Um leið má einkavæða starfsemi þjóðgarðsins

Fjölsóttir ferðamannastaðir verða að hafa fé til að byggja upp aðstöðu. Um leið eiga bara þeir að borga sem nota. Það er því augljóst að bein gjaldtaka fyrir þjónustu eða aðgengi er réttlátasta leiðin til að tryggja uppbyggingu ferðamannastaða.

Lögin virðast hins vegar standa í vegi fyrir þess konar fyrirkomulagi víða. Vonandi er verið að laga það.

Vatnajökulsþjóðgarður á auðvitað að geta rukkað fyrir aðgang ferðamanna. Hins vegar er það ekki nóg. Þjóðgarðurinn er á fjárlögum. Mér sýnist hann hafa fengið um 10 milljónir á seinasti ári til framkvæmda. Honum tengjast svo einhver starfsgildi sem falla undir aðra liði fjárlaga. Þetta fé má spara skattgreiðendum og láta þjóðgarðinn í staðinn standa undir sér sjálfur með ýmsum gjöldum á gesti hans og aðra nýtingu á landi hans. Helst ætti svo að stefna að sölu þjóðgarðsins eins og hann leggur sig og koma honum alveg út úr krumlum ríkisins. Þá þyrftu þingmenn ekki að eyða tíma sínum og fé annarra í að ræða rekstur hans.

Margir eru sammála um að ríkið eigi að reka löggæslu, heilbrigðisþjónustu og vegakerfi svo eitthvað sé nefnt. En síðan hvenær var það hlutverk ríkisins að sjá um landspildur eins og einhvers konar ríkisrekin garðyrkjuþjónusta? Stjórnarskráin er a.m.k. afskaplega þögul hvað það varðar.


mbl.is Rafræn rukkun í þjóðgarðinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvelt er fé annarra að eyða

Margir góðir málshættir eru til á íslenskri tungu, en eitthvað vantar þó upp á, sérstaklega í samhengi stjórnmála.

Hér er lítið framlag frá mér til að bæta upp fyrir þennan skort.

Auðvelt er fé annarra að eyða.

Þessi útskýrir sig væntanlega sjálfur. Stjórnmálamenn taka fé annarra og eyða því, gjarnan í einhverja vitleysu. Ríkisreksturinn er í eðli sínu óseðjandi og í hann má alltaf henda meira fé án þess að vandamálin leysist. Þetta reynist stjórnmálamönnum auðvelt.

Stundum skal samkeppni stunda, í öðru skal einokun iðka.

Margir stjórnmálamenn tala oft um að samkeppni sé góð og nauðsynleg. Ríkið rekur meira að segja heilu báknin sem eiga að tryggja aukna samkeppni. Í öðru er ríkiseinokun samt talin besta fyrirkomulagið. Þá gufa öll rökin fyrir samkeppninni upp eða þau eru heimfærð upp á einokunina í staðinn. Menn eiga að keppa í verði á dekkjaskiptum en þegar maður verður lasinn á bara einn aðili að sjá um meðhöndlunina, og verðmiðinn skiptir þá engu máli. 

Gerðu það sem ég segi, ekki það sem ég geri.

Þetta er sennilega eftirlætismálsháttur stjórnmálamanna, enda er hann ekki frumsaminn af mér. Stjórnmálamenn tala á þingi og í ráðhúsum fyrir eyðslu, útþenslu hins opinbera og því að taka lán til að greiða niður skuldir. Þegar heim er komið tekur samt við röggsamlegt heimilisbókhald þar sem útgjöldin eru stillt af, skuldir greiddar niður og verkefnum forgangsraðað. 

Loforð sem lokkar skal fyrir vinsældum víkja.

Þetta könnumst við vel við. Stjórnmálamenn lofa öllu fögru, tala út frá hugsjón og slá sér á bringu í kosningum. Svo birtist skoðanakönnun sem sýnir dalandi vinsældir. Þá er loforðunum hent út um gluggann og stefnunni breytt.

Úr smáum skinnum má smíða stóra trommu.

Hver kannast ekki við stjórnmálamanninn sem tekur eitthvert smámálið upp á arma sína og blæs sig til riddara? Nærtækt dæmi er áfengisfrumvarpið, þar sem færa á fyrirkomulag smásölu á áfengi í átt að vestrænum fyrirmyndum. Í stað þess að leyfa því máli að komast í atkvæðagreiðslu á þingi skal því slegið upp sem einhvers konar plága sem bíður þess að herja á sálir og líkama saklausra borgaranna. Þingmaðurinn kemst í fjölmiðlana og fær mikla athygli með miklum trommuslætti fyrir að tala gegn hinu vonda máli, sem er samt frekar smávægilegt og ætti að fá hraða meðferð svo kjósendur geti séð afstöðu kjörinna fulltrúa. 

Geta lesendur stungið upp á fleiri málsháttum fyrir okkar ágætu stjórnmálamenn?


mbl.is „Api er api þótt af sé halinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögbundin lágmarkslaun og vélmenni

Nú hafa menn þróað vélmenni sem á að afgreiða matarpantanir. Það kemur ekki á óvart að fyrsta slíka vélmennið keyri um götur San Francisco. Þar hafa lögbundin lágmarkslaun valdið miklum skaða og mörg fyrirtæki eru því opin fyrir lausnum sem gera þeim kleift að stunda arðbæran rekstur með sem minnstu mannafli.

Um leið missa auðvitað margir vinnuna, þá fyrst og fremst þeir sem framleiða minni verðmæti en svo að þeim sé hægt að borga hin lögbundnu lágmarkslaun. Gjarnan er það ungt og reynslulítið fólk sem fýkur fyrst þegar lögbundin lágmarkslaun eru hækkuð.

Fólk sem missir vinnuna vegna nýrrar tækni er samt ekki endilega dæmt í ævilangt atvinnuleysi. Kannski nær það að byggja upp starfsferilskrá sína með heppilegri menntun eða sjálfboðavinnu. Kannski flytur það til svæða þar sem lögbundin lágmarkslaun finnast ekki eða eru lægri, og getur byggt upp verðmætasköpun sína þannig. Til lengri tíma getur tæknin aukið framleiðni allra og bætt líf okkar (eins og gerðist þegar hestvagnasmiðir misstu vinnuna þegar bílar hófu innreið sína). En það er mjög sársaukafullt að henda stórum hópum fólks út af atvinnumarkaðinum með hækkun lögbundinna lágmarkslauna. 


mbl.is Vélmenni afhendir mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægristjórnin sem hækkaði skatta (blaðagrein)

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í dag. 

Hægristjórnin sem hækkaði skatta

Menn segja að hægristjórn sé við völd á Íslandi. Stjórnin ætlar jú að lækka skatta, greiða niður skuldir og af mikilli náð og miskunn leyfa einkaaðilum að starfa á fleiri sviðum. Þótt sumt af þessu eigi við er samt óhætt að segja að skrefin í frelsisátt séu hænuskref á meðan skrefin í helsisátt séu stærri.

Nýleg dæmi má nefna. Tilkynnt hefur verið að sumir sem greiða lág þrep virðisaukaskatts eigi nú að greiða há þrep. Þetta er skattahækkun, og í mörgum tilvikum umtalsverð. Því er að vísu lofað að hið háa þrep verði lækkað, en bara eftir langan tíma og mjög lítið. Eftir stendur að lágt þrep varð hátt. Nær hefði verið að færa hin háu þrep að þeim lágu ef hægristjórnin ætlaði sér að standa undir nafni.

Annað dæmi snýr að þyngra og kostnaðarsama regluverki fyrir fyrirtæki, með tilheyrandi verðhækkunum, óhagræði og skrifræði. Nafn regluverksins er vissulega hljómfagurt í eyrum einhverra - „jafnlaunavottun“ - en allir vita að hér eru stjórnmálamenn að skreyta sig á kostnað almennings. Enginn verður betur settur nema embættismenn, en þeir fitna þegar aðrir horast.

Enn eitt dæmið er umræða um vegatolla á þjóðvegum sem liggja til höfuðborgarsvæðisins. Ofan á eldsneytis- og bifreiðagjöldin, sem renna ekki nema að hluta til vegaframkvæmda- og viðhalds, á að bæta tollum. Ríkisvaldinu væri nær að gefast upp og selja þjóðvegina til einkaaðila. Þeir munu stilla af framboð og eftirspurn í gegnum hæfilega verðlagningu og um leið tryggja að nýir viðskiptavinir geti notið góðra vega. Þess í stað ákveður ríkið að bæta tollum ofan á skatta. Eplið skal borgað þrisvar áður en neytandinn fær að taka bita.

Loks má nefna andstöðu yfirvalda við það að fleiri en hið opinbera heilbrigðiskerfi á Íslandi og þjónustuaðilar heilbrigðisþjónustu erlendis fái að hýsa og sjá um íslenska sjúklinga. Ríkið vill frekar senda sjúklinga út á gang myglaðra spítala eða út úr landi í flugvél en hleypa þeim í sjúkrarúm í eigu einkaaðila á Íslandi. Hugsjónin stendur í vegi fyrir velferð sjúklinga, og skattgreiðendur eru látnir fjármagna hana.

Hægristjórn segja menn. Dæmin segja aðra sögu. Ef ætlun stjórnarliða er að aðgreina sig frá stjórnarandstöðunni við næstu kosningar er ljóst að þeir þurfa að hugsa sinn gang. Hvers vegna ættu kjósendur að kjósa vinstrimenn í fötum hægrimanna þegar þeim stendur til boða að kjósa vinstrimenn í sínum eigin klæðum?


Svolítil bók fyrir verkefnastjóra

Í febrúar 2015 sagði ég frá því á þessari síðu að ég væri búinn að gefa út svolitla bók um bætta skilvirkni í starfi. Sú bók fékk alveg ljómandi undirtektir og var meðal annars gefin út í sérstakri útgáfu af CreditInfo. Ekki get ég heldur kvartað yfir umsögnunum sem sumir lesenda bókarinnar hafa verið svo vinsamlegir að skrifa. 

cover_PM-bookNúna er ég búinn að skrifa aðra bók sem tekur skilvirkni okkar sem starfsmanna skrefinu lengra og segir verkefnastjóranum frá því hvernig hann fær sem mest út úr verkefnahópi sínum (sérstaklega ef hann þarf að eiga við verkfræðinga). Hún er til sölu á Amazon, bæði sem rafbók og á pappír.

Hver veit, kannski er þetta einmitt eitthvað sem þig vantaði til að komast á næsta skref í ferli þínum?

 


Viðeigandi viðbrögð stjórnvalda

Stjórnvöld geta gert margt til að liðka fyrir þrengslum á húsnæðismarkaði.

Þau geta lækkað virðisaukaskatt á vinnu og varning.

Þau geta lækkað launaskatta.

Þau geta rýmkað byggingareglugerðina.

Þau geta minnkað völd sveitarfélaga til að standa í vegi fyrir framkvæmdum.

Þau geta rýmkað löggjöf um heimagistingu og lækkað skattheimtu á hana svo fleiri rými ónýtta aukaherbergið og komi þannig til móts við hina miklu eftirspurn.

Þau geta í stuttu málið komið sér úr veginum og leyft markaðslögmálunum að bregðast við því lúxusvandamáli sem of mikil velgengni er. 

En í guðanna bænum, kæru yfirvöld, látið það eiga sig að fara út í sértækar aðgerðir, miðstýringu og áhættufjárfestingar með fé skattgreiðenda!


mbl.is Stjórnvöld grípi inn í
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær gefst ríkið upp á því að reka fyrirtæki?

Hver krísan á eftir annarri eltir heilbrigðiskerfið á Íslandi. Stundum er það fjárskortur, en þegar komið er til móts við hann kemur í ljós að einhver stéttin er óánægð. Þá er samið en svo kemur í ljós að fólk getur fengið betri laun annars staðar. Þá skulu launin hækkuð en þá þarf að draga fé úr ríkisrekstrinum á öðrum stað eða hækka skatta. Skattar eru hækkaðir en þá kemur í ljós að það bitnar á fyrirtækjum sem geta flúið land, flutt rekstur til útlanda eða þurfa skera niður hjá sér eða einfaldlega fara á hausinn. Þeim er þá veitt ívilnun en þá kvarta aðrir og vilja sömu ívilnun. Og á meðan hrannast sjúklingar upp á göngum spítala eða lenda á dauðalistum - biðlistum sem eru svo langir að þeir eru í raun gagnslausir. 

Ráðherrarnir klóra sér í kollinum. Þeir vita ekki hvernig á að fínstilla allt hagkerfið þannig að allir séu sáttir, enda er það ekki hægt. Þeir gleyma bara einu: Á frjálsum markaði eru fyrirtæki í stanslausri keppni um starfsafl, fjármagn og viðskiptavini. Þar eru engar kjaradeilur nema þar sem verkalýðsfélögin hafa orðið sér úti um lagalega mismunun. Gleraugnaverslanir lækna sjóndepurð á hverjum degi. Sérþjálfaðir augnlæknar nota rándýr og fullkomin tæki til að senda leysigeisla í augu fólks og gefa því fullkomna sjón. Einkaaðilar mæla heyrn og útvega heyrnatæki. Bakveikir fara í skóbúð og kaupa innlegg til að líða betur. Þeir sem eru óánægðir með spegilmynd sína heimsækja lýtalækna og láta stækka á sér brjóstin, minnka nefið eða fjarlægja húsflipa án þess að gista á göngum eða bíða á biðlistum.

Þar sem ríkið heldur sig fjarri gengur frjáls markaður eins og vel smurð vél. 

Ríkisvaldið ætti að játa sig sigrað. Það er einfaldlega ekki vel í stakk búið til að standa í rekstri og ætti alls ekki að koma í veg fyrir að einkaaðilar bjóði sjúklingum upp á þjónustu sína. Á hinum Norðurlöndunum vinna ríki og einkaaðilar í sameiningu að því að stytta biðlista, bjóða upp á valkosti og takmarka kostnað við heilbrigðisþjónustu. Á Íslandi er enginn einkaspítali og þótt einkaaðilar séu vissulega til innan íslenska heilbrigðiskerfisins þá mætti gera ýmislegt til að fjölga þeim umtalsvert. Hér þarf ríkisvaldið fyrst og fremst að hætta afskiptum sínum og afnema boð og bönn. 

Ráðherrar, kíkið í augnblik út um gluggann á skrifstofu ykkar. Lausnin blasir við fyrir utan. 


mbl.is Stefnir í lokun deilda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umburðarlyndið er bara í eina átt

Umburðarlyndi Vesturlanda er gríðarlegt. Á Vesturlöndum geta samkynhneigðir stofnað fjölskyldu, það má gagnrýna yfirvöld og mótmæla friðsamlega þegar eitthvað bjátar á. Flóttamönnum er hleypt inn í stórum stíl. Trúfrelsi ríkir. Málfrelsi ríkir. Það er þá helst hinn pólitíski rétttrúnaður sem hamlar okkur, fyrir utan skattana auðvitað.

En umburðarlyndið er oft bara í eina átt. Margir flytjast til Vesturlanda án þess að hafa nokkurn áhuga á því sem þar fer fram. Margir fordæma jafnvel þau ríki sem hafa veitt þeim skjól frá ofsóknum, ofbeldi og kúgunum. Vesturlandabúar eru bara réttdræpir trúleysingjar. 

En er þá ekki betur heima setið en af stað farið fyrir þessa einstaklinga sem fyrirlíta gestgjafa sinn? Nei. Mörg samtök úti í hinum stóra heimi hafa beinlínis eyðileggingu Vesturlanda á stefnuskrá sinni, en til vara að koma á einhverju allt öðru samfélagi en þar þrífst, og ein aðferð í vopnabúri þeirra er að senda herskáa eintaklinga inn í umburðarlyndu ríkin til að framkvæma þar voðaverk.

Ég efast um að trúarleg sannfæring leiki hér lykilhlutverki þótt trúarlegum yfirlýsingum sé bætt við þær um tortímingu hinna ótrúuðu. Miklu nær er um að ræða yfirvarp svipað því sem kommúnisminn og þjóðernissósíalisminn (nasisminn) veittu mönnum á sínum tíma. Menn með annarlegar hneigðir, minnimáttarkennd og skort á uppbyggilegum tilgangi í lífinu ganga inn í hið trúarlega yfirbragð og nota sem afsökun til að fá persónulega útrás fyrir ofbeldi og aðra glæpi. Friðsamt samfélag er ekkert sem þeir vilja. Nei, þeir vilja ganga um með vopn og skjóta á allt sem þeim líkar ekki við.

En er ekki hægt að kenna Vesturlöndum um þær ógöngur sem margir heimshlutar ganga í gegnum? Menn mega reyna en ég minni á að margir heimshlutar voru í ruglinu áður en Vesturlönd stigu þar fæti og margir heimshlutar eru það þótt Vesturlönd haldi sig alveg fjarri þeim. Fátækt og deilur eru yfirleitt heimatilbúin vandamál. Vesturlönd gera sig bara að blóraböggli með því að skipta sér af. 

Múslímar eru ekki allir ofbeldishneigðir tuddar, en ef boðskapur trúarrita þeirra er tekinn bókstaflega má þar finna hvatningar til að drepa aðra af mörgum ástæðum, bæði trúaða og ótrúaða.

Ég hleypi aldrei fólki inn á heimili mitt sem hefur það beinlínis á stefnuskrá sinni að drepa mig. 


mbl.is „Ég keyrði á trúleysingja“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjú fyrirtæki á leið úr landi?

Fyrirtækjum sem ganga vel skila hagnaði, a.m.k. ef velgengnin nær lengra en í vasa fjárfesta. Eigendur þeirra greiða sér gjarnan arð. Sumir efnast. Og þá segir einhver (raunveruleg tilvitnun):

"Eins og reynsla hinna norðurlandanna sýnir fæst góðæri með aukinni skattheimtu hjá stórgróðafyrirtækjum, hátekju-og stóreignafólki og skynsamlegri nýtingu tekjuaukans til meiri jafnaðar."

Einnig:

"Það er örugglega gott að losna við suma [hátekjumenn] úr landi. Þeir mergsjúga þá síður íslenskan almenning á meðan."

Nú hafa þrjú íslensk fyrirtæki birst á lista yfir fyrirtæki sem vaxa hratt. Eigendur þeirra vonast væntanlega til að því fylgi fjárhagslegur ágóði, enda er mikið á sig lagt til að byggja upp arðbæran rekstur. En fari svo að þeim takist að efnast á hugmyndaauðgi, viðskiptaviti og útsjónarsemi þá mæta jafnaðarmennirnir með heygafflana og vilja rýja þá inn að skinni.

Eru þrjú fyrirtæki á leið úr landi?


mbl.is Þrjú íslensk fyrirtæki vaxa hraðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið gerir það sem aðrir mega ekki

Ríkisvaldið var að borga niður lán á tæplega 6% vöxtum með fé sem það átti og ávaxtaði á 0,5% vöxtum. Þetta hljómar mjög skynsamlega. Það er ekki mikið vit í að ávaxta fé á lágum vöxtum á einum stað þegar maður skuldar fé á háum vöxtum á öðrum stað.

En látum okkur sjá, eru Íslendingar ekki neyddir til að skulda á háum vöxtum en ávaxta á lágum?

Íslendingar vilja flestir eignast sitt eigið húsnæði. Það kostar mikið fé sem ber oft háa vexti. Um leið eru þeir skyldaðir til að leggja fé í lífeyrissjóð, og þar njóta þeir lágrar ávöxtunar og jafnvel neikvæðrar.

Íslendingar eru því upp til hópa neyddir til að skulda á háum vöxtum en um leið leggja fyrir á lágum vöxtum. Það er nú allur galdurinn á bak við skyldusparnað Íslendinga. Fyrir vikið er oft mjög hart í árinni hjá fólki á meðan skuldirnar á háu vöxtunum eru greiddar niður um leið og sjóður er myndaður á lágum vöxtum. Sjóður, sem að lokum mun ekki geta greitt út meira en sem nemur ellilífeyri ríkisins sem skattarnir alla starfsævina fóru í að fjármagna fyrir þá sem lögðu ekkert fyrir, hvorki í formi sparnaðar né fasteignakaupa. 


mbl.is Skuldir ríkissjóðs lækka um 4% af VLF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband