Hvaða stjórnmálahugsjón aðhyllist þú?

Stundum er fólk skilgreint út frá því hvar það stendur í pólitík. Pólitík eru umræður og skoðanaskipti fólka sem er stundum og stundum ekki skráð í einhvern stjórnmálaflokkinn eða telur einhvern einn stjórnmálaflokk betri kost en annan.

Þetta er þröngur rammi.

Enginn stjórnmálaflokkur er fullkominn og raunar eru þeir allir frekar gallaðir. Stjórnmál eða pólitík er eltingaleikur við atkvæði og menn selja þar hugsjónir sínar, oft á lágu verði, til að kaupa sér hylli. Enginn stjórnmálaflokkur er svo heilsteyptur að hann standi fastur á sínu sama hvað skoðanakannanir segja enda væri það hreinlega ekki hægt því kjósendur eru að bíða eftir söluræðum og hreyfa sig ekki nema fá slíkar. Stjórnmálaflokkar verða í sífellu að endurskoða sig og endurnýja þótt þar með sé ekki sagt að þeir þurfi að þeytast um eins og lauf í vindi.

Þar með er heldur ekki sagt að kjósendur séu allir eins og hjörð sem lætur smalahundinn í sífellu senda sig í ógöngur eða inn í sláturhúsið. Vissulega láta þeir táldraga sig með útgjöldum, bótum og niðurgreiðslum og fá í staðinn hærri skatta, fleiri reglur og meira eftirlit. Vissulega láta þeir hræða sig til hlýðni þegar einhver talar um að draga úr opinberri miðstýringu og einokun. En það er samt hægt að greina almennar hneigðir meðal almennings sem hafa þá þrjá megindrætti sem hvern og einn mætti kalla mismunandi stjórnmálahugsjón:

  • Það væri ágætt að geta valið um meira á frjálsum markaði samkeppnisreksturs í stað þess að vera bara lofað öllu fyrir ekkert: Ríkisvaldið á að minnka og frjáls samvinna að stækka
  • Það væri ágætt að taka val af neytendum og setja í hendur stjórnmálamanna í auknum mæli: Ríkisvaldið á að stækka á kostnað hins frjálsa framtaks
  • Mér er sama: Afstöðuleysi

Þessi flokkun felur ekki í sér að ef menn falla í einhvern hóp þá séu þeir sjálfkrafa kjósendur ákveðinna stjórnmálaflokka. Það eru til flokkar sem vilja meira frelsi á sumum sviðum en meiri ríkismiðstýringu og ríkiseinokun á öðrum. Sumir vilja binda niður hægri höndina en losa um þá vinstri: Frelsi til að skeina sér er óskert en það er ekki hægt að klóra sér í nefinu á sama tíma.

Það gæti losað töluvert um umræðuna og haft hreinsandi áhrif að ræða ekki stjórnmál á forsendum flokkanna heldur sem hugmyndabaráttu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband