Valkostir við lífeyri

Lífeyrisgreiðslur og skattgreiðslur eiga margt sameiginlegt.

  • Peningurinn er tekinn af þér með valdboði og komið fyrir í sjóðum undir stjórn annarra.
  • Þegar þú deyrð þá deyja öll þín réttindi.
  • Aðrir sjá um að ávaxta (eða tapa) peningunum.
  • Aðrir sjá um að skammta þeim sem þiggja greiðslur, og veltur sú skömmtun á ákvörðunum sem aðrir taka.
  • Stjórnmálamenn geta lokkað peninga lífeyrissjóðanna í hirslur sínar, rétt eins og skattfé

Lífeyrisgreiðslur hafa að auki þann galla fyrir yngra fólk að það er látið leggja fyrir á lágum vöxtum á meðan það borgar niður skuldir á háum vöxtum.

Ég andmæli því ekki að það sé sniðugt að leggja fyrir til efri áranna þegar vinnugeta er skert eða jafnvel horfin. En það er eitthvað rangt á ferðinni í dag, hvað sem því líður. Einhver ósveigjanleiki. 

Persónulega hef ég ekkert á móti því að læsa fé inni til efri áranna en ég vil þá eiga það og geta arfleitt það börnum mínum. Í stað þess að borga í einhverja hít (sem ég geri í eins litlum mæli og ég mögulega get) væri til lengri tíma mögulega sniðugra að kaupa gullpeninga og leyfa þeim að safnast upp í einhverju bankahólfi. Nú eða að eyða 10% af laununum í að borga niður góða fasteign frekar en að fjármagna kaup á einhverjum skulda- og hlutabréfum í fyrirtækjum sem ég þekki ekki og trúi jafnvel ekki á.

En á meðan ekkert breytist er launum fólks safnað í sjóði og kaupa vel launaðar stjórnarsetur fyrir útvalda aðila, skuldir hins opinbera og hlutabréf í spilaborgunum sem nútímabankar eru.

Og það er bara eitthvað rangt við það.


mbl.is Lífeyrisréttindi lækka um 10%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það vill oft gleymast að lífeyrisgreiðslur eru einnig tryggingagreiðslur. Launþegi sem greiðir í lífeyrissjóð og lendir í slysi og verður öryrki heldur launum til 67 ára aldurs. Þegar búið er að draga þann kostnað frá og rest sett í gull þá ættir þú sennilega tæplega þriggja ára laun í gulli. Það þyrftir þú að ávaxta við starfslok um 20% á ári til að vera með hálf laun í ellinni án þess að ganga á höfuðstólinn. Einhvernvegin sé ég það ekki gerast og tel sennilegra að þú værir orðin gjaldþrota fljótlega upp úr sjötugu og kominn á framfæri skattborgara næstu tuttugu árin.

Vagn (IP-tala skráð) 6.6.2023 kl. 13:58

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Þetta er meðal annars vandamál kerfisins. Takk fyrir að benda á það. Á meðan fær ekkjan ekki krónu þegar maðurinn fellur frá þótt hún hafi tekið á sinn hátt þátt í að fjármagna lífeyrissjóð hans.

Geir Ágústsson, 6.6.2023 kl. 15:37

3 identicon

Já, ekkjan fær lítið sem ekkert ef hinn fráliðni skráði ekki hluta af sínum réttindum á hana. Þannig virka tryggingakerfi, aðeins hinir tryggðu fá borgað og iðgjöldin erfast ekki.

Vagn (IP-tala skráð) 6.6.2023 kl. 16:02

4 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Það er annað við lífeyriskerfið, eins og það er.

Gefum okkur nú, í bjartsýniskasti, að peningarnir séu ávaxtaðir þannig að þeir halda amk í við verðbólgu, og þeim sé ekki beinlínis stolið.

Þegar kerfið var stofnað, þá eignuðust fjölskildur 4-10 börn.  Meðal-ævilíkurnar voru svona ~70 ár.

Nú er fæðingartíðnin að skreppa saman, að verða minni en 2 börn per konu.  Meðal-ævilíkurnar eru 80+.

Það eru að verða færri og færri að standa undir hverjum ellilífeyrisþega.  Þar sem voru 4 fyrir 30 árum eru núna kannski 2, með heppni, og fer fækkandi.

Alveg frábært kerfi, ekki satt?

Ásgrímur Hartmannsson, 6.6.2023 kl. 18:58

5 identicon

Ásgrímur, þar sem ekki er um gegnumstreymiskerfi að ræða þá skiptir aldurssamsetning þjóðarinnar svotil engu máli. Börnin standa ekki undir greiðslunum heldur arður og söluhagnaður hlutabréfa innlendra og erlendra fyrirtækja. Ávöxtun þess sem þú og þeir sem á undan þér komu lögðu til. Bláa lònið og Apple borga þinn lífeyri en ekki skattar barnabarna þinna eins og á hinum norðurlöndunum.

Vagn (IP-tala skráð) 6.6.2023 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband