Óttinn við tækninýjungar

Margir óttast þá hröðu þróun sem á sér stað í tækninni þessi misserin og árin. Vélmenni, gervigreind og allskyns lausnir munu gera þúsundir og jafnvel hundruð þúsundir starfa úrelt á næstu árum. Þessu má svara með því að hvetja fólk til að læra ýmislegt sem verður ekki leyst af hólmi. Nýjar tegundir starfa verða til. Mannkynið hefur prófað þetta áður. Hestvagnasmiðurinn verður að vélvirkja. Kertagerðarmaðurinn verður að rafvirkja. Lífið heldur áfram.

Hins vegar benda sumir á að hraði þróunarinnar sé slíkur í dag að aldrei hafi annað eins sést áður. Það má vel vera. Kannski þarf fólk á miðjum aldri að hugsa sinn gang. Kannski þarf fólk yfir miðjan aldur að opna námskeiðabæklinga. Þó er kannski ekkert að óttast í sjálfu sér, fyrir flesta.

Hins vegar er hægt að gera lítið langtímavandamál að stóru skammtímavandamáli. Það er hægt að gera fólk óhagkvæmt hraðar en það yrði annars, t.d. með því að þvinga atvinnurekendur til að borga hærri laun en sem nemur verðmætasköpun starfsmanna sinna. Þeir starfsmenn verða reknir eða þeim skipt út fyrir eitthvert tækið sem sinnir næstum því sama hlutverki. Þessir starfsmenn ná ekki að endurmennta sig eða þjálfa sig upp á nýtt. Þeim er varpað á dyr mun fyrr en í raun er nauðsynlegt. Óþroskuð tækni er innleidd of snemma og krefst einfaldlega annars konar starfsmanna svo hún keyri. 

Verkalýðsfélög og hagfræðilega ólæsir stjórnmálamenn ættu að passa sig þegar fyrirtæki eru neydd til að gera starfsmenn sína of dýra og um leið óhagkvæma fyrr en nauðsynlegt er. Það felur bara í sér aukinn sársauka. Fólki verður mokað út af atvinnumarkaðinum í stað þess að ná að aðlagast breyttum aðstæðum.

Ég veit að það er erfitt að treysta því að frjáls samvinna og frjálst samstarf þúsundir einstaklinga leiði til niðurstöðu sem virkar fyrir alla, alltaf, til bæði skemmri og lengri tíma (hinn svokallaði frjálsi markaður, sem er andstæða valdboðs ríkis og verkalýðsfélaga). Ég mæli samt með því að reyna.


mbl.is Sjálfsafgreiðslukössum fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ríkið er núna að nota skatta til þess að gera þetta.  Ástæðan er bara sú að báknið er orðið stærra en fólk ræður við að borga fyrir, sem kallar á meiri skattheimtu, sem kallar á hærri laun sem ekkert öll fyrirtæki ráða við að borga.

Grunar mig að illa fari, eins og oftast þegar ekki er hugsað.

Ásgrímur Hartmannsson, 9.1.2019 kl. 15:32

2 identicon

Það væri óskandi að fleiri áttuðu sig á því að það þurfi að stöðva stjórnlausa þenslu ríkis og sveitarfélaga sem er farin að hafa verulega neikvæð áhrif á lískjör almennings.

Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 9.1.2019 kl. 17:19

3 Smámynd: Steinarr Kr.

Það liggur ljóst fyrir að launakostnaður er stærsti kostnaður verslunarinnar.  Ef sparast vel þar vil ég fá hlutdeild í sparnaði verslunarinnar þegar ég tek að mér að vinna fyrir hana.  Segjum 25% afslátt af verðmiðanum strax.

Steinarr Kr. , 10.1.2019 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband