Tvær mjólkurfernur og þögn unga fólksins

Maður nokkur opnaði ísskápinn sinn og leit þar inn. Hann sá tvær mjólkurfernur. Önnur var ný og dagsetningin á henni var viku fram í tímann. Hin var gömul og mjólkin þar nálægt því að renna út.

Maðurinn tók nýrri fernuna og henti henni í ruslið. Það varð jú að tryggja næga kælingu fyrir eldri fernuna. 

Hann hefði að vísu ekki þurft að henda nýrri fernunni. Hann gat haldið báðum og notið þeirra beggja. 

Þetta gera yfirvöld núna: Æsku unga fólksins er fórnað - henni hent í ruslið að ástæðulausu til að verja þá sem eldri eru. Þó mætti alveg tryggja bæði þeim yngri og eldri stað í samfélaginu sem er þeim ekki óbærilegur. Það er hægt að verja þá eldri án þess að fleygja þeim yngri í ruslið. Hugtakið kallast "focused protection" og er útskýrt hérna.

Ungt fólk er alls ekki nógu duglegt að láta heyra í sér. Það er stórfurðulegt. Ég fékk eftirfarandi skeyti frá aðila sem bað um nafnleynd:

Hvers þurfa félagslyndir að gjalda?

Undirritaður hefur nýhafið nám við Háskóla Íslands og líkar ágætlega. Þrátt fyrir að sitja inn í herbergi allan sólarhringinn, þekkja engan sem er með mér í námi og hafa varla farið út úr húsi í rúmar 6 vikur þá má hafa gaman af þessu.

Námið einkennist af Zoom-tímum, kennurum sem kunna ekki á tæknina, festast á stærðfræðidæmum sem enginn getur hjálpað með og algjöran skort á almennu félagslyndi. Nokkrir hittingar voru í byrjun en lokað var fyrir það fyrir rúmum 3-4 vikum og síðan þá þá hefur lítið verið um félagsskap.

Háskóli er tvíþættur, leik og starf, yin og yang. Einn helmingurinn virkar ekki án hins. Sem af er komið af önn hafa 10 manns skráð sig úr námi og eftir standa 36. Þetta endar eins og fræga barnabókin og verður kallað "Tíu litlir verkfræðinemendur". Ég hef aldrei hitt neinn af kennurum mínum og myndi ekki kannast við þá út á götu, ég hef aldrei talað við langflesta af þessum 36 sem eru eftir í náminu og sem yfirlýstur félags- og partýpinni þá fellur það hart.

Ungt fólk hefur litlar sem engar líkur á að deyja úr Covid, helst er það gamla fólkið. Þó falla aðgerðirnar hvað þyngst á unga fólkið. Við getum ekki farið í ræktina og pottinn, kíkt í partí, farið niðrí bæ eða talað við kennarana.

Mín tillaga er að herða vel á aðgerðum fyrir viðkvæma hópa og leyfa unga fólkinu að spreyta sig á því að byrja í háskóla.

Farvel!

En enginn segir neitt, ekki einu sinni svokallað Stúdentaráð Háskóla Íslands sem ætti að vera fremst í flokki að mótmæla hertum aðgerðum. Samtök framhaldsskólanemenda bjóða ekki upp á annað en óskalista um fleiri fjarfundarbúnaði í stað þess að benda á að aðgerðir eru hreinlega að sópa krökkum úr skólum og út á götu, og þaðan af verra. 

Hættum að henda fólki í ruslið, takk!


mbl.is Skylda nemendur til að mæta á prófstað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hættum að henda fólki í ruslið! Ég hef sjaldan séð þetta betur orðað.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.10.2020 kl. 10:33

2 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Gallinn við þessa tillögu þína er að margt af unga fólkinu vinnur með viðkvæmum hópum. Smit á hjúkrunarheimilum og stofnunum stafar af því. Þess vegna gengur þessi tillaga alls ekki upp. Að lokum leiða smit unga fólksins (í sumar) til þess að foreldrar smitast og svo koll af kolli.

Á móti má segja að ég er á móti svona panikki sem kom upp um daginn. Það vantar allt langtímaplan og viðbrögð.

Rúnar Már Bragason, 12.10.2020 kl. 10:48

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta er úrlausnarefni Rúnar. Barrington yfirlýsingin mælir með því að reyna eftir föngum að notast við starfsfólk sem þegar hefur náð ónæmi á hjúkrunarheimilunum. Að öðru leyti sé gætt mjög mikilla sóttvarna og jafnvel mætti hugsa sér að starfsfólk væri einangrað frá öðrum meðan sóttin gengur yfir.

Þetta er nefnilega spurning um að finna lausnir og vinna skipulega eins og þú bendir einmitt á. Markviss vernd gengur upp ef þess er gætt að treina ekki flensuna út í það óendanlega. Það er t.d. hægt að loka alveg hjúkrunarheimilum í tvo mánuði, en það er alls ekki hægt að gera það í tvö ár.

Ég vil líka minna á að í allri þessari umræðu eru einnig hagsmunir að verki. Hagsmunir lyfjafyrirtækjanna eru gríðarlegir í peningum talið. Sameiginlegir hagsmunir allra þessara fyrirtækja liggja í því að hindra með öllum mögulegum ráðum að markaðurinn fyrir lyf og mótefni hverfi. Og lyfjafyrirtækin hafa mikil ítök innan læknastéttarinnar, hvort sem okkur líkar betur eða verr. 

Þorsteinn Siglaugsson, 12.10.2020 kl. 11:48

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Rúnar,

Það er ekki að gamni mínu að ég vísaði í yfirlýsingu sóttvarnarlæknanna þriggja sem settu saman alveg stórmerkilegt plagg sem þeir hvetja alla til að skrifa undir:

Great Barrington Declaration

https://gbdeclaration.org

Þarna eru engir mannhatarar á ferð, og raunar þvert á móti. 

Ég sé raunar að Þorsteinn er búinn að snara plagginu yfir á íslensku, sem er alveg stórkostlegt framtak!

https://tsiglaugsson.blog.is/blog/tsiglaugsson/entry/2255730/

Þessi texti er skyldulestur vikunnar.

Geir Ágústsson, 12.10.2020 kl. 12:41

5 Smámynd: Benedikt Halldórsson

 Frábær pistill. Þorsteinn hefur staðið vel í eldlínunni - óbrunnin. 

Benedikt Halldórsson, 12.10.2020 kl. 14:20

6 identicon

Verst að kennarar skuli hvorki vera ungir né tilbúnir til að fórna lífinu fyrir félagslíf verkfræðinema. Og að sóttvaranayfirvöld skuli ekki treysta djammandi verkfræðinemum til að hætta allri umgengni við eldra fólk og slíta á fjölskyldutengsl meðan covið varir. (pínu lítil fiðla spilar sorglegt lag)

Gallinn við Great Barrington Declaration er að sú aðferð gerir ráð fyrir að hægt sé að skipta þjóðfélaginu í tvennt. Þá sem telja sig ekki viðkvæma og þurfa hvorki að umgangast viðkvæma né þá sem umgangast mögulega viðkvæma og svo hina sem telja sig í hættu og alla sem með þeim starfa og þjónusta þá á heimilum, heilbrigðisstofnunum, í verslunum, skólum, samgöngum o.s.frv. Annar hópurinn er greinilega margfalt stærri en hinn og sá hópur sem vinnur störfin. Hann verður því ekki sá sem lokaður verður inni. Lausnin yrði því bara sú að setja aukin kraft í einangrun "verkfræðinema" svo þeir gætu smitað og sukkað innbyrðis í sinni einangrun á Hornströndum.

Vagn (IP-tala skráð) 12.10.2020 kl. 21:40

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er ekkert sem hindrar að beitt sé hnitmiðuðum aðgerðum til að vernda viðkvæma hópa og forðast með því að eyðileggja framtíð unga fólksins. Það kallar á gott skipulag og aðferðir sem virka. Lítill vafi á að sérfræðingar í lýðheilsu ráði vel við slíkt verkefni. Það að áskorun felist í verkefni merkir ekki að verkefnið sé óframkvæmanlegt.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.10.2020 kl. 22:16

8 identicon

Flest fólk á sér framtíð þó það sleppi skemmtunum og vinasöfnun í nokkra mánuði. Ef smá pása frá félagslífinu eyðileggur framtíð unga fólksins þá getur það ekki hafa verið merkileg framtíð eða dýrmætt ungt fólk.

Og hvað þarf stór hluti hóps að vera dauðadæmdur til að hópurinn kallist viðkvæmur? Hvað er ásættanlegt að margir látist svo verkfræðinemar geti stundað skemmtanir (verkfræðinemar sem látast þrátt fyrir að vera ekki í áhættuhóp meðtaldir)?

Það getur verið snúið að skipuleggja skiptingu þegar dauðsföll hjá ungum, líkamlega hraustum einstaklingum eru ekki óþekkt. Og öndunarfærasjúkdómar, ofþyngd, sykursýki, aldur yfir 40, reykingar, krabbamein og hjartasjúkdómar auka hættuna. Og meirihluti þjóðarinnar, og mikill meirihluti vinnandi fólks, getur tikkað við eitt eða fleiri atriði á þessum lista. Á að þvinga kennara, meðalaldur kennara setur flesta þá í áhættuhóp, til þess að umgangast smithópinn? Á að senda helming lögreglunnar heim þeim til verndar?

Það eðlilega líf og nám sem verkfræðinemar vilja kallar á og fæst ekki nema með þjónustu áhættuhópa.

Besta lausnin verður því áfram að setja verkfræðinemana sem vilja óheft félagslíf og frelsi til að smita í einangrun langt frá öllum öðrum. Það er eina skiptingin sem gengur upp.

Vagn (IP-tala skráð) 13.10.2020 kl. 01:24

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Það er ekki verið að bjarga neinum lífum. Bara aukning í sjálfsmorðum er orðin meiri en öll dauðsföll sem menn skrifa á COVID-19, og enn eru skammdegið eftir, jól á atvinnuleysisbótum og fleiri uppsagnir framundan. Vonandi skjátlast mér en þetta verður blóðugt.

Ónefndir eru svo hjartasjúkdómarnir og krabbameinin en innreið þessara sjúkdóma í tölfræðina tekur sennilega lengri tíma en daglega uppfærðar COVID-19 tölur.

Það er að óþörfu verið að fórna einum fyrir annan.

Geir Ágústsson, 13.10.2020 kl. 06:38

10 identicon

Dauðsföllin 10 sem menn skrifa á COVID-19 er röng tala í þessum samanburði. Samkvæmt þeirri viðmiðun væru 100 dauðsföll betri árangur og þú sáttari við sóttvarnaraðgerðir. Það má margfalda þessi 10 ef miðað er við hvernig Svíar og Bandaríkjamenn fóru að. Það eru lífin sem var bjargað sem er mælikvarðinn. Og því réttara að miða við þau hundruð sem ekki létu lífið og geta þakkað það sóttvarnaraðgerðunum. Og þá er örlítil fjölgun annarra dauðsfalla óverulegt frávik frá öðrum árum. Þrátt fyrir fjölgun sjálfsmorða frá síðasta ári þá er tíðni sjálfsmorða svipuð og í meðalári, og talningar ná aftur til 1912.

Vagn (IP-tala skráð) 13.10.2020 kl. 10:42

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Það er að koma betur og betur í ljós að það er ekki verið að bjarga neinum lífum með þessum harkalegu sóttvarnaraðgerðum.

Svíar misstu veiruna snemma inn á risastór hjúkrunarheimili sín í upphafi, og inn í hverfi sómalskra innflytjenda með lélegan D-vítamínforða. Danir misstu líka marga í upphafi þrátt fyrir harðar aðgerðir, og Íslendingar misstu sína 10 í upphafi. Eða hvernig ætlar þú að sjá á gögnum hvar ungt fólk er læst inni til að veslast upp, og hvar ekki? Hvaða graf getur þú bent á þar sem lokunarland er borið saman við opnara land og segja, "sko! hérna eru aðgerðir sjáanlegar!". 

Dánartölur vegna COVID-19 og annarra loftborinna veira í ár má að mestu skýra með því hvað flensan tók marga í fyrra. Skæð flensa í fyrra þýðir færri látna í ár, og öfugt.

Geir Ágústsson, 13.10.2020 kl. 11:28

12 identicon

Af þeim tæplega 6000 sem létust í Svíþjóð eru Sómalarnir og hjúkrunarheimilin ekki nema tæpur helmingur. Þó þeir séu dregnir frá er dánartíðnin í Svíþjóð samt tífalt hærri en hér. Og það var engin skæð flensa á síðasta ári.

Skoðaðu Svíþjóð og Bandaríkin í samanburði við Ísland til að sjá aðgerðarleysi vs. aðgerðir og árangurinn. 

Vagn (IP-tala skráð) 13.10.2020 kl. 13:10

13 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Er einhver munur á dánartíðni ríkja í dag að einhverju ráði? Hafðu í huga að veirusýkingar hegða sér mismunandi eftir loftslagi, að dánartíðni vegna einhvers í ár gæti verið afleiðing af hærri eða lægri dánartíðni (t.d. m.v. 5 ára meðaltal) undanfarinna ára, og að grímur, fjarlægðamörk, lokanir og annað er stórkostlega mismunandi á milli ríkja. 

Og ekki rugla saman smitum og því að verða veikur. Það er leiðinleg tilhneiging blaðamanna sem vantar fyrirsagnir.

Geir Ágústsson, 13.10.2020 kl. 14:41

14 Smámynd: Geir Ágústsson

Annars gæti það hafa bitið Svíana í rassinn að vera of hreinskilnir:

https://sverigesradio.se/sida/artikel.aspx?artikel=7453417

Geir Ágústsson, 13.10.2020 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband