vaxtastig frekar en verð á nærfötum. Stjórnmálamenn eiga ekki að skipta sér af framleiðslu peninga frekar en bifreiða. Það þarf að aðskilja ríkisvaldið og efnahaginn. Ef það á að vera ríkisvald á annað borð þá á það að halda sig við fyrirfram skilgreind verkefni sem eru fjármögnuð með hóflegri og gegnsærri skattheimtu. Peningaframleiðslan er bara önnur leið til að féfletta fólk á föstum tekjum og þá sem voga sér að leggja fyrir til framtíðar. Slíka rányrkju þarf að stöðva.
Kæru ráðherrar og þingmenn, leggið niður Seðlabanka Íslands. Það bað enginn um þessa ófreskju og það mun enginn sakna hennar nema þeir sem nota hana til að auðgast án þess að framleiða varning eða þjónustu í staðinn.
![]() |
Allt annað bankaumhverfi en 2008 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 12. júní 2017
Svona hefði geta farið fyrir Íslandi
Þegar Icesave-krafa Breta og Hollendinga vofði yfir Íslendingum og skuldir vegna hruns fjármálakerfisins virtust óyfirstíganlegar reyndu margir að lokka Íslendinga inn í Evrópusambandið. Þar væri jú öllum hjálpað og allir stæðu saman!
Annað hefur heldur betur komið á daginn. Evrópusambandið beitir þrýstingi og pólitísku afli til að knýja smæstu meðlimi sína til hlýðni.
Í Púertó Ríkó hefur óráðsía í opinberum fjármálum lengi verið reglan frekar en undantekningin. Núna ráða menn ekki við skuldirnar og vilja frekar missa völd en standa í baráttunni lengur.
Þetta minnir á mikilvægi þess að hið opinbera greiði niður skuldir sínar. Of miklar skuldir geta hreinlega ógnað sjálfstæði ríkja. Það er því gott að núverandi ríkisstjórn leggi áherslu á að hreinsa upp skuldirnar.
Margir vilja að Ísland verði 29. ríki sambandsríkisins Evrópusambandsins. Megi svo aldrei verða!
![]() |
Kusu að verða 51. ríki Bandaríkjanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 9. júní 2017
Einkabíllinn og almenningssamgöngur
Ráðvillt borgaryfirvöld leita nú leiða til að þrýsta fólki út úr einkabílnum og inn í strætó. Það er vonlaust barátta. Íslenskt veðurfar er slæmt, byggðin er dreifð (af góðum ástæðum - fólk vill pláss) og fólk vill sveigjanleika.
Bílaeign Íslendinga er ekki bölvun heldur blessun. Þökk sé henni geta flestar fjölskyldur spjarað sig sjálfar. Þær geta verslað inn fyrir alla vikuna í einu og bæði komist í matvöruverslun og áfengisverslun án þess að skipta um strætó eða rogast með þunga innkaupapoka á milli bygginga (ef áfengið væri selt í sömu verslunum og matvaran myndi þetta vandamál auðvitað leysast af sjálfu sér).
Fólk getur skutlað börnum sínum á æfingar eða sótt þau á leikskólann með viðkomu í búð á heimleiðinni.
Fólk kemst í frí út á land og getur notið náttúrunnar eða heimsótt ættingja.
Fólk kemst sjálft til læknis eða á sjúkrahús nema eitthvað mjög alvarlegt sé að.
Fólk getur boðið öldruðum ættingjum með í bíltúr eða sótt það í fjölskylduviðburðinn.
Bíllinn er hið mesta þarfaþing og óþarfi að agnúast út í hann.
Það er hins vegar ákveðið plássleysi í gangi á vegum eins og annars staðar. Það væri líka plássleysi á klippistofum, í kvikmyndahúsum og flugvélum ef ekki væri fyrir ákveðnar leiðir til að dreifa álaginu.
Þessar leiðir eru: Tímapöntun og verð.
Tímapantanir raða viðskiptavinum þannig upp að allir komist að þótt ekki fái allir fyrsta valrétt á tíma.
Verðlag er notað til að flokka fólk eftir ákafa að komast inn eða njóta ákveðinnar þjónustu á ákveðnum tíma.
Í gatnakerfinu er hins vegar hvorki hægt að panta tíma né aðgangsstýra með verðlagi.
Allir sem borga himinháa bifreiðaskatta og stjarnfræðileg eldsneytisgjöld hafa sama rétt til að nota vegakerfið og allir aðrir.
Kemur það þá einhverjum á óvart að vegirnir eru troðfullir tvisvar á dag af bílum þar sem einn eða tveir einstaklingar eru í hverri bifreið og þar sem mörg hundruð manns eru á leið á sama svæði?
Stjórnmálamenn kunna engin ráð sem duga. Þeir halda að það dugi að þröngva fólki inn í almenningsvagna. Ég þekki dæmi um konu sem býr í Breiðholti en vinnur í Árbæjarhverfi, en þessi hverfi liggja hlið við hlið. Hún þyrfti að eyða 45 mínútum í strætó og labba yfir 500 metra til að komast í vinnuna á morgnana. Skiljanlega velur hún að keyra í 10 mínútur í staðinn.
Það er ekki hægt að hanna strætókerfi sem hentar öllum jafnvel þótt auðvitað megi alltaf dæla fé í fleiri vagna og vona það besta.
Lausnin er ekki sú að byggja enn eitt samgöngukerfið ofan á hið gamla, t.d. þessa svokallaða Borgarlínu. Í hana fara bara milljarðar sem verða dregnir út úr viðhaldi vega og rekstri strætisvagna. Vasar skattgreiðenda dýpka ekki þótt stjórnmálamenn vilji eyða meira fé úr vösum þeirra.
Það sem þarf að gera er að afnema hindranir á rekstur leigubíla og létta kröfur á rekstur hópferðabíla. Það þarf líka að hætta skattlagningu í þágu vegakerfisins og rukka í staðinn fyrir raunverulega notkun þar sem verðið fer eftir tíma dags og leið sem er valin. Og það þarf að hætta að innheimta skatta til að reka almenningssamgöngur.
Um leið yrði til markaður. Einkaaðilar færu að bjóða upp á hópferðir sem endurspegla raunverulegar þarfir. Fólk gæti t.d. pantað sér far frá Grafarvogi og niður á Lækjartorg með komutíma kl. 7:45 á virkum dögum. Hópferðarbíll safnar svo upp öllum farþegum með svipaðar þarfir - frá dyrum þeirra - og keyrir á áfangastað. Heimleiðin færi fram með svipuðum hætti. Þetta er tæknilega auðvelt. Það þarf bara að fjarlægja hindranir á slíkum rekstri.
Helst ættu einkaaðilar líka að reka vegina. Þeir gætu þá keppt í aðgengi og öryggi og verðlagt vegakerfið rétt með tilliti til viðhaldskostnaðar. Opinber miðstýring á vegakerfinu leiðir til sóunar og vanmats á raunverulegum þörfum vegfarenda.
Það er til nóg af vegum og óþarfi að hlaða fleiri kerfum ofan á núverandi vegakerfi.
Stjórnmálamenn þurfa að geta sleppt tökunum. Að þeir geti það ekki er stærsta vandamál vegakerfisins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Miðvikudagur, 7. júní 2017
Hvað næst? Neðanjarðarlest?
Þegar einhver yfirvöld lýsa yfir ætlun sinni að fara út í gríðarlega stórar framkvæmdir sem enginn hefur efni á má ganga út frá því að þau séu með allt niður um sig og vantar eitthvað til að dreifa athyglinni.
Bílaeign Íslendinga er ekki vandamál heldur tækifæri. Fólk getur skottast, keypt inn, sótt börn á æfingar og heimsótt ömmu um helgar. Flestir skila sér sjálfir á sjúkrahúsið og komast í vinnuna í vonskuveðrum.
Vandamálið er aðallega það að flestir vilja keyra um sömu götur á sama tíma.
Hvað gera einkafyrirtæki í slíkri aðstöðu?
Tökum kvikmyndahús sem dæmi.
Flestir vilja sjá nýjustu myndina á föstudags- eða laugardagskvöldi í stærsta salnum. Miðinn á slíka sýningu kostar því mest. Fæstir vilja fara á myndina á þriðjudagssíðdegi. Miðinn kostar því minna þar.
Hið sama gildir um flug. Bestu sætin á vinsælustu leiðirnar á besta tímanum kosta meira en verri miðar á verri tímum til síður vinsælla áfangastaða.
Er alveg óhugsandi að læra nokkuð af þessu?
Eða jú, stjórnmálamenn eru vitaskuld alltaf tilbúnir að rukka meira. Ekki er nóg með að ökumenn borgi himinhá eldsneytisgjöld og himinháa skatta af bílum sínum, og virðisaukaskatt af þessu öllu saman, heldur á líka að rukka þá um veggjöld á leiðum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Þessu má líkja við að gestir kvikmyndahúsa borgi þrisvar fyrir sama miðann.
Borgarlína er leið til að breiða yfir mörg vandamál. Föllum ekki fyrir bragðinu!
![]() |
Borgarlínan mun kosta 63-70 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)