Bloggfærslur mánaðarins, maí 2023

Þarf að innleiða þungarokk í íslenska grunnskóla?

Ég fékk tölvupóst um daginn sem meðlimur tölvupóstlista Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Í honum var ákall til stráka um að skrá sig í háskólanám, nánast óháð því hvað þeir vita, vilja, geta eða kunna. Ástæðan er ákveðið vandamál, sem ég hef samúð með, en hef mínar efasemdir um lausnina, og þannig er það. Ein snýr að því að það er of seint að moka strákum í háskóla ef skólakerfið fram að þeim tímapunkti hefur ekki undirbúið þá og dæmir þá til að falla og detta úr námi og missa móðinn. Og hvernig stendur á því (fyrir utan að það er búið að berja úr þeim karlmennskuna, drifkraftinn, metnaðinn og áhugann)?

Á mínum grunnskólaárum voru Metallica og Guns N´ Roses vinsælustu hljómsveitirnar meðal okkar strákanna, þótt ég hafi kannski ekki alveg verið á nótunum í því á þeim tíma. Í myndmennt voru sumir strákanna að reyna teikna merki þessara hljómsveita eins vel og þeir gátu og skila af sér sem verkefni. Þeir eyddu sínum peningum og tíma í að kaupa og hlusta á tónlist þessara hljómsveita, söfnuðu jafnvel síðu hári eins og forsprakkar þeirra og æfðu sig á hljóðfærum til að reyna spila lög þeirra. 

Ég þróaði með mér smekk fyrir þungarokki einhverjum árum seinna og hef ekki snúið aftur. Sérstaklega var ég, og er, hrifinn af tónlist hljómsveitarinnar Slipknot, og hún heldur mér oft við efnið í vinnunni við ákveðin tækifæri.

Hvað um það. Þungarokk er eins og menn vita: Þungt. Takturinn er yfirleitt hraður og hávaðinn mikill. Á tónleikum baða menn út höndum, ýta við öðrum og er ýtt á móti, keyra hausinn upp og niður og öskra eins og lungun leyfa þegar þannig liggur við. Myndbönd frá þungarokkstónleikum gefa eflaust mynd af ofbeldi, brjálæði og stjórnleysi. En sem ítrekað vitni get ég vottað að svo er ekki. Þetta eru meðal friðsælustu viðburða sem um getur og fólk passar hvert annað þegar hamagangurinn er mikill (með örfáum undantekningum - einu sinni og bara einu sinni varð ég vitni að því að eitthvert vöðvatröllið var að leita að átökum en gekk illa).

En hvað kemur þetta lélegri mætingu stráka í háskóla við? Kannski ekkert, en mín uppástunga er sú að strákum vantar útrás og fá hana ekki lengur. Þeir eru í læstu búri, og meira svo en á mínum grunnskólaárum, sem að mestu leyti fór fram undir styrkri stjórn miðaldra, vingjarnlegrar konu sem náði til allra. Þeir sitja á orku sem er bæld niður í skólanum og springur í loft upp utan skólans - í rangan farveg. 

Kannski þarf að innleiða þungarokk í námsskrá til að mæta þessu misræmi í skipulagningu og þörf.

Ég þurfti ekki á slíku að halda á sínum tíma en sé fyrir mér að of fastir rammar hefðu kæft sál margra minna fyrrum bekkjabræðra í órólegu deildinni sem hafa fundið sína hillu í dag - frá tónlistargerð og markaðssetningu til forritunar. 

Útrásin þarf auðvitað ekki að vera þungarokkstónleikar. Ég ræddi fyrir ekki löngu við móður uppkomins drengs sem rakst á alla á sinni grunnskólagöngu fyrir utan einn kennara sem sendi strákinn út í hlaupatúr með reglulegu millibili og gat svo kennt honum þess á milli eins og öðrum. Strákur sem allir kölluðu ofvirkan kallaði kennarinn bara virkan. 

Það er eitthvað mikið að í grunn- og framhaldsskólakennslu drengja á Íslandi eins og tölurnar segja með blikkljósum og óhljóðum. Það er gott að ráðherra háskólanna tekur eftir, en það er slæmt ef það er eini ráðherrann sem tekur eftir. 

Mín uppástunga: Hefjið hverja kennslustund á því að leyfa strákunum, að minnsta kosti, að fá útrás við lagið People=Shit, með Slipknot. Ef kennslustundin er ekki rólegri eftir það miðað við aðrar án slíkrar útrásar þá borga ég kaffibolla fyrir viðkomandi kennara. 


Heiðarleg viðvörun

Evrópuregluverk um sjálfbærni verður innleitt á Íslandi. Ég má til með að hrósa blaðamanni fyrir að veita fyrirtækjum heiðarlega viðvörun:

Breyt­ing­arn­ar eru um­tals­verðar og að lík­ind­um víðtæk­ari en mörg fyr­ir­tæki gera sér í grein fyr­ir. Þrátt fyr­ir að lög­gjöf­in taki einkum til stórra fyr­ir­tækja og fjár­mála­fyr­ir­tækja, þá mun starf­semi lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja ekki fara var­hluta af reglu­verk­inu.

Hér er um að ræða tilraun Evrópusambandsins til að stýra því hvert fjármagni einkafyrirtækja er beint. Eða eins og blaðamaður útskýrir ágætlega:

Reglu­verk­inu er ekki aðeins ætlað að koma í veg fyr­ir grænþvott, held­ur einnig að stýra fjár­magni inn í sjálf­bærni­veg­ferðina og hafa þannig áhrif á sjálf­bær­ar fjár­fest­ing­ar þar sem fjár­mál fyr­ir­tækja og sjálf­bærni verða í reynd samof­in með þeim hætti að fjár­hags­leg­ar ákv­arðanir fyr­ir­tækja og fjár­festa taki mið af sjálf­bærni í framtíðinni.

Þetta þýðir í raun að ef fjárfestir ákveður að fjárfesta í gaslind í Afríku þá bítur regluverkið hann verr en ef hann hefði ákveðið að hjálpa ríkum Vesturlandabúa að setja upp vindmyllu.

Svona afskiptasemi er ekki nýtt fyrirbæri. Sem dæmi má nefna að félagsskapur siðblindra milljarðamæringa, oft kallaður World Economic Forum (WEF), leggur til hin svokölluðu ESG-viðmið í fjárfestingum. WEF segir að þau viðmið muni styrkja efnahagsþróun Afríku en raunin er sú að vestrænar fjárfestingar eru á flótta frá helstu lífæðum Afríku vegna slíkra viðmiða. Rök hafa verið færð fyrir því að ESG-vænar fjárfestingar skili bæði lélegri ávöxtun og engu betri árangri á mælikvarða ESG-viðmiðanna en aðrar fjárfestingar.

Evrópusambandið ætlar núna að endurtaka mistök WEF með hörðum lögum og reglum sem bíta. Ekki virðist vera um valkvæð ákvæði að ræða. Samkeppnishæfni Evrópu fær enn eitt skotið í fótinn og fórnarlömbin eru fátækir heimshlutar sem vantar fyrst og fremst fjárfestingar í innviðum og hagkvæmri orkuöflun svo þeir geti byrjað að byggja upp hagkerfi sín - og fjárfestar fá í staðinn góða ávöxtun.

Kannski Kínverjarnir fylli í skarðið, með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir? Evrópa getur þá haldið áfram að klappa sér á bakið fyrir að hafa bjargað heiminum á meðan áhrif hennar og efnahagur heldur áfram að breytast í rústir. 


mbl.is Stýra fjármagni í græna vegferð ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhagræði í hagræðingu?

Einhver mætti gjarnan útskýra fyrir mér hvaða sparnaður, hagræðing eða skilvirkni felst í því að sameina tvo framhaldsskóla sem eiga húsnæði víðsfjarri hvor öðrum.

Á að fækka nemendum sem nemur nemendafjölda annars skólans? Fækka plássum í framhaldsskólakerfinu?

Eða troða öllum nemendum annars skólans inn í hinn? Selja svo húseignir annars skólans og troða fleiri byggingum eða hæðum eða bæði á skólalóð hins?

Er mikið svigrúm til að fækka stjórnendum svo um muni þegar tvær skrifstofur eru lagðar saman? Tveir skólastjórar verða einn og þar fram eftir götunum? 

Verður á einhvern hátt ódýrara að veita menntunina? Kannski með því að fækka áföngum, minnka val og stækka bekki?

Ég gekk í Menntaskólann í Reykjavík og var svo heppinn að fá að gera það í fjögur ár. Við útskrift sat í manni hlý minning um tímabil mikils náms, mikils félagslífs og kennslustunda af öllu tagi - í sumum þar sem maður svaf, í öðrum þar sem maður hló, en í flestum að reyna tileinka sér námsefni af ýmsu tagi. Ég efast um að mín fjögur ár hafi kostað skattgreiðendur meira en þriggja ára námið í dag enda hélt þáverandi rektor alltaf vel um veskið og rak skólann innan fjárheimilda, nú fyrir utan að það var þröngt á þingi og ekki búið að byggja nálægt því allt sem hefur verið bætt við skólann í dag til að mæta nútímalegum kröfum um loftræstingu og tölvuaðstöðu. En mér gæti skjátlast. 

Yfirvöld tóku framhaldsskólaárin af unga fólkinu á veirutímum og hafa aldrei beðist afsökunar á því. Nú sýnist mér eiga að bæta í og afmá ýmis séreinkenni áratugagamalla skólastofnana með mikla arfleifð og sögu og enn meira af stolti, án skiljanlegs ávinnings.


mbl.is „Við elskum okkar skóla“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ávext­ir fund­ar­ins

Eins sífellt fleiri hafa bent á þá var áhugi erlendra fjölmiðla á hringleikahúsinu í Reykjavík - leiðtogafundi Evrópuráðsins - lítill sem enginn. Íslenskur blaðamaður, sem greinilega var mjög áhugasamur um hringleikahúsið og taldi það mjög mikilvægt, skrifar:

Ávext­ir fund­ar­ins munu marg­ir hverj­ir mögu­lega ekki líta dags­ins ljós al­veg strax en samstaða leiðtoga Evr­ópu hvað varðar mál­efni Úkraínu verður vafa­laust dýr­mæt fyr­ir fram­haldið. Ef það er raun­in mætti kannski spyrja að því hvort að um­fjöll­un­in og umstangið hafi ekki reynst þess virði, sama hvort fjöl­miðlar annarra landa séu að fylgj­ast með eða ekki. 

Þetta er tálsýn, því fundurinn er búinn og arfleifð hans verður engin. Meint tjónaskrá verður aldrei dregin fram, umrædd samstaða var nú þegar til staðar enda búið að fleygja Rússum úr ráðinu fyrir að hafa aðra skoðun á vandamálum Austur-Úkraínu, kolefnisspor þátttakenda er staðreynd, óþægindin fyrir gesti og íbúa miðbæjarins blessunarlega yfirstaðin, reikningurinn kominn í heimabanka skattgreiðenda og búið að rýma salina og undirbúa viðburði sem krefjast þess ekki að venjulegt fólk úti á götu sé handtekið án dóms og laga. 

Eins og afskorið blóm er ekkert eftir núna nema að fleygja visnuðum laufblöðum í ruslafötuna og gleyma tilurð þess. Næsta mál, takk.

En kannski situr eitt eftir sem mun koma sér vel fyrir suma: Svona fundir styrkja tengslanet þátttakenda. Þegar kjósendur fá leið á einhverjum þeirra þá geta þeir fundið sér þægilega innivinnu í gegnum slík tengslanet. Fyrir næstu kosningar til Alþingis getur forsætisráðherra kannski tekið því rólega, lýst yfir brotthvarfi úr stjórnmálum af einhverjum ástæðum, beðið í nokkrar vikur og verða síðan auglýstur sem yfirmaður eða sendiherra einhverrar skrifstofu í Evrópu sem borgar svimandi, skattfrjáls laun fyrir að bera fínan titil en engar skyldur. 

Var það kannski hvatinn að baki hringleikahúsinu?


mbl.is Stór fundur – lítil umfjöllun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað á að kenna börnunum

Heimurinn getur verið flókinn og stór, sérstaklega í hugum krakka. Við reynum að undirbúa börnin okkar fyrir lífið svo þau geti varið sig og spjarað sig. Við kennum þeim að forðast bíla á ferð, að skera epli án þess að skera puttann og setja ekki hendurnar á heita hellu.

Við kennum þeim líka á fjölbreytileika lífsins. Sumir eru í hjólastól, sumir eru hárlausir og sumir eru feitir eða mjóir. Öll erum við samt manneskjur. Þegar kynþroski nálgast kennum við þeim á kynfærin, bendum á að sumir laðast að eigin kyni og að kynsjúkdómar séu ekki sniðugir.

Við segjum þeim frá eldgosum og jarðskjálftum, stríði og friði og syndum fortíðar: Þrælahaldi, kúgun kvenna og þjóðarmorðum.

En einhvers staðar þarf að stoppa. Vandamálin eru svo mörg og sum svo sjaldgæf að þau komast einfaldlega ekki á blað. Við kennum þeim til dæmis ekki að panta kaffi á kínversku enda ólíklegt að sú þekking komi að einhverjum notum. Við segjum ekki frá hverjum einasta sjúkdómi og hvernig á að umgangast einstakling með slíkan. Sé eitthvað alveg rosalega sjaldgæft þá læra þeir sem þurfa þegar þeir þurfa. 

Spurningin er stundum hvar draga eigi mörkin. Segjum að ákveðið ástand hrjái 0,004% fólks eða fjóra af hverjum hundrað þúsund einstaklingum. Fjöldi slíkra einstaklinga væri þá í kringum 15 á Íslandi. Ólíklegt er að rekast á slíkan einstakling og hvað þá vera í bekk eða á vinnustað með slíkum. Líklegt er að allir þessir einstaklingar séu undir leiðsögn einhvers konar læknis eða sérfræðings og að nærumhverfi viðkomandi sé vel upplýst um ástandið og hvernig er best að haga seglum sínum í daglegum amstri og umgengni við annað fólk.

Er réttlætanlegt að forgangsraða takmörkuðum tíma og auðlindum í mikla kennslu og umræðu um hið sjaldgæfa ástand? Kannski, segja einhverjir, og benda á víðtæka fordóma og skilningsleysi í samfélaginu. Kannski þarf að takast á við allt, hvorki meira né minna. Kenna börnum á allt. Gera atlögu að öllum mögulegum en ólíklegum fordómum. Fara í greiningarhandbækur lækna og sérfræðinga og fræða börn um allt sem þar er að finna. 

Hvort eitthvað sitji eftir í óhörðnuðum huga barna er önnur saga. 

Persónulega mæli ég ekki með þessari nálgun. Miklu tel ég að börn þurfi að læra á það mikilvægasta í lífi þeirra og að auki almennt umburðarlyndi og góðmennsku gagnvart fjölbreytileika mannsins, án þess að fara í hvert einasta smáatriði.


Tölur dregnar upp úr hatti

Það er næstum öruggt að 2023 til 2027 verður hlýjasta fimm ára tímabilið í heiminum frá upphafi mælinga að sögn allskyns spekinga sem hafa ekki spáð neinu rétt hingað til. En það má vona, enda er kuldi mun banvænni en hiti, og svolítil hlýnun auk vaxandi styrkleika koltvísýrings í andrúmsloftinu heldur áfram að stuðla að grænkun jarðarinnar og aukinni framleiðslu á matvælum og endurheimt skóglendis. 

Sem betur fer þurfum við ekki að treysta hefðbundnum blaðamönnum. Nóg af til af öðrum heimildum. Til að mynda er vefsíðan Electroverse.info góð tilbreyting. Þar er ekki skafað af því:

The rhetoric is unlike anything I’ve ever seen, the warm-mongering is on full show, and EVERYONE is dutifully following the instruction. These charlatans have sat patiently through three years of La Niña (cooling that they previously claimed was an impossibility) and now they’re pouncing on the very first glimpse of oceanic warming.

En hvað vita þeir á Electroverse sem blaðamenn vita ekki? Greinin fer yfir það í nokkrum smáatriðum og niðurstaðan sú að þótt mögulega séu á lofti einhver teikn um komandi El Niño þá gætu þau haft aðrar ástæður og of snemmt að blása í lúðrana.

Eða með orðum vísindamanna sem er mögulega svolítið annt um orðspor sitt þótt þeir fái borgað fyrir að boða heimsenda (heimild):

And as recently stated by NOAA, but left out of the propaganda doing the MSM rounds: “While the tropical Pacific precursors of El Niño are currently evident this spring, there is a certain amount of forecast uncertainty that will not go away. Come this summer/fall, we will see whether the conditions we’re seeing this spring were, in fact, sufficient to become a bona fide El Niño.”

Mikið er ég feginn að hafa þróað með mér það afslappandi hugarfar að telja fjölmiðla vera marklaus færibönd af endalausum og innantómum heimsendaspám sem rætast ekki einu sinni þótt þær séu endurteknar áratugum saman. 


mbl.is Hlýjasta fimm ára tímabilið hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundurinn sem enginn fjallaði um

Nú er sem betur fer fundur Evrópuráðsins búinn. Eftir situr reikningurinn en Íslendingar borga hann auðvitað, með bros á vör.

Ég varð ekkert var við þennan fund með því að fylgjast með dönskum fjölmiðlum. Ég heyri sömu sögur frá Noregi og Svíþjóð og þarlendum fjölmiðlum. Miðað við listann af nöfnum sem skreyttu þennan fund er það nánast afrek. Þessi fundur þótti svo ófréttnæmur að hann komst ekki einu sinni á blað í norrænum fjölmiðlum, að undanskildum íslenskum. 

Sem er ekki skrýtið. Þetta er auðvitað bara kjaftaklúbbur og tækifæri fyrir stjórnmálamenn til að auka kolefnisfótspor sitt á meðan þeir boða - úr einkaflugvélum - minnkun á kolefnisfótspori annarra. 

Tjónaskrá fundarins er brandari út af fyrir sig. Hver ætlar að fylla hana út? Hvernig á að koma henni áleiðis til Rússa? Evrópuráðið fleygði jú Rússum út úr ráðinu í fyrra og kom þannig í veg fyrir að duga til nokkurs í viðræðum við Rússa. Tyrkland er vel á minnst ennþá meðal meðlima, en sprengjuárásir á þorp Kúrda eru jú svo sjálfsagður hlutur að enginn fær á baukinn fyrir slíkt. Aser­baís­j­an er líka meðal meðlima, en þeirra árásir á landamæri Armeníu í fyrra stóðu sennilega of stutt yfir til að telja með.

Ég hlífi vonandi lesendum þessarar síðu við frekari umfjöllun um fund sem enginn nennti að fjalla um og niðurstöður hans sem skipta engan neinu máli. Þetta var greinilega mikið fjör og megi minningin lifa í hugum þeirra sem nutu þess. Aðrir ættu að gleyma, eins og lélegri bíómynd.


mbl.is Niðurstaðan langt umfram væntingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áreiti og viðbragð

Ég stend mig að því þessa dagana að vera á höttunum eftir fallegri Biblíu. Eftir samskipti við gott fólk sem þekkir til hennar hef ég ákveðið að það verði annaðhvort íslenska þýðingin frá 1981 (sem virðist hvergi vera að finna) eða eitthvert umbrot af The New King James Version á ensku. 

Ég hef aldrei átt Biblíu. Einhvers staðar á ég Nýja testamentið sem ég las stundum sem unglingur fyrir fermingu og blaðaði aðeins í eftir það. Í mörg ár - áratugi - hugsaði ég ekkert meira um það. En eitthvað hefur orðið til þess að mér finnst ég núna verða að eignast Biblíu. Þá meina ég Biblíu á prenti.

Við búum í vestrænu samfélagi byggðu á kristnum rótum. Jafnvel þótt við teljum okkur flest vera allt að því eða algjörlega trúlaus - ég þar á meðal - þá neita ég ekki kristnum rótum samfélags okkar. Kannski er auðveldast að sjá þær rætur með því að bera saman vestræn samfélög við öll hin. Hvaða trúarbrögð boða að konan sé eign karlmannsins? Að það eigi að drepa frekar en fræða þá heiðnu eða rangtrúuðu? Að það sé engin fyrirgefning fyrir þá syndugu önnur en kvalarfullur dauðdagi? Þið vitið hvað ég á við.

Ýmsar ógnir stafa að samfélagi okkar, sumar nýjar og sumar gamlar, og mér þykir það leitt. Kannski það að eiga Biblíu geti jarðbundið mig aðeins í heimi nútímalegri trúarbragða, þar á meðal þess trúarbragðs að treysta siðblindum milljarðamæringum fyrir framtíð okkar.

Leit mín heldur áfram og valkvíðinn er ærandi en vonandi verð ég bráðum eigandi að fallegri Biblíu sem fær góðan og aðgengilegan stað á heimili mínu.


Versalasamningar II

Ætla leiðtogar allra Evrópuríkja nema þess stærsta að koma sér saman um nýja Versalasamninga, sem samþykktir þýða í raun gjaldþrot fyrir þann sem situr ekki við borðið? Vonum ekki. Seinast þegar góðu lýðræðislegu leiðtogarnir komu sér saman um slíkan samning þá brann Evrópa.

Það blasir við að innrás Rússa inn í Úkraínu er ekki stærsta vandamál heimsins né Evrópu. Svipaðar deilur Aser­baís­j­an og Armeníu rétt handan við mörk Evrópu rata ekki einu sinni í fréttirnar. Öllum er skítsama. Það sem gerir Úkraínu sérstaka í augum Vesturlandabúa er ekki alveg einstakt og hjartahreint lýðræðið þar. Og heldur ekki kornið eða stálið eða álíka. Né einhver glæný trúarbrögð um að landamæri séu heilög og megi ekki lengur aðlagast fólkinu innan þeirra (frelsum Tíbet, einhver?). 

En hvað þá? Kenningarnar eru margar. Sumar ganga út á leynilegar lífvopnaverksmiðjur. Aðra út á stórfelldan peningaþvott. Þetta eru kallaðar samsæriskenningar en eru eins og margar aðrar trúverðugri en opinberar skýringar yfirvalda. 

Allt er gert til að stilla ekki til friðar í Úkraínu. Um það snýst kampavínssötrið í Reykjavík. Vonum að kampavínið nái yfirhöndinni áður en skrifað er undir einhverja stórkostlega vitleysu sem kemur á nýrri heimstyrjöld.


mbl.is Bjart­sýn á á­þreifan­legar niður­stöður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siglingaþjóð grýtir eigin höfn (því aðrir gera það, nema kannski Færeyingar)

Ísland er eyja. Þetta virðist hafa farið framhjá ýmsum, sérstaklega seinustu misseri. 

Ekkert kemur til Íslands eða fer frá Íslandi nema með skipum og flugvélum. Lífskjör íbúa felast að stóru leyti í því að flutningar til og frá eyjunni séu hagkvæmir. Þetta virðist hafa farið framhjá ýmsum, sérstaklega seinustu misseri. 

Auðvitað er umhverfisvernd mikilvæg. Ekki viljum við súrt regn eða eitraðan jarðveg og grunnvatn. Um þetta snýst umhverfisvernd samt ekki lengur. Hún miðast við einhver ímynduð loftslagsáhrif vegna bruna á jarðefnaeldsneyti. Gott og vel - við gerum ýmislegt kostnaðarsamt í nafni trúarbragða. En núna á að bæta töluvert í, í nafni umhverfisverndar en í raun bara til að færa fé frá fólki í opinberar hirslur. Flugferðir á að gera dýrar og óaðgengilegar venjulegu fólki. Skipaflutningar á fólki og varningi eru komnir á skotskífuna. Hvar endar þetta? Þegar við erum komin aftur til myrkra miðalda þar sem þorpsbúar lifðu á heimaræktuðum rófum og komust hvorki lönd né strönd á meðan aðallinn ferðaðist um í þægindum?

Ætli það ekki.

Ég sé eina von fyrir Íslendinga: Að þeir flytji til Færeyja þar sem stjórnvöld standa í fæturna þegar heimsfaraldur pólitísks rétttrúnaðar reynir að skjóta rótum. En til vara: Að Ísland gerist færeysk nýlenda svo Íslendingar þurfi ekki lengur að treysta á íslenska stjórnmálamenn til að standa vörð um hagsmuni sína.


mbl.is Gjaldtaka taki mið af umhverfisþáttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband