Hvað á að kenna börnunum

Heimurinn getur verið flókinn og stór, sérstaklega í hugum krakka. Við reynum að undirbúa börnin okkar fyrir lífið svo þau geti varið sig og spjarað sig. Við kennum þeim að forðast bíla á ferð, að skera epli án þess að skera puttann og setja ekki hendurnar á heita hellu.

Við kennum þeim líka á fjölbreytileika lífsins. Sumir eru í hjólastól, sumir eru hárlausir og sumir eru feitir eða mjóir. Öll erum við samt manneskjur. Þegar kynþroski nálgast kennum við þeim á kynfærin, bendum á að sumir laðast að eigin kyni og að kynsjúkdómar séu ekki sniðugir.

Við segjum þeim frá eldgosum og jarðskjálftum, stríði og friði og syndum fortíðar: Þrælahaldi, kúgun kvenna og þjóðarmorðum.

En einhvers staðar þarf að stoppa. Vandamálin eru svo mörg og sum svo sjaldgæf að þau komast einfaldlega ekki á blað. Við kennum þeim til dæmis ekki að panta kaffi á kínversku enda ólíklegt að sú þekking komi að einhverjum notum. Við segjum ekki frá hverjum einasta sjúkdómi og hvernig á að umgangast einstakling með slíkan. Sé eitthvað alveg rosalega sjaldgæft þá læra þeir sem þurfa þegar þeir þurfa. 

Spurningin er stundum hvar draga eigi mörkin. Segjum að ákveðið ástand hrjái 0,004% fólks eða fjóra af hverjum hundrað þúsund einstaklingum. Fjöldi slíkra einstaklinga væri þá í kringum 15 á Íslandi. Ólíklegt er að rekast á slíkan einstakling og hvað þá vera í bekk eða á vinnustað með slíkum. Líklegt er að allir þessir einstaklingar séu undir leiðsögn einhvers konar læknis eða sérfræðings og að nærumhverfi viðkomandi sé vel upplýst um ástandið og hvernig er best að haga seglum sínum í daglegum amstri og umgengni við annað fólk.

Er réttlætanlegt að forgangsraða takmörkuðum tíma og auðlindum í mikla kennslu og umræðu um hið sjaldgæfa ástand? Kannski, segja einhverjir, og benda á víðtæka fordóma og skilningsleysi í samfélaginu. Kannski þarf að takast á við allt, hvorki meira né minna. Kenna börnum á allt. Gera atlögu að öllum mögulegum en ólíklegum fordómum. Fara í greiningarhandbækur lækna og sérfræðinga og fræða börn um allt sem þar er að finna. 

Hvort eitthvað sitji eftir í óhörðnuðum huga barna er önnur saga. 

Persónulega mæli ég ekki með þessari nálgun. Miklu tel ég að börn þurfi að læra á það mikilvægasta í lífi þeirra og að auki almennt umburðarlyndi og góðmennsku gagnvart fjölbreytileika mannsins, án þess að fara í hvert einasta smáatriði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skrýtin þessi árátta að "kenna" smábörnum kynlíf. Hvað gengur þeim til og af hverju má ekki gagnrýna það?

Bragi Sigurðsson (IP-tala skráð) 18.5.2023 kl. 11:55

2 Smámynd: Rúnar Már Bragason

"We don't need no education. We don't need no thought control. Teachers leave the kids alone."

Það væri gaman að vita hvaða skoðanir Roger Wates (textabrotið er hans) hafi á þessari innrætingu í dag.

Rúnar Már Bragason, 18.5.2023 kl. 12:17

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Ágætri kenningu fleytt hérna: Nýríka fólkið í dag er orðið svo þyrst í nýjar kynlífsupplifanir og sífellt furðulegri að það beitir ýmsum ráðum til að komast í þær, og uppgötvaði á veirutímum að fjölmiðlar væru nothæft verkfæri:

https://rwmalonemd.substack.com/p/normalizing-sex-as-entertainment

Geir Ágústsson, 18.5.2023 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og átján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband