Bloggfærslur mánaðarins, desember 2018

Hvað ef Marel ræki sjúkrahús?

Marel er virkur þátttakandi í að auka verðmætasköpun sjávarútvegs á Íslandi og raunar um allan heim.

Þar vinna vélvirkjar, stálsmiðir, forritarar, viðskiptafræðingar og verkfræðingar hörðum höndum að því að aðstoða viðskiptavini sína í að fá meira fyrir minna, eða svo hið óvinsæla orð sé notað, að græða. Hver einasti fiskur sem dreginn er á land er meira virði í dag en áður en Marel kom til leiks. Sá fiskur fæðir fleiri og minna endar á ruslahaugum eða í gini svína. Að hugsa sér!

Það er því áhugavert að velta fyrir sér hvað gæti gerst ef Marel, eða skyld fyrirtæki, fengi að koma að rekstri heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Væri hægt að sjálfvirknivæða eitthvað? Væri hægt að innleiða tækni þar sem mistækar hendur mannsins vinna í dag? Væri hægt að nota gögn á markvissari hátt? Væri auðveldar hægt að spá fyrir um erfiða sjúkdóma og gera þá auðvelda? 

Þessu munu Íslendingar sennilega aldrei komast að því þegar kemur að ríkisrekstri eru þeir fastheldnir. Það tókst með herkjum að einkavæða sementsverksmiðju og bílaskoðun og jarðgöng undir fjörð og koma lit í sjónvarpið og öðrum en RÚV í rekstur ljósvakamiðla. Það mun sennilega aldrei takast að einkavæða Landsspítalann jafnvel þótt hægt væri að sækja dæmi um vel heppnaða einkavæðingu af því tagi til Norðurlandaþjóðanna (sem er vel á minnst hægt).

"Fylgjum fordæmi nágranna okkar í Evrópu" segja Íslendingar, en bara þegar sömu nágrannar innleiða hærri skatta, fleiri reglur og meiri ríkisrekstur. Þetta viðmið á aldrei við þegar kemur að því að sleppa tökunum. Íslendingar eru að þessu leyti kaþólskari en páfinn


mbl.is Stofnendurnir ótrúlega framsýnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Risaeðlur skipuleggja viðbrögð við loftsteini

Fyrir 65 milljónum ára skall loftsteinn á Jörðina sem breytti veðurfari Jarðarinnar allrar í þá veruna að risaeðlurnar gátu ekki þolað við, eða svo hljóðar ein kenningin.

Risaeðlurnar gátu ekki brugðist við með neinum hætti. Þær gátu litið til himins og séð hvað var að gerast og beðið örlaga sinna.

Verkalýðsfélög eiga í vændum sömu örlög og risaeðlurnar. 

Fólk mun ekki sætta sig við að láta aðra semja um laun sín, kaup og kjör. Vissulega mun fólk vilja aðgang að lögfræðingi til að renna yfir samninga og bregðast við brotum á réttindum sínum. Slíka þjónustu veita verkalýðsfélög vissulega en sömuleiðis sérhæfðir aðilar sem láta það alveg eiga sig að byggja sumarbústaði og niðurgreiða gleraugu, t.d. Félag lykilmanna á Íslandi. Í Danmörku eru slík stéttarfélög kölluð gul stéttarfélög, á meðan risaeðlurnar kallast rauð stéttarfélög (með skírskotun í kommúnískar rætur þeirra).

Launataxtar rauðu stéttarfélaganna umbuna meðalmennsku. Þeir sem standa sig best fá ekki hærri laun. Þeir lélegustu njóta meðallauna eins og aðrir og hafa enga hvata til að bæta við sig verðmætaskapandi hæfileikum. Stéttarfélögin byggja sér risahallir og ráða fjölda einstaklinga til að miðla sumarbústöðum og gleraugnastyrkjum. Allt kostar þetta félagsmenn fúlgur fjár sem þeir fá aldrei til baka, sama hvað þeir fara oft í sumarbústað. 

Auðvitað er ríkisvaldið ekki að fara afnema ýmis forréttindi stéttarfélaganna. Það hentar ríkisvaldinu ákaflega vel að sópa ákveðnum fagstéttum inn í girðingar og geta svo bara átt við þær þar. Ríkið lofar starfsöryggi í skiptum fyrir flókna launataxta sem fólk festist í. Þetta tryggir trygga kjósendur sem óttast ys og þys hins frjálsa markaðar.

Loftsteininn er samt lagður af stað og risaeðlurnar ættu að líta til himins.


mbl.is Formaður VR bjartsýnn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er tími ofurviðkvæmni að líða undir lok?

Undanfarin 10-20 ár hefur ríkt ofurviðkvæmni í mörgum samfélögum. Slíkri viðkvæmni mætti lýsa sem svo að sá sem móðgast fyrstur eða stimplar sig sem mesta fórnarlambið hefur fengið að ráða yfir öllum öðrum.

Þessi ofurviðkvæmni hefur náð góðum tökum á íslenskri dægurmálaumræðu. Besta dæmið er sennilega vitleysan sem fór í gang þegar einhver hjúkrunarfræðingurinn móðgaðist yfir því að hafa lesið orðið hjúkrunarkona í barnabók og vatt sér á samfélagsmiðla til að lýsa yfir hneykslun sinni. 

Í Danmörku, þar sem ég bý, hafa sumir reynt að láta ofurviðkvæmnina stjórna öðrum en tekist eitthvað illa upp. Eitt mál fékk þó nokkra athygli í fjölmiðlum hér. Þeldökk kona hafði móðgast yfir því að samstarfsfélagar hafi sungið gamalt og þekkt danskt þjóðlag um ljóshærða stúlku. Henni fannst hún vera skilin útundan. Ég held að Danir hafi að lokum ákveðið að þetta væri kjánaskapur og að lagið væri gott og gilt.

Uppreisnin gegn ofurviðkvæmninni er vonandi hafin.


mbl.is „Láta ráðið ekki berja á sér lengur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögreglan svífur að Pétursbúð

Einhver þrælaeigandinn heldur fólki við vinnu í matvöruverslun, sennilega hlekkjað við afgreiðsluborðið, langt inn í aðfangadag. Það ætti að siga lögreglunni á hann.

Annars staðar sitja menn við tölvuna eða rennibekkinn og framleiða arðbærar lausnir við áríðandi vandamálum og svíkja þar með löggjafann og kirkjuna um heilagan frítíma.

Á flestum heimilum hamast fólk svo við að búa til soð og steikja kjöt og gleyma alveg að slappa af.

Á næsta ári verður brjálað að gera hjá Alþingismönnum að skrifa viðurlög við því hneyksli sem vinna á jólunum er!

Eða hvað?

Ég held að afleiðingin af ströngum íslenskum helgidagalögum sé sú að venjulegt fólk lendir í vandræðum því úrræði þess verða færri.

Að vísu hafa þessi lög rýmkað örlítið undanfarin ár en miðað við þau dönsku líkist Ísland hálfgerðu klerkaríki. Eða hvenær verður hægt að fá sér í glas á föstudaginn langa eða fara út að borða á aðfangadag?


mbl.is Bjargvættur Íslendinga um jólin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppskeruhátíð kapítalismans gengur í garð

Í dag er aðfangadagur jóla og uppskeruhátíð kapítalismans gengur í garð.

Við notum tækifærið og gerum það sem við getum til að gleðja þá sem standa okkur næst. Margir styrkja líka þá sem aðstoða þá sem þurfa hjálp á þessum kalda og dimma árstíma. Við hugum sérstaklega að þeim sem eru einmana eða ósjálfbjarga eða bæði. Velferðarkerfið er sett ofan í skúffu og við taka frjáls félagasamtök og góðhjartaðir einstaklingar. Þær fáu krónur sem ríkisvaldið leyfir okkur að halda eftir af launum okkar rata auðveldar í söfnunarkassa góðgerðarsamtaka.

Íbúar ríkra og þróaðra ríkja halda jólin með því að skiptast á gjöfum og borða góðan mat. Við tökum út hluta hagnaðarins af allri verðmætasköpuninni ef svo má segja. Þeir sem hafa valið sósíalisma og vanþróun geta ekki gert það sama. Þeir þurfa að treysta á að brauðmolar falli af nægtaborði kapítalismans til að geta leyft sér eitthvað. Þeir brauðmolar falla auðveldar í kringum jólin en annars, en eru bara það: Brauðmolar.

Auðvitað eru þeir til sem spjara sig illa í frjálsu markaðshagkerfi. Hlutfallið er samt lítið og oft bundið við þá sem hafa valið sér ákveðinn lífsstíl, svo sem að vera einstæðir foreldrar, fjárhættuspilarar, fyllibyttur og eiturlyfjaneytendur. Þeir sem hafa beinlínis orðið fyrir einskærri óheppni á lífsleiðinni, t.d. hlotið erfiða sjúkdóma og hafa enga aðstandendur til að hlúa að sér, eru svo lítið hlutfall fólks að því má auðveldlega hjálpa ef það biður um hjálp.

Jólin eru hátíð barnanna og fjölskyldunnar og það er heiður og ánægja að geta fagnað henni í frjálsu markaðshagkerfi sem leyfir svigrúm til að gera aðeins betur við sig og sína en venjulega. Fyrst og fremst gefum við okkur samt meiri tíma til að vera saman, og höfum efni á því án þess að svelta. Það er stærsta gjöfin.


Góð byrjun

Höfum eitt á hreinu: Ríkisvaldið í flestum vestrænum ríkjum er alltof stórt, fyrirferðarmikið, afskiptasamt og þrúgandi.

Allt sem ríkisvaldið gerir er annaðhvort óþarfi eða gæti verið gert betur af einkafyrirtækjum í samkeppnisrekstri. Þá meina ég allt.

Einokun leiðir alltaf til stöðnunar og rýrnunar á þjónustu sem um leið hækkar í verði. Gildir einu hvort sú einokun er á ríkisrekstri eða einkarekstri. 

Þetta er mikilvægt að hafa í huga. Um leið og einhver boðar ríkiseinokun á einhverju er viðkomandi að berjast fyrir stöðnun og sérhagsmunum. Þegar einkafyrirtækjum er beint eða óbeint bannað að bjóða í viðskipti (hvort sem það er skósala eða skurðaðgerð) er verið að sveipa stöðnun verndarhjúp.

Ef ég hefði aðgang að Bandaríkjaforseta myndi ég segja við hann: Taktu eftir því hvaða ríkisstofnanir loka og hvaða afleiðingar það hefur. Hugleiddu leiðir til að einkavæða þá þjónustu sem einhver saknar en leggja hina niður. Þú gætir minnkað ríkisvaldið um tugi prósenta á mjög skömmum tíma og leist úr læðingi mikla orku frá einstaklingum sem fá meira svigrúm.

Góð byrjun, ekki satt?


mbl.is Hluta alríkisstofnana lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur Trump alltaf rangt fyrir sér?

Svo virðist sem sumir telji að allt sem Trump segi eða geri sé rangt.

Ef honum finnst epli góð blasir við að þau eru það ekki. 

Ef hann vill lækka skatta blasir við að það sé slæm hugmynd. Ef það á að lækka skatta þá á að lækka einhverja allt aðra skatta. 

Ef hann vill auka ríkisútgjöld snúast jafnvel hörðustu vinstrimenn gegn honum. Þetta eru jú röng útgjöld sem aukast. 

Ef hann sendir sprengjur á einhverja er það árás á friðsama borgara.

Ef hann vill draga hermenn úr átökum breytast hvítustu friðardúfur í herskáa hauka sem vilja hafa hermenn sem víðast.

Að mínu mati er heppilegast að líkja Donald Trump við bilaða klukku. Slíkar klukkur hafa rétt fyrir sér tvisvar á sólarhring. 

Það er gott mál að Bandaríkin dragi hermenn út úr Miðausturlöndum.


mbl.is Vara við hernaðarlegu tómarúmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolefnisjöfnun er hin nýja skattheimta

Sífellt fleiri tala nú um að kolefnisjafna hitt og þetta.

Til hvers?

Plöntur éta kolefni og nota til að stækka og framleiða súrefni. Heimurinn er að grænka. Náttúran kolefnisjafnar til lengri tíma.

Eldfjall gýs. Hvað er til ráða? Hækka skatta á íslenska bifreiðaeigendur?

Kolefnisóttinn er hin nýja skattheimta. Það mistókst að selja Vesturlandabúum kommúnisma. Nú er búið að klæða kommúnismann í grænan hjúp. Fólk virðist ætla að falla í gildruna og ætlar að neita íbúum Indlands, Kína og Afríku að afla sér hagkvæms eldsneytis og bæta lífskjör sín. Vesturlandabúar gefa auðvitað ekki frá sér sinn auð. Þetta er glapræði. 

Hættum að kolefnisjafna. Það er versta fjárfesting sem hægt er að hugsa sér, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga til skemmri tíma og mannkynið til lengri tíma.


mbl.is Hægt að kolefnisjafna losun sjókvíaeldis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðstýrð einokun leiðir til einsleitni

Menntakerfið er frekar einsleitt, frekar miðstýrt einokunarbákn.

Slík bákn svara sjaldan kröfum nokkurs manns nema þeirra sem starfa innan kerfisins.

Miðstýrð ríkiseinokun leiðir til einsleitni og þrýstir fólki af öllum gerðum inn í sömu mótin. Sumir fljúga í gegn en aðrir brotna á leiðinni.

Vonandi kemur þetta engum á óvart. Um leið vona ég að fólk hugleiði aðeins áhrif þess að halda menntakerfinu í slíkri gíslingu.


mbl.is Snýst allt um þessa hvítu húfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar sæki ég um?

Ríkisstyrkir þvinga fé frá einum til annars, brengla markaðinn, senda röng skilaboð, niðurgreiða óhagkvæmni, refsa óstyrktri en hagkvæmari samkeppni, gera móttakendur að ölmusaþegum, taka úr sambandi óskir neytenda og svona má lengi telja.

Engu að síður er freistandi að skoða alla þessa ríkisstyrki og athuga hvort það sé hægt að krækja í einhverja þeirra og fá þannig hluta af skattgreiðslum sínum endurgreiddar.

Nú bý ég að vísu í Danmörku en ég leyfi mér stundum að hugsa sem svo að ég búi á Íslandi.

Það á sem sagt að niðurgreiða þýðingar á Lukku Láka og Ástríki. Hvað ætli pólitíska rétttrúnaðarkirkjan segi við því? Má fjalla um indíána með þeim hætti sem gert er í Lukku Láka? Er Steinríkur ekki staðalímynd feita og lata mannsins? Nú þegar ríkisstyrkir eru komnir í spilið er ekki lengur um að ræða frjálst samstarf útgefenda og neytenda. Nei, skattgreiðendur eru komnir í málið. Hvernig fer það?

Nú þegar eru gefnar út fjölmargar bækur í númeruðum ritröðum. Gengur það ekki bara prýðilega án ríkisstyrkjanna? Eitt í uppáhaldi á mínu heimili er Skúli skelfir. Þar er strákur með athyglisbrest sýndur ganga af göflunum með reglulegum hætti um leið og sköpunargleði hans er kæfð og ofbeldishneigð hans er ræktuð. Þetta er í lagi án ríkisstyrkja. Hvað gerist þegar skattgreiðendur eru þvingaðir að útgáfunni?

Ég skrifa oft og mikið á ýmsum tungumálum. Hvað þarf ég að skrifa og á hvaða tungumáli til að krækja í ríkisstyrki? Það er jú svo erfitt að fá fólk til að kaupa af fúsum og frjálsum vilja.


mbl.is Lukku-Láki og Ástríkur fá endurgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband