Á eftir verkfalli kemur vélmenni

Mér var að detta í hug nýtt máltæki:

Á eftir verkfalli kemur vélmenni.

Mér finnst það lýsa aðstæðum á íslenskum vinnumarkaði ágætlega.

Að vísu geta ekki öll fyrirtæki leyst af starfsfólk með vélmennum en þegar launakröfurnar eru orðnar nægjanlega háar þá fara nánast hvaða vélmenni sem er farið að borga sig. Þau kosta mikið í upphafi en vinna svo launalaust eftir það, gegn svolitlu viðhaldi. Einn sérfræðingur getur haldið tugum vélmenna í gangi og má kosta nokkuð mikið í launum áður en hann verður óhagkvæmur.

Í Bandaríkjunum hefur sjálfvirknivæðing af ýmsu tagi farið í fluggírinn eftir að mörg ríkja Bandaríkjanna hækkuðu lögbundin lágmarkslaun í ósjálfbærar hæðir.

Á Íslandi gæti þetta birst með öðrum hætti, t.d. með aukinni notkun verktakafyrirtækja og minni notkun fastráðinna starfsmanna. Þannig er hægt að bjarga rekstri í vanda undan verkfallshótunum og kjarasamningum sem endurspegla ekki raunveruleikann.

Íslensk verkalýðsfélög stefndu frá upphafi í átök. Því var nánast lofað. Núna bresta þau átök á. Þar með hafa verkalýðsleiðtogar staðið við loforð sín. Afleiðingin gæti hins vegar verið sú að mörg störf hverfa varanlega. Var þá til lítils barist. 

Það getur vel verið að ræstitæknir hótelsins verði ekki leystur af með vélmenni strax, en þrýstingurinn á að það gerist eykst töluvert. Þær hröðu breytingar sem tækniframþróunin knýr áfram gætu skollið á enn hraðar og komið mörgu fólki að óvörum. Störf eru lögð niður hraðar en nauðsyn krefur. Fólk er gert óþarft hraðar en fyrirtæki hafa í raun og veru áhuga á en neyðast einfaldlega til að gera.

Það er eitt að semja. Það er annað að knésetja og eyðileggja, varanlega.


mbl.is Efling boðar frekari verkföll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

,,Á eftir verkfalli kemur vélmenni."

Sjá ekki allir hvað við höfum mikla möguleika með þessu verkefni  ?

Auðvitað segjum við öllum ráðherrum upp og mötum bara vélmenni með öllum óska verkefnum okkar , þá verðum við Norrænt velferðarþjóðfélag og enga Tortóla prinsa og prinsessur að flækjast fyrir  að stela úr sjóðum okkar  !

Ég er til en þú  ?

JR (IP-tala skráð) 1.3.2019 kl. 12:44

2 Smámynd: Helgi Rúnar Jónsson

Er þá hugmynd Pírata um borgara laun nokkuð galin...við verðum bara heima að chilla á launum á meðan vélmennin vinna vinnuna..?

Helgi Rúnar Jónsson, 1.3.2019 kl. 12:59

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Það verður alltaf verk að vinna, sama hvað vélmenni taka sér fyrir hendur.

Fyrir 100 árum voru ekki til:
Ryksugur / ryksuguróbotar
Þvottavélar
Uppþvottavélar
Frystikistur

Hefur einhver fundið heimili þar sem þarf ekki að þrífa og ganga frá? Öðru nær. Menn finna sér einfaldlega eitthvað annað að gera þegar vélarnar hafa tekið að sér hluta vinnunnar.

Borgaralaun hafa verið reynd, t.d. í moldríkum olíuríkjum í Miðausturlöndum. Þar væflast menn nú um í iðjuleysi eða hafa fengið eitthvað gervistarf til að þykjast hafa eitthvað fyrir stafni. Sé raunverulegt verk sem þarf að vinna þarf að finna útlending til þess. 

Í stað þess að berjast fyrir því að allir fullorðnir einstaklingar komist á spenann ætti að berjast fyrir minnkandi umsvifum hins opinbera svo launafólk hafi meira eftir í launaumslaginu og geti sjálft valið hvort það stytti vinnuviku sína eða vinni hana alla gegn því að hafa meira á milli handanna. 

Geir Ágústsson, 1.3.2019 kl. 13:09

4 identicon

,,Í stað þess að berjast fyrir því að allir fullorðnir einstaklingar komist á spenann.."

Þú ert í raun að fara fram á að við leggjum niður alla stjórnmálaflokka  !

Sjálfstæðisflokkurinn er með allt dómskerfið og flesta opinbera starfsmenn á launum  !

Mér líst mjög vel á þessa tillögu þína , eins og tillöguna um að fá vélmenni fyrir ráðherra  !

Opinberakerfið allt saman er gegnsýrt af spillingu og einhverri elítu sem skammtar sér okkar peninga  !    

JR (IP-tala skráð) 1.3.2019 kl. 16:52

5 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Eins og er verður ódýrara að skifta við starfsmannaleigur.  Það verður nánasta framtíð.  Vélmennin eiga enn minnst 10 ár eftir í að fúnkera á hótelunum.  Og ég veit ekki hver viðhaldskostnaðurinn á slíkum græjum er.  En það veit svosem enginn ennþá.

Fyrst þrælahald er ólöglegt, þá verða það að vera starfsmannaleigur.

Ef starfsmannaleigurnar verða ólöglegar þá verður að sætta sig við venjulega innflytjendur frá fyrrum sovétinu eða þriðja heiminum.

Ef einhverjir Miðflokksmenn stoppa það af má fara að skoða vélmenni.

Allt miðar útá að þurfa ekki að borga laun.

Ásgrímur Hartmannsson, 1.3.2019 kl. 17:16

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásgrímur,

Allir einstalingar eru litlar starfsmannaleigur: Við seljum vinnu okkar og vonum að einhver kaupi.

Við erum öll litlir bitar af varningi sem einhver þar að vilja til að við fáum borgað.

Ef verð okkar er hærra en einhver er tilbúinn að borga þá verða engin viðskipti.

Ef verðið er lægra en nauðsyn er þá sjáum við það á næsta manni sem býður hærra verð í vinnuafl sitt og fær samt vinnu. Við hækkum þá okkar verð upp í sama verð og fáum líka vinnu. En ef næsti maður setur of hátt verð á sig þá fær hann enga vinnu. Við sjáum það og hækkum ekki upp í sama verð.

Samspil verðlags, framboðs og eftirspurnar er nákvæmlega það sama á vinnuafli og flatskjám, Ecco-skóm og tússpennum.

Verkalýðsfélög eru núna að reyna hækka verð á vinnu meðlima sinna það mikið að margir þeirra missa vinnuna. Örlög þeirra meðlima verða þau sömu og á jógúrtdós sem er merkt á of háu verði: Selst ekki, og endar í ruslinu.

Ég er hjartanlega ósammála því að fyrirtæki vilji ekki borga laun. Laun eru einfaldlega verðmiði á verðmætasköpun. Það vita allir að það þarf að fjárfesta í vinnu og aðföngum til að geta selt dýrar en var keypt.

Geir Ágústsson, 1.3.2019 kl. 18:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband