Bloggfærslur mánaðarins, október 2020

Réttur hvers til lífs?

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir mikilvægt að átta sig á muninum á tilmælum og reglum sem stjórnvöld gefa út í sambandi við kórónuveirufaraldurinn. Réttur fólks til lífs trompi ýmis önnur réttindi.

Hvaða fólks?

Hvaða líf?

Ég spyr ekki í kaldhæðni því þetta skiptir máli. Sóttvarnaraðgerðir eru að hafa neikvæð áhrif á líf margs fólks. Í versta falli leiða þær til sjálfsmorða, en tíðni þeirra er nú á rjúkandi uppleið og enn er svartasta skammdegið framundan með auknu atvinnuleysi og jólahaldi á bótum. 

Yfirvöld treysta sér greinilega ekki í einfaldar aðgerðir til að verja þá veikustu og leyfa öðrum að halda áfram með líf sín. Já, líf sín!

Lífum unga fólksins er fórnað, að ástæðulausu. Og til að gera illt verra þá segir unga fólkið ekkert. Því er heldur ekki boðið í viðtöl. Það er bara látið sigla sinn sjó: Falla úr námi, renna á atvinnuleysisskrá og sagt að láta félagslíf eiga sig. Allt sem gefur lífinu gildi. Lífinu, sem forsætisráðherra segir að eigi að trompa réttindi. Er þá sennilega búið að fórna bæði lífum og réttindum, sem og framtíðinni, og þá er fátt eftir.

Er það þetta tromp sem forsætisráðherra er að tala um? Að hún geti trompað líf annarra? Að veira, sem leggst frekar vægt á langflesta, trompi menntun, andlega heilsu og framtíð almennings? Að yfirvöld trompi þegna sína?

Sóttvarnir eru vissulega mikilvægar en þegar þær eru orðnar að hamri, og eina verkfærið í verkfæratöskunni, þá lítur allt annað út eins og nagli.


mbl.is Réttur til lífs og heilsu trompi önnur réttindi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær mjólkurfernur og þögn unga fólksins

Maður nokkur opnaði ísskápinn sinn og leit þar inn. Hann sá tvær mjólkurfernur. Önnur var ný og dagsetningin á henni var viku fram í tímann. Hin var gömul og mjólkin þar nálægt því að renna út.

Maðurinn tók nýrri fernuna og henti henni í ruslið. Það varð jú að tryggja næga kælingu fyrir eldri fernuna. 

Hann hefði að vísu ekki þurft að henda nýrri fernunni. Hann gat haldið báðum og notið þeirra beggja. 

Þetta gera yfirvöld núna: Æsku unga fólksins er fórnað - henni hent í ruslið að ástæðulausu til að verja þá sem eldri eru. Þó mætti alveg tryggja bæði þeim yngri og eldri stað í samfélaginu sem er þeim ekki óbærilegur. Það er hægt að verja þá eldri án þess að fleygja þeim yngri í ruslið. Hugtakið kallast "focused protection" og er útskýrt hérna.

Ungt fólk er alls ekki nógu duglegt að láta heyra í sér. Það er stórfurðulegt. Ég fékk eftirfarandi skeyti frá aðila sem bað um nafnleynd:

Hvers þurfa félagslyndir að gjalda?

Undirritaður hefur nýhafið nám við Háskóla Íslands og líkar ágætlega. Þrátt fyrir að sitja inn í herbergi allan sólarhringinn, þekkja engan sem er með mér í námi og hafa varla farið út úr húsi í rúmar 6 vikur þá má hafa gaman af þessu.

Námið einkennist af Zoom-tímum, kennurum sem kunna ekki á tæknina, festast á stærðfræðidæmum sem enginn getur hjálpað með og algjöran skort á almennu félagslyndi. Nokkrir hittingar voru í byrjun en lokað var fyrir það fyrir rúmum 3-4 vikum og síðan þá þá hefur lítið verið um félagsskap.

Háskóli er tvíþættur, leik og starf, yin og yang. Einn helmingurinn virkar ekki án hins. Sem af er komið af önn hafa 10 manns skráð sig úr námi og eftir standa 36. Þetta endar eins og fræga barnabókin og verður kallað "Tíu litlir verkfræðinemendur". Ég hef aldrei hitt neinn af kennurum mínum og myndi ekki kannast við þá út á götu, ég hef aldrei talað við langflesta af þessum 36 sem eru eftir í náminu og sem yfirlýstur félags- og partýpinni þá fellur það hart.

Ungt fólk hefur litlar sem engar líkur á að deyja úr Covid, helst er það gamla fólkið. Þó falla aðgerðirnar hvað þyngst á unga fólkið. Við getum ekki farið í ræktina og pottinn, kíkt í partí, farið niðrí bæ eða talað við kennarana.

Mín tillaga er að herða vel á aðgerðum fyrir viðkvæma hópa og leyfa unga fólkinu að spreyta sig á því að byrja í háskóla.

Farvel!

En enginn segir neitt, ekki einu sinni svokallað Stúdentaráð Háskóla Íslands sem ætti að vera fremst í flokki að mótmæla hertum aðgerðum. Samtök framhaldsskólanemenda bjóða ekki upp á annað en óskalista um fleiri fjarfundarbúnaði í stað þess að benda á að aðgerðir eru hreinlega að sópa krökkum úr skólum og út á götu, og þaðan af verra. 

Hættum að henda fólki í ruslið, takk!


mbl.is Skylda nemendur til að mæta á prófstað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lærðu menn ekkert í vor?

Hjá Landspítalanum berast nú ógnvekjandi tölur. Að vísu eru þær allar í formi spádóma en nógu sláandi til að fylla stóra frétt.

Miðað við spár Landspítalans virðist staðan vera sú að menn hafi ekkert lært undanfarna mánuði. 

Til dæmis hefur lengi blasað við að spítalar hýsa aldraða einstaklinga sem eiga miklu frekar heima á hjúkrunarheimilum. Þau heimili hafa ekki verið byggð nógu hratt og enginn kemst því neitt.

Einnig hefur nú komið í ljós að ungt fólk tekur COVID-19 veirunni tiltölulega létt og að það eigi að verja aldraða og aðra veikburða fyrir þessari veiru og öðrum. Engu að síður búast menn við miklu álagi. Það er sem sagt búið að gera ráð fyrir að þeir sem eru veikastir fyrir veirunni fái framan í sig hósta og hnerra COVID-19 smitaðra eins og enginn sé morgundagurinn og raðist í spítalarúmin á færibandi.

Landspítalinn segist geta teygt sig lengra en svartsýnustu spár gera ráð fyrir en samt er lýst yfir áhyggjum og um leið vita menn að svartsýnustu spár hafa aldrei ræst - ekki einu sinni nálægt því. 

Ekkert er minnst á aðra kvilla eða sjúkdóma. Dánartíðni vegna þeirra er ekki í sviðsljósinu. Deyi sykursjúkur hjartasjúklingur þá rýkur hann sennilega beint í COVID-19 tölfræðina þótt sú veira hafi bara verið punkturinn yfir i-ið. Þannig má halda uppi óverðskulduðu orðspori fyrir veiruna sem stórhættulegur fjöldamorðingi. 

Að þessu sögðu blasir við að menn virðast ekki hafa lært neitt seinustu mánuði og allt skal sett í sömu spennitreyju og í febrúar þegar menn vissu lítið og allir voru sammála um að vera á varðbergi.


mbl.is Þriðja bylgja meiri áskorun en sú fyrsta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig kemst ég í nefnd?

Ég hef áður auglýst eftir upplýsingum um hvernig maður kemst í opinbera nefnd en endurtek nú þá auglýsingu. Þetta er örugglega mjög gaman, sérstaklega þegar efnið er háfleygt og á vangaveltustigi. Það má hæglega fylla margar blaðsíður með slíkan efnivið.

Mér til ágætis get ég nefnt að margir vinir og vinnufélagar nota mig eins og nokkurs konar uppflettirit. Einu sinni spurði mig vinnufélagi af hverju hann fengi alltaf hausverk eftir hádegi. Ég lagaði það vandamál með því að benda honum á að drekka meira vatn. Annar spurði mig um þróun vetnistækninnar í Evrópu, sem eins konar valkost við olíu og gas. Ég gat þulið upp mörg sjónarhorn á því efni og hjálpað viðkomandi að mynda sér skoðun. Við yfirmenn hef ég talað um persónuleikagreiningar sálfræðinga og hvernig þær geta hjálpað mönnum í þeirra stöðu að velja heppileg verkefni fyrir undirsáta sína.

Það yrði því mikill fengur að því að fá mig í nefnd og væri fínt að fá svolítinn aur í vasann fyrir það sem ég geri hvort eð er: Les allskonar um allskonar.

Veljið mig!


mbl.is Nefnd um gervigreind sett á fót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óeining er uppspretta heiðarlegrar umræðu

Óeining er innan þingmeirihlutans um sóttvarnaaðgerðir heilbrigðisráðherra, ekki síst í kjölfar síðustu auglýsinga ráðherrans um og eftir helgina. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Loksins!

Loksins kom fram fyrsta vísbending þess efnis að íslensk stjórnvöld ætli ekki eingöngu að hugsa um sóttvarnir heldur líka allskonar annað: Atvinnu, verðmætasköpun, frelsi, sjálfsmorð, dauðsföll af öðrum orsökum en veiru, misnotkun vímuefna, dapra framtíðarsýn atvinnulausra og mikilvægi þess að yfirvöld taki ábyrgð á öllum málaflokkum sínum og rekstrareiningum, ekki bara veirudeild spítalanna.

Það vantar tvímælalaust jafnvægi í umræðuna. Kannski er til auðveld leið til að bæta úr því. Nú eru daglegar uppfærslur á fjölda COVID-19 smitaðra og ýmislegt því tengt (fjöldi sýna, smita, innlagna á spítala, smita frá upphafi og hvaðeina). Kannski aðrar stofnanir ættu að gera hið sama? Vogur gæti birt fjölda innlagna hjá sér. Símaþjónustur fyrir þá í sjálfsmorðshugleiðingum birta fjölda símtala sem þeim berast. ÁTVR birtir sölutölur og setur í samhengi við aðgerðir yfirvalda. Krufningadeildir birta jafnóðum dánarorsakir þeirra sem koma á þeirra borð. Landlæknir uppfærir daglega skrá sína yfir dánarorsakir. Vinnumálastofnun heldur úti tölfræðibirtingum sem sýna jafnóðum hvað margir eru að raðast á atvinnuleysisskrá. Menntamálayfirvöld birti jafnóðum tölur yfir brottfall úr framhalds- og háskólum. 

Þannig fæst kannski samhengið sem margir þurfa svo mjög á að halda. Og þá eykst kannski sú óeining sem er orðin svo nauðsynleg innan ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Þrír ráðherrar í hópi efasemdamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvöföld skimun við landamærin hefur tryggt eðlilegt líf á Íslandi. Ekki

Þann 14. ágúst í ár var tekin upp tvöföld skimun við landamærin og ferðalöngum gert að vera í stofufangelsi í 5 daga á milli skimana. Söluræða yfirvalda var einföld, og ágætlega rifjuð upp af Vefþjóðviljanum. Með orðum forsætisráðherra:

Með þessu er talið að dregið verði úr líkum á því að frekari raskanir verði á daglegu lífi landsmanna vegna sóttvarnaraðgerða innanlands.

Með öðrum orðum: Kæru Íslendingar, við látum ferðaþjónustuna róa sinn sjó. Það er lítil fórn fyrir að endurheimta eðlilegt samfélag þar sem allt er opið, fólk fær að umgangast aðra og allir komast í klippingu.

Raunin varð allt, allt önnur og söluræðan varð að verðlausum pappír. Hin tvöfalda skimun  þurrkaði upp seinustu dreggjar ferðamannastraumsins og fjöldi fyrirtækja búinn að segja upp starfsfólki. Margir sjá fram á að halda upp á jólin með atvinnuleysisbótum. Senn bætist hárgreiðslufólkið við og fjölmargar aðrar stéttir.

Lokun landamæranna skilaði engu. Nákvæmlega engu.

Í stað þess að draga í land halda yfirvöld bara áfram. Í upphafi var ákveðinn skilningur á vegferð yfirvalda en núna er að myndast sterk undiralda óánægju og jafnvel mótmæla. En enn skal haldið áfram á sömu vegferð. Skerum af fótinn til að laga sýkingu í tánögl. Hálshöggvum til að koma í veg fyrir hausverk. Drepum ferðaþjónustuna til að bjarga hárgreiðslufólkinu, og drepum svo hárgreiðslufólkið til að bjarga skólabörnunum, en sendum þau svo heim til að hlífa kennurunum, og svona rúllar boltinn þar til engin brekka er eftir og allt liggur í auðn.

Einhver ráðherrann í ríkisstjórn þarf að fara berja í borðið og krefjast nýrrar nálgunar. Berja fast.


mbl.is Hárgreiðslustofur loka og grímuskylda í verslunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heita karftaflan

Í Silfri Egils í gær mættu í sal Logi og Bjarni, formenn sitthvors stjórnmálaflokksins. Spyrill spurði aðeins út í afstöðu þeirra til sóttvarnaraðgerða, settar í samhengi við aðra þætti, og fékk loðin svör. Báðir voru nokkuð sammála um flest og engin ástæða til að breyta neinu. Næsta mál.

Glatað viðtal, vægast sagt.

Fyrir utan svolitla tilvísun í vaxandi þunglyndi í samfélaginu var ekkert sem minnti á að neinn vildi setja hluti í stærra samhengi.

Aukin sjálfsmorðstíðni var ekki nefnd, sem og vaxandi misnotkun vímuefna.

Jól á atvinnuleysisbótum var ekkert rætt.

Reynsla annarra ríkja ekki borin á borð. 

Ekkert talað um sænsku leiðina eða opnanir víða um heim, sem haldast víða í hendur við fækkandi smit og svo gott sem engin dauðsföll.

Ekkert minnst á að þrátt fyrir að ferðamannaiðnaðurinn hafi verið drepinn á Íslandi þá eru smit enn í gangi, jafnvel í enn meiri mæli en í opnum ríkjum

Ekkert talað um að veiran núna hegðar sér öðruvísi en í upphafi, eins og gildir um aðrar veiru. Það að menn prófi og prófi og finni veirur og veiruafganga á ekki að leiða til hræðslu. 

Nei, viðtalið í Silfri Egils var lélegt, óundirbúið og silkihanskar voru notaðir þegar hamar hefði verið meira við hæfi.


Skrifræði, almenningur og upplýst andspyrna

Árið 1944 ritaði hagfræðingurinn Ludwig von Mises eftirfarandi hvatningu til almennings (Bureaucracy (1944), bls. 120):

The plain citizens are mistaken in complaining that the bureaucrats have arrogated powers; they themselves and their mandatories have abandoned their sovereignty. Their ignorance of fundamental problems of economics has made the professional specialists supreme. All technical and juridical details of legislation can and must be left to the experts. But democracy becomes impracticable if the eminent citizens, the intellectual leaders of the community, are not in a position to form their own opinion on the basic social, economic, and political principles of policies. If the citizens are under the intellectual hegemony of the bureaucratic professionals, society breaks up into two castes: the ruling professionals, the Brahmins, and the gullible citizenry. Then despotism emerges, whatever the wording of constitutions and laws may be.

Hvatningin gekk í stuttu máli út á að almenningur kynnti sér grundvallarlögmál hagfræðinnar og almennt gangverk samfélagsins og myndaði upplýsta andspyrnu við yfirgang ríkisvaldsins og skrifræðisins. 

Í þessu felst meðal annars að efast. Af hverju er ríkiseinokun viðhaldið? Hver eru rökin? Hver er valkosturinn? Einu sinni skoðaði ríkið bíla og framleiddi sement. En ekki lengur.  Af hverju þarf íslenska ríkisvaldið að selja áfengi í fyrirkomulagi ríkiseinokunar? Til hvers eru öll þessi eyðublöð? Af hverju þarf að fá samþykki á svona mörgum stöðum innan hins opinbera? 

Stundum er kannski hægt að rökstyðja en oft ekki. Oftast er bara um venju að ræða. Svona hefur þetta alltaf verið! Við fanga sem situr saklaus bak við lás og slá fær hann einfaldlega svarið: Þú ert á bak við lás og slá núna og þarft að sanna af hverju þú átt að sleppa. En á meðan heldur allt áfram eins og það hefur verið.

Ég vona að sem flestir taki hvatningarorð Mises til sín. Það er eina haldbæra viðspyrnan gegn skrifræðinu.


mbl.is „Höfum séð blóðuga sóun úti um allt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífshættulegar sóttvarnaraðgerðir

Allt bendir til þess að svartsýnustu spár um afleiðingar sóttvarnaaðgerða ætli að rætast. Lækningin er að reynast verri en sjúkdómurinn.

Fyrirtæki hafa verið knésett, fólk einangrað frá vinum og ættingjum (ýmist með heimsóknarbönnum, sóttkví og takmörkunum á ferðalögum), atvinnuleysi sett á flug og þeir sem stóðu höllum fæti í góðæri hafa nú verið endanlega keyrðir í þrot.

Lögreglan hefur nú þegar gefið til kynna nálægt því 70% fjölgun sjálfsvíga það sem af er þessu ári og hætt við að það sé bara forsmekkurinn enda sjá margir fram á að þurfa fjármagna jólahátíðina á atvinnuleysisbótum og það mun sennilega hrekja fleiri fram af bjargbrúninni. Miklu fleiri.

Frestun ýmissa aðgerða á líka eftir að draga dilk á eftir sér. Þeir sem hafa beðið svo mánuðum skiptir eftir liðskiptaaðgerð og eru alveg við það að detta í örorku hafa verið settir í enn lengri bið. Fjölgun örorkubótaþega er fyrirsjáanleg. Vinnufært fólk er gert óvinnufært. 

Fjölgun allskyns dauðsfalla sem koma veiru ekkert við blasir einnig við. Hjartaáföll í heimahúsum, krabbamein sem greinast seinna en ella og ýmsir lúmskir sjúkdómar eru að njóta sín á meðan heilbrigðiskerfið einblínir á hina fjölmiðlavænu veiru.

Ungt fólk er sent heim til sín til að læra fyrir framan tölvu. Slakir námsmenn sem hefðu kannski átt sér viðreisnar von með góðum kennara eiga nú enga von. Tölvuleikirnir taka við af stærðfræði og stafsetningu. 

Haustið er framundan og næsta veira fer bráðum á stjá. Aftur er verið að skella í lás og setja á samkomubönn. Það er engin áætlun. Það er verið að einblína á smit en ekki sjúkdóma. Þessar sóttvarnaraðgerðir eru lífshættulegar og þeim ber að snúa við hið snarasta.


mbl.is Veruleg fjölgun óútskýrðra dauðsfalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokun landamæra tilgangslaus?

Ferðamönnum á leið til Íslands var í ágúst tilkynnt að þeirra biði 5 daga sóttkví. Þeir hættu að koma. Söluræðan var sú að íslenskt samfélag ætti að óttast smit að utan og að án þeirra gæti lífið haldið áfram, sinn vanagang.

Augljósa hefur þetta ekki staðist. Aftur er skellt í lás innanlands.

Þá er upplagt að spyrja: Má þá ekki opna landamærin aftur?

Ferðamenn eru fátíðir smitberar og fjöldi smita þeirra vega ekkert í tölfræðinni.

Úr því samfélagið er aftur komið á bak við lás á slá þá er væntanlega engin ástæða til að takmarka ferðamenn sem koma til landsins. Þeir eru ekki vandamálið.

Eða á einfaldlega að loka öllu án tillits til raunveruleikans?

Ákvörðunarfælni íslenskra stjórnvalda er algjör. Landinu er stjórnað af minnisblöðum með þröngt áherslusvið. 


mbl.is 20 manna samkomutakmarkanir á mánudaginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband