Má nota skipulagsvaldið til að gera hvað sem er?

Skipulagsvald sveitarfélaga er miklu, miklu meira en það ætti að vera. Stundum finnst mér það jaðra við valdmisbeitingu. Það virðist ná miklu lengra en lögin frá sjálfu Alþingi. Það skiptir engu máli hvort eitthvað sé löglegt eða ekki. Ef eitthvað skipulagsráð færir línur til á pappír er eins og það nái yfir öll önnur lög. 

Þarf ekki að fara setja sveitarfélögum einhver mörk hérna? Getur Alþingi ekki stöðvað þessa valdmisbeitingu? 


mbl.is Mun takmarka útleigu íbúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunblaðið berst gegn framboði og eftirspurn

Maður leigir út tjald fyrir yfir tíu þúsund á nóttina.

Morgunblaðið gerir þetta að frétt.

Hver er fréttin?

Aðili A býður eitthvað til sölu. Aðili B velur að kaupa. Aðili C velur að sleppa því.

Hver er fréttin? Val aðila B eða C?

Nú auðvitað val aðila B.

Á hvaða vegferð er Morgunblaðið eiginlega? Á að skamma aðila B? Á að taka aðila A út úr myndinni svo að enginn aðili B eða C geti tekið afstöðu?

Afsakið orðbragðið, en það á ekki að skipta neinu andskotans máli hvað eitthvað kostar eða hvaða kjör eru almennt í boði á meðan allir geta valið af fúsum og frjálsum vilja að taka tilboði eða sleppa því. Eini fyrirvarinn er að enginn hafi verið beittur ofbeldi eða að skattgreiðendur séu látnir fjármagna kostina, eða séu notaðir til að halda kostum fjarri.

Það er orðið erfiðara og erfiðara að finna áhugaverðar fréttir á mbl.is - þetta er fley sem er að sökkva sjálfu sér. 

Kæra Morgunblað, líttu í spegil!


mbl.is Tjöld til leigu á Airbnb
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bönnum hjólreiðar

Það er alveg ljóst að þingmenn þurfa að byrja ræða með markvissum hætti hvernig væri hægt að banna hjólreiðar á Íslandi.

Mörg rök hníga að slíku banni. Verða þau helstu talin upp hér.

Lýðheilsa

Lýðheilsu Íslendinga stafar hætta af hjólreiðum. Ökumenn bifreiða eru í stöðugu ástandi andlegs álags af því að þurfa fylgjast með hjólum sem þeytast framhjá þeim og fram fyrir bifreiðar þeirra. Það jafna sig fáir á því að hafa kramið líkama hjólareiðarmanns í malbikið. Hjólreiðar hafa líka slæm áhrif á blóðflæði í kynfæri karlmanna og hjólreiðaslys geta molbrotið beint og sprengt líffæri. Ekki dugir að vega meinta kosti hjólreiða á móti þessum þáttum til að réttlæta skemmandi áhrif hjólreiða á lýðheilsuna. 

Þjóðhagsleg óhagkvæmni

Slys draga fólk af vinnumarkaðinum og gera það að byrði á skattgreiðendum og aðstandendum. Sjúklingar eru jú byrði, ekki satt? Hjólreiðaslys eru engin undantekning. Með því að útrýma hjólreiðaslysum er hægt að halda fólki við vinnu lengur og mjólka verðmætasköpun þess ofan í opinbera sjóði. Með því að leyfa fólki að ferðast um á hjólum er dregið úr þjóðhagslegri nýtingu fólks.

Umhverfið

Fólk sem brennir miklu, eins og hjólreiðafólk, borðar líka meira. Allan þennan mat þarf að framleiða. Til þess þarf orku, tæki og tól og auðvitað landrými sem er hrifsað af náttúrunni. Miklu einfalda er að knýja bíla áfram. Þeir þurfa bara eldsneyti sem er borað eftir og kemur flæðandi upp á yfirborðið. Hjólreiðarmenn stuðla að hlýnun jarðar, ofnýtingu lands og gróðabraski spákaupmanna í matvælum.

Fjölskyldutengsl

Fólk sem hjólar er yfirleitt ekki í stöðu til að eiga samskipti við aðra. Hjólreiðar krefjast mikillar orku og einbeitingar. Fjölskyldur sem ferðast saman í bíl geta talað saman og notið nærveru hvers annars. Hjólreiðar rjúfa þetta fjölskyldumunstur og gera fólk að einstaklingum sem ferðast á eigin forsendum, sem er slæmt. Hjólreiðar eru andfélagslegar og grafa undan fjölskyldunni.

Eða hvað?

Nei, kannski er ekki hyggilegt að banna hjólreiðar, né nokkuð annað sem rökin hér á ofan hafa verið notuð um. 

 

 


mbl.is Slysum fjölgað með auknum vinsældum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið í haginn fyrir næstu vinstristjórn

Núverandi ríkisstjórn hefur lagt mikla áherslu á að lækka skuldir ríkisins. Það er gott. Um leið hefur hún ekki gert neitt að ráði til að minnka ríkisbáknið sjálft. Það er slæmt. Niðurstaðan er sú að ríkissjóður er rekinn með afgangi en bara af því það er uppsveifla í hagkerfinu. Allar áætlanir stjórnvalda gera beinlínis ráð fyrir áframhaldandi uppsveiflu sem getur fjármagnað bæði útþenslu ríkisrekstursins og niðurgreiðslu skulda.

Afleiðingin verður slæm fyrir íslenskan almenning.

Það er auðvelt að auka útgjöld til risavaxins ríkisreksturs. Bara örfá prósent í aukin ríkisútgjöld þýðir margir milljarðar af fé skattgreiðenda. 

Það er erfitt að draga saman útgjöld ríkisvaldsins. Bara með því að hægja á hækkun ríkisútgjalda þýðir að sumir byrja að tala um niðurskurð. Já, ríkisútgjöld jukust ekki nóg! Það er verið að skera niður að beini!

Íslenskir kjósendur sjá ekki muninn á vinstrimanni sem lofar öllu fögru og hægrimanni sem uppfyllir loforð vinstrimannsins. Af hverju að kjósa hægrimanninn til að framkvæma loforð vinstrimannsins þegar það er hægt að kjósa vinstrimanninn?

Það sem gerist er að þegar næsta vinstristjórn nær völdum þá tekur hún við skuldlausu búi. Hún hefst handa við að hækka skatta og auka ríkisútgjöldin ennþá meira. Það mun samt ekki duga til. Þá taka við lántökurnar. Ríkissjóðir með sitt góða lánstraust og lágu skuldir verður skuldsettur á bólakaf. Þegar vinstristjórnin springur eða er kosin frá völdum taka svo vægari vinstrimenn við völdum til að taka til.

Kæra ríkisstjórn, það er ekki nóg að lækka skuldir. Það þarf líka að minnka ríkisvaldið svo það sé erfiðara að réttlæta skuldsetningu ríkissjóðs með tilvísun í rekstrarvandræði opinberra eininga.


mbl.is Ríkið heldur sömu lánshæfiseinkunn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væri ekki snyrtilegra að senda reikninginn beint til almennings?

Núna er talað um að leggja 7 milljarða skatt á raforkuframleiðslu í landinu. 

Þessir sjö milljarðar eiga vitaskuld eftir að leggjast á almenning með einum eða öðrum hætti.

Þeir munu hækka raforkuverð.

Þeir munu draga úr getu raforkufyrirtækja til að borga góð laun.

Þeir munu draga úr getu stórkaupenda til að borga góð laun.

Þeir munu draga úr fjárfestingu, rýra starfsaðstæður og skerða arðgreiðslur hluthafa, hvort sem það eru einkaaðilar eða hið opinbera.

Ríkið mun hins vegar sjúga 7 milljarða af fé úr hagkerfinu og inn í ríkishirslurnar. 

Það má auðvitað kalla nýja skatta hvaða nöfnum sem er en væri ekki snyrtilegra að senda bara greiðsluseðla upp á 7 milljarða á öll fyrirtæki og allan almenning í landinu? Þá sjá menn betur og með berum augum að ríkið er að hækka skatta um 7 milljarða. 

Eða er það of hreinskiptin nálgun?


mbl.is Raforkuskattur gæti skilað 7 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar ríkisvaldið færir glæpamönnum gjafir

Kemur einhverjum á óvart að vændissala hafi aukist á Íslandi undanfarin ár?

Við þessu höfðu margir varað. Hin svokallaða sænska leið, þar sem sala vændis er lögleg en kaupin ekki, höfðu sömu afleiðingar í Svíþjóð. Vændið jókst en varð um leið ósýnilegra enda viðskiptavinirnir feimnari en áður. 

Nú þarf að fara aðra leið - köllum það þýsku leiðina - þar sem vændi er meðhöndlað af löggjöfinni eins og hver önnur starfsgrein og er gerð að fullu lögleg og sýnileg.

En ætli það verði raunin í landi púrítananna? Nei ætli það.

Í stað þess að gera fleiri hluti löglega á ríkisvaldið það til að fjölga þeim sem eru ólöglegir, líka svokallaðir fórnarlambalausir glæpir. Alvöruglæpamenn fagna því auðvitað. Þeir geta þá aukið vöruúrval sitt. Sá sem er að kaupa landabrúsa eða jónu getur á sama stað keypt sér kynlífsþjónustu, aðgang að fjárhættuspili og kókaín. Kannski vöruúrvalið muni aukast enn meira á næstunni með hertum reglum á rafsígarettur og hækkandi verði á tóbaki. 

Ríkið ætti kannski að taka málið enn lengra og banna bjórinn aftur. Glæpamennirnir - þessir sem beita handrukkurum og hóta fólki með ofbeldi - yrðu eflaust mjög ánægðir með það. Ríkið myndi þá smala enn fleirum inn í leynilegar neðanjarðarverslanir þar sem er hægt að koma unglingsstúlkum í heróínfíkn og þröngva þeim út í líf innbrotsþjófsins þegar skuldin er orðin of mikil. 


mbl.is Sprenging í vændi á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mútur eru einkenni sjúkdóms en ekki sjúkdómurinn sjálfur

Ég vinn fyrir fyrirtæki sem stundar mikið af viðskiptum við Brasilíu. Það getur oft verið mikill vandi. Skrifræðið er gríðarlegt og völd embættismanna líka. Það er nánast ómögulegt að fá leyfi fyrir einu né neinu nema eiga mikið fé og hafa mikla þolinmæði og búa yfir mikilli sérfræði- og innanlandsþekkingu. Margar opinberar stofnanir þurfa að samþykkja hverja skóflustungu. Það að flytja eitthvað inn í landið er enginn hægðarleikur. Oft tekur langan tíma að meðhöndla pappírana. 

Það er því ekki skrýtið að Brasilía sé almennt í vandræðum og í sífellu að eiga við mútumál. Mútur eru oft eina leiðin til að fá einhverju framgengt. Nú er það auðvitað ekki nein réttlæting á neinu - mútur eru lögbrot og ber auðvitað að rannsaka sem slík - en hvar væri Brasilía ef enginn borgaði mútur? Hún væri í enn verri málum en hún er í í dag. Það finnst mér blasa við. Fólk sem borgar mútur er einfaldlega að reyna stunda heiðarleg - ólögleg að vísu en heiðarleg - viðskipti.

Það mun sennilega aldrei renna upp fyrir Brasilíumönnum að það er skrifræðið sem er vandamálið en ekki múturnar. Skrifræði er eðlileg afleiðing flókins lagaverks, viðskiptahindrana og sérhagsmuna. Í varðstöðu fyrir fyrirkomulagið er stór her af opinberum embættismönnum sem njóta mikils starfsöryggis og vilja engu breyta. Viðskiptalífið fær að kafna í staðinn.

Ég vona að glaðlynt, vingjarnlegt og yfirleitt duglegt fólk Brasilíu beri gæfu til að hrista af sér þrúgandi kerfið dag einn.


mbl.is Forseti Brasilíu ákærður fyrir mútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ríkisstjórnarhrunið byrjað?

Ítalía er eitt skuldsettasta ríki heims. Þar á núna að eyða miklu fé í að bjarga tveimur bönkum. Ríkið hefur ekki efni á þessu en telur ástæðuna greinilega brýna. Það þarf jú að varðveita traustið á bankakerfinu, ekki satt?

Kannski er þessi björgunaraðgerð táknrænt upphaf á næsta hruni. Það hrun verður ekki bankahrun eins og það seinasta, þar sem skattgreiðendur voru skuldsettir til að bjarga bönkum. Nei, næsta hrun verður ríkisstjórnarhrun. Núna eru það ríkissjóðirnir sem þurfa björgun. En hver getur bjargað ríkissjóðum stærstu hagkerfa heims? Enginn. 

Fjármálakerfi heimsins er brothætt spilaborg sem mun hrynja, annaðhvort í bútum eða í heild sinni. Ertu tilbúin(n)?


mbl.is Ráðast í risastóra björgun banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátækt og stöðnun er sjálfsskaparvíti

Núna getur heimurinn fengið, beint í æð, mörg dæmi um ríki sem grafa sína eigin gröf - fara í vegferð sem gerir þau fátækari og fátækari og stöðnuð.

Tyrkland er eitt dæmi. 

Venesúela er annað.

Ytri aðstæður beggja ríkja eru þannig að bæði gætu verið moldrík. Þar gæti fólk búið við mikla velmegun. En nei, þau velja annan farveg.

Fátækt ríkja er sjálfsskaparvíti. Leiðin til velmegunar er val. Leiðin til ánauðar er það líka. 


mbl.is Hætta að kenna þróunarkenninguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snyrtilegast að banna bara öll viðskipti

Nú tala sumir fyrir því að taka stærstu peningaseðlana úr umferð á Íslandi. Það á að sögn að minnka líkurnar á skattsvikum, t.d. í ferðaþjónustunni.

En gefum okkur að mikið sé um skattsvik. Mun afnám stærstu seðlanna breyta einhverju?

Kannski, en kannski ekki.

Menn brjóta almennt ekki lögin að gamni sínu. Því fylgir áhætta sem allir gera sér grein fyrir. Menn brjóta lögin þegar þau eru orðinn hindrun frekar en gagnlegar leiðbeiningar. Menn brjóta lög sem þykja ósanngjörn. 

Nú á það vitaskuld ekki að vera undir hverjum og einum komin að ákveða hvaða lög eru góð og hver ekki. Það má ekki stela þótt viðkomandi telji fórnarlamb sitt hafa efni á því.

Þingmenn mættu samt hugleiða ástæðurnar á bak við hinum ýmsu lögbrotum sem teljast algeng og hugleiða hvort meginþorri almennings sé að haga sér eins og glæpamenn eða bara eins og almennir borgarar sem eru að reyna bæta sinn hag í daglegu amstri.

Nú fyrir utan að seðlabann bítur illa á ferðamanninn sem gengur um með seðla í bandarískum dollurum eða evrum.

Er alveg óhugsandi að koma bara á gegnsæju, einföldu, fyrirsjáanlegu og sanngjörnu skattkerfi? Þá er ég að meina kerfi þar sem eru lagðir á flatir skattar í lágum prósentum sem leggjast jafnt á alla og eru lausir við undantekningar? Er það alveg fáránlegt kerfi í hugum þingmanna?


mbl.is Ferðaþjónustan ekki uggandi yfir seðlinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband