Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Tölfræðin sem lagaðist af sjálfu sér

Markmið um "aukinn jöfnuð" næst af sjálfu sér, af nokkrum ástæðum.

Í fyrsta lagi vegna þess að hálaunastörf í bankageiranum hafa meira og minna þurrkast upp. Þau urðu til af ástæðum sem eru taldar upp í þessari fróðlegu grein um nokkuð sem fáir þekkja til, en allir ættu að kunna betur en eigin kennitölu.  

Í öðru lagi veldur pólitísk og vaxandi rányrkja yfirvalda á launþegum og fyrirtækjaeigendum því að hálaunastörf hverfa úr landi eða leita inn á hinn "svarta" markað. Markmið um jöfnun launa næst með því að þvinga hæstu launin niður, og lægstu launin enn neðar, eða með því að útrýma hálaunastörfum og gera alla jafnilla stadda.

Ríkisstjórnin getur því óhætt haldið áfram að innleiða harðkjarna sósíalisma sinn og uppskorið um leið mikinn "árangur" á tekjujöfnunarmarkmiði sínu. En á meðan er hagkerfið drepið smátt og smátt.


mbl.is Markmið um jöfnuð að nást
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Holl lesning um verðbólgu

Á Viðskiptablaðinu er núna hægt að lesa mjög fróðlega og ljómandi vel skrifaða grein um verðbólgu. Greinilegt er að höfundur hennar, 

  • Veit hvað hann er að tala um.
  • Hefur ekki látið vitleysuna sem kennd er í hagfræðideild Háskóla Íslands brengla hugsanir sínar. 

 Tilvitnun:

 Það er peningaprentun sem veldur verðhækkun og óstöðugleika á hrávörumörkuðum. Verðbólga er alltaf og alls staðar peningalegt fyrirbæri og það hefur enga þýðingu að senda spákaupmenn á námskeið í samfélagslegri ábyrgð á meðan módelsmiðir seðlabankanna eru að krukka í peningakerfið.

Þeir sem vilja skilja hagkerfið, peninga, viðskipti og hvata er vinsamlegast bent á að halda sig fjarri öllu "hefðbundnu" námi í hagfræði. Svo virðist vera að eftir því sem einstaklingur er sprenglærðari í hagfræði, þeim mun minni líkur eru á að viðkomandi viti eitthvað um hagfræði.

Viðskiptablaðið gerir vel með því að bjóða upp á sína ljómandi umfjöllun um verðbólgu og peninga. Ætlar Morgunblaðið ekki að fylgja henni eftir? 


mbl.is Afnám hafta brýnasta verkefnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sósíalisminn vofir yfir Íslandi

Morgunblaðið var svo vingjarnlegt að birta litla grein eftir mig í dag. Hana má lesa hérna. Ég vona að hún hafi einhver áhrif á einhvern og verði jafnvel til þess að aðeins fleiri byrji að kalla sósíalista sínu rétta nafni: Sósíalista.

Baráttan gegn ríkisvaldinu má aldrei stöðvast. Almenningur þarf að sýna ríkisvaldinu fyrirlitningu og tortryggni og efast um allt sem það gerir eða ætlar sér að gera.

Allt sem ríkisvaldið tekur að sér verður verra en áður. Allt sem ríkisvaldið sópar undir væng ríkiseinokunar og þvingunar rýrnar í gæðum og hækkar í verði.

Þeim mun mikilvægara sem eitthvað er (t.d. heilbrigðisgæsla og menntun), þeim mun mikilvægara er að losa það úr klóm ríkisvaldsins.

Það var gott hjá ríkisvaldinu á sínum tíma að leyfa fleirum en sprenglærðum augnlæknum að mæla sjónstyrk fólks. En hvað með aðra heilbrigðisþjónustu? Hana þarf líka að frelsa úr greipum hins opinbera.

Það var gott þegar ríkisvaldið afnám bann við sölu á sementsframleiðslu annarra en ríkisverksmiðjunnar á sínum tíma. En hvað með lyf, áfengi og lambakjöt? Allt þetta þarf líka að komast út á hið aukna svigrúm hins frjálsa markaðar, án afskipta og niðurgreiðsla og ríkiseftirlits. 

Þróunin er samt í hina áttina. Ríkisvaldið er ekki að hleypa úr greipum sínum, heldur sópa í þær nýjum og nýjum verkefnum. Almenningur tekur varla eftir þessu, því svo miklu ryki er þyrlað upp til að afvegaleiða umræðuna, að enginn sér hvað er að gerast.

En ég vona sem sagt að mín örfáu orð veki einhvern til umhugsunar.

Njótið vel! 


Hvað með ríkisvaldið?

Svindl og prettir og falsanir og lygar eru að sjálfsögðu ekki fyrirbæri sem á að umbera. Sá sem selur varning á fölskum forsendum á að fá dóm sem falsari.

Stærsti svindlarinn fær samt aldrei dóm. Sá svindlari sér raunar um að senda út falskar upplýsingar í tíma og ótíma og margir kalla þessa fölsku útgáfu upplýsinga "nauðsynlega".

Á árunum fyrir hrun sá ríkisvaldið til dæmis um að gefa út skýrslur oft á ári sem sögðu Íslendingum að íslensku bankarnir væru þeir bestu og traustustu í heimi.

Núna vinna tugir einstaklinga hjá ríkinu að því að leika sér í Excel-skjölum til að láta sambland fólksflótta frá Íslandi og vaxandi atvinnuleysis líta út eins og minnkandi atvinnuleysi.  

Enn aðrir sitja í ýmsum nefndum og hafa komist að þeirri niðurstöðu að til að tryggja "stöðugleika" í hagkerfinu þurfi að binda sífellt þéttari ríkishöft utan um peningaviðskipti á Íslandi og hafa heilan her einstaklinga í vinnu við að skoða kortafærslur og fylgjast með því að gjaldeyri sé "skilað" eftir að hans hefur verið aflað.

Ríkisvaldið er stærsti lygarinn, féflettarinn, svindlarinn og svikahrappurinn.  


mbl.is Unglingar féflettu fjárfesta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kommúnisti hrósar Jóhönnu Sigurðardóttur

Forsætisráðherra Kína hrósaði Íslandi fyrir árangur sinn í uppbyggingu eftir efnahagshrunið. 
 
Kommúnisti hrósar Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir "árangur sinn". Það er viðeigandi. Samt má ekki gleyma því að Kínverjar eru markvisst og meðvitað að nota allt aðra efnahagsstefnu. Þeir eru að spara og fjárfesta. Íslendingar eru að taka lán og eyða í neyslu. "Árangurinn" af slíkri stefnu er í besta falli lítill og til skamms tíma. Þetta veit Kínverjinn sem hrósaði Jóhönnu. Kannski var hrósið gefið í ískaldri kaldhæðni? Eða til að mýkja Íslendinga til að auðvelda aðgengi Kínverja að auðlindum norðursins?
 
Jóhanna Sigurðardóttir sofnar örugglega með bros á vör eftir að hafa fengið hrós frá kínverskum kommúnista. Sennilega var samt bara verið að gera hana að fífli.  

mbl.is Ræddi stöðu mannréttindarmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsögn: Að ríkið styðji skóla, sem eigi að tengjast atvinnulífinu

Ég sé að enn eina ferðina á að reyna að "tengja" betur saman ríkisrekna skóla og atvinnulífið.

En á sama tíma er ríkisvaldið beðið um að halda áfram að ausa fé í sömu skóla.

Þetta er ákveðin mótsögn. Skóli sem treystir á ríkisvaldið til að framfleyta sér getur menntað nemendur í hverju sem er, líka því sem gagnast engum í atvinnulífinu. Nemendur sækja gjarnan "skemmtilegt" og "spennandi" nám í bókalestri og gagnslausum fræðum og afla sér þannig þekkingar og þjálfunar sem enginn vill borga fyrir, nema ríkisvaldið.

Þessi ríkisvæðing skólakerfisins er stór ástæða þess að skólakerfið lifir oft sínu eigin lífi og er án tengsla við atvinnulífið. Að háskóli bjóði upp á nám sem veitir þjálfun í einhverju sem enginn er tilbúinn að greiða laun fyrir er einfaldlega merki um að skólinn sé að miklu leyti aftengdur raunveruleikanum, sem hann á samt að vera þjálfa fólk fyrir.

Ef ætlunin er að tengja saman atvinnulífið og skólakerfið þarf að gera skólana fjárhagslega háða atvinnulífinu, t.d. með því að gera skólana háða styrkjum frá fyrirtækjum, eða skólagjöldum frá nemendum sem vita að ef þeim tekst ekki að afla sér menntunar í einhverju sem skapar verðmæti og borgar góð laun, þá verði erfitt að greiða skólagjöldin (ef þau hafa verið tekin að láni).  

Þetta er besta leiðin til að tengja saman skóla og atvinnulíf.

Í verkfræðideild HÍ, þaðan sem ég er klakinn út sem háskólamenntaður maður, er löng hefð fyrir því að lokaverkefni í meistaranámi séu skrifuð fyrir fyrirtæki, sem borga í staðinn einhvers konar táknræna þóknun fyrir (sem þó nægir til að fjármagna hið ódýra líf námsmannsins).  Þetta hefur nægt verkfræðideildinni til að kenna nokkurn veginn í takt við þarfir atvinnulífsins. Svo meira þarf kannski ekki til, þótt meira sé alltaf æskilegra en minna þegar kemur að einkavæðingu og frelsun frá ríkisvaldinu.


mbl.is Nauðsynlegt að tengja betur háskóla og atvinnulíf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illa nýtt tækifæri fréttamannsins

Fréttamaður Reuters hefur fengið að sjá verstu hliðar Norður-Kóreu með berum augum. Hann gerir samt enga tilraun til að útskýra hvað er að. Hann notar ekki tækifærið til að fordæma sósíalisma, alræðisstjórn og einangrun Norður-Kóreu. Það er nánast eins og honum finnst íbúar Norður-Kóreu bara vera óheppin fórnarlömb hungurs og fátæktar.

Vandamál Norður-Kóreu eru heimatilbúin, rétt eins og vandamál annarra ríkja sem kljást við fátækt og vanþróun. Þau eru vandamál sósíalisma. Fátæk ríki eru alltaf umlukin heimatilbúnum viðskiptahindrunum, í þeim er eignarétturinn ekki til eða illa varinn fyrir ágengni yfirvalda og þeir sem ráða eru harðsvíruðustu stjórnmálamennirnir.

Þessi frétt um Norður-Kóreu er átakanleg og snertir vonandi alla sem hana sjá og lesa. En hún er frekar tilgangslaus ef þeir sem hana lesa gera sér ekki grein fyrir því hvað liggur að baki hinu dapurlega ástandi í Norður-Kóreu. 

Þeir sem boða sósíalisma á Vesturlöndum [1|2|3|4] eiga hiklaust að fá spurninguna: "Viltu að við verðum eins og Norður-Kórea?" 


mbl.is Sjaldgæf sýn inn í Norður-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Taprekstur á heimilum á Seltjarnarnesi

Fátt fer meira í mína fínustu taugar en þegar orð úr rekstrarhagfræði fyrirtækja eru notuð um rekstur hins opinbera.

Hið opinbera er ekki háð náð og miskunn viðskiptavina. Hið opinbera ákveður sjálft hvað það eyðir miklu, í hvað og hvenær. Hið opinbera getur ákveðið að eyða meiru en það lemur úr skattgreiðendum, og skuldsett þannig skattgreiðendur. Hið opinbera getur ákveðið að eyða miklu og skattleggja mikið.

Þannig er rekstur Seltjarnarness uppbyggður. Sveitarfélagið eyðir miklu fé í allskyns dúllerí, og skattleggur líka mikið og raunar aðeins meira en það eyðir. Þetta er ekki "rekstrarhagnaður". Þetta er einfaldlega meiri skattlagning en sem nemur kostnaði við það sem sveitarfélagið ákveður að sé á sinni könnu. 

En hvað væri gott orð til að lýsa reikningshaldi opinberrar einingar sem sýgur meira fé úr skattgreiðendum en hún eyðir í allskonar hitt og þetta?

Ofsköttun? "Ofsköttun nam 93 milljónum króna."

Öll sköttun er ofsköttun, en orðið gæti engu að síður hentað vel í þessu samhengi.

Vaneyðsla? "Vaneyðslan nam 93 milljónum króna."

Markmið hins opinbera er jú alltaf að eyða jafnmiklu eða meira en það getur lamið út úr skattgreiðendum. Frá sjónarhóli hins opinbera (og vinstrisinnaðra blaðamanna) er því um að ræða vaneyðslu.

Skattheimtuyfirskot? "Skattheimtuyfirskot Seltjarnarness nam 93 milljónum króna."

Hið opinbera reynir að eyða a.m.k. jafnmiklu og það getur kreist út úr skattgreiðendum. Ef hið opinbera fær "óvænt" meira í ránsfeng en áætlanir gerðu ráð fyrir hlýtur það að geta kallast skattheimtuyfirskot, eða eyðsluundirskot.

"Rekstrarhagnaður" er orð sem á að vera frátekið fyrir einstaklinga og einkafyrirtæki. Hið opinbera er allt öðruvísi rekstur en sá sem fer fram í hinum frjálsa hluta samfélagsins.  


mbl.is Rekstrarhagnaður á Seltjarnarnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna hittir naglann á höfuðið (óvart)

Jóhanna slysast stundum til að segja eitthvað sem heldur vatni. Dæmi (feitletrun mín):

Þá sagði Jóhanna aðspurð um ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, um að gera ætti hlé á viðræðunum við ESB um aðild að það væri aðeins pólitík af hans hálfu.

Orð Jóhönnu má nota til að draga saman efnahagsstefnu, fjármálastefnu, utanríkisstefnu, peningastefnu og raunar stefnu ríkisstjórnarinnar í flestum málaflokkum saman í tvö orð: Aðeins pólitík.

Efnahags-, skatta- og bótagreiðslustefna ríkisstjórnarinnar snýst um að koma á ölmusaþjóðfélagi í anda vinstrimanna, eða vasapeningasamfélagi með orðum Vefþjóðviljans. Hver einn og einasti Íslendingur veit að skattahækkanir og reglugerðavæðing kæfir hagkerfið. Enginn getur sagt af einlægni að skattahækkanir muni ekki drepa niður frumkvæði, fjárfestingar og aðlögun einstaklinga og fyrirtækja að efnahagslegum þrengingum. Því ættu flestir að gera sér grein fyrir að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar eiga sér aðrar ástæður en þær að beina hagkerfinu á réttar brautir. Þær ástæður eru "aðeins pólitík" vasapeningasamfélagsins.

Peningastefna ríkisstjórnarinnar snýst um að þjarma að þeim sem stunda viðskipti í íslenskum krónum. Þannig má fegra evruna og þar með Evrópusambandið, en aðild að því er eiginlega eina raunverulega stefna ríkisstjórnarinnar (og rammpólitísk, vitaskuld). Gjaldeyrishöftin hafa gríðarlega margar og slæmar afleiðingar í för með sér. Þeim er samt viðhaldið. Ástæðan er ekki sú að það gagnast verslun og viðskiptum, heldur er hér um að ræða "aðeins pólitík."

Utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar er bara til staðar þegar draga þarf athyglina frá óþægilegum málum innanlands. Það er "aðeins pólitík" af hálfu ríkisstjórnar sem er leidd af forsætisráðherra sem forðast útlendinga eins mikið og hægt er.

Vinstristjórnin hefur líka verið dugleg að bjarga eigendum einkarekinna banka frá tapi vegna gjaldþrota. Það er óskiljanleg stefna, og ekki síður óskiljanleg þegar hún er framkvæmd af vinstrimönnum. En hún er "aðeins pólitík" (sem ég kann samt ekki skilning á).

Jóhanna hitti svo sannarlega naglann á höfuðið þegar hún útskýrði pólitík annarra pólitískusa með orðunum "aðeins pólitík". En hún ætti að líta sér nær. 


mbl.is Rangt að leggjast gegn kröfunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er 'of hátt' verð?

Að mati dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna hafa neytendur greitt of hátt verð fyrir bækurnar ...

Þegar neytendur og yfirvöld eru ósammála, hver hefur þá rétt fyrir sér?

Neytendur hafa keypt rafbækur og greitt uppsett verð fyrir þær. Þeir hafa geta valið sér marga söluaðila. Allir þeirra hafa haft samráð sín á milli, annað hvort beint (t.d. með fundahöldum) eða óbeint (með því að leggja sín verð upp að verðum samkeppnisaðila). Svona starfa t.d. verkalýðsfélög þegar þau semja um kaup og kjör fyrir hönd félagsmanna sinna. Þau miða við "skylda" hópa í hagkerfinu í sínum samningaviðræðum. Yfirvöld hafa ekki lagt í að banna þetta "samráð" verkalýðsfélaga. Það er óvinsælt í stjórnmálum. Þau hika hins vegar ekki við að hamra á fyrirtækjum sem stjórnast eingöngu af vilja neytenda. Það er vinsælt í stjórnmálum.

"Of hátt verð" er ekki til nema að uppfylltum fáum en ströngum skilyrðum:

 

  • Að yfirvöld geri aðgang að tilteknum markaði dýran eða erfiðan, t.d. með háum sköttum eða miklum reglugerðafrumskógi skilyrða og eftirlitskrafna.
  • Að yfirvöld banni hreinlega aðgang að tilteknum markaði (t.d. markaði áfengissölu eða veitingu heilbrigðisþjónustu).

 

Ætli annað hvort skilyrðið eigi við um sölu rafbóka? Það efast ég um. Eltingaleikur bandarískra yfirvalda við verðlag á rafbókum er því byggt á fölskum forsendum og pólitískum eltingaleik við vinsældir kjósenda. Stjórnmálamenn ættu að líta sér nær þegar þeir tala um "of hátt" verð á einhverju, t.d. sína eigin skattheimtu.


mbl.is Í mál við Apple út af verði rafbóka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband