Á Landspítalinn að setja plástur á sár?

Íslenska heilbrigðiskerfið er margslungið. Sumt af því er í höndum foreldra (að setja plástur á sár), sumt í höndum sérhæfðra einkaaðila (að setja fyllingar í brjóst) og sumt í höndum lækna og hjúkrunarfræðinga á launaskrá hins opinbera (að skipta um liðamót).

Sumt af því sem ríkið sér um eru einkaaðilar líka að gera, svo sem liðskiptaaðgerðir.

Stundum eru einkaaðilar með samninga við ríkið þannig að aðgerðir þeirra fá að falla undir hina opinberu sjúkratryggingu þannig að fólk þarf ekki að borga aukalega ofan á ríflega skattheimtuna til að njóta heilbrigðisþjónustu utan ríkisspítalanna.

En á furðulegustu stöðum hefur ríkið ákveðið að semja ekki við einkaaðila og bjóða fólki í staðinn tvo slæma kosti:

  • Að bíða mjög lengi á biðlista eftir aðgerð innanlands (ógnarlangi biðlistinn)
  • Að bíða aðeins skemur og vera sent í flugvél til erlendra verktaka í aðgerð (langi biðlistinn)

Þriðji möguleikinn, að bíða á stuttum biðlista og sleppa sjúkrafluginu og komast í aðgerð hjá innlendum verktaka er ekki í boði.

Bæði hinn ógnarlangi biðlisti og hinn langi eru hálfgerður dauðadómur fyrir framtíð fólks á atvinnumarkaðinum. Ég þekki konu sem stendur mér nær og er á hinum langa biðlista. Liðir hennar og hluti beinagrindar eru að slitna í hverju skrefi og lífið sem öryrki blasir hreinlega við. Hún hefur ekki efni á bæði skattinum og aðgerðinni án sjúkratrygginga. 

Svona lagað yrði aldrei látið viðgangast í öðrum Norðurlöndum. Í Danmörku er hreinlega búið að lofa fólki stuttri bið og ef það þarf að semja við einkaaðila til að uppfylla það loforð þá er það gert. Punktur.

Að láta fólk slitna upp til örorku á löngum biðlistum er hreinlega út í hött og til merkis um að menn láti hugsjónir um ríkismiðstýringu stjórna því algjörlega hvaða heilbrigðisþjónusta er í boði fyrir venjulegt fólk.

Það er góð ábending að hið opinbera hugleiði vel og vandlega hvað er "kjarnastarfsemi" og hvað er "hliðarstarfsemi" á Landspítala Íslands. 

Þumalputtareglan gæti verið: Á Landspítali Íslands að setja plástur á öll sár, eða geta mamma og pabbi eða einhver annar séð um það fyrir lægra verð, á meiri hraða og án þess að senda fólk á örorkubiðlistann?


mbl.is Álagsgreiðslur verða aflagðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

A Landspítalanum er fjöldi lækna sem gætu stytt biðlistana fengju þeir borgað fyrir þá vinnu. Og þeir væru ódýrari en einkastofurnar. Það var prufað fyrir nokkrum árum síðan og gekk vel. Þetta er því ekki spurning um pólitík heldur pening fyrir plástrinum. Og þegar það er spurning um peninga þá er ekkert vit í því að semja við dýrar einkastofur meðan Landspítalinn gæti gert aðgerðirnar fyrir minna, fengist til þess fjármagn.

Vagn (IP-tala skráð) 21.10.2019 kl. 14:48

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Það eru alltaf þessi "ef" sem virðast flækjast fyrir opinberum einokunarrekstri, ítrekað og á öllum sviðum.

Í dag senda menn fólk í flugvélum með fylgdarmann inn á sænskar stofur. Ekki vinnur sænskur læknir ókeypis, né býður Icelandair viðskiptafarrými á smápeninga. Það væri hægt að ganga á vandann strax ef vilji væri til. Menn gætu svo haldið áfram með "ef"-in sín til lengri tíma og sagt upp samningum sem gerðir eru til að brúa "tímabundið" ástand.

Til innblásturs:

https://www.visir.is/g/2019190419098

Geir Ágústsson, 21.10.2019 kl. 15:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband