Bloggfærslur mánaðarins, október 2019
Þriðjudagur, 29. október 2019
400 metrar
Enn og aftur er boðið upp á flugeldasýningu og húllumhæ: Nýtt leiðarkerfi almenningsvagna í Reykjavík er í bígerð!
Það mætti halda að enginn læri af reynslunni.
Það hefur margoft verið reynt að koma fleirum í strætó með nýju leiðarkerfi.
Milljarðarnir sópast inn í kerfið.
En ekkert gerist.
Kannski vantar bara þumalputtareglurnar? Hér eru nokkrar nothæfar:
- Ekki hafa lengra en 400-500 metra á milli stoppistöðva
- Ekki láta fólk skipta oftar en einu sinni til að komast á áfangastað
- Ekki moka fólki inn í troðfulla vagna
- Ekki láta fólk bíða í meira en 10 mínútur
- Ekki vera tæknilega eftir á, hvorki hvað varðar að skipuleggja ferðina né borga fyrir hana
- Það skiptir minna máli að bíða stutt og fá sæti en komast hratt á áfangastað eftir langa bið, og þurfa að standa á meðan
Good luck!
Borgarlína og ný leiðarkerfi kynnt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Mánudagur, 28. október 2019
MC Hammer sem fjármálaráðherra?
Í fjarveru meiriháttar áfalla er eiginlega aldrei hægt að tala um að einhver eða eitthvað eigi við tekjuvandamál að stríða. Miklu frekar ætti að tala um útgjaldavandamál.
Tökum dæmi:
Fyrir mörgum árum kom út lagið "U Can't Touch It", sem var flutt af rapparanum MC Hammer. Þetta lag náði gríðarlegum vinsældum og það, auk fleiri, gerði MC Hammer að moldríkum manni. Fyrir nokkura ára vinnu hefði maðurinn getað lifað góðu lífi alla ævi. Svo fór þó ekki.
Hann fór að eyða stórkostlegum fjárhæðum í glæsikerrur, hallir og lífverði. Á tímabili var hann með um 200 manns á launaskrá. Skuldir fóru að hlaðast upp um leið og hægðist á plötusölunni. Að lokum þurfti hann að lýsa sig gjaldþrota.
Gjaldþrota!
MC Hammer átti á tímabili sand af seðlum sem hefðu auðveldlega getað dugað honum út ævina. Hann kom sér hins vegar í útgjaldavandamál.
Hið íslenska ríki er eins konar MC Hammer. Tekjurnar hafa aldrei verið hærri og sneiðin sem ríkið klípir af hagkerfinu hefur sjaldan verið stærri. Samt eru menn að dansa í kringum núllið á meðan opinberar skuldir eru enn í svimandi hæðum.
Íslendingar geta gert betur en að láta MC Hammer stjórna ríkisfjármálunum. Mörg sveitarfélög ættu líka að hugsa sinn gang.
Hallarekstur mildi samdrátt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 27. október 2019
Hvaða stjórnmálahugsjón aðhyllist þú?
Stundum er fólk skilgreint út frá því hvar það stendur í pólitík. Pólitík eru umræður og skoðanaskipti fólka sem er stundum og stundum ekki skráð í einhvern stjórnmálaflokkinn eða telur einhvern einn stjórnmálaflokk betri kost en annan.
Þetta er þröngur rammi.
Enginn stjórnmálaflokkur er fullkominn og raunar eru þeir allir frekar gallaðir. Stjórnmál eða pólitík er eltingaleikur við atkvæði og menn selja þar hugsjónir sínar, oft á lágu verði, til að kaupa sér hylli. Enginn stjórnmálaflokkur er svo heilsteyptur að hann standi fastur á sínu sama hvað skoðanakannanir segja enda væri það hreinlega ekki hægt því kjósendur eru að bíða eftir söluræðum og hreyfa sig ekki nema fá slíkar. Stjórnmálaflokkar verða í sífellu að endurskoða sig og endurnýja þótt þar með sé ekki sagt að þeir þurfi að þeytast um eins og lauf í vindi.
Þar með er heldur ekki sagt að kjósendur séu allir eins og hjörð sem lætur smalahundinn í sífellu senda sig í ógöngur eða inn í sláturhúsið. Vissulega láta þeir táldraga sig með útgjöldum, bótum og niðurgreiðslum og fá í staðinn hærri skatta, fleiri reglur og meira eftirlit. Vissulega láta þeir hræða sig til hlýðni þegar einhver talar um að draga úr opinberri miðstýringu og einokun. En það er samt hægt að greina almennar hneigðir meðal almennings sem hafa þá þrjá megindrætti sem hvern og einn mætti kalla mismunandi stjórnmálahugsjón:
- Það væri ágætt að geta valið um meira á frjálsum markaði samkeppnisreksturs í stað þess að vera bara lofað öllu fyrir ekkert: Ríkisvaldið á að minnka og frjáls samvinna að stækka
- Það væri ágætt að taka val af neytendum og setja í hendur stjórnmálamanna í auknum mæli: Ríkisvaldið á að stækka á kostnað hins frjálsa framtaks
- Mér er sama: Afstöðuleysi
Þessi flokkun felur ekki í sér að ef menn falla í einhvern hóp þá séu þeir sjálfkrafa kjósendur ákveðinna stjórnmálaflokka. Það eru til flokkar sem vilja meira frelsi á sumum sviðum en meiri ríkismiðstýringu og ríkiseinokun á öðrum. Sumir vilja binda niður hægri höndina en losa um þá vinstri: Frelsi til að skeina sér er óskert en það er ekki hægt að klóra sér í nefinu á sama tíma.
Það gæti losað töluvert um umræðuna og haft hreinsandi áhrif að ræða ekki stjórnmál á forsendum flokkanna heldur sem hugmyndabaráttu.
Sunnudagur, 27. október 2019
Styttist í fyrstu sundrungu sveitarfélags
Mikið kapp hefur verið lagt á að sameina sveitarfélög og hefur ríkið haft sérstakan áhuga á því enda getur það þá hlaðið fleiri verkefnum á þau. Sveitarfélögin hafa líka viljað fjölga skattgreiðendum undir sinni stjórn því þá er hægt að taka stærri lán og byggja stærri glæsihallir yfir einhvern þrýstihópinn. Um leið hafa landflæmi sveitarfélaga stækkað sem gerir flótta frá þeim illa reknu erfiðari.
Það fer samt að styttast í að fyrsta hverfið eða nærsamfélagið óski formlega eftir því að fá að stofna sitt eigið sveitarfélag. Köllum það sundrungu sveitarfélags. Í sumum hverfum Reykjavíkur hafa slíkar hugmyndir náð ákveðinni fótfestu og neita að láta sópa sér undir teppið.
Þegar þessi hugmynd verður fyrst lögð fram formlega mun hún mæta mikilli andspyrnu frá kerfinu. Skilyrðaflaumur hins opinbera, í samstarfi við hin stóru og illa reknu sveitarfélög, verður gríðarlegur. Lagaflækjurnar verða miklar. Það verður allt gert til að kæfa svona lagað í fæðingu.
Þó grunar mig að það styttist í fyrstu hreyfinguna sem óskar eftir því að stofna sjálfstætt sveitarfélag. Núverandi þróun samþjöppunar hefur gengið of langt.
Sameining á Austurlandi samþykkt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 25. október 2019
Ok-jökull kemur og fer
Myndin sem fylgir þessari færslu (tekin héðan) sýnir að stærð Ok-jökuls er ekki háð styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu heldur lofthitanum, sem er líka óháður styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu.
BBC sýnir bráðnum íslenskra jökla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 23. október 2019
Áróðurinn bítur sig í rassgatið
Höfum eitt á hreinu:
Plast er gott hráefni sem hefur mikið notagildi og lítil neikvæð áhrif á umhverfið og heilsu manna og dýra og gerir okkur kleift að gera mjög mikið fyrir lítið fé.
Það er hægt að segja svipaða sögu um ál.
Markaðurinn hefur fundið leiðir til að nýta bæði plast og ál á hagkvæman hátt (þrátt fyrir alla skattana, niðurgreiðslurnar og reglurnar).
Það er því synd og skömm að sjá innantóman og tilfinningahlaðinn áróður þrýsta plasti út. Því er þá annaðhvort skipt út fyrir allskonar málma (eins og ál) eða menn reyna að komast hjá því að nota umbúðir þar sem áður voru umbúðir.
Umbúðir verja varning og matvæli og minnka sóun á verðmætum.
Ál er ekki beinlínis sársaukalaus framleiðsla. Hráefni álvinnslu þarf að grafa upp úr jörðu og ógrynni rafmagns þarf til að úr verði endanleg vara. Ál er heppilegt þegar umbúðir þurfa að vera þéttar og léttar eða sem byggingarefni í hluti sem þurfa að vera sterkir og léttir, svo sem hjól og bíla.
Plast hefur líka galla: Það þarf að farga því á réttan hátt að notkun lokinni. Þetta er samt ekkert vandamál ef undan eru skilin nokkur stórfljót í þróunarríkjum. Yfir 90% af öllu plasti sem endar í sjónum rennur úr eingöngu 10 stórfljótum í Afríku og Asíu. Plaströr á Íslandi endar í ruslinu og að lokum í höndum fagaðila sem farga því á einn eða annan hátt.
Áliðnaðurinn gleðst nú yfir því að fólk lætur plata sig. Það er svo einfalt.
Stækkar álmarkaðinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 21. október 2019
Eru batterí umhverfisvæn?
Ég er hrifinn af öllu sem er rafknúið. Það játa ég fúslega. Ég hef notað rafmagnsbíla, allskyns lítil farartæki knúin rafmagni og á fjöldann allan af tækjum sem ganga fyrir rafmagni: Farsíma, vasaljós, Kindle lesbretti, tölvu, rafmagnssígarettur, borvél og svona mætti lengi telja.
Mér dettur samt ekki í hug að telja áhuga minn á rafmagnstækjum vera sérstaklega umhverfisvænan. Er ég þá ekki endilega að tala um að raforkuna þarf að framleiða einhvern veginn með ýmsum hætti. Rafmagnsbíll í Þýskalandi sem keyrir á kolaorku frá Póllandi er ekkert endilega umhverfisvænni en bensínbíll í Þýskalandi.
Batterí eru að mörgu leyti stórhættuleg fyrir umhverfið. Þau eru full af allskyns eiturefnum og gerð úr allskyns sjaldgæfum málmum sem kosta mikla orku og fyrirhöfn að sækja.
Þegar tæknin er þanin til hins ýtrasta er alltaf verið að taka áhættu og það eru menn svo sannarlega að gera í tilviki rafmagnsfarartækja eins og rafmagnsbila. Það er enginn hægðarleikur að slökkva eld sem blossar upp í rafmagnsbíl, og slíkir eldar virðast vera nokkuð algengir.
Það kostar líka mikla orku að setja saman einn rafmagnsbíl. Sá bíll þarf að keyra í mörg ár áður en kolefnislosun vegna hans er jöfnuð út af bensínbíl í fullri notkun.
Svo má ekki gleyma hráefnum batterísins. Þau eru mörg hver sjaldgæf og finnast ekki mjög víða. Barnaþrælkun er jafnvel notuð til að halda í við þrýstinginn að koma nægum hráefnum á markað. Magnið sem einn rafmagnsbíll þarf jafnast á við gríðarlegt magn af hefðbundnum rafmagnstækjum sem eru yfirleitt lítil.
Svipaða sögu má segja um allt hitt dótið sem a að vera svo umhverfisvænt. Vindmyllur eru líka hráefnafrekar, fyrir utan að vera brothættar og óstöðugar og ný tækni sem er sífellt verið að þrýsta út á ystu mörk. Sólarorkuver þurfa líka mikið af allskyns hráefnum sem er erfitt að krækja í.
Ég neita því ekki að það er hægt að gera betur en dæla kolareyk ósíuðum upp í loftið þar sem hann fellur niður sem sót eða súrt regn. Málið er samt að við höfum um svo miklu meira að velja þótt við föllum ekki í allar gildrur dægurmálaumræðunnar um hvað er og er ekki umhverfisvænt.
Alþingi með rafhjól til reynslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 21. október 2019
Á Landspítalinn að setja plástur á sár?
Íslenska heilbrigðiskerfið er margslungið. Sumt af því er í höndum foreldra (að setja plástur á sár), sumt í höndum sérhæfðra einkaaðila (að setja fyllingar í brjóst) og sumt í höndum lækna og hjúkrunarfræðinga á launaskrá hins opinbera (að skipta um liðamót).
Sumt af því sem ríkið sér um eru einkaaðilar líka að gera, svo sem liðskiptaaðgerðir.
Stundum eru einkaaðilar með samninga við ríkið þannig að aðgerðir þeirra fá að falla undir hina opinberu sjúkratryggingu þannig að fólk þarf ekki að borga aukalega ofan á ríflega skattheimtuna til að njóta heilbrigðisþjónustu utan ríkisspítalanna.
En á furðulegustu stöðum hefur ríkið ákveðið að semja ekki við einkaaðila og bjóða fólki í staðinn tvo slæma kosti:
- Að bíða mjög lengi á biðlista eftir aðgerð innanlands (ógnarlangi biðlistinn)
- Að bíða aðeins skemur og vera sent í flugvél til erlendra verktaka í aðgerð (langi biðlistinn)
Þriðji möguleikinn, að bíða á stuttum biðlista og sleppa sjúkrafluginu og komast í aðgerð hjá innlendum verktaka er ekki í boði.
Bæði hinn ógnarlangi biðlisti og hinn langi eru hálfgerður dauðadómur fyrir framtíð fólks á atvinnumarkaðinum. Ég þekki konu sem stendur mér nær og er á hinum langa biðlista. Liðir hennar og hluti beinagrindar eru að slitna í hverju skrefi og lífið sem öryrki blasir hreinlega við. Hún hefur ekki efni á bæði skattinum og aðgerðinni án sjúkratrygginga.
Svona lagað yrði aldrei látið viðgangast í öðrum Norðurlöndum. Í Danmörku er hreinlega búið að lofa fólki stuttri bið og ef það þarf að semja við einkaaðila til að uppfylla það loforð þá er það gert. Punktur.
Að láta fólk slitna upp til örorku á löngum biðlistum er hreinlega út í hött og til merkis um að menn láti hugsjónir um ríkismiðstýringu stjórna því algjörlega hvaða heilbrigðisþjónusta er í boði fyrir venjulegt fólk.
Það er góð ábending að hið opinbera hugleiði vel og vandlega hvað er "kjarnastarfsemi" og hvað er "hliðarstarfsemi" á Landspítala Íslands.
Þumalputtareglan gæti verið: Á Landspítali Íslands að setja plástur á öll sár, eða geta mamma og pabbi eða einhver annar séð um það fyrir lægra verð, á meiri hraða og án þess að senda fólk á örorkubiðlistann?
Álagsgreiðslur verða aflagðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 20. október 2019
Um hin ýmsu markmið ríkisstjórnarinnar
Ríkisstjórnin hefur mörg markmið. Sum eru ákveðin af fyrri ríkisstjórnum og verða þannig markmið ríkisins.
Eitt af þeim er að halda landinu í byggð.
Annað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Á tímabili var einnig lögð áhersla á að dreifa opinberum stofnunum sem víðast um landið. Þannig var Fiskistofa flutt í hvínandi hvelli til Akureyrar og Fæðingarorlofssjóður er á Hvammstanga svo dæmi séu tekin.
Nú er talað um að niðurgreiða innanlandsflug til að hin dreifða byggð geti ferðast á milli landshluta en það þykir mörgum vera vond hugmynd.
Allt stangast þetta á en ég er með eina hugmynd sem fellur að öllum þessum markmiðum: Að Landvernd sýni gott fordæmi sem frjáls félagasamtök og flytji höfuðstöðvar sínar upp á miðhálendið.
Þannig eflist atvinnulífið á miðhálendinu töluvert og starfsfólk mun leggja sitt af mörkum til að viðhalda dreifri byggð.
Starfsmenn Landverndar munu vitaskuld fara allar ferðir sínar fótgangandi til að hrinda ekki loftslagi Jarðar fram af bjargbrún.
Á miðhálendinu er enginn flugvöllur og ófært marga mánuði á ári.
Landvernd getur hér sýnt gott fordæmi og hjálpað yfirvöldum að ná mörgum markmiðum án árekstra.
Til í þetta?
Ekki mjög sniðugt í loftslagssamhengi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 18. október 2019
Hvað kostar að fá tækifæri?
Buckingham-höll auglýsti nýverið laust starf í höllinni, starf þjóns. Það hefur vakið athygli að launin fyrir starfið eru undir lágmarkslaunum í Bretlandi.
Á móti kemur frítt uppihald, ferðalög, þjálfun, starfsreynsla og lífsreynsla.
Hinn nýi þjónn drottningar mun fá ómetanlega reynslu og á ekki eftir að vera í erfiðleikum með að finna annað og betur borgað starf seinna (nema launaklifrið í Buckingham-höll sé bratt að lokinni þjálfun og gefið að eitthvað sé varið í viðkomandi).
Þetta á við um fleiri störf. Tímakaupið er kannski lágt en þegar menn hugsa málið skiptir það oft minna máli.
Lágmarkslaun eru víða svo há að óreynt fólk (t.d. ungt fólk og innflytjendur) fær aldrei tækifæri. Það þarf að ráða reynslumikið fólk sem getur allt á fyrsta degi til að réttlæta kaupið.
Lágsmarkslaun eru hindrun sem gerir atvinnuleysi oft að eina valkostinum. Þegar menn sitja heima og horfa á sjónvarpið á milli þess sem þeir fylla út umsóknir þá er engin verðmætaskapandi reynsla að verða til. Vítahringurinn verður óbrjótanlegar fyrir marga og þeir gefast upp.
Ef menn vilja að fólk afli sér reynslu og þekkingar þá þarf að henda lögbundnum lágmarkslaunum ofan í ruslafötuna og jafnvel gera það löglegt að ráða fólk launalaust.
Bretlandsdrottning á hrós skilið fyrir að veita ómetanlegt tækifæri sem borgar illa.
Drottningin auglýsir starf en launin undir lágmarkskjörum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |