Uppskeruhátíð kapítalismans gengur í garð

Í dag er aðfangadagur jóla og uppskeruhátíð kapítalismans gengur í garð.

Við notum tækifærið og gerum það sem við getum til að gleðja þá sem standa okkur næst. Margir styrkja líka þá sem aðstoða þá sem þurfa hjálp á þessum kalda og dimma árstíma. Við hugum sérstaklega að þeim sem eru einmana eða ósjálfbjarga eða bæði. Velferðarkerfið er sett ofan í skúffu og við taka frjáls félagasamtök og góðhjartaðir einstaklingar. Þær fáu krónur sem ríkisvaldið leyfir okkur að halda eftir af launum okkar rata auðveldar í söfnunarkassa góðgerðarsamtaka.

Íbúar ríkra og þróaðra ríkja halda jólin með því að skiptast á gjöfum og borða góðan mat. Við tökum út hluta hagnaðarins af allri verðmætasköpuninni ef svo má segja. Þeir sem hafa valið sósíalisma og vanþróun geta ekki gert það sama. Þeir þurfa að treysta á að brauðmolar falli af nægtaborði kapítalismans til að geta leyft sér eitthvað. Þeir brauðmolar falla auðveldar í kringum jólin en annars, en eru bara það: Brauðmolar.

Auðvitað eru þeir til sem spjara sig illa í frjálsu markaðshagkerfi. Hlutfallið er samt lítið og oft bundið við þá sem hafa valið sér ákveðinn lífsstíl, svo sem að vera einstæðir foreldrar, fjárhættuspilarar, fyllibyttur og eiturlyfjaneytendur. Þeir sem hafa beinlínis orðið fyrir einskærri óheppni á lífsleiðinni, t.d. hlotið erfiða sjúkdóma og hafa enga aðstandendur til að hlúa að sér, eru svo lítið hlutfall fólks að því má auðveldlega hjálpa ef það biður um hjálp.

Jólin eru hátíð barnanna og fjölskyldunnar og það er heiður og ánægja að geta fagnað henni í frjálsu markaðshagkerfi sem leyfir svigrúm til að gera aðeins betur við sig og sína en venjulega. Fyrst og fremst gefum við okkur samt meiri tíma til að vera saman, og höfum efni á því án þess að svelta. Það er stærsta gjöfin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sjáðu til, þú ert ekki að ná þessu.

Ef við hefðum ekki þennan dásamlega ríkissósíalisma, þá væru sennilega fleiri fátækir og illa haldnir þarna úti.
Í stað þess að þurfa að horfa upp á auðnuleysingja sitja aðgerðarlausa og betla á gangstéttum, höfum við fært þá inn í hlýjuna, látið þá hafa skrifborð og stól, gefið þeim virðuleg starfsheiti ríkisstarsmanna, og í stað þess að láta þá betla, gefið þeim vopn til að sækja sér fé með valdi. Bless bless auðmýkjandi betl.

Nú vitum við að það eru ekki allir sem fíla það að vera beinir ríkisstarfsmenn, en eru samt brennheitir sósíalistar, en við tæklum það nú bara með því að senda þeim peninginn beint heim, gegn því að þeir lofi að skrifa eins og eina bók einhverntíma í framtíðinni. Auðvitað fá þeir einir sem skilja nauðsyn sósíalisma slíka meðferð, skárra væri það nú.

Ég veit ekki, en mér skilst að það sé ekki búið að ná til allra sem eiga erfitt, en það hlýtur að skrifast á alltof væga skatta. Hvernig væri nú, um leið og við skattleggjum bílaeigendur aftur, til að borga það sem bílaskattarnir áttu að borga, en fara í eitthvað annað, að setja á e-k velferðarskatt? Við getum t.d. ráðið fleiri af gangstéttinni, og skellt þeim við hliðina á afgreiðslukössum landsins, og innheimt fé beint, svona til að borga það sem atvinnulífið og almenningur hafa þegar verið skattlagðir til að borga.
Enginn maður kemst framhjá kassa nema að láta eitthvað úr hendi rakna. Ég meina, þetta er stefnan að þeir borgi sem nota. Þessir peningar sem eru í umferð, eru náttúrulega í sameign þjóðarinnar, og það má alls ekki misskipta þeim, þannig að sósíalistar fái minna en aðrir, bara af því að þeir eru auðnuleysingjar. Ég meina, hver prentar peningana sem eru í umferð, er það ekki Seðlabankinn? Og hver á Seðlabankann, eru það ekki við?
I rest my case.

Það er ekki neitt smáræði sem við myndum græða á því, sköpum þúsundir og aftur þúsundir starfa, slátrum atvinnuleysinu, græðum ofboðslega marga peninga, útrýmum fátækt og lifum eins olíufurstar, hvert og eitt okkar.

Hilmar (IP-tala skráð) 24.12.2018 kl. 10:52

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Þetta er rétt hjá þér, auðvitað! Það sést líka á tölfræði flóttamanna að þeir streyma INN í löng þar sem ríkið bannar einkaeigu og komið á handahófskenndu réttarfari, og FRÁ vandamálaríkjunum þar sem fólk fær að tjá sig, eiga hluti og senda ríkisvaldinu miðputtann án þess að rjúka í steininn.

Auðvitað.

Geir Ágústsson, 26.12.2018 kl. 20:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband