Dansað við djöfulinn

Fjármálaráðherra lét plata sig. Hann hélt að hann gæti friðað lítinn fjölda verkalýðsfélaga með einhverjum plástri. Það tókst ekki og núna er hann í vandræðum. Hann lét draga sig að svokölluðu samningaborði þar sem eina mögulega niðurstaðan var að hann kæmi illa út og yrði úthrópaður. Og núna kemst hann ekki í burtu.

En það er fleira slæmt við að fjármálaráðherra lét plata sig.

Í fyrsta lagi lagði hann til enn flóknara skattkerfi, með enn skæðari jaðarsköttum á þá sem voga sér að auka tekjur sínar. Reynslan sýnir að þegar flækjustig hefur verið aukið er erfitt að minnka það aftur.

Í öðru lagi gaf fjármálaráðherra í skyn að sértækar aðgerðir séu vænleg leið til árangurs. Svo er ekki. Best er að skattar séu sem flatastir og einfaldastir og þar með fyrirsjáanlegir og auðskiljanlegir. Um leið er auðvitað best að skattar séu sem lægstir, þ.e. að ríkisvaldið sé sem fyrirferðarminnst. Ríkið er hinn stóri dragbítur sem heldur aftur af batnandi kjörum allra.

Í þriðja lagi hefur nú verið gefið fordæmi fyrir því að það sé hægt að hóta ríkisvaldinu. Verkalýðsfélögin hóta verkföllum, þ.e. því að fólk hætti að vinna án þess að því megi segja upp. Í núverandi lagaumhverfi er slíkt ávísun á að fámennir hópar hertaki samfélagið í heild sinni og skaði hagsmuni almennings og launafólks. 

Núna er komið blóðbragð í munninn á þeim sem vilja berja samfélagið til hlýðni og geta það með notkun laga sem veita sumum meiri réttindi en öðrum til að heimta með valdi. 


mbl.is Viðbrögð verkalýðsfélaganna koma á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til að leysa kjaradeiluna þarf Sjálfstæðisflokkurinn að víkja.

Samfylking, Píratar, Viðreisn og Framsókn geta myndað meirihlutastjórn og komið sér saman um skattatillögur Stefáns Ólafssonar og Indriða Þorlákssonar. Það er ekki nóg að lækka skatta á þá allra tekjulægstu. Það þarf einnig að hækka skatta á þá tekjuhæstu.

Þetta eru staðreyndir sem betra er að viðurkenna fyrr en seinna.

Ásmundur (IP-tala skráð) 19.2.2019 kl. 21:59

2 Smámynd: Helgi Rúnar Jónsson

Mikið ofboðslega er ég sammála þér Ásmundur.

Helgi Rúnar Jónsson, 19.2.2019 kl. 23:19

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Lengi má berja á millistéttinni.

Geir Ágústsson, 20.2.2019 kl. 07:07

4 identicon

Geir, þú þarft að kynna þér skattatillögur SÓ og IÞ. Þær gera ráð fyrir skattalækkun hjá öllum nema þeim tekjuhæstu. Þannig lækka skattar millistéttarinnar.

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.2.2019 kl. 07:57

5 identicon

Ef hátekjuskattur á að fjármagna skattalækkun hjá lágtekju og millitekjuhópum þá þyrfti hann eflaust að vera um 300%.  Sá hátekjuskattur sem VG voru búnír að útfæra fyrir kosningar hefðu skilað 1-2 milljörðum samkv. forsendum þeirra (en myndi trúlega skila mun minna). 1-2 milljarðar er ekkert upp þær brjáluðu kröfur sem verkalýðshreyfingin er með.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 20.2.2019 kl. 10:24

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er rétt sem Stefán bendir á: Skattalækkanir á 90-95% skattgreiðenda verða ekki bættar upp með aukinni skattlagningu á efstu 5-10%, hvorki í Excel (þar sem væri kannski hægt að töfra fram einhverjar tölur) né í raunveruleikanum (sem er sá, að hátekjufólkið kemur tekjum sínum í skjól ef það á að gera þær upptækar).

Meginuppistaðan af skattheimtu ríkissjóðs verður alltaf skattheimta á venjulegt launafólk. Ætli menn sér að lækka skatta á launafólk þarf að minnka skattheimtuna í heild sinni, og draga úr umsvifum hins opinbera. 

Geir Ágústsson, 20.2.2019 kl. 11:06

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Var að berast þessi athugasemd frá félaga mínum sem ég þarf að svara við seinna tækifæri, enda ristar sumar þeirra djúpt:

Sælir

Nokkrar spurningar vakna við lesturinn. 
1. Að hvaða leiti er það neikvætt fyrir samfélagið sem heild að tekjumeiri greiði hærra skatthlutfall?

2. Lítill fjöldi verkalýðsfélaga segirðu. Mér sýnist fljótt á litið að félögin sem um ræðir hafi innan sinna raða um 90.000-100.000 félagsmenn sem segir okkur minnst 200.000-250.000 standa á bakvið þessi félög séu allir fjölskyldumeðlimir teknir með.
3. Fyrir hvern venjulegan launamann er það mikilvægast að sjá hver niðurstaðan er í krónum og aurum hver mánaðarmót. Þeim gæti ekki verið meira sama um hversu flókið það var fyrir launakerfið að komast að niðurstöðunni. Flatt, ekki flatt, snarbratt eða hvað skattkerfið á að heita skiptir engu máli. 
4. Að hér sé um fordæmi að ræða að hægt sé að hóta ríkisvaldinu er úr lausu lofti gripið. Kjarasamningar með aðkomu ríkisvaldsins hafa verið hefð á Íslandi í fjöldamörg ár þannig að hér er ekkert nýtt af nálinni.
5. Rannsóknir hafa sýnt að stéttarfélög eru af hinu góða fyrir launamenn. Sjá td. https://www.bls.gov/opub/mlr/2013/04/art2full.pdf

Góðar stundir kæri félagi :)

ps. Frelsið er yndislegt.

Geir Ágústsson, 20.2.2019 kl. 11:08

8 identicon

Skattahækkanir hátekjufólks skv tillögum Stefáns og Indriða er ekki ætlað að vega upp á móti skattalækkunum annarra. Til þess er hægt að fara aðrar leiðir eins og td auðlegðarskatt og auðlindargjald.

Annars er auðvelt að lækka skatta hinna lægstlaunuðu með því að hækka skatta hinna tekjuhæstu án þess að heildarskattbyrðin breytist.

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.2.2019 kl. 11:28

9 identicon

Skattahækkunum.... á þetta að sjálfsögðu að vera.

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.2.2019 kl. 14:23

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Geir ég er ekki alveg viss um hvort þú sért ekki að miskilja. Þessar skattkerfisbreytingarnar voru boðaðar fyrir nokkru í fimm ára fjármálaáætlun, að mig minnir, enn útfærslan kynnt í gær.

það var fjármálaráðuneytið sem reyndir að hnýta þetta við kjarasamninga sem sérstaka kjarabóta fyrir lágtekjufólk þegar það rétta er að þetta eru skattalækun fyrir alla.

Ég ætla að pasta Marinó við þessa athugasemd og vona að þú fyrirgefir það, en hann hefur alltaf átt gott með að skýra talnakúnstir. 

Fyrir utan brandarann sem felst í þessum tillögum að skattkerfisbreytingum, þá er mikil talnamengun í framsetningu upplýsinga.

Skoðum fyrst lækkanirnar. Hafa skal í huga, að ALLIR fá sömu krónutölulækkun, sem eru með tekjur yfir hinu nýja lægsta þrepi. Það þýðir að engu máli skiptir hvort tekjurnar eru 325.000 kr. á mánuði eða 4.500.000 kr. á mánuði. Upplýsingar í frétt ráðuneytis fjármála og efnahags um annað eru einfaldlega rangar. Tillögurnar eru því EKKI að líta til jafnaðar, eins þar er sagt, frekar að þær auki ójöfnuð hjá þeim sem eru með undir 325.000 kr. á mánuði. Það eru þeir sem eru með lægri tekjur en 325.000 kr. á mánuði, sem fá minni lækkun (nema eitthvað komi ekki fram í frétt ráðuneytisins).

Í þrepaskiptu skattkerfi, þá eru tekjur á sama tekjubili skattlagðar eins. Þannig að hafi einstaklingur 1.500.000 kr. í laun, þá bera (miðað við tillögurnar) fyrstu 325.000 kr. 32,94% í skatt eða kr. 46.296 miðað við að viðkomandi leggi 4% í lífeyrissjóð. Næstu 640.716 kr. bera 36,94% skatta eða 236.680 kr. og síðan þær 474.284 kr. bera 46,24% skatt eða 219.309 kr. Loks leggur viðkomandi 60.000 kr. skattfrjálst í lífeyrissjóð. Leggi viðkomandi hins vegar 6% skattfrjálst í lífeyrissjóð, þá breytast mörkin og skattgreiðslur lækka.

Í talnaleikfimi ráðuneytisins, þá er verið að nota alls konar tölur til að búa til "sanngirni". Eitt dæmi um það er birt á glæru 5 í kynningu ráðherra (sjá kynninguna hér: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx…). Þar er boðið upp á prósentur í mat og þær notaðar til að halda því fram að 150.000 kr. valdi minni lækkun skatta hjá þeim sem eru með 10,0 m.kr. í árslaun en þeim sem eru með 5,0 m.kr. árslaun, þegar staðreyndin er að báðir hópar fá sömu upphæð í lækkun. Það sem meira er og er alveg stórmerkilegt, að 150.000 kr. lækkun skatta er sögð auka skattbyrði fólks með yfir 12,0 m.kr. í árslaun! Hvernig er hægt að fá svona út? Fólk með 1 m.kr. á mánuði fær nákvæmlega sömu skattalækkun og einstaklingur með 325.000 kr. á mánuði, þ.e. 4% af fyrstu 325.000 kr. eða 12.480 kr. á mánuði. Þar sem sá með 1 m.kr. á mánuði er líklegri til að geta lagt 6% í lífeyrissjóð, þá gæti verið að viðkomandi fái í reynd meiri skattaafslátt, en látum það liggja á milli hluta.

En svo er það rúsínan í pylsuendanum. Til að geta nýtt að fullu kerfisbreytingarnar, þá þarf fólk að hafa 325.000 kr. í tekjur eða meira. Eftir því sem tekjurnar eru lægri, þá verður ávinningurinn minni. Hafi einstaklingur 250.000 kr. er ávinningurinn um 9.630 kr. á mánuði, 7.710 kr. hjá þeim sem er með 200.000 kr., 5.612 kr. hafi viðkomandi 175.000 kr. og 0 kr. séu tekjur undir núverandi skattleysismörkum. Berum það svo saman við það sem ALLIR með laun yfir 325.000 kr. fá.

Það er alveg einskær og ótrúlega ósvífin hræsni að segja að tillögurnar komi þeim tekjulægstu best, þegar þær gagnast þeim síst!

Magnús Sigurðsson, 20.2.2019 kl. 16:46

11 identicon

Grundvallarspurningin er eiga skattar að vera til að reka þjóðfélagið eða til að bjarga heiminum frá öllu ranglæti.

Guð Forði Okkur frá að Píratar komist nokkurntíma í ríkisstjórn

Grímur (IP-tala skráð) 20.2.2019 kl. 20:26

12 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég þakka athugasemdirnar. Það er ljóst að um hitamál er að ræða. Málið er líka orðið miklu stærra en bara Siggi vélvirki að semja við yfirmanninn um launin sín, eða að nokkrir starfsmenn skrifi undir plagg þar sem þeir biðja um betra salerni. Málið er orðið stórpólitískt og ákvarðanir samningsaðila að fara áhrif á almenning allan.

Aðeins varðandi athugasemdir félaga míns:

1. Það er almennt letjandi að vera mjólkaður meira eftir því sem maður leggur meira á sig, en þó er skárra að það sé með sem vægustum hætti. Á Íslandi borga tekjuháir hærra hlutfall launa sinna í skatt en tekjulágir, og það jafnvel án þess að taka tillit til þrepanna í skattkerfinu. Fyrir því hefur verið ágæt pólitísk sátt, óháð ranglætinu. Núna á bara að stíma í ranga átt. Meira að segja Danir fækkuðu sínum skattþrepum á meðan Íslendingar fjölguðu sínum, og gerðu það að fenginni reynslu. Má aldrei læra af mistökum annarra úr því hagfræðin er sett í ruslafötuna?

2. Ég segi lítill fjöldi því lítill hópur herskárra einstaklinga hafa hertekið kjarabaráttunna í nafni fjöldans. Meira að segja innan Eflingar er mönnum ekki vært ef þeir beygja sig ekki fyrir forystunni. Ég hef ekki séð einhverja fjöldahreyfingu launafólks fagna því að störf þess séu lögð undir svo einhverjir fái launahækkanir (því snarhækkandi launakostnaður um óumflýjanlega leiða til uppsagna langt umfram það sem nú þegar er byrjað að bera á)

3. Fyrir mann sem gerir ráð fyrir að sama hvað hann gerir þá muni laun hans ekki hækka þá já, skipta þrep og frádrættir og annað hann engu máli. En ég man vel eftir manni sem sagði mér frá því, á fyrsta ári hátekjuskatts á Íslandi, að hann hafi fengið mörg hundruð þúsund króna bakreikning því hann hafði ekki gert ráð fyrir öðru en að skatturinn væri hirtur jafnóðum, en ekki á grundvelli árslauna sem eru skoðuð aftur í tímann. En já, sá sem þénar milljón á mánuði alla mánuði eða 200 þús á mánuði alla mánuði fær sitt og spáir ekki í það meira. 

4. Ég veit fyrir víst að þú semur um þín eigin laun og tel næstum því 100% öruggt að þú teljir það vera hvetjandi fyrir þig að geta það. Af hverju ættu aðrir hvatar að gilda um aðra? Hvað er hvetjandi við að tilheyra hópi þar sem allir fá meðallaun?

Geir Ágústsson, 21.2.2019 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband