Laugardagur, 16. febrúar 2019
Ríkisstyrkir leiða til einsleitni
Ríkisstyrkir umbuna sumum og gefa þeim forskot. Það er nánast ómögulegt að keppa við ríkisstyrkta starfsemi. Samkeppnisaðilar þeirra á ríkisstyrkjunum lognast út af. Þeir sem standa eftir hafa uppfyllt kröfur yfirvalda. Einsleitni er niðurstaðan.
Þetta eru sumir blaðamenn að uppgötva núna, alltof seint. Þeir hjá Bændablaðinu og ýmsum fréttasíðum íþrótta sjá að núna á að styrkja samkeppnisaðila þeirra. Þeir sem skrifa á ensku fá ekki aðgang að spenum ríkisgyltunnar.
Blaðamenn telja sig yfirleitt vera svo upplýsta, vel lesna og klára. Og þeir eru yfirleitt vinstrimenn og illa að sér í hagfræði. Það er því alltaf fyndið að sjá þá sprikla og kvarta þegar þeirra eigin hugmyndafræði snýst í höndunum á þeim.
![]() |
Lesendur ekki bara einhverjir túristar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 15. febrúar 2019
Auðvitað eru skattalækkanir kjarabót
Verkalýðsfélagið Efling leggur til að skattar á launafólk lækki til að bæta kjör þess.
Þetta er að mörgu leyti undarleg tillaga frá blóðrauðu verkalýðsfélagi en hagfræði tillögunnar stenst fullkomlega. Skattar eru kjaraskerðing og því lægri sem þeir eru, því betra.
(Að vísu er líka lagt til að skattar á þá launahæstu hækki eitthvað en þeir peningar munu ekki skila sér í ríkiskassann og hið opinbera ætti því að semja fjárlög sem miðast við lækkandi skattheimtu á laun.)
Það má svo bæta kjör launafólks enn meira með eftirfarandi skattalækkunum:
- Virðisaukaskatta ætti að afnema
- Tolla ætti að afnema
- Eldsneytis- og bifreiðaskatta ætti að afnema
Um leið þarf ríkið auðvitað að fækka verkefnum sínum til að koma til móts við minnkandi skattheimtu. Það gæti hætt að reka heilbrigðis- og menntakerfi, hætt að styrkja landbúnað og hætt að styrkja hitt og þetta. Það gæti selt vegakerfið og lagt niður velferðarkerfið. Góðhjartað fólk kæmi í stað opinberra möppudýra. Einkaaðilar í samkeppnisrekstri kæmu í staðinn fyrir miðstýrt einokunarbatterí.
Ætlar Efling að taka kjarabætur launafólks alla leið?
![]() |
Efling leggur fram gagntilboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 12. febrúar 2019
Grænir vitleysingar og Rússagrýlan
Vestur-Evrópa er á blússandi hraðferð upp í hendurnar á tækifærissinnum austar í álfunni.
Grænir vitleysingar vilja loka kolaorku- og kjarnorkuverum og halda að almenningur sætti sig bara við að þurfa slökkva ljósin eða borða minna til að borga hærri rafmagnsreikning.
Veðmálið gengur út á að það verði hægt að reisa vindmyllur nógu hratt til að bæta upp fyrir lokuð orkuver.
Gangi það upp gerist ekki annað en að lífskjör almennings versna.
Gangi það ekki upp er búið að ýta Vestur-Evrópu í fangið á Rússum sem skammta álfunni orku í skiptum fyrir pólitíska greiða.
Um þetta er fjallað aðeins nánar hér.
Það þarf að loka kjaftinum á þessum gróðurhúsakór sem spýtir endurunnum hræðsluáróðri yfir almenning og stjórnmálamenn. Hættan er annars sú að tækifærissinnar í austri fái ókeypis hreðjatak á okkur.
Tökum svo aðeins saman, í stuttu máli, staðreyndir málsins:
- Kol eru skítug en útvega efnaminnum íbúum jarðar lífsnauðsynlega orku
- Með auði koma kröfur um hreinna loft, og þá getur olía og gas tekið við af kolum, en einnig dýrari valkostir eins og vatns- og kjarnorka
- Batterísbílar bæta loftgæði borga og eru ágætir þar sem er nóg af innstungum, en eiga ekki heima úti á landi eða á þjóðvegum
- Framleiðsla vindmylluvængja og battería er frek á bæði orku og hráefni
- Ríkt fólk er pjattaðra og kröfuharðara en fátækt fólk
![]() |
Súrnun og hlýnun eru ekki góð blanda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 10. febrúar 2019
Gamalt vín í nýjum belgjum: Vilja allir vera eins og Pamela Anderson?
Á öllum tímum hafa foreldrar miklar áhyggjur af fyrirmyndum krakka sinna.
Meðal stórhættulegra fyrirmynda má nefna Elvis, Rolling Stones, Def Leopard, Metallica, Bítlana og Pamelu Anderson.
Hefur eitthvað breyst? Það held ég ekki. Hafa ekki allir séð myndbandið þar sem Christinu Aguilera segist vilja vera skítug?
Hvað hefur orðið um alla drengina og stúlkurnar sem sáu þetta myndband í óharðnaðri barnæsku? Fóru þeir krakkar allir til fjandans?
Ef eitthvað hefur breyst þá hugsa ég að það hafi frekar breyst til batnaðar. Ariana Grande er t.d. róleg og skapstillt stúlka sem kýs frekar að vera einhleyp en með einhverju bjána. Það er hægt að hugsa sér margt verra. Sonur minn lítur upp til hraustra og duglegra atvinnumanna í fótbolta. Það gæti varla verið betra.
Öndum með nefinu, reynum að tala við börnin okkar um lífið og tilveruna og hættum að mála skrattann á vegginn. Vinsamlegast.
![]() |
Vill dóttir mín vera eins og hún? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 8. febrúar 2019
Grafið undan velferðarkerfinu
Guðmundur og kona hans, Ólöf Guðfinnsdóttir, gáfu öll rúmin til Seltjarnar, hins nýja hjúkrunarheimilis sem vígt var á Seltjarnarnesi í byrjun mánaðarins.
Hvað vakir fyrir þeim? Að grafa undan velferðarkerfinu? Að gera opinberan rekstur háðan duttlungum einstaklinga? Að kaupa sér greiða? Að ná stjórn á rekstrarákvörðunum opinberra yfirmanna?
Svona lagað á ekki að viðgangast. Hér ber að leita fordæma til Reykjavíkurborgar. Þar má ekki gefa skólakrökkum reiðhjólahjálma. Það er til fyrirmyndar. Þar forðast menn spillinguna eins og dæmin sanna.
Opinber einokunarrekstur sem er ekki plagaður af samkeppni og hagræðingarkröfum neytenda er hin eina rétta leið til að tryggja lífsgæði fólks og stuðla að áhyggjulausum ævikvöldum aldraðra. Slíkur rekstur á ekki að þola að einstaklingar kaupi sér inn vinagreiða og sérmeðferð með rausnarlegum gjöfum. Er þá betra að aldraðir sofi á teppum á gólfinu en rúmum sem eru fjármögnuð með gróðarekstri og efnahagslegum yfirburðum fárra útvaldra.
Seltjarnarnes - skilið þessum rúmum! Þau eru smánarblettur á starfsemi bæjarins!
![]() |
Lögðu til öll rúmin á nýju hjúkrunarheimili |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 7. febrúar 2019
Óformleg tillaga
Icelandair tapar milljörðum. WOW Air er nánast orðið að ferðaskrifstofu. Ferðamannastraumurinn er að gefa aðeins eftir. Mörg flugfélög eru rekin á lánsfé og bjóða ósjálfbær fargjöld. Olíuverð er alltaf að breytast. Hvað er til ráða?
Ég er með hugmynd: Rúllið áfengisvagninum út áður en nokkuð annað gerist í fluginu.
Einu sinni sat ég í lítilli flugvél sem flaug frá Álaborg til Osló. Þar var flugfreyjan komin af stað á meðan flugvélin var ennþá á leiðinni upp, og ýtti á undan sér vagni með mat og áfengi. Ég var kominn með bjór í hendurnar áður en flugvélin var orðin lárétt í loftinu. Ég var kominn með annan bjór þegar flugvélin seig niður á við aftur, ekki löngu síðar. Þetta var gott flug.
Í dag eyða flugþjónar miklum tíma í allskonar sem aflar flugfélaginu engra tekna. Ég efast um að það sé allt vegna reglugerða.
Rúllið áfengisvagninum út um leið og það má, og gerið viðskipti við hann eins auðveld og hægt er á öllu fluginu.
Vandamál leyst. Það var ekkert.
![]() |
Tap Icelandair nemur 6,7 milljörðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 3. febrúar 2019
Það sem vantar í íslenska fjölmiðlaflóru
Íslensk fjölmiðlaflóra er frekar einsleit. Kannski er það óumflýjanlegt á litlum markaði: Ekki er ráðrúm til að framkvæma ítarlega rannsóknarblaðamennsku á hverri einustu innantómu yfirlýsingu alltof margra stjórnmálamanna.
Þó er einsleitnin oft alveg yfirdrifin og þá má velta því fyrir sér hvers vegna.
Ég er með kenningu:
Blaðamenn eru oftar en ekki mjög klárir einstaklingar. Þetta er fólk sem fylgist með umræðunni og telur sig vera vel með á nótunum. Það kann yfirleitt að setja sig inn í málin og skrifa læsilegan texta.
Um leið er þetta klára fólk af þeirri sannfæringu að það sé upplýstara en almenningur almennt og í betri aðstöðu en aðrir til að segja hvað virkar vel og hvað virkar illa í samfélaginu, og hvað þarf að gera til að láta það sem virkar illa virka vel. Það telur sig vita hvernig ríkisvaldið getur reist girðingar svo hjörðin sem almenningur er fari sér ekki að voða. Það telur sig vita hvernig skattkerfið á að vera skrúfað saman (þeir ríku eigi að borga meira og allt það).
Með öðrum orðum: Blaðamenn eru flestir sjálfumglaðir vinstrimenn.
Þessi kenning útskýrir að hluta einsleitnina í fjölmiðlaflórunni en ekki hvers vegna sjálfumglaðir vinstrimenn fylla flest sæti ritstjórna og blaðamanna. Hvar eru hógværu hægrimennirnir, sem vilja bara að fólk fái sem mesti svigrúm til að leita hamingjunnar á eigin vegum?
Þeir hægrimenn leita kannski ekki í blaðamennskuna. Þeir vilja láta hendur standa fram úr ermum, og framleiða verðmæti með hæfileikum sínum og getu. Þeir nenna ekki að básúna í sífellu skoðunum sínum yfir hausamótum annarra í gegnum hlutdræga fréttasmíði. Þeir ná sér í verðmætaskapandi menntun eða þjálfun og hefjast handa. Blaðamennska er fyrir þeim innantómt gaul úr tómri tunnu, og það blasir líka við að það er engin sérstök eftirspurn eftir kröftum þeirra hjá fjölmiðlunum.
Það er kannski af þessari ástæðu að flestir íslenskir fjölmiðlar eru hálfdauðar skeljar sem lifa af eigin fé eigenda þeirra. Þeir eru allir að eltast við sama markhópinn og sjá einfaldlega ekki aðra mögulega viðskiptavini.
Eftir að Vefþjóðviljinn fór í nánast algjöran dvala hefur vantað aðhald frá hægri í íslenska fjölmiðlaflóru. Þar er óplægður akur. Ætlar enginn að sækja á hann?
![]() |
Uppsagnir hjá DV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 2. febrúar 2019
Enginn fær eitthvað fyrir ekkert
Mikið hefur verið rætt um rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi eftir að hið opinbera valdi þá fyrirsjáanlegu aðferð að leggja til sértækar ívilnanir sem koma bara fáum til góða.
Að sjálfsögðu voru augljósar leiðir ekki nefndar: Að koma ríkinu af útvarps- og sjónvarpsmarkaði og afnema RÚV-nefskattinn í leiðinni (ef ríkið vill að ákveðið efni sé framleitt eða sent út getur það boðið slíkt út, án þess að halda úti heilli sjónvarpsstöð fyrir svoleiðis), að lækka skatta á allt og alla, og að sjálfsögðu að leyfa áfengisframleiðendum að auglýsa eins og þeir vilja og dæla þannig fé í sjónvarp, útvarp og prentmiðla.
En sértækum ívilnunum fylgja alltaf skilyrði og það getur enginn fjölmiðill blekkt sig með öðru. Þeir sem eru ekki nefndir á ívilnanalistanum lenda í skekktri samkeppnisstöðu. Þeir sem senda út efni sem er yfirvöldum ekki þóknanlegt verða túlkaðir út af ívilnanalistanum því stjórnmálamenn verða annars ásakaðir um að styðja við óæskilega tjáningu (segjum t.d. að múslímar stofni fjölmiðil sem uppfyllir öll skilyrði ívilnana, en einu sinni á dag eru þar lesnir upp valdir kaflar úr Kóraninum þar sem hvatt er til morða á trúleysingjum - gæti forsætisráðherra setið undir ásökunum um að hampa slíkum viðhorfum?).
Ríkið veitir aldrei neitt án skilyrða, og ríkið getur aldrei veitt einhverjum einum án þess að taka af einhverjum öðrum.
![]() |
Skekki samkeppnisstöðuna alvarlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 31. janúar 2019
Áfengi og íþróttir - góð blanda
Áfengi og íþróttir eru góð blanda, þ.e. ef áfengis er ekki neytt af íþróttafólkinu sjálfu á meðan það keppir.
Það er nánast engin leið að horfa á íþróttir í sjónvarpinu eða úr stúku nema drekka bjór á meðan.
Þar sem slíkt er heimilt eyða áfengisframleiðendur stórfé í auglýsingar á íþróttaviðburðum sem rennur að stórum hluta í hirslur íþróttafélaganna og efla starf þeirra.
Í Kaupmannahöfn má finna fjölnota íþrótta- og ráðstefnuhúsið Royal Arena. Hvað er Royal? Það er auðvitað áfengisframleiðandi. Í þessu glæsilega húsi er fjölbreytt og flott aðstaða fyrir allskyns viðburðahald sem menningar- og íþróttalífið nýtur góðs af.
Í mörg ár hefur áfengisframleiðandinn Carlsberg verið einn af aðalstyrktaraðilum enska fótboltafélagsins Liverpool. Hefur það skaðað einhvern?
Áfengi og íþróttir eru góð blanda. Það er kominn tími til að hleypa áfenginu að íslensku íþróttalífi, ekki bara á þorrablótum á bak við luktar dyr, heldur líka í stúkurnar, á búningana og á veggspjöldin.
![]() |
Þorrablótin góð búbót |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 30. janúar 2019
Styttu af borgarstjóra í öll hverfi
Ég er með hugmynd sem mun leysa mörg vandamál Reykjavíkur á einu bretti.
Hún gengur út á að reisa veglega styttu af borgarstjóra í öllum hverfum borgarinnar.
Borgarstjóri er klárlega mjög upptekinn af því að skilja eftir sig ýmsa minnisvarða, sama hvað það kostar.
Það kostar sennilega minna að reisa styttu en flytja inn pálmatré, og styttan endist örugglega lengur.
Einnig er líklegt að styttugerð sé fyrirsjáanlegri með tillit til kostnaðar en margar af framkvæmdum borgarinnar.
Það kostar sennilega minna að reisa margar styttur en gera upp einn bragga.
Borgarstjóri mætir alltaf sæll og glaður í allar opnanir og vígslur en er fljótur að fara í felur þegar óþægileg skítamál koma upp á. Með styttu í hverju hverfi þarf borgarstjóri ekki að gera meira og getur stigið til hliðar. Það eitt og sér mun spara borginni stórfé.
Borgarfulltrúar ættu að geta sammælst um þetta brýna málefni sem mun leysa mörg vandamál borgarinnar: Framúrkeyrslur á verkefnum, þörf borgarstjóra til að sýna sig í jákvæðu ljósi og peningaflæðið úr götóttum borgarsjóði.
Og hver veit, kannski myndast þá svigrúm til að létta aðeins á gríðarlegri skattheimtu á borgarbúa, bæði þeirri beinu (útsvar og fasteignaskattar) og þeirri óbeinu (himinháar gjaldskrár þjónustu- og veitufyrirtækja í borginni, og hækkandi fasteignaskattar vegna hækkandi fasteignamats)?
![]() |
Dönsk strá og pálmatré |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |