Bloggfærslur mánaðarins, júní 2023

Er ennþá ís á Norðurheimskautinu?

Þegar ég sé fréttir um bráðnun heimskautanna og hvernig hún sé alltaf að aukast og sé miklu meiri en samkvæmt fyrri spám þá undrast ég fyrst og fremst á því að það sé hreinlega ennþá ís á skautunum.

Átti hann ekki að vera horfinn fyrir löngu síðan? Eða með orðum öllu orðhvassari einstaklings sem hefur tekið saman heimsendaspár undanfarinna ára:

Hafís á norðurskautssvæðinu bráðnar svo hratt að hann verður horfinn árið 2008… 2013… 2014… 2016… örugglega fyrir 2030… örugglega fyrir lok aldarinnar – þ.e. nema [við] skellum bremsu á velmegun mannsins og drögum verulega úr okkar lífskjörum, þá verður allt frábært.

**********

Arctic sea ice is melting so fast it will be GONE by 2008… 2013… 2014… 2016… certainly by the 2030s… definitely by the end of the century — that is, unless [we] throw a chokepoint at human prosperity and drastically reduce our living standards, then all will be great.

Á sama stað er bent á að Rússar hafi á nýliðnum árum byggt níu kjarnorkuknúna ísbrjóta til að búa sig undir framtíðina og tryggja starfsemi á heimskautasvæðinu, en í þeirri framtíð er búist við að ísmagnið á Norðurheimskautinu fari jafnvel vaxandi. 

Það skiptir máli nefnilega máli að byggja ekki undirbúning sinn fyrir framtíðina á röngum spám. Segjum sem svo að Íslendingar tryðu í raun og veru á spár um hamfarahlýnun og bráðnandi Norðurheimskaut. Þeir gætu þá byrjað að undirbúa kornakra þar sem í dag þrífst bara gras, siglingar norður fyrir Grænland og jafnvel alla leið til Alaska til að stytta flutningaleiðir og auðvitað að reisa kjarnorkuver, enda verða vatnsfallsvirkjanirnar bara að stórum minnismerkjum um liðna tíma ef jöklarnir yfirgefa okkur. En auðvitað er enginn að undirbúa neitt slíkt enda trúir því enginn í raun að Norðurheimskautið sé að bráðna. Nema kannski blaðamenn, en við vitum alveg hvað er mikið að marka þá.


mbl.is Norðurheimskautið bráðnar hraðar en áður var ætlað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú reynir á fjölmiðlana

Nú þegar Vesturlönd hafa dælt vopnum inn í Úkraínu og eru undir stanslausum þrýstingi að senda meira þá eru hagsmunir Vesturlandabúa af átökunum í Úkraínu orðnir meiri en áður - farnir úr því að fylgjast úr fjarska með deilum tveggja ríkja um ofsóknir á minnihlutahópum og landamæri (eins og í tilviki Aserbaídsjan og Armeníu) og yfir í að eiga mikilla hagsmuna að gæta svo átökin bitni ekki enn frekar á íbúum Vesturlanda. 

Það skiptir því máli að fá áreiðanlegar fréttir af ástandinu í Úkraínu.

Því miður er slíkt varla í boði. Hérna tala allir í kross. 

Samkvæmt frétt Forbes gengur ekkert né rekur hjá Úkraínu að komast í gegnum jarðsprengjusvæði og varnarlínur Rússa í Úkraínu. Öll rándýru stríðstól Vesturlanda eru að fuðra upp á vígvellinum. Á Southfront.org má lesa svipaðar lýsingar. 

Hjá BBC kannast menn varla við að Úkraína sé byrjuð að dæla vopnum og mönnum í rússnesku hakkavélina og hafa lítið að segja annað en það sem forseti Úkraínu skammtar þeim af upplýsingum. Íslenskir fjölmiðlar eru ekki betur upplýstir. 

Samkvæmt Kyiv Post gengur vel að brjótast í gegnum varnir Rússa þótt sá fyrirvari sé gerður að Rússar gætu ennþá gert árásir. 

Hvað er satt og rétt? Það er erfitt að segja. Hefur skattfé Vesturlanda dugað til að senda í bæði orði og verki nægilega sterk skilaboð til Rússa um að afhenta aftur rússneskumælandi minnihlutahópa innan Úkraínu í hendur þarlendra stjórnvalda og nýnasistahersveita þeirra? Nokkuð sem gekk ekki sem skyldi á sínum tíma þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að semja um frið. Hefur sú ráðstöfun að tæma vopnabúr Vesturlanda stuðlað að auknum líkum á friði? 

Eða hefur þrátefli bara verið búið til og það styrkt? 

Eða er næsta skref að senda unga karlmenn frá Vestur-Evrópu til að deyja á sléttum Úkraínu? 

Svona spurningum er erfitt að svara án áreiðanlegra upplýsinga og þær virðast ekki vera í boði. Um leið er þrýstingurinn á að sækja meira í vasa Vesturlandabúa ekkert að minnka. Yfirvöld hafa varla fyrir því lengur að ræða þátttöku vestræns almennings í fjarlægum átökum.

En þau hika ekki við að senda almenningi reikninginn.


mbl.is Gagnsókn Úkraínumanna hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutverk utanríkisráðuneytisins

Það er ekki auðvelt að skilja hlutverk utanríkisráðuneytisins með því einu að lesa lýsingu ráðuneytisins sjálfs á því. Maður fær það á tilfinninguna að hlutverkið sé það eitt að reka sjálft sig og skrifstofur sínar. Hlutverk þess er að vera til. 

En eitthvað hlýtur hlutverkið að vera. Utanríkisráðuneytið á að verja hagsmuni Íslendinga á alþjóðavettvangi, eða það hlýtur að vera. Það er fyrsta varnarlína fullveldis Íslands, eða það ætti maður að halda.

Hlutverk þess er ekki að senda einhver siðferðisleg skilaboð til umheimsins, eða það ætla ég rétt að vona ekki. Yfirleitt er það heldur ekki svo. Utanríkisráðuneytið hefur til dæmis verið duglegt að sleikja rassgatið á Kínverjum þrátt fyrir mannréttindabrot þeirra og yfirgang. Er það væntanlega til að tryggja viðskiptaumhverfi íslenskra fyrirtækja í Kína og stuðla að friðsömum og ábatasömum viðskiptum við kínverskan almenning, sem er sjálfur undir hæl kínverskra yfirvalda. 

En svo dettur eitthvað í tísku. Íslendingar hafa sjaldan látið sitt eftir liggja í tískusveiflum. Núna er ákveðið að loka íslenska sendiráðinu í Rússlandi. Þetta á væntanlega að valda slíkum þrýstingi á rússnesk yfirvöld að þau breyti algjörlega um stefnu í málefnum Austur-Úkraínu, sem hefur verið yfirlýst og skýr og rækilega útskýrð síðan árið 2014. Auðvitað mun ekkert slíkt gerast. Það segir sig sjálft. En utanríkisráðherra hefur hérna valið að víkja hressilega frá því sem mætti kalla hlutverk hans svo svo hann geti skorað stig hjá vinum sínum í alþjóðlegum samtökum.

Og skítt með allt annað.


mbl.is Rússar segja að ákvörðun Íslands muni kosta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gildi fyrr og nú

Kenndu þeim á hætti okkar svo þau upplifi ekki þá skömm að vera gagnslaus.

Þetta er setning úr vinsælli og nýlegri kvikmynd

En yndislega úr takt við tíðarandann þrátt fyrir það!

Enginn er í raun gagnslaus, en sumir þurfa á meiri aðstoð að halda en aðrir. Skömmin er sú að þykjast vera gagnslaus. Um leið er það í tísku. 

Aumingjavæðingin er á fullri ferð. Fólk sækir í gagnslaust nám og ætlast til að fá vinnu við hæfi. Þeim er hampað sem tilkynna einhvers konar örorku eða skerta vinnugetu. Allir (nema sumir) eru orðnir að ofsóttum minnihlutahópum og fá klapp á bakið. Hrósum er deilt út til þeirra sem skipta úr launaðri og verðmætaskapandi vinnu og taka að sér líferni iðjuleysingjans sem fær bætur fyrir að sóa tíma sínum og annarra.

Allt þetta bitnar auðvitað verst á þeim sem þurfa raunverulega á aðstoð að halda vegna raunverulegrar fötlunar eða skerðinga á getu til að standa á eigin fótum. Velferðarkerfið svokallaða fer í að framfleyta fólki sem í raun ætti að geta framleitt í stað þess að þiggja.

Þessi tíðarandi er vonandi byrjaður að fjara út. Hann þarf auðvitað að ná hápunkti sínum, sem er ekki ennþá raunin, en fær svo að lóðfalla og brotna í mola.


Af hverju geta Danir brennt rusli í miðri borg en Íslendingar ekki?

Einhver herferð gegn brennslu á rusli virðist vera í gangi hjá yfirvöldum. Gott og vel, það skiptir máli hvernig blönduðum úrgangi er fargað, hvort heldur með urðun eða brennslu, en Íslendingar ættu nú samt að geta brennt ruslið sitt sjálfir í stað þess að senda það á flutningaskipum erlendis til brennslu þar, eða hvað?

arcÍ Danmörku er rusli brennt til að framleiða rafmagn og hita. Krúnudjásnið er sennilega Amager Bakke, sem er risavaxin sorpbrennsla sem brennir bæði innlendu og innfluttu rusli. Úr brennslunni streymir hvítur og lyktarlaus reykur. Á húsinu er manngerð skíðabrekka. 

Ég get ekki ímyndað mér að Danir séu slakari í umhverfisverndinni en Íslendingar og heldur ekki að þeir taki vægar á losun skaðlegra efna í andrúmsloftið. Af hverju mega Danir þá brenna rusli og nýta það eins og auðlind en á Íslandi hreykja yfirvöld sér af því að hafa lokað á slíkt?

Eru Íslendingar mögulega að niðurgreiða raforkuframleiðslu fyrir Dani með því að útvega þeim ódýrt hráefni?

Gleymum því ekki að brennsla á rusli er ljómandi liður í hringavitleysunni sem kallast hringrásarhagkerfi. Koltvísýringur streymir út í andrúmsloftið og eflir vöxt gróðurs. Askan sem fellur til er meðhöndluð og meðal annars hægt að ná úr henni málum til endurvinnslu og fylliefni í vegi og stíga, að sögn

Kannski er stærðargráðan ekki næg fyrir slíka starfsemi á Íslandi, og kannski borga útlendingarnir fyrir ruslið frá Íslandi, og kannski er ódýrast að sigla öllu úr landi, en það má einhver gjarnan útskýra það fyrir mér og öðrum. Því í dag er eins og meðhöndlun á sorpi og öðru sem fellur til á Íslandi sé frekar í ætt við trúarathöfn sem má kosta hvað sem er en lausnamiðaða hugsun.


mbl.is Samdráttur í losun þrávirkra lífrænna efna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ormalyfið

Í alveg stórkostlegri frétt á Vísir.is er talað um ákveðið lyf sem ormalyf sem einhverjir læknar á Íslandi skrifuðu upp á fyrir sjúklinga til að takast á við og jafnvel fyrirbyggja alvarleg veikindi vegna COVID-19.

Ég ætla ekki að fara yfir allar rangfærslurnar í fréttinni en bara benda á nokkur atriði.

Mörg lyf hafa sýnt sig að geta þjónað mörgum hlutverkum - virkað á margar pestir og í bæði mönnum og fólki. Sem dæmi má nefna að læknar eru nú að komast að því að lyf sem hafa verið þróuð fyrir gæludýr virka betur fyrir fólk en lyf sem hafa verið þróuð fyrir fólk. Það er af því fólkið sem veikist er fátækt og enginn nennir að sinna því, en gæludýraeigendur eru ríkir og fjármagna dýrar rannsóknir. Ný lyf koma því fram á sjónarsviðið sem slá þeim gömlu við. Ormalyf hafa jafnvel sýnt getu til að drepa krabbameinsfrumur

Að auki hafa læknar hingað til mátt skrifa upp á lyf fyrir sjúklinga sem svokallað "off-label", eða gegn einhverju öðru en stendur á pakkningunni (á tungutaki embættismannsins: ekki í samræmi við markaðsleyfi lyfs). Slíkt fyrirkomulag var í mörgum tilvikum stöðvað á veirutímum, í miðri örvæntingunni þegar öllu hefði átt að tjalda til, eftir áratugi af fyrri reynslu án sýnilegrar ástæðu. Menn báru fyrir sér skort á rannsóknum en þá eru menn auðvitað að beita bákninu gegn fólkinu.

Ormalyfið sem blaðamaður reynir að gera lítið úr hefur verið á ferðinni í áratugi, er mjög öruggt, verðlaunað og viðurkennt sem nothæft lyf gegn mörgum kvillum, þar á meðal malaríu, sem er jú ekki ormasjúkdómur. Í raun vitum við lítið um ástæður þessarar virkni lyfsins en veikir sjúklingar sem ná bata þakka engu að síður fyrir sig. 

Að kalla lyf með margskonar virkni ormalyf er auðvitað uppnefni. Má ekki alveg eins kalla það krabbameinslyf? Eða malaríulyf? Nú eða taka skrefið alla leið og kalla það kóvítlyf, sem það svo sannarlega er

Margir hafa velt því mikið fyrir sér af hverju allt kapp var lagt á það á veirutímum að kæfa alla umræðu um læknandi og jafnvel fyrirbyggjandi meðferðir gegn veirunni. Af hverju læknum var skyndilega bannað að vinna vinnu sína og jafnvel vikið úr starfi fyrir slíka ósvífni. Allt í einu var hreinlega ekkert í boði til að verja sig eða styrkja gegn veikindum nema að láta bólusetja sig! Sennilega í fyrsta skipti í allri mannkynssögunni, ef ofstækisfyllstu trúarbrögð eru undanskilin. Lýsi virkar ekki. Hreyfing virkar ekki. Lyf sem meðal annars vinna á ormum og malaríu virka ekki. Ekkert virkar! Allt er ónýtt! Nema það sé nógu nýtt, nógu verndað með einkaleyfum og nógu dýrt

Allt var þetta lygavefur. En blaðamenn halda af einhverjum ástæðum sínu striki. Þá vitum við hvar við höfum þá. Kannski það sé þrátt fyrir allt jákvætt.


Valkostir við lífeyri

Lífeyrisgreiðslur og skattgreiðslur eiga margt sameiginlegt.

  • Peningurinn er tekinn af þér með valdboði og komið fyrir í sjóðum undir stjórn annarra.
  • Þegar þú deyrð þá deyja öll þín réttindi.
  • Aðrir sjá um að ávaxta (eða tapa) peningunum.
  • Aðrir sjá um að skammta þeim sem þiggja greiðslur, og veltur sú skömmtun á ákvörðunum sem aðrir taka.
  • Stjórnmálamenn geta lokkað peninga lífeyrissjóðanna í hirslur sínar, rétt eins og skattfé

Lífeyrisgreiðslur hafa að auki þann galla fyrir yngra fólk að það er látið leggja fyrir á lágum vöxtum á meðan það borgar niður skuldir á háum vöxtum.

Ég andmæli því ekki að það sé sniðugt að leggja fyrir til efri áranna þegar vinnugeta er skert eða jafnvel horfin. En það er eitthvað rangt á ferðinni í dag, hvað sem því líður. Einhver ósveigjanleiki. 

Persónulega hef ég ekkert á móti því að læsa fé inni til efri áranna en ég vil þá eiga það og geta arfleitt það börnum mínum. Í stað þess að borga í einhverja hít (sem ég geri í eins litlum mæli og ég mögulega get) væri til lengri tíma mögulega sniðugra að kaupa gullpeninga og leyfa þeim að safnast upp í einhverju bankahólfi. Nú eða að eyða 10% af laununum í að borga niður góða fasteign frekar en að fjármagna kaup á einhverjum skulda- og hlutabréfum í fyrirtækjum sem ég þekki ekki og trúi jafnvel ekki á.

En á meðan ekkert breytist er launum fólks safnað í sjóði og kaupa vel launaðar stjórnarsetur fyrir útvalda aðila, skuldir hins opinbera og hlutabréf í spilaborgunum sem nútímabankar eru.

Og það er bara eitthvað rangt við það.


mbl.is Lífeyrisréttindi lækka um 10%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein tilgangslausa loftslagsráðstefnan, enn og aftur í sólarparadís

Þeir hafa það gott þessir grísir sem komast á spena loftslagsgyltunnar. Líka Óli grís. Grísunum reglulega smalað upp í einkaflugvélar og flogið til rándýrra sólarstranda þar sem þeir borða rautt kjöt og drekka innflutt vín á kostnað skattgreiðenda og reyna í sameiningu að finna leiðir til að taka af þér bílinn, hagstæð flugfargjöld og góðan mat. 

Íslendingar taka vitaskuld þátt í þessu og senda herskara fólks á svæðið til að njóta dýrðarinnar, sólarinnar og athyglinnar. Fjöldinn virðist vera að tvöfaldast á hverju ári undanfarið [2021, 2022] og því nokkuð margir sem geta farið að hlakka til ókeypis uppihalds á lúxushóteli í framandi landi á kostnað þín.

Ekki veit ég hvernig mönnum ætlar að takast að ýkja enn frekar heimsendaspár sínar en það hlýtur að takast. Auðvitað eru allir hættir að hlusta, fyrir löngu. Kínverjar og Indverjar eru að reyna afla orku fyrir landsmenn sína og byggja kolaorkuver eins og enginn sé morgundagurinn. Á meðan ætla Vesturlönd að halda áfram að þjarma að íbúum sínum og svipta þá orkunni og helst að drepa þá úr kulda

Þeir segja að lýðræðið sé svo ágætt. Þannig veljist hæfir stjórnendur til að leysa erfið verkefni. Ég er efins.


mbl.is Ólafur Ragnar í ráðgjafarnefnd COP28
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringrásarvitleysan

Það er eitthvað að koma mörgum Íslendingum á óvart þessa dagana að allt hringleikahúsið í kringum flokkun á rusli - tunnurnar, grenndargámarnir, móttökustöðvarnar, skilagjaldið, fækkun sorphirðudaga og síhækkandi sorphirðugjaldið - er meira og minna svikamylla. Það er í sjálfu sér ágætt að fólk sé að átta sig. En af hverju tók það svona langan tíma?

Flokkun á rusli og endurvinnsla eða endurnýting þess er einfaldlega spurning um verðmætasköpun. Sjái einhver hag sinn í því að gramsa í rusli í leit að efnum til verðmætasköpunar þá á það sér stað ef enginn stendur í vegi fyrir því. Hjá mínum gamla atvinnuveitanda var ruslið hreinlega selt því eitthvað annað fyrirtæki kunni að vinna verðmæti úr því. Ef lífrænn úrgangur er raunverulega verðmætur þá er einhver að kaupa hann af fólki og fyrirtækjum. Sama gildir um annan úrgang.

En enginn er auðvitað að leita að verðmætum í úrgangi. Íslendingar sigla pappír, plasti og öðru til fjarlægra ríkja gegn ógnargjaldi og mikið af þessu endar hreinlega í erlendum brennsluofnum frekar en íslenskum. Þetta jafnast á við að Íslendingar niðurgreiði orkureikninga annarra ríkja. 

Þetta er eitt stórt leikrit sem gagnast hvorki umhverfinu né loftslaginu og dregur í engu úr þörfum mannkyns til að afla sér nýrra hráefna til að búa til nýja hluti.

Venjulegt fólk á að geta losað sig við rusl í ruslatunnu. Allt rusl í eina tunnu (mögulega með rafhlöður og eitruð efni sem undantekningar). Síðan eiga sérfræðingar eða sérhæfðir aðilar að taka við og leita að verðmætum án þess að það bitni á þeim sem afhentu þau.

Slíkt fyrirkomulag eykur skilvirkni flokkunar og endurnýtingar eins og nýlegt norskt dæmi sýnir. Og í raun ættu dæmi að vera óþörf: Það segir sig sjálft að almenningur flokkar vitlaust og verr en fagmenn og færibönd, það er óhagkvæmt að sækja margar tegundir af rusli í mismunandi bílum úr hverri einustu ruslageymslu, opinbert og niðurgreitt bákn er aldrei að hugsa um hagkvæmni, auknar kröfur um flokkun eru ekki byggðar á óskum verðmætaskapandi fyrirtækja heldur embættismanna að eltast við tískusveiflur og seinast en ekki síst: Enginn hefur nennt að sýna fram á ávinninginn miðað við það sem áður var (allt rusl í eina tunnu), enda er hann enginn. Augljóslega.

Auðvitað er skítur eins oftar en ekki gull annars. Þannig hefur það alltaf verið og mannkynið hefur frá örófi alda alltaf reynt að nýta allt sem til fellur á meðan í því felast verðmæti. En hringrásarhagkerfið svokallaða, með öllum sínum tunnum og kröfum á venjulegt fólk, er hringavitleysa. Mikið er gott að sjá einhverja átta sig á því.


Heimurinn klofnar

Eftir margra ára aðdraganda réðust Rússar inn í Úkraínu í fyrra og afleiðingarnar hafa verið skelfilegar. Mannslíf hverfa og skemmdir breiðast út. En í stað þess að reyna knýja á um viðræður (sem meðal annars fela í sér að sprengjuregn úkraínskra hersveita á íbúa Austur-Úkraínu stöðvist) og stöðva átök og draga hermenn til baka hefur að því er virðist öllum árum verið róið að því að magna upp átökin. Vopnum og peningum er dælt inn á átakasvæði og heilu borgirnar að leysast upp í duft. 

Viðskiptahindrunum hefur verið beitt gegn Rússlandi síðan Vesturlöndum tókst að koma á valdaráni í Úkraínu árið 2014 og blautur draumur margra að sjá rússneska ríkjasambandið leysast upp í frumeindir og bæta þannig aðgengi vestrænna hernaðarvelda að austasta hluta Evrópu. Ásælni Vesturlanda í lönd annarra er óseðjandi og spillt og brothætt ríki eins og Úkraína mjög heppileg leppríki til að fela allskyns ósiðlega starfsemi. Ef þessir Rússar gætu nú bara haldið sig fjarri!

Hvað um það. Nú hafa viðskiptahindranirnar ekki virkað enda hafa flest ríki heims enga sérstaka afstöðu til deilumála Úkraínu og Rússlands. Þetta fer í taugarnar á Evrópusambandinu.

Að sögn telur ESB að fyrri tíu refsiaðgerðir þess sem beinast að ráðstöfunum til að tæma stríðskistu Vladimírs Pútíns hafi verið sniðgengnar. Þess vegna gæti komandi pakki miðað við önnur lönd sem hjálpa Moskvu að forðast viðskiptabann sitt, að sögn.

Allt þetta er gert samkvæmt ákvörðun seinasta fundar G7 í Hiroshima um að „svelta Rússland af G7 tækni, iðnaðarvarningi og þjónustu sem styður stríð þess.

Þess má geta að Rússland á stærð við heimsálfu og komandi landfræðileg útvíkkun á áhrifum Moskvu í gegnum þáverandi Sovétríkin hefur alltaf vakið öfund Vesturlanda.

********** 

Reportedly, the EU thinks that its earlier ten sanctions focusing on measures to empty Vladimir Putin’s war chest have been circumvented. Therefore, the block’s coming package could target other countries helping Moscow dodge its trade embargo, it is said.

All this is being done by as per the decision of the latest Group of Seven summit at Hiroshima to “starve Russia of G7 technology, industrial equipment and services that support its war.”

It may be noted that a continental-sized Russia and the future geographical expansion of Moscow’s influence through the then Soviet Union (USSR) had always evoked Western envy.

Takið eftir: Komandi viðskiptahindranir eiga að bitna á ríkjum sem hjálpa Moskvu að forðast viðskiptahindranir!

Svona talsmáti er auðvitað bara notaður til að kynda undir óeiningu og sundrun. Á núna að beita Mexíkó, Nígeríu, Íran og Indónesíu viðskiptahindrunum fyrir að kaupa og selja ávexti, járn, olíu og fatnað? 

Það er ekki skrýtið að samstarf Brasilíu, Indlands, Kína, Rússlands og Suður-Afríku (BRICS) sé orðið mjög eftirsótt og umsóknir streyma inn. Vantraust á Vesturlönd fer vaxandi, og má þar sérstaklega nefna sem ástæðu vopnavæðingu bandaríska dollarans þegar eignir eru frystar og sjóðir gerðir upptækir. 

Heimurinn er að klofna, og ástæðan er fyrsta fremst sú að Vesturlönd eru að höggva og berja og búa til sprungur og gil.

Niðurstaðan verður sú að allir tapa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband