Foreldrar og miðstýring

Miðstýring er það sem hið opinbera kann. Í umhverfi miðstýringar eru Excel-skjöl og önnur gögn notuð til að taka rekstrarákvarðanir í einstaka rekstrareiningum. Menn skoða kostnað á nemanda, fjölda nemenda á kennara og kostnað við aðföng og húsnæði og rýna í skýrslur um ástand húsnæðis og annarrar aðstöðu. Kannski taka menn einhver viðtöl. Svo er tekin ákvörðun og henni rúllað út í skólana.

Foreldrar eru raddlaus peð í þessum leik. Þeir hafa í blindni borgað sína skatta og vona að fyrir það fé fáist einhver þjónusta sem gagn er að. Svo er þó ekki. Strákum er núna skolað út úr skólakerfinu og þeir koma ólæsir út úr grunnskólum. Krakkarnir fá skjá til að halda sér uppteknum í kennslustofunni svo kennarinn fái meiri tíma til að drekka kaffi. Nemendum er hrúgað saman óháð getu og áhuga og menn vonast svo til að þeir bestu dragi þá lélegustu upp, sem gerist auðvitað ekki. Námsefnið kemur frá skrifstofum stjórnsýslunnar og miðast fyrst og fremst við þarfir yfirvalda. 

Foreldrar eiga erfitt með að bregðast við þessu ástandi. Þeir eru ekki borgandi kaupendur þjónustu. Nei, þeir eru skattgreiðendur sem borga ofan í miðstýrða hít. Þeir geta ekki fært viðskipti sín frá einum veitanda til annars svo gagn sé að, ekki frekar en það er gagn í að hætta að versla í einni Bónus-verslun og byrja að versla í annarri Bónus-verslun. Samkeppni í kennslu er lítil sem engin og það er vandamál.

Sætta foreldrar sig við þessa einsleitni og miðstýringu? Af hverju? Halda menn að fundir hafi áhrif? Það eina sem rekstraraðilar af öllu tagi skilja er minnkandi tekjustreymi. Það er aðhaldið sem við veitum einkafyrirtækjum - við sviptum þau tekjum sínum. Svo er ekki í tilfelli skóla, sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Þau geta alltaf hent í eina krassandi fyrirsögn korteri í fjárlög og fengið verðlaun fyrir lélega frammistöðu. 

Það getur vel verið að kennsla barna sé svo flókin og erfið að það þurfi risavaxið opinbert batterí til að halda henni úti. Ég er samt efins. 

Kennari minn í gegnum flest mín grunnskólaár var vingjarnleg, ströng en sanngjörn eldri kona. Hún fór yfir stílabækurnar, hlýddi manni yfir, útskýrði af þolinmæði og setti tossana aftast í kennslustofuna svo þeir trufluðu ekki aðra (þessir tossar fundu sig svo í annars konar námi seinna og gengur ágætlega í dag). 

Einkavæðum grunnskólana, lækkum skatta, fækkum reglum, afnemum opinberar námskrár og leyfum einkaaðilum að keppa um ánægju fullorðinna (kennara og foreldra) og barna. Það virkar svo vel þar sem slíkt er umborið.


mbl.is Lýsa megnri óánægju með breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump mætti hlusta oftar á sjálfan sig

Forsetinn Donald Trump mætti hlusta aðeins oftar á ræðumanninn Donald Trump. Það mætti kannski kalla misræmi stjórnmálamannsins og ræðumannsins stjórnmálamannaheilkennið? Úr ræðustól koma allskyns áskoranir og ástríðufull hvatningarorð en úr stól stjórnmálamannsins kemur varðveislan á núverandi fyrirkomulagi þar sem breytingar eru annaðhvort engar eða í átt að stærra ríkisvaldi.

Það er rétt hjá Trump að vara við sósíalisma. Hann er baneitraður fyrir alla nema efstu lög samfélagsins. Verkalýðurinn hefur aldrei grætt neitt á sósíalisma. Hann er fyrir kampavíns-kommúnista, jólasveina-jafnaðarmenn og seðlabúnta-sósíalista. 

Um leið hefur Trump ekki að fullu leyti skilið hvað hans eigið alríki er orðið sósíalískt. Vissulega hefur hann óbeit á reglugerðum og vill lækka launaskatta, en um leið safnar hann skuldum, leggur á viðskiptahindranir og vanrækir mikilvægi þess að minnka báknið. 

Það er ekki nóg að tala gegn auknum ríkisafskiptum til að tækla sósíalismann. Það þarf að minnka ríkisvaldið - fækka verkefnum þess, draga úr stærð þess og hleypa einkaaðilum í samkeppnisrekstri að jötu ríkiseinokunar og opinberrar fyrirgreiðslustarfsemi.

Bandaríkin byrjuðu sem samansafn fátækustu og verst menntuðu innflytjenda Evrópu sem í skjóli eins frjálsasta markaðshagkerfis heims á sínum tíma tókst að verða efnahagslegt stórveldi - það stærsta í heimi.

Núna ætlar efnahagslegt stórveldi að hlaða á sig skuldum og skuldbindingum sem óumflýjanlega munu fá stoðirnar til að bresta.

Þetta veit ræðumaðurinn Trump, en forsetinn Trump er öllu fávísari.


mbl.is Varar við „martröð sósíalismans“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðdráttarafl kapítalismans

Um allan fólk er fólk á ferð og flugi, sumir að leita að vinnu og aðrir að öryggi. Í grófum dráttum má segja að frjáls, kapítalísk samfélög dragi að sér fólk. Flóttamannastraumar liggja frá þrúgandi yfirvaldi og miðstýrðum hagkerfum yfir í frjálsari samfélög sem vernda eignarréttindin og leyfa frjálsum viðskiptum að eiga sér stað.

Sumir tala um að flóttamenn séu mikið vandamál. Það er sjálfsagt rétt. En hvernig á að draga úr því vandamáli? Margir stinga upp á hertri landamæragæslu og jafnvel múrum. Einfaldast væri samt að allur heimurinn tæki upp frjálsan markaðsbúskap og veitti almenningi kost á að veita yfirvöldum aðhald. Það myndi um leið útrýma fátækt, stuðla að friði og bæta lífsgæði mannkyns.

Alþjóðlegar ráðstefnur og alþjóðleg samtök berjast samt ekki fyrir frjálsum markaði. Þess í stað er verið að leggja á viðskiptahindranir, neyða skattgreiðendur til að fjármagna tilgangslausa umhverfisvernd (sem er andstæða raunverulegrar umhverfisverndar) og niðurgreiða fátækt og sósíalisma. Þessi nálgun ýtir undir togstreitu (t.d. um það hver eigi að borga hvað) og jafnvel hernaðarspennu.

Frjálsan markað, takk! Mannkynið getur þá leyst öll sín vandamál án aðkomu stjórnmálamanna.


mbl.is Raddir sem þurfa að heyrast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á eftir verkfalli kemur vélmenni

Mér var að detta í hug nýtt máltæki:

Á eftir verkfalli kemur vélmenni.

Mér finnst það lýsa aðstæðum á íslenskum vinnumarkaði ágætlega.

Að vísu geta ekki öll fyrirtæki leyst af starfsfólk með vélmennum en þegar launakröfurnar eru orðnar nægjanlega háar þá fara nánast hvaða vélmenni sem er farið að borga sig. Þau kosta mikið í upphafi en vinna svo launalaust eftir það, gegn svolitlu viðhaldi. Einn sérfræðingur getur haldið tugum vélmenna í gangi og má kosta nokkuð mikið í launum áður en hann verður óhagkvæmur.

Í Bandaríkjunum hefur sjálfvirknivæðing af ýmsu tagi farið í fluggírinn eftir að mörg ríkja Bandaríkjanna hækkuðu lögbundin lágmarkslaun í ósjálfbærar hæðir.

Á Íslandi gæti þetta birst með öðrum hætti, t.d. með aukinni notkun verktakafyrirtækja og minni notkun fastráðinna starfsmanna. Þannig er hægt að bjarga rekstri í vanda undan verkfallshótunum og kjarasamningum sem endurspegla ekki raunveruleikann.

Íslensk verkalýðsfélög stefndu frá upphafi í átök. Því var nánast lofað. Núna bresta þau átök á. Þar með hafa verkalýðsleiðtogar staðið við loforð sín. Afleiðingin gæti hins vegar verið sú að mörg störf hverfa varanlega. Var þá til lítils barist. 

Það getur vel verið að ræstitæknir hótelsins verði ekki leystur af með vélmenni strax, en þrýstingurinn á að það gerist eykst töluvert. Þær hröðu breytingar sem tækniframþróunin knýr áfram gætu skollið á enn hraðar og komið mörgu fólki að óvörum. Störf eru lögð niður hraðar en nauðsyn krefur. Fólk er gert óþarft hraðar en fyrirtæki hafa í raun og veru áhuga á en neyðast einfaldlega til að gera.

Það er eitt að semja. Það er annað að knésetja og eyðileggja, varanlega.


mbl.is Efling boðar frekari verkföll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opinber verðskrá skilnaðar og gjaldþrot feðra

Þegar par eða hjón sem eiga barn eða börn skilja tekur við ákveðið ferli sem byrjar á því að aðilar reyna að ná sáttum og mistekst. Hið opinbera skerst þá í leikinn og úrskurðar að maðurinn greiði konunni meðlag (óháð því hvað barnið er mikið hjá móður eða föður) sem hún fær skattfrjálst sem tekjur. Konan getur svo hent í eins og eina eða tvær ásakanir á föðurinn og hann fær þar með ekki að sjá barnið sitt eins lengi og konunni sýnist.

Þetta er vonandi ekki sviðsmynd flestra sambandsslita á Íslandi en gildir þó um mörg hundruð tilvik. Fráskildir feður eru oft útilokaðir frá því að hitta barn sitt, og það er þeim þungbært. Þeir eru mjög oft á vanskilaskrá enda eru meðlagsgreiðslurnar háar. Þeir fremja oft sjálfsmorð.

Auðvitað er ég ekki með tölurnar á hreinu enda er ekki í tísku að rannsaka svona mál. Vonandi breytist það í náinni framtíð.

Hið opinbera stuðlar að því að skilnaður getur orðið mjög fjárhagslega ábatasamur fyrir mæður. Með skilnaði má líka rústa lífi makans og er oft gert. 

Dag einn munu fráskildir feður rísa upp og mótmæla óréttlætinu. Ég bíð spenntur. Börn eiga ekki skilið að vera notuð eins og vopn og enn síður að vera svipt föður sínum.


mbl.is Sáttameðferð mikilvæg við skilnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lömbin leidd til slátrunar

Hvernig er hægt að koma sem flestum lömbum til slátrunar til að hlaða undir eigið egó? Áætlunin virðist vera svohljóðandi:

  1. Tromma upp herskáa stemmingu ("himinháir skattar eru ekki ástæða dýrtíðar á Íslandi, heldur níska atvinnurekenda")
  2. Framleiða meingallaða hagfræði ("verðhækkanir leiða ekki til minnkandi eftirspurnar")
  3. Bera fjarstæðukenndar kröfur á borðið
  4. Gefast hratt upp á að semja
  5. Fara í verkföll (því fleiri og lengri, því betra)
  6. Ná fram óraunhæfum kröfum af einhverju tagi
  7. Sjá meðlimi sína sópast á atvinnuleysisskrá þar sem þeir breytast í öskuilla kjósendur
  8. Bjóða fram til kosninga og ná þessum öskuillu kjósendum á sitt band
  9. Komast til valda
  10. Ráða Gunnar Smára Egilsson og bandamenn í þægilega og vel launaða innivinnu

Fyrstu atriðin eru nú þegar komin til framkvæmda. Sjáum hvað setur.


mbl.is Greiða atkvæði með verkfallinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drepum fátæklinga

Þeir sem tala í nafni umhverfisverndar eru oftar en ekki bara að berjast gegn frjálsum markaði. 

Stór yfirlýsing? Nei, alls ekki.

Úti í hinum stóra heimi er fólk án menntunar, kaffihúsa, fjármagns og Apple-síma. Hvað á þetta fólk að gera til að afla sér lífsviðurværis? Það hefur ýmislegt til sölu, þrátt fyrir allt: Vinnuafl sitt og auðlindir. Þessar auðlindir geta verið vatn, tími, landbúnaðarafurðir, hafnaraðstaða og ódýrt land. Þetta fólk getur boðið aðilum með fjármagn að fjárfesta, ráða fólk í vinnu og nýta auðlindirnar til að skapa störf.

Á að banna þetta?

Nei, auðvitað ekki.

En þá kemur vestræni græninginn og bendir á að verið sé að menga vatnið, nota mikið af auðlindum og láta fólk vinna lengi.

Mengun er slæm, en hún er nánast undantekningalaust afleiðing illa skilgreindra eignaréttinda. Það eiga allir að berjast fyrir vernduðum eignarrétti. Þar sem fólk getur varið eigur sínar, t.d. fyrir dómstólum, þar er mengun haldið í skefjum.

En auðlindir og vinnuafl eru það sem fólk í fátækjum ríkjum getur selt og það eigum við að kaupa. Þannig verður fátækt fólk ríkara.

Kaupum ódýra boli en hjálpum um leið öllu mannkyni að verja eigur sínar gegn mengun, ríkisvaldi og ræningjahópum. Þá erum við að tala um frjálsan markað sem kemur mannkyninu öllu til góða, bæði til lengri og skemmri tíma. 


mbl.is 2.700 vatnslítrar í einn stuttermabol
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vilt þú í laun? Djók, þú færð taxtalaun

Það eru til tvær tegundir launafólks:

  • Þeir sem geta samið um sín kaup og kjör (og nota gjarnan viðmiðanir úr könnunum og aðstoð sérfræðinga eða ráðgjafa til að hafa hugmynd um raunhæf launakjör)
  • Þeir sem geta ekki samið um sín kaup og kjör (en vona það besta þegar aðrir semja fyrir þeirra hönd)

Af hverju vilja margir að sem flestir tilheyri seinni hópnum?

Núna eru þeir í seinni hópnum á leið í verkfall nema eitthvað kraftaverk eigi sér stað (t.d. það að herskáir og háværir verkalýðsforingjar kyngi yfirlýsingum sínum um einhvers konar byltingu).

Nú þegar eru fyrirtæki byrjuð að segja upp fólki til að lækka launakostnað. 

Ef launakostnaður hækkar meira munu fyrirtæki færa störf til útlanda (ef þau eru ekki byrjuð að því nú þegar). Fyrirtæki og ferðamenn hætta við að koma til Íslands (ef það er ekki orðin raunin nú þegar). 

Til að bæta kjör launafólks þarf að auka verðmætasköpun þess eða lækka skatta á laun, varning, þjónustu og fjármagn, en gjarnan bæði.

Til að gefa þeim duglega færi á hærri launum þarf að frelsa hann frá launatöxtum verkalýðsfélaganna. 

Til að gefa þeim lata hvata til að standa sig betur þarf að koma honum af launatöxtum verkalýðsfélaganna.

Til að bæta kjör launafólks þarf að létta á þeirri byrði sem ríkisvaldið er. Þeir sem fjármagna hið opinbera verða alltaf venjulegir starfsmenn venjulegra fyrirtækja. Töflureiknaforritum skjátlast þegar þau segja að það megi mjólka þá ríku meira.

Vonum að Íslendingar komist í gegnum þetta tímabil ólæsis í hagfræði og skilningsleysis á hegðun raunverulegs fólks.


mbl.is Viðræðum hefur verið slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dansað við djöfulinn

Fjármálaráðherra lét plata sig. Hann hélt að hann gæti friðað lítinn fjölda verkalýðsfélaga með einhverjum plástri. Það tókst ekki og núna er hann í vandræðum. Hann lét draga sig að svokölluðu samningaborði þar sem eina mögulega niðurstaðan var að hann kæmi illa út og yrði úthrópaður. Og núna kemst hann ekki í burtu.

En það er fleira slæmt við að fjármálaráðherra lét plata sig.

Í fyrsta lagi lagði hann til enn flóknara skattkerfi, með enn skæðari jaðarsköttum á þá sem voga sér að auka tekjur sínar. Reynslan sýnir að þegar flækjustig hefur verið aukið er erfitt að minnka það aftur.

Í öðru lagi gaf fjármálaráðherra í skyn að sértækar aðgerðir séu vænleg leið til árangurs. Svo er ekki. Best er að skattar séu sem flatastir og einfaldastir og þar með fyrirsjáanlegir og auðskiljanlegir. Um leið er auðvitað best að skattar séu sem lægstir, þ.e. að ríkisvaldið sé sem fyrirferðarminnst. Ríkið er hinn stóri dragbítur sem heldur aftur af batnandi kjörum allra.

Í þriðja lagi hefur nú verið gefið fordæmi fyrir því að það sé hægt að hóta ríkisvaldinu. Verkalýðsfélögin hóta verkföllum, þ.e. því að fólk hætti að vinna án þess að því megi segja upp. Í núverandi lagaumhverfi er slíkt ávísun á að fámennir hópar hertaki samfélagið í heild sinni og skaði hagsmuni almennings og launafólks. 

Núna er komið blóðbragð í munninn á þeim sem vilja berja samfélagið til hlýðni og geta það með notkun laga sem veita sumum meiri réttindi en öðrum til að heimta með valdi. 


mbl.is Viðbrögð verkalýðsfélaganna koma á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugleiðingar um neyslu og gróða

Nína Guðrún Geirs­dótt­ir skrifar þarfar hugleiðingar um neyslu, nýtni og nægjusemi. Þær eru að mörgu leyti góðar. Það er rétt að margir kaupa meira en þeir þurfa, eða kaupa nánast til þess eins að kaupa. Mörg fyrirtæki eru rekin í kringum þá hugsun að við þurfum endalaust að vera endurnýja. Slíkt kostar auðlindir og leiðir oft til sóunar. Að hugsa málið aðeins og kaupa minna og velja betur er því alveg ágætt markmið, í sjálfu sér.

En þá kemur að hagfræðinni. Þar þurfa menn að vanda sig aðeins. Gróði, eða hagnaður, er ekki bara góður heldur beinlínis nauðsynlegur. Hagnaður segir fyrirtæki að það sé að sinna þörfum neytenda. Fyrirtæki sem skilar tapi er ekki að standa sig og sóar þar með fé eigenda sinna eða lánadrottna í vitleysu. Neytendur eru beinlínis ósammála fyrirtækinu í vali þess á framboði og þjónustu og slíku fyrirtæki þarf að loka.

En af hverju eyða neytendur í vitleysu og taka jafnvel lán fyrir slíkri eyðslu í stað þess að leggja fyrir, kaupa vandaðri hluti sem endast lengur og fjárfesta meira?

Neytendur eru drifnir áfram af því sama og drífur áfram allar lifandi verur: Hvötum. Hvatar geta breytt neytanda í fjárfesti, og öfugt. Ef það borgar sig betur að leggja fyrir og byggja upp sjóð en kaupa nýja en lélega ferðatölvu á hverju ári þá hefur það áhrif. Ef sá skuldsetti getur alltaf búist við því að verða bjargað af stjórnmálamönnum þegar skuldir hans verða óyfirstíganlegar þá heldur hann áfram að safna skuldum. Ef seðlabankar rýra í sífellu innistæður bankareikninga (t.d. með því að halda úti markmiði um ákveðna lágmarksverðbólgu) og halda vöxtum á sparifé lágu þá leggur fólk minna fyrir. 

Við getum róleg huggað okkur við það að jörðin er ekki komin að einhverjum endimörkum. Um leið getum við velt því fyrir okkur hvaða langtímaafleiðingar fylgja því að verðlauna í sífellu neyslu og refsa fyrir ráðdeild. Er þá stærð ruslahauganna kannski meðal mildustu afleiðinganna.


mbl.is Neysluhyggjupælingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband