Bloggfærslur mánaðarins, september 2022

Málfrelsið felst í því að þagga niður í röddum

Einu sinni var talað um málfrelsi sem réttinn til að fá að tjá sig án ritskoðunar. Um þetta eru flestar orðabækur sammála, í bili.

Til dæmis sú íslenska:

mf_is

Aðrar:

mf_mw

mf_glloxf

Raunin er auðvitað allt, allt önnur. Það má varla að velta vöngum yfir banvænum sprautum og reikningum er lokað, viðvaranir stimplaðar á innlegg og áróðursvélar virkjaðar til að leiðrétta rangfærslur, svokallaðar. 

En hvað gerist þegar spottarnir í strengjabrúður hræðsluprestkalla eins og fjésbókina, tvítin, peipal og jútjúpin verða of sýnilegir? Jú, valkostir spretta upp.

Einn slíkur valkostur (við tvítin), sendi rétt í þessu póst á notendur sína (sem ég fékk á valkost minn við gémeil), þar sem meðal annars segir:

PayPal’s decision this week to cancel the account of the United Kingdom’s Free Speech Union, effectively demonetizing an organization which fights for freedom of speech in the UK, shows how dire the state of free expression is today. ...Those who decry cancel culture as a myth are clearly not paying attention. This is just the latest example of Big Tech’s political overreach and shows why truly tolerant, free speech platforms like GETTR are so vital in defending free expression. We support the Free Speech Union in their new campaign lobbying for regulationsto prevent companies like PayPal demonetising organizations and individuals. ... GETTR will soon announce plans to allow users to monetize on the platform, without the threat of censorship.

Rétt skilið: Peipal lokaði á peningafærslur til samtaka sem berjast fyrir málfrelsi. 

Væntanlega til að þagga niður í þeim.

En valkostur er væntanlegur.

Ég þekki þessi samtök ekki neitt. Kannski berjast þau fyrir limlestingum á börnum, nasisma, fallhlífastökki, fótboltaiðkun eða ónauðsynlegum lyfjagjöfum. Kannski vilja þau bara að fólk fái að sía út slæmar hugmyndir með opinskáum samskiptum í stað þess að láta gráhærða karlmenn ráða því hvað er rétt og hvað ekki. Það skiptir ekki máli. Þjónustuaðili yfirgaf stól sinn og gerðist ritstjóri. Ákvað hver var verðugur og hver ekki, byggt á togþrýstingi í spotta strengjabrúðumeistarans.

Engin furða að það tókst að sannfæra sauðina um að hlaupa inn í sláturhúsið

Vonandi ertu ekki þar, eða ert þar og vilt sleppa. Með tjáningu, hvar sem hún er umborin.


Við beturvitandi Vesturlandabúar vitum ekkert og viljum ráða öllu

Við vitum kannski minna um heiminn en apar en til að bæta gráu ofan á svart þá erum við á Vesturlöndum ákveðin í að ráðskast með heiminn eins og nýlenduherrar og segja hver og hver ekki má borða og kveikja á ljósunum.

Einn angi af þessum óstöðvandi hroka er innleiðing á svokölluðum ESG-viðmiðum í fjárfestingum, en það eru viðmið sem refsa fyrir fjárfestingar í jarðefnaeldsneyti og halda svimandi fjárhæðum frá því að nálgast slíkar fjárfestingar þar sem þeirra er mest þörf.

Vellauðugir Vesturlandabúar sem búa í vel upplýstum glæsivillum við ströndina í umhverfi hækkandi sjávarmáls í kjölfar bráðnaðs Norðurheimskauts, og sem vinna við að hræða allt og allabeita áhrifum sínum til að reyna koma í veg fyrir slíkar fjárfestingar. Afríka á enga möguleika á að rísa úr öskunni þegar þetta er staðan (nema mögulega að fá kínverska og rússneska fjárfesta (og hermenn) í heimsókn). 

Höfum eitt á hreinu: Olía, gas og kol útvega mannkyninu vel yfir 80% af orku þess (sem fer meðal annars í hitun á húsum og bræðsluofnum verksmiðja og til að knýja flugvélar og bíla), og vel yfir 60% af rafmagnsframleiðslu heimsins er knúin áfram af jarðefnaeldsneyti. Á heimsvísu vantar yfir milljarð manns aðgang að rafmagni (aðallega Afríkubúar), sem er alveg rosalega nauðsynlegt til að knýja þvottavélar og eldavélar sem leysa af handþvott og banvænan opinn eld á eldstæðum innandyra. Til að útvega þessu fólki rafmagn og orku þarf meira jarðefnaeldsneyti, ekki minna, og þeir sem standa i vegi fyrir því eru allt annað en dýrlingar sem sveima um á vindmylluvængjum.

Við sem búum á örlitlu frímerki á landakortinu sem heitir Norður-Evrópa eða austur- og vesturstrandir Bandaríkjanna ættum mögulega að huga að því að beita áhrifum okkar í átt að mannúðlegri sjónarmiðum en strandlengjum auðugra stjórnmálamanna og kvikmyndastjarna (tveir hópar sem renna sífellt meira saman í einn).

Eins og að hjálpa Afríku að gera það sem Kína, Indland, Suður-Kórea og fleiri ríki gerðu: Verða auðug á einni kynslóð, með notkun jarðefnaeldsneytis, með fyrirvara um að þessi ríki hirði um verndun eignaréttar (þess að þú getir stöðvað nágranna þinn, eða ríkisstjórn þína, frá því að hella niður eitri sem leitar á lóðina þína).


Þessir kínversku kjánar, segir RÚV

Við vitum kannski minna um heiminn en apar en til að bæta gráu ofan á svart þá erum við með verra minni en gullfiskar. Við gleymum því hverjir dældu í okkur stanslausum hræðsluáróðri til að selja okkur grímur og glundur og loka börn inni í nafni sóttvarna, og kölluðu svo þá sem dönsuðu ekki í takt brjálæðinga fulla af samsæriskenningum.

Og hverjir voru það sem einangruðu umræðuna með þvælu sem er núna að bráðna eins og ís í eyðimörk?

Jú, fjölmiðlar.

Það er eitt að vera með embættismenn sem tala út frá þröngum sjónarhóli eigin hlutverks. Það er eitthvað allt annað að vera með fjölmiðla sem gagnrýnislaust moka drullunni áfram og yfir trúgjarna neytendur frétta sem hafa hingað til treyst þeim alveg sæmilega.

En gott og vel, kannski einhver iðrun sé að fæðast. Kínverjar, sem hafa verið nokkuð samkvæmir sjálfum sér í vitleysunni, vilja nú að fólk forðist að snerta útlendinga. Fjölmiðill sem hefur ekki hikað við að tala um snertismit sem uppsprettu smitbylgju segir nú að Kínverjar séu að ýta undir fordóma. 

Hvað næst? Bauna á ótta yfirvalda við fjölda smita?

Batnandi fjölmiðlum er best að lifa. En gleymum ekki okkar eigin gullfiskaminni: Þetta eru fjölmiðlanir sem yfirvöld gátu notað eins og hátalara, án síu. Þeir hafa ekki áunnið sér neins trausts ennþá.


Um fólk sem veit minna en apar um heiminn (ég og þú)

Ég lauk nýlega við bókina Factfulness: Ten Reasons We are Wrong About the World -- and Why Things Are Better Than You Think eftir sænska prófessorinn Hans Rosling, sem lést fyrir nokkrum árum. Hans þessi barðist í áratugi fyrir nokkru sem hann kallaði "fact based worldview" (meðal annars með æðislegum fyrirlestrum) og sýndi ítrekað fram á að við vitum í raun voðalega lítið um heiminn okkar. Allir geta komist að þessu um sjálfa sig með því að taka svolítið próf og fá sennilega lægri einkunn en api sem giskar af handahófi á öll svörin. 

En hvernig stendur á þessari djúpstæðu vanþekkingu á heiminum? Hans reynir að útskýra það á margan hátt, meðal annars því hvernig fréttir þurfa að ýkja hið slæma og fjalla lítið um hið góða eða endurtekna því annars nennir enginn að lesa þær. Þannig veistu sennilega meira um fjölda veiðimanna í Svíþjóð sem hafa verið drepnir af björnum (tveir á 100 árum) en fjölda tilvika í Svíþjóð þar sem manneskja drepur maka sinn (fjörtíu tilfelli á ári).

Fordómar eru einnig á ferðinni. Við sjáum ekki fyrir okkur að fólk í Asíu og Afríku geti komist út úr sárustu fátæktinni, eða þar til Asíu tókst það að mestu á einni mannsævi. Við vitum ekki að börnum í heiminum sem deyja áður en þau ná eins árs aldri hefur fækkað úr 14 milljónum í 4 milljónir á 40 árum á sama tíma og heildarfjöldi fæðinga hefur aukist mikið, og dánarhlutfallið því fallið úr 15% í 4% (ef ég man það rétt).

Við höldum að lýðræði sé forsenda velmegunar en það er það ekki. 

Hann fjallar um ebólufaraldur í Afríku og hvernig röng og ýkt gögn afvegaleiddu allar aðgerðir og sviptu í raun marga nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu (Hans Rosling snéri sér sennilega oft við í gröfinni á kóvít-árunum og kannski var bara mjög „heppilegt“ fyrir sprautuframleiðendur og hræðslupresta að hann hafi verið látinn áður en sú vitleysa hófst).

Við höldum að mannkyninu sé að fjölda stjórnlaust á meðan allar spár segja að heildarfjöldi barna undir 15 ára aldri verði sá sami árið 2100 og hann er núna og mannfjöldinn staðnæmist á bilinu 10-12 milljarðar. Það er af því flestar konur eru farnar að eignast færri börn sem lifa lengur, og fjölgun mannkyns verður aðallega fjölgun fullorðinna.

Ég gæti haldið endalaust áfram en vil bara nefna að þú veist sennilega minna um heiminn en api og vilt mögulega gera eitthvað í því. 


Báknið blæs út eins og óstöðvandi blaðra

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um mikla fjölgun opinberra starfsmanna undanfarin ár ogopinberir sérstaklega undanfarin tvö ár (sveitarfélögin að vísu ekki tekin fyrir). Skattgreiðendur hljóta að finna til í veskinu þegar þeir sjá þessa fjölgun á línuriti.

Á þessu eru auðvitað ýmsar skýringar. Heilbrigðiskerfið þarf að stækka með fjölgun landsmanna og ferðamanna. Sífellt fleiri sérþörfum þarf að sinna, svo sem í skólum og víðar. Heimurinn er að verða svo flókinn að núna þarf þrjá lögfræðinga þar sem einn dugði áður. Og svo framvegis og framvegis.

Það er því ánægjulegt að sjá að hjá skrifstofu Alþingis sé nú verið að leita að sérfræðingi í alþjóðadeild þingsins (sem er deild sem ég vissi ekki að væri til og er ósýnileg á skipuriti skrifstofu Alþingis).

Viðbúið er að margir sæki um enda í boði að ferðast mikið ókeypis.

Sérfræðingar deildarinnar veita utanríkismálanefnd og alþjóðanefndum faglega aðstoð og ráðgjöf, m.a. á sviði alþjóðamála, við undirbúning fyrir þátttöku í alþjóðlegum fundum, gagna- og upplýsingaöflun og undirbúning fyrir alþjóðlega þingmannafundi sem haldnir eru á Íslandi. Starfið er fjölbreytt og krefjandi í lifandi starfsumhverfi og því fylgja umtalsverð ferðalög. 

Þetta er vissulega ritarastarf en krefst meistaragráðu og því örugglega vel borgað og væntanlega verður ekkert mál að finna réttu manneskjuna enda sérstaklega tekið fram að starfið henti „öllum kynjum“ og þarf því engum að finnast viðkomandi vera skilinn útundan.

Opinberir starfsmenn sem kjósa flokka sem vilja stækka báknið: +1
Fjöldi á atvinnumarkaði sem greiðir skatta til að halda úti hinu opinbera: -1

Allt eins og það á að vera.


Jæja þá, prófum eitthvað annað

Klappstýra óttans og þess að þú þurfir efnahagskreppu, mögulega en kannski ekki, til að bjarga heiminum, er miður sín:

Þrátt fyrir metnaðarfull áform er mælanlegur árangur af loftslagsaðgerðum stjórnvalda enn sem komið er enginn, að sögn veðurfræðings. Það er staðreynd sem hann segir að við verðum að horfast blákalt í augu við - á degi íslenskrar náttúru.

Í gær gaf Umhverfisstofnun út bráðabirgðaútreikninga sem sýna að losun gróðurhúsalofttegunda jókst um þrjú prósent á Íslandi á milli ára 2020 og 2021. Vissulega var hagkerfið að ná sér eftir Covid en að árangurinn sé ekki betri, er þyngra en tárum taki samkvæmt Einari Sveinbjörnssyni veðurfræðingi.

Ef þinn eini mælikvarði er ekki að sýna rétta tölu þá falla tárin. Þyngri orð verða varla fundin.

Það er búið að gera svo mikið! Hvað er til ráða?

„Það er búið að setja mikið í þetta. Stjórnvöld eru búin að marka stefnu, fullt af stefnum, það er búið að ráða fullt af starfsfólki hjá hinu opinbera og einkageiranum til að sinna þessum málum, það hefur orðið hugarfarsbreyting í landinu. Það eru haldnar ráðstefnur, ég veit ekki hvað er gert, en samt er árangurinn svona lítill. Maður eiginlega bara veltir vöngum yfir þessu: Hvað meira er hægt að gera?“

Eitt mögulegt svar: Eitthvað allt annað. Eða hvað? Dropinn holar steininn, og við erum dropi í hafinu, og við getum bjargað heiminum, því annars er voðinn vís:

Náttúran er miklu fleira en bara loftslagsmálin en afleiðingarnar af loftslagsmálum eru meiri annars staðar en hér en við samt sem áður þurfum að sýna ábyrgð og draga líka saman þótt við séum lítill dropi í þessu hafi,“ segir Einar.

Þessi dropi þarf samt að þurrka sig út, að því er virðist, en kannski ekki. Þú þarft að upplifa eilífa veirutíma til að bjarga heiminum þótt það sé ekki „óskastaða“:

Miðað við þann loftslagsárangur sem náðist í Covid, segir Einar þann grun læðast að manni á þessu stigi, að skarpur efnahagssamdráttur sé það eina sem geti bjargað málunum. Það sé þó augljóslega ekki óskastaða.

Á sama tíma geisar orkukreppa í Evrópu og sárafátækt að aukast í heiminum í nafni vísindanna, sofandi kola- og kjarnorkuver eru ræst á ný, almenningur sér fram á að frjósa og svelta í vetur, verksmiðjur eru að minnka við sig, ljósin að slokkna, allt að hækka í verði og engin lausn í sjónmáli önnur en að framlengja átök í Úkraínu út í hið óendanlega.

Skattgreiðendur mega sannarlega vera þakklátir fyrir margt. Börn fá menntun (nema mögulega ungir strákar), sjúkir fá lækningu (ef þeir lifa af biðlistana) og sumir ökumenn fá góða vegi. En að halda uppi heilli stétt af fólki sem hatar samfélagið og ýjar að efnahagskreppu til að loka þig inni og leysa ímynduð vandamál. Kannski þakklæti sé ekki viðeigandi þar.


Mokað undir rassgatið á milljónamæringum

Þeir eru margir lágtekjuskattarnir á Íslandi, þ.e. skattar sem fyrst og fremst leggjast á launafólk og eru nýttir til að borga innviði fyrir og þjónustu við þá efnameiri.

Skattatilfærslur frá lágtekjufólki til hátekjufólks.

Allskyns lækkanir á gjöldum á rafbíla eru hrópandi gott dæmi. Rafbílar eru þungir og slíta vegum en kostnaðinn greiða þeir á öllu léttari, hagkvæmari, ódýrari og langdrægari bílum.

Tóbaks- og áfengisskattar eru líka lágtekjuskattar. Ekki reykir ríka fólkið jafnmikið og þeir með lægri tekjur og þeir efnuðu fylla vínskápa sína með fríhafnaráfengi eftir utanlandsferð sína á meðan þeir sem geta síður ferðast þurfa að fara í vínbúðir ríkisins til að sækja sopann gegn fullri skattheimtu og með aukaálagningu ríkisverslananna.

Skattar á leigutekjur eru lágtekjuskattar, greiddir af efnalitlu fólki sem hefur ekki efni á að kaupa sér húsnæði. Við fyrstu sýn mætti halda að slíkir skattar leggist á efnameiri útleigjendur en þeir verðleggja auðvitað skattinn í húsaleiguna, rétt eins og þeir verðleggja húsaleigubæturnar í hana en fá þann pening beint í vasann. Leigjendur borga því tvöfaldan skatt: Einn í formi skatta á leigutekjur, og annan í formi millifærslu í vasa útleigjanda sem nemur húsaleigubótunum.

Ekki skil ég af hverju jafnaðarmenn svokallaðir sætta sig við þetta. Eru þeir kannski bara hrifnir af öllum sköttum, líka lágtekjusköttum?


mbl.is Boðar nýjar ívilnanir vegna rafbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkumolar

Eins og flestir hafa tekið eftir þá eru orkumarkaðir í heiminum á himinflugi. Met slegin í orkuverði. Verksmiðjur að loka tækjum. Heimili að slökkva ljósin. Við blasir að margir munu frjósa til dauða í vetur vegna kulda. 

Stórt þema í öllu þessu eru viðskiptaþvinganir Evrópu og Bandaríkjanna gegn Rússlandi. Rússar hafa búið sig undir slíkt í nokkur ár, meðal annars með viðræðum við Kínverja um nýja gasleiðslu sem lauk í sumar, en þurfa engu að síður að bregðast hratt við. Annað þema er óseðjandi þorsti Kínverja og Indverja í orku. Hið þriðja er sjálfsmorðsvegferð Þýskalands og annarra Vesturlanda, bæði í orkumálum en einnig efnhagsmálum almennt. 

Stríð, andúð á jarðefnaeldsneyti, viðskiptaþvinganir, breytingar í valdahlutföllum, verðbólga, skemmdarverk sóttvarnaraðgerðanna, ný bandalög! Allt í einum graut.

Svona ástand leiðir til óvæntra viðburða.

Það kom mér til dæmis á óvart að lesa fréttir um að Úkraína ætli að selja Pólverjum kol, en ég fagna því auðvitað að Pólverjar fái orku. Ekki veitir af til að framleiða rafmagnið í þýsku rafmagnsbílana, og Úkraína aflögufær þrátt fyrir átök við mörg af orkuverum landsins. 

Þjóðverjum vantar líka orku. Jarðefnaeldsneyti nánar tiltekið. Þeir kaupa það hvar sem það fæst, jafnvel á yfirverði, og seljendur sjá auðvitað tækifæri í því og vilja ekki selja nema Þjóðverjar geri langtímasamninga (15-20 ára). Þetta gerir marga leiða því Þjóðverjar þykjast ætla venja sig af jarðefnaeldsneyti í framtíðinni. Það verður erfitt ef þeir hafa bundið sig til áratuga að kaupa jarðefnaeldsneyti. 

En á sama tíma og Þjóðverjum vantar orku og kaupa hana hvar sem hún fæst þá vilja þeir ekki sækja orku úr eigin bakgarði. Þeir gætu sótt 20 ára birgðir af gasi með svokölluðu bergbroti, sem er aðferð sem að vísu krefst mikils, til dæmis mikils magns af vatni, og bergbrot losar meira af gróðurhúsalofttegundum en vinnsla úr hefðbundinni gaslind. Betra þá að kaupa gas frá Bandaríkjunum þar sem það er sótt með bergbroti. Svona eins og þeir sækja kolarafmagn til Póllands til að setja á rafbílana sína. Þjóðverjar eru jú svo umhverfisvænir.

Grikkir eru öllu lausnamiðaðri. Þeir kaupa gas frá Rússlandi enda nóg af því, sérstaklega á meðan Nord Stream 1 gasleiðslan liggur niðri og rússneskt gas þarf að styðjast við rörin sem liggja í gegnum Úkraínu. Eða heldur einhver að frekar blönk ríki geti tekið þátt í sjálfseyðandi leikritum þegar kemur að orku? Sérstaklega þegar það er ekki hægt að setja verðþak á vonda rússneska gasið.

Gleymum því svo ekki að á meðan Evrópa kólnar og sér fram á að krókna til dauða í vetur þá streymir rússnesk orka suður og austur til Kínverja, Indverja og meira að segja Japana

Allt þetta í stað þess að gera alvarlegar tilraunir til að ræða ástandið í Austur-Úkraínu sem er búið að vera slæmt í mörg ár og margir samningar í tengslum við það undirritaðir og síðan svívirtir. Sum staðbundin átök eru greinilega heilagri en önnur í huga Vesturlanda. 


Sumir fá og aðrir ekki

Rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi er erfitt. Skýrist það af mörgum þáttum, svo sem:

  • Banni á áfengisauglýsingum
  • Háum virðisaukaskatti
  • Samkeppni við niðurgreitt ríkisútvarp á auglýsingamarkaði
  • Kostnaði við regluverk og afskipti eftirlitsstofnana

Allt eru þetta kostnaðarliðir sem ríkisvaldið leggur á fjölmiðla og gæti afnumið með örlitlum lagabreytingum en gerir ekki.

Hvað gerir ríkið þá? Jú, niðurgreiðir suma fjölmiðla.

Suma, en ekki aðra.

Fjölmiðilaeigandi sem hefur engan áhuga á að gerast bótaþegi hefur nánast ekki það val að sækja ekki um styrk. Samkeppnin er niðurgreidd og allar ríkisaðgerðirnar sem auka kostnað eru enn til staðar. Það er ekki hægt að fá hlutdeild í auglýsingum ríkisútvarpsins gegn því að sækja ekki um styrk, svo dæmi sé tekið. Það er ekki hægt að fá leyfi til að birta bjórauglýsingar gegn því að spara ríkissjóði peninga. 

Nei, þú sækir annaðhvort um styrk, til jafns við samkeppnisaðila þína, eða lendir í miklum rekstrarvandræðum. Þú tekur þátt í kerfi þar sem almenningur er þvingaður til að niðurgreiða fréttaflutning, efnistök, blaðamennsku og stundum áróður sem hann hefur mögulega engan áhuga á að fjármagna.

En kannski þetta sé allt þess virði til að brosandi ráðherra líði vel einu sinni á ári.


mbl.is Úthluta 380 milljónum til 25 fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sparkað í rónana

Enn og aftur á að hækka áfengis- og tóbaksgjöld á Íslandi til að brúa bil í fjárlögum, þ.e. minnka muninn á milli þess sem skattheimta aflar ríkinu og hvað það eyðir miklu. Áfengis- og tóbaksgjöld eru álitin nokkuð góð tekjulind fyrir ríkið því þeir sem reykja og drekka halda áfram að reykja og drekka. Skatturinn skilar sér samkvæmt áætlun. Sá sem reykir neitar sér frekar um mat en tóbak og sá sem er háður áfengi finnur sér alltaf eitthvað að drekka og sleppir því einfaldlega að klæða sig og næra í staðinn (nema hann sé nógu ríkur til að gera bæði).

Þetta vita þeir sem hækka skatta á róna og verkamenn með þessum hætti. Þeir sparka í rónann og vita að þeir komast upp með það. 

Í venjulegu heimilisbókhaldi er bil á milli tekna og útgjalda brúað með ferns konar hætti:

  • Með neyslulánum, en það er bara hægt til skemmri tíma
  • Með þjónaði og ránum, sem er hægt á meðan ekki tekst að hafa hendur í hári þínu
  • Með því að lækka útgjöld niður fyrir tekjur, sem er langtímalausn
  • Með því að selja eigur, sem er hægt á meðan einhverjar eru

Hvað gerir ríkið? Það fer til nágranna síns og hristir fé út úr honum með valdi, og kallar slíkt lögmæta aðgerð og jafnvel siðferðislega rétta. Það fé er svo notað til að borga af lánum, fjármagna neyslu og ráða fleiri starfsmenn. Enginn getur gert þetta til lengri tíma nema hið opinbera. Mafían getur þetta til skemmri tíma. Vasaþjófur líka.

En er ríkið þá bara siðlaus vasaþjófur? Já, á meðan það hefur gleymt hlutverki sínu sem þjónn fólksins sem á að sinna ákveðnum, vel skilgreindum verkefnum, eins og heilbrigðisþjónustu og þjóðvegagerð, en ekki öðru, eins og að atast í fólki á grundvelli kynferðis og eltast við að sprauta fólk með viðbjóði, undir stanslausum hræðsluáróðri, á sama tíma og því fólki er bannað að mæta í vinnuna.

Einu sinni líkti ég Bjarna Ben. og ríkisfjármálunum við MC Hammer og hans fjármálagjörninga og einhverjum þótti það sniðugt. Ég ætla að halda fast í þá samlíkingu. Hvenær ætli MC Hammer okkar daga ætli loksins að selja lúxusbifreiðina upp í skuldir og fækka lífvörðunum í kringum sig?


mbl.is Áhyggjur af hækkun áfengisgjalds
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband