Heilræði um heilsu í reglugerð, núna!

Það er alltof mikið framboð af heilræðum um heilsu og mataræði.

Yfirleitt ganga þau út á að borða hollan mat, hreyfa sig reglulega og passa nætursvefninn, drekka áfengi í hófi og drekka nóg vatn.

Nú er komið nóg af þessu! Það á að setja þessi heilræði í reglugerð og ljúka þessari umræðu í eitt skipti fyrir öll.

Þar með getum við hætt að hugsa, taka afstöðu, hugleiða og prófa okkur áfram. Þetta mun spara samfélaginu mikinn tíma.

Þar með getum við hætt að velta fyrir okkur trúverðugleika hinna ýmsu heilsupresta. Við forðumst skottulækningar og hringl í daglegu lífi.

Reglugerð um hollar venjur gæti átt heima í flokki með reglugerðum um hvernig á að stunda fjármálaviðskipti eða halda kjúklinga. Reglugerðin velur fyrir okkur sérfræðinga og engin vandræði munu koma upp fyrir neinn í framtíðinni.

Einhverjir fúlir á móti munu mótmæla slíkri reglugerð með veikum rökum um að reglugerðir kæfa tilraunastarfsemi og hægja á lærdómsferli mannsins, sem í sífellu er að prófa eitthvað nýtt og sjá hvort það virki betur en hið gamla. En til hvers að prófa sig áfram hér? Það vita allir að pulsur eru eitraðar og vatn er gott. Hættum þessari vitleysu!

Aðrir fúlir á móti munu segja að reglugerð færi hinu opinbera of mikil völd sem það mun misnota til að stjórna okkur og jafnvel setja okkur í lífshættu. Verður hér bent á að einu sinni dæmdi hið opinbera fitu sem slæma og frúktósa sem góðan og afleiðingin er útbreidd sykurfíkn af fólki sem forðast feitmeti, en er samt spikfeitt. En hver vill ekki drekka mikið af vatni og borða kál og kjúklingabaunir? Hættum þessari vitleysu!

Loks eru það þeir sem munu halda því fram að reglugerðir myndi aðgangshindranir á markaði og tryggi þægilega stöðu nokkurra stórfyrirtækja sem uppfylla öll skilyrði og hafa efni á að halda úti lögfræðingum til að verja sig gegn samkeppni. Verður hér bent á bankana og reglugerðir í kringum fjármálaviðskipti sem slæmt fordæmi. En hver vill samkeppni í sölu á grænmeti? Gulrót er bara gulrót og skiptir engu máli hvort hún sé ræktuð af Bónus, Bauhaus eða Bjarna Benediktssyni. Hættum þessari vitleysu!

Nei, rökin hníga öll að því að setja hér umfangsmikla reglugerð sem tryggir okkur langa og heilbrigða ævi, fulla af ávöxtum og grænmeti og hreinu vatni.

Reglugerð, strax!


mbl.is 7 ráð til að verða hraustari 2019
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband