Bloggfærslur mánaðarins, desember 2022

Sprautur og ökufærni: Ef þú lætur ekki sprauta þig ertu lélegur bílstjóri

Samkvæmt nýlegri rannsókn þá eru þeir sem létu ekki sprauta sig gegn COVID-19 verri bílstjórar en aðrir. Þeir eru líklegri til að lenda í alvarlegum umferðarslysum og á spítala í kjölfarið en þeir sem hafa látið sprautað sig gegn COVID-19.

Hljómar eins og uppspuni, ekki satt?

Nei, auðvitað ekki. Rannsókn, sem kanadíska ríkið fjármagnaði, komst að þessari niðurstöðu.

Væntanlega hækka iðgjöld þeirra ósprautuðu í kjölfarið, en það kemur í ljós.

Kannski lenda þeir ósprautuðu í vandræðum með að eignast ökutæki.

Hver veit!

Russel Brand dregur þetta mjög svo vel saman:

Russel Brand er að vísu að mestu hættur að nota Youtube eftir ritskoðun. Hann er hér á Rumble.

Nú þegar kvefpest, fyrir flesta, er að fullu komin inn í flóru veira í umferð, fer aldrei og verður ekki stöðvuð þá er eins og verið sé að gefa í hræðsluáróðurinn.

Hvers vegna?


Sakna bóluefnapassanna

Ég eyddi nokkrum klukkutímum í verslunarmiðstöð í dag með krökkunum, verslaði gjafir og annað, borðaði á vinsælum fjölskyldustað, stóð í þéttum röðum og andaði að mér sama loftinu og þúsundir annarra. Ég sá fólk með nefrennsli og heyrði nokkra hósta og hnerra. Það er jú hávetur og mikið af umgangspestum í gangi, jafnvel fleiri en á venjulegu ári.

Á einum tímapunkti leit ég í kringum mig og hugleiddi hvað mikið af fólki á miðjum aldri og neðar væri þrísprautað (varla fjórsprautað í Danmörku þar sem fjórða sprautan er ekki í boði fyrir fólk undir fimmtugu nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum). Ég var forvitinn að vita þetta. Létu allir í kringum mig sannfærast? Helmingurinn? Þriðjungur? Hver lét sprauta sig þrisvar af ótta við veiru fyrir ári síðan en hættir sér í dag í troðfulla verslunarmiðstöð á hápunkti vetrarveikindatímabilsins? Hvernig þora þeir í dag sem þorðu ekki í fyrra að lifa eðlilegu lífi? 

Manneskja gekk fyrir ári síðan með grímu á andliti og sprautu í handlegg, virti allar sóttvarnartakmarkanir og fylgdist vel með smittölum. Í dag er gríman farin, sprautan útrunnin og horið aftur velkomið sem sjálfsagður hlutur á köldum tímum.

Ég er forvitinn. Hvað fer fram í höfði þeirra sem voru logandi hræddir fyrir ári en eru nánast of kærulausir í dag án þess að hinn líkamlegi veiruleiki hafi breyst að ráði? Kannski einhver geti útskýrt slíkt hugarfar fyrir mér.

Á vinnustað mínum þarf ég ekkert að velta vöngum yfir þessu. Þar var í boði fyrir um ári síðan að fá sérstakan límmiða á aðgangskort sitt gegn framvísun á staðfestum sprautum, ella sæta prófi á um þriggja daga fresti. Flestir hafa leyft þessum límmiða að standa og ég veit því alveg hvaða fólk undir miðjum aldri er þrísprautað í kringum mig (allir nema ég, að mér skilst). 

En hvað með afgang samfélagsins? Væri ráð að setja límmiða á enni hinna þrísprautuðu til að hjálpa mér að skilja? 


Hvenær máttu kjósa? Hvenær máttu tala?

Ég spyr mig í grein á Krossgotur.is, sem er vefmiðill rekinn af félagasamtökunum Málfrelsi, hvenær má tala og hvenær má kjósa. 

Mín niðurstaða er: Það er líklegra að þú fáir að kjósa eins og þú vilt en að þú fáir að tjá þig eins og þú vilt.

Kannski skiljanlegt, kannski ekki. Mér finnst þetta vera öfugsnúið ástand. Það skiptir nánast engu máli hvað þú kýst en öllu máli að þú fáir að taka þátt í opinberri, opinskárri umræðu. Kosningar fara fram á fjögurra ára fresti og varla hægt að tala um að nokkuð breytist á milli þeirra. Tjáning fer fram oft á dag og hjálpar okkur að slípa skoðanir, ná niðurstöðu, létta á sálinni og læra eitthvað nýtt.

Rétturinn til að kjósa er varinn með slíkum múrum í stjórnarskrá að hann verður varla tekinn af nokkrum manni. Rétturinn til að tjá sig er skilyrtur við slíkan lista af loðnum skilyrðum að það mætti segja að hann sé varla til staðar ef yfirvöld eru í ákveðnu stuði.

Það eru þau sem betur fer sjaldan, en það er annað mál. Þú sefur á handsprengju og pinninn er tengdur við þráð sem nágranni þinn getur togað í ef hann vaknar upp í vondu skapi. Þennan þráð þyrfti helst að skera á svo þú sofir í ró og næði.

Ég held að öll þessi hugsun um að við séum að kjósa valdhafa sem fulltrúa okkar í stjórnkerfinu sé mögulega byggð á misskilningi. Við kjósum, já, en þeir sem hljóta kjör breytast úr því að vera frambjóðendur í að verða valdhafar og það steikir oftar en ekki vírana i höfði þessa annars ágæta fólks.

Allt í lagi, þannig séð, ef þetta fólk hefur takmörkuð völd, vel pökkuð inn af stjórnarskrá og aðhaldi borgara, en sú er ekki raunin. 

Dettur einhverjum í hug að prófa aðra nálgun?


Af hverju fá útbrenndir stjórnmálamenn svimandi fjárhæðir fyrir ræður?

Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefur þénað meira en eina milljón punda fyrir ræðuhöld frá því hann hætti sem forsætisráðherra í september. Hillary Clinton, Obama, Tony Blair og fleiri útbrenndir stjórnmálamenn þekkja þetta vel. Þeir ferðast um heiminn og þiggja svimandi fjárhæðir frá alþjóðlegum bönkum og ýmsum stofnunum gegn því að halda svolitla tölu. 

Hvernig stendur á þessu? Ekki hefur þetta fólk frá svo miklu og merkilegu að segja. Þetta eru, eins og ég segi, útbrenndir stjórnmálamenn sem eru án formlegra valda. Þeir veita enga skemmtun né fræðslu. En samt þéna þeir meira á korteri en vinsæl hljómsveit sem troðfyllir stóran sal. 

Svarið við þessari ráðgátu hlýtur að snúast um eitthvað allt annað en verðmætasköpun. 

Mögulega að hér sé um að ræða kaup á áhrifum.

Útbrenndir stjórnmálamenn þekkja alla sem enn eru við völd, forstjóra stórra fyrirtækja og sérvitru milljarðamæringana sem vilja útrýma kjöti og flugferðum fyrir þig á meðan þeir fljúga sjálfir í einkaþotum heimshorna á milli og borða steik á kostnað skattgreiðenda. 

Útbrenndir stjórnmálamenn eru ennþá með réttu símanúmerin og geta ennþá hringt í réttu aðilana ef eitthvað þarf að laga.

Þess vegna getur verið gott fyrir stóra banka, kampavínsklúbba milljarðamæringa og aðra að lauma nokkrum milljónum í vasa hinna útbrenndu stjórnmálamanna og kallað það þóknun fyrir innihaldslaust og ónothæft þvaður úr ræðustól.


mbl.is Johnson hefur þénað milljón pund eftir starfslok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærðaróhagkvæmni

Okkur er tamt að tala um stærðarhagkvæmni. Skiljanlega. Segjum sem svo að tvö fyrirtæki sameinist. Tvisvar sinnum 500 manns verða að einu sinni 1000 manns. Tvær starfsmanna- og launadeildir verða ein. Tveir forstjórar verða að einum. Og þar fram eftir götunum.

Þegar fyrirtæki renna saman þá er það vegna þess að menn sjá í slíku ákveðna stærðarhagkvæmni. Þú þarft jafnmörg klósett í einni sæmilegri íbúð sem hýsir tvo og í tveimur stúdíóíbúðum sem hýsa einn hvor. Augljós hagkvæmni, ekki satt?

En það er líka til stærðaróhagkvæmni. Hún er ein ástæða þess að risastór fyrirtæki ráða ekki öllu. Þau eru of þunglamaleg. Ákvarðanatökur eru of tímafrekar. Ferlar of langir. Áhætta er drepin í fæðingu á fundum og með notkun allskyns tóla og tækja. Þau dragast aftur úr, safna á sig fitu og staðna eða í versta falli verða úrelt og hverfa. Þeir sem þekkja sögu Kodak og viðhorfa þess fyrirtækis á blómatíma filmunnar en um leið á tíma þegar stafrænar myndavélar voru að stíga sín fyrstu skref vita hvað ég á við.

Það er því vissulega til eitthvað sem mætti kalla stærðaróhagkvæmni.

Hún þýðir ekki umsvifalaust gjaldþrot. Fitan hleðst á skipuritið, jafnvel svo áratugum skiptir. Allskyns sóun á tíma og fé á sér stað en kemur ekki strax í ljós því stærðin á rekstrareiningunni er slík að fé er alltaf að streyma inn úr einhverri átt sem borgar fyrir sóunina. Lánstraustið er gríðarlegt vegna stærðar efnahagsreikningsins. Þökk sé fjölmennri sveit blaðamannafulltrúa og ljósmyndara er ásýnd velgengni og framfara alltaf fyrir augunum á fólki. Lánalínurnar eru lengi að þorna upp. 

Sem alveg rosalega gott dæmi um fyrirbæri í dag sem þjáist mjög mikið af stærðaróhagkvæmni er Reykjavíkurborg. Þetta þarf ég ekki að útskýra í löngu máli því fáir afneita því lengur að borgin er í bullandi vandræðum. Spurningin er bara: Hvað er til ráða?

Það sem er til ráða er að minnka stærð borgarinnar. Hún þarf að klofna í smærri, skilvirkari og aðlögunarhæfari einingar, eins og Kópavog, Hafnarfjörð, Garðabæ, Seltjarnarnes og Mosfellsbæ. Það þarf að færa ráðhúsið nær kjósendum og koma í veg fyrir að einn hluti sveitarfélagsins haldi hinum í gíslingu.

Til þess að geta gert slíkt kleift þarf sennilega að breyta landslögum og sjálfsagt að það sé gert. Einnig þarf að fækka lögbundnum verkefnum sveitarfélaga en til vara að banna sveitarfélögum að sinna öðrum verkefnum en þeim lögbundnu. Lágmarksútsvar þarf að afnema. Fasteignagjöld þarf að gera að krónutölu en ekki hlutfalli af ímynduðum verðhækkunum húsnæðis. 

Þetta er hægt og í raun frekar einfalt, og væri lagabreyting sem gæti á ný innleitt samkeppni um ánægju íbúa, og fyrir utan að vera frábær stefnubreyting frá núverandi stefnu, sem er sú að hámarka stærðaróhagkvæmni.

Er einhver á þingi að lesa og leita að baráttumáli sem skiptir venjulegt fólk meira máli en ímynduð vandamál vegna bensínnotkunar fjölskyldufólks?


Wikipedia: Góð tilraun sem mistókst

Wikipedia var góð tilraun. Ætlunin var að búa til risastóra alfræðiorðabók, lifandi, ókeypis, aðgengilega og jafnvel áreiðanlega. En hvað fengum við í staðinn? Jú, vissulega góðan stað til að lesa um sögulega viðburði, menn og konur fortíðar og hvaða stýrikerfisuppfærsla á við hverja útgáfu iPhone-síma. 

En þegar kemur að mönnum og málefnum líðandi stundar er Wikipedia ígildi svæsins áróðursmiðils. Og það sem verra er: Undir yfirskyni hlutleysis alfræðiorðabókarinnar.

Tökum lítið dæmi: Fjölmiðilinn The Epoch Times.

Fjölmiðillinn er svo sannarlega með ritstjórnarstefnu eins og aðrir fjölmiðlar. Þar á bæ hafa menn gagnrýnt ofstækið í kringum eina tiltekna veiru og ákafann að sprauta alla gegn henni með nýstárlegu glundri. Þetta eru ekki algeng efnistök. Mun algengari efnistök fjölmiðla eru að lepja allt hrátt upp eftir blaðamannafulltrúa lyfjafyrirtækja og milljarðamæringa. En það eru einfaldlega önnur efnistök. 

En hvað hefur Wikipedia að segja um The Epoch Times?

https://en.wikipedia.org/wiki/The_Epoch_Times

Svolítil orðatalning í stuttri færslu leiðir eftirfarandi í ljós:

  • misinformation: 18
  • disinformation: 17
  • false claims: 3
  • fact check: 3
  • falsly: 4

En auðvitað gerir þetta ekkert til. Wikipedia er á línu áróðursaflanna og beitir sér í slíkum tilgangi (sjá t.d. fjarstæðukenndan texta Wikipedia um aukaverkanir mRNA-bóluefna). Wikipedia er ekki hlutlaus alfræðiorðabók enda fá allir nemendur sem vísa í Wikipedia stórt rautt pennastrik í ritgerðirnar sínar. Wikipedia er ágætur miðill til að kynna sér söguþræði Seinfeld-þátta. Mikið lengra nær það ekki. Því miður.


Furðufréttir í dag voru raunveruleikinn í gær

Við fáum nú stöðugar fréttir frá Kína þess efnis að vegna mótmæla ætli stjórnvöld að afnema gagnslausar veiruaðgerðir en að menn hafi áhyggjur af slíkum afléttingum og vísi þar oft til vanbúinna sjúkrahúsa sem muni mæta of miklu álagi.

Hljómar kunnuglega, ekki satt?

Já, auðvitað. Það eru ekki nema 11 mánuðir síðan að íslenskir veiruspekingar voru að leggja til að takmarka samkomur við örfáar hræður til að forða samfélaginu frá glötun. Fáir mótmæltu slíkum hugmyndum. Minnisblöðin frægu eru kannski gleymd í dag en samfélagið snérist í kringum þau. Nýtt á leiðinni! Hvað stendur í því? Get ég mætt í jarðaför? Má barnið mitt stunda íþróttir? Má fyrirtækið mitt opna? Næsta minnisblað var það mikilvægasta í fréttunum. Það kemur á morgun! Eða hinn! Heilbrigðisráðherra er að lesa það! Ný reglugerð! Og niðurstaðan? Aldraður ættingi þinn á að deyja einn. 

Gleymum því ekki að furðufréttirnar frá Kína í dag voru furðuleikarnir á Íslandi þar til í upphafi þessa árs. 

Ertu til í að verða næsta furðufrétt? Vonandi ekki. En ég er mátulega bjartsýnn, í ljósi sögunnar.


mbl.is Kínverjar illa búnir undir nýja bylgju Covid-smita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjálp! Leiðbeiningarnar vantar!

Mér var bent á svolítið myndband á jútjúb og opnaði það. Ég sá strax að það væri áhugavert því jútjúb var búið að merkja það með stóru skilti og benda mér á hvar ég gæti fengið frekari upplýsingar. Lesist: Betri upplýsingar en þær sem myndbandið býður upp á.

russel_cencor

Sem duglegur þegn smelli ég auðvitað á tengilinn í viðvörunarfánanum, sem í mínu tilviki bendir á upplýsingasíðu danskra heilbrigðisyfirvalda

https://www.sst.dk/corona-eng

En bíddu nú við! Síðan finnst ekki!

Er búið að færa hana? Leggja hana niður? Ég veit það ekki. Ég er bara saklaus neytandi myndbanda á samfélagsmiðlum og óttast núna um öryggi mitt. Ég er kannski að gleypa einhvern heilaþvott. Það er kannski verið að fylla höfuð mitt af samsæriskenningum. Hjálp, einhver!


Farvel, COVID-19!

Danir sögðu í dag bless við COVID-19 sem einhvers konar heimsfaraldur sem krefst skimana, sóttkvía og mismununar umfram aðra öndunarfærasjúkdóma. Ég skrifaði svolitla frétt fyrir Frettin.is um þetta, og sem íbúi í Danmörku fagna ég ákaft.

Ekki það að COVID-19 hafi tekið mikið rými í dönsku samfélagi undanfarna mánuði. Danir hættu að bjóða fólki undir fimmtugu sprautu í haust, svo dæmi sé tekið. Írskur maður sem ég vinn með, og er yfir fimmtugt, þurfti að leita sérstaklega til yfirvalda til að fá top up eins og hann orðaði það, og gætu rónar varla hafa orðað þörfina í næsta sopa betur.

Ég bendi einnig á í fréttinni að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er á svipuðum tíma, nánast upp á dag, að mæla með fleiri sprautum og grímum. Þar með hafa alþjóðastofnanir á framfæri hluthafa í lyfjafyrirtækjum endanlega klofnað frá áhættumati heilbrigðisyfirvalda í einstaka ríkjum.

Því höfum eitt á hreinu: SARS-CoV-2 veiran, sem veldur COVID-19, hefur stökkbreytt sér úr veiru sem réðist harkalega á eldra fólk í umhverfi lítillar þekkingar á meðhöndlun í almennt kvef og bætist þar með í flóru fjölda annarra kórónuveira sem hringsóla í samfélaginu, stökkbreyta sér og valda hori, stundum hita og kannski slappleika. Mögulega einhverju verra ef ónæmiskerfi viðkomandi er í klessu og má ekki við neinu. Dæmi: Barn sem er búið að loka inni í marga mánuði og spritta ítrekað og kann ekki á neina veiru.

Danir sögðu í dag bless (farvel) við veiru eftir að hafa að mestu sagt bless við sprautur. Þetta mjakast. 

En hluthafar lyfjafyrirtækja hljóta að hugsa sinn gang. Hver græðir á að selja C-vítamín og lýsi og mæla með því að fólk slappi af og drekki te? Ekki þeir. Hvað gera þeir núna?


Íblöndun á lífolíum í íslenskt eldsneyti þar með sjálfhætt, eða hvað?

Evrópusambandið hefur náð samkomulagi um bann við innflutningi á vörum, þar á meðal kaffi, kakó og sojabaunum, í tilfellum þar sem framleiðslan er talin stuðla að skógareyðingu.

Það er ekkert annað! Hérna er tvímælalaust um róttækan viðsnúning að ræða því í mörg ár hefur Evrópusambandið hvatt sérstaklega til framleiðslu á varningi sem stuðlar að skógareyðingu.

Augljóstasta slíka dæmið er krafan um að þynna út eldsneyti eins og bensín með lífolíum svokölluðum, þ.e. olíum unnum úr plöntum.

Ekki er nóg með að slík íblöndun rýri orkuþéttleika eldsneytisins og leiði til þeim mun fleiri ferða á bensínstöðina og kosti samfélagið töluvert í erlendum gjaldeyri til að bæta upp fyrir orkutapið heldur sendir hin mikla eftirspurn eftir lífolíum þau skilaboð til bænda að betra sé pálmatré en regnskógur eins og myndin hér að neðan sýnir.

jungle_vs_palm 

Ekki er öll vitleysan eins nema að því leyti að vera vitleysa. Mörg önnur vitleysa gengur yfir okkur og við erum bókstaflega að fylla brandarbækur framtíðarinnar af efni. Nútímalegar útgáfur af nornabrennum, trúarlegum réttarhöldum, heilaþvotti, vistarbandi, þrælahaldi, hjátrú og hindurvitnum fylla alla fréttatíma og fólk hoppar um borð og lætur sigla sér til andskotans.

En ef Evrópusambandið snýr við stefnu sinni um að fórna regnskógum í bílvélar þá er kannski einhver von.


mbl.is Innflutningur sem stuðlar að skógareyðingu bannaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband