Bloggfærslur mánaðarins, desember 2022

Áður en blásið er í vindmyllur

Vindmyllur í íslensku samhengi hafa hingað til verið lítil tilraunaverkefni sem hafa gengið misvel. Á köflum hafa þær skilað mikilli og samfelldri orku, á öðrum köflum hafa þær brunnið. Við vitum öll hvernig vindmyllur líta út í umhverfinu og hvaða ónæði getur stafað af þeim. Vængirnir geta brotnað af og skapað hættu. Þær snúast í gegnum loftið og fuglar sem rekast á vængina koma limlestir og jafnvel höfuð- eða vænglausir út úr slíkum árekstri. Þær þurfa mikið viðhald og flestar gerðir vængja er ekki hægt að endurnýta og þá eru þeir grafnir í jörðina. Og ef það blæs of mikið, eða of lítið, þá framleiða þær ekkert.

Allt þetta vitum við og það þarf lítið að ræða það. Í Evrópu og sérstaklega Danmörku eru vindmyllur vel prófuð og þróuð tækni. Vindmyllurnar eru komnar út á sjó og á góðum dögum framleiða þær mikið af ódýrri raforku sem hefur að auki þann kost að krefjast ekki fjárútláta til Miðausturlanda. 

En reynslan þýðir ekki bara að menn geri meira af því sama. Reynsla þýðir stundum að menn stíga á bremsuna, staldra við og endurskoða fyrri áform.

birdÁhrif staðsetningar getur til dæmis þýtt mjög mikið fyrir fuglalíf. Séu vindmyllur staðsettar á slóð farfugla geta þær ollið miklum fugladauða. Ég heyri orðróma þess efnis að ný löggjöf í Hollandi muni kveða á um að stöðva vindmyllur á ferðatíma farfugla. Nú þegar er búið að kynna tækni sem hægir á vindmyllum ef ákveðnir fuglar í útrýmingarhættu, eins og ernir, nálgast þær. Vindmyllur geta einnig breytt umhverfi sínu, svo sem samsetningu sjávar og úrkomu. 

Þetta, og meira til, er lítið rætt. Vindmyllur eru almennt álitnar vera umhverfisvænar, öruggar og áreiðanlegar. Það má vel vera. Ég er ekki að andmæla vindmyllum í sjálfu sér. Ef menn vilja hafa þær frekar en uppistöðulón í umhverfi sínu þá þeir um það. En það er engin ástæða til að finna upp hjólið þegar reynslubankinn er til staðar og fer sívaxandi. Það á enginn að þurfa láta koma sér á óvart ef íslenskir gæsastofnar missa höfuðið af því menn lögðu vindmyllur á flugleiðir þeirra. Rafmagnskapla þarf að grafa í jörðu og ástæðulaust að vanmeta áhrif slíkra framkvæmda á umhverfið. Hin mikla umferð bifreiða allan ársins hring sem sinnir viðhaldi á vindmyllum er fyrirsjáanleg. Uppskriftin að byggingu og rekstri vindmylla er til og vel þekkt. Það þarf bara einhver að lesa hana.

Og þá helst áður en menn leggja í þessa vegferð.


mbl.is Risavindorkugarður undirbúinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum geta blaðamenn einfaldlega sleppt því að fara á fætur á morgnana

Vinnudagur blaðamannsins er örugglega alveg æsispennandi. Hann fær tölvupósta og símtöl, les fréttatilkynningar og fréttir annarra miðla, hringir í mann og annan, fer á staðinn og skoðar aðstæður og finnur fyrir andrúmsloftinu, leggst yfir langar skýrslur og leitar að einhverju vafasömu eða safaríku, skorar á leyndarhyggju með kröfum um aðgang að læstum skjölum og gerir allt þetta á mataræði kaffibolla, sígarettu og núðlusúpu.

Öðru nær.

Ég fæ það oft á tilfinninguna að blaðamaður sé bara eins og hver annar bloggari eins og sá sem þetta skrifar: Skoppar um vefinn þar til hann finnur innblástur til að skrifa litla hugleiðingu. Blaðamaðurinn er jafnvel verri en bloggarinn því margir bloggarar leggjast í mikla heimildavinnu og bera á borð ný sjónarhorn og gögn í miklu meiri mæli en þessir hefðbundnu fjölmiðlar. Eitt besta dæmið um slíkt er blogg Kristínar Þormar

Hvað um það. Stundum les ég texta eftir blaðamenn sem fá mig til að hugsa: Af hverju fór viðkomandi á fætur þennan dag? Hann hefði betur tekið sér veikindadag og sleppt því að fylla tölvudrif og prentvélar með afurð sinni. Framlagið var verra en ekkert. And-framlag. Neikvætt framlag til umræðunnar.

Eitt alveg mjög gott dæmi um slíkt and-framlag er greinin Mun lærlingurinn sækja á læriföður?, aðgengileg hér (á bak við innskráningarvegg Morgunblaðsins, ekki áskriftarvegg). Ætlunin þarna er sennilega að fjalla um nýja vonarstjörnu Repúblikana í Bandaríkjunum og hvernig hann fer í taugarnar á fráfarandi forseta, Trump. Hin nýja vonarstjarna, Ron DeSantis, hefur skotist til vinsælda seinustu misseri og vann stærsta kosningasigur Repúblikana í seinustu ríkisstjórakosningum í Bandaríkjunum. Hann hefur verið orðaður við forsetaframboð í nokkurn tíma. 

En hver er hann?

Blaðamaður og pistlahöfundur er með ýmsar kenningar: Er nálægt Trump í skoðunum, á móti pólitískum rétttrúnaði, vill að fólk fái að ganga með skotvopn og andstæðingur fóstureyðinga (sem kallast í dag þungunarrof, af einhverjum ástæðum).

En bíddu nú við, gleymdist ekkert hérna?

Veirutímar, kannski?

Flórída bannað ekki litlum krökkum að fara í skóla á tímum veiru gamla fólksins. Fyrirtæki voru ekki þvinguð í lokanir og efnahagur ríkisins er í miklum blóma. Fólksfjölgun er gríðarleg í ríkinu og á myrkustu veirutímum var Flórída ríkið til að halda opna viðburði og tónleika. Stjórnmálamenn sem vildu loka Bandaríkjamenn inni með grímur fyrir vitunum fóru til Flórída til að skemmta sér. 

Ætli þetta komi því ekki svolítið við að ríki sem áður var alltaf á mörkum þess að falla í hendur Demókrata eða Repúblikana (svokallað "swing state") er nú rækilega í höndum Repúblikana?

Hefði pistlahöfundur ekki geta nefnt neitt þessu tengt í eins og einni setningu?

Ég veit að bandarísk stjórnmál eru flókin, sérstaklega af því allar skoðanir þurfa þar að rúmast í tveimur flokkum, og verða oft mótsagnakenndar innan þeirra. Og ekki ætla ég að kalla mig sérfræðing í þeim og raunar hvergi nærri. En greining blaðamanns á vinsældum Ron DeSantis fengi ekki lágmarkseinkunn á grunnskólastigi, og blaðamaður hefði betur sofið út þennan dag.


Átta persónuleikar stjórnmálamannsins

„Við erum ótrú­lega ólík þegar kem­ur að pen­ing­um. Sum­ir eru sveim­huga og aðrir eru hrædd­ir við pen­inga og geta ekki dílað við fjár­mál. Aðrir eru safn­ar­ar en í bók­inni eru átta pen­inga­per­sónu­leik­ar skil­greind­ir,“ seg­ir Hrefna Björk Sverr­is­dótt­ir sem nýlega gaf út bókina Viltu finna millj­ón? sem hún skrifaði ásamt Grét­ari Hall­dórs­syni.

Ætli þessi bók sé eitthvað fyrir stjórnmálamenn? Eða er stjórnmálamaðurinn annar persónuleiki í vinnunni en heima hjá sér? Mér finnst það líklegt. Mér finnst líklegt að borgarstjóri Reykjavíkur eigi góðan persónulegan sparnað, mikið eigið fé og leggi fyrir í hverjum mánuði. Að hann fari ekki út í framkvæmdir á húsi sínu nema eiga fyrir þeim og nema þær séu til að bæta eignina í notagildi og verðmati.

Á skrifstofunni í ráðhúsinu tekur svo eitthvað annað við.

Ég ætla að greina átta peningapersónur sem eiga við um stjórnmálamenn í vinnutíma þeirra.

Himnasendingapersónan: Skattfé eða lánsfé fellur af himnum ofan og sársaukalaust inn í opinberar hirslur. Menn geta bara skellt í skuldabréf! Nú eða prentað peninginn. Eða skattlagt útgerðina og bankana sem munar ekkert um það. Þessi persóna hræðist ekki útgjaldahugmyndir og skilur hreinlega ekki allt tal um takmarkaðar auðlindir og takmörk á útgjöldum hins opinbera.

Gjafmilda persónan (sem gefur þér launin þín): Stjórnmálamaðurinn sem telur að ríkið eigi í raun tilkall til allra verðmæta samfélagsins en leyfir þér af mikilli náð og miskunn að halda einhverju eftir fyrir sjálfan þig. Skattar eru í raun aldrei of háir því þeir eru í raun 100% mínus það sem þú færð að halda eftir af launum þínum, en það fer gjarnan eftir því hvernig þú kýst. Því minna sem þú færð af launum þínum, þeim mun fullnýttari er skattstofninn, og sú fullnýting er takmark þessarar persónu.

Gjafmilda persónan (sem gefur kaupir gjafir fyrir þig fyrir þína peninga): Þessi stjórnmálamaður vinnur af mikilli réttlætiskennd fyrir hagsmunum borgaranna. Þeir eiga vitaskuld að njóta ókeypis þjónustu, fá veglegar bætur, búa við fullkomið öryggi og eiga greiða leið að ódýru húsnæði. Allt er þetta vitaskuld fjármagnað af þeim sem eiga að njóta að frádreginni svolítilli þóknun til hins opinbera fyrir ómakið. Sú þóknun er að vísu nokkuð stór en það breytir því ekki að ríkið er hér að sjá þér fyrir öllum þínum þörfum, á þinn kostnað. Mikið er gjafmildið!

Stjórnborðspersónan: Þessi persóna lítur á störf sín sem opinber embættismaður eða stjórnmálamaður á sama hátt og flugmaður lítur á sitt starf: Að ýta á ýmsa takka og toga í ýmsar stangir og með aðgerðum sínum að fljúga samfélaginu í ákveðna átt, í ákveðinni hæð og á ákveðnum hraða. Með því að skrúfa aðeins upp hérna og niður þarna er tekjudreifing leiðrétt, vandamál leyst, þrýstingur aðlagaður og súrefnisgrímur virkjaðar. Þessi persóna sér engar takmarkanir á því hverju er hægt að ná fram. Stjórntækin eru til staðar og þau virka eins og til er ætlast.

Heimspekingurinn: Þessi persóna hreykir sér af því að vita ekkert um hagfræði, hvata í skattkerfinu, rekstur, vexti, lánstraust og annað leiðinlegt. Hún er hugsjónamanneskja og veit hvað er réttlátt og hvað ekki. Það er til dæmis ekkert réttlæti í því að sumir búi við skort á meðan aðrir eiga mikið. Allir eiga skilið góð laun en ekki of góð laun miðað við aðra. Forstjórinn á ekki að hafa margfaldar tekjur ræstitæknisins því það hlýtur eitthvað óréttlæti að vera fólgið í því. Sé það raunin þarf að gera eitthvað! 

Alltaf-á-móti-persónan: Þessi persóna er mjög algeng í stjórnmálum og að mörgu leyti nauðsynleg persóna því hún er alltaf á móti og þvingar því aðra til að vanda sig í röksemdafærslunni. Hún getur verið á móti sjálfri sér í þokkabót: Stutt eitthvað ef ákveðin manneskja leggur það til en verið á móti nákvæmlega sömu hugmynd af önnur manneskja stingur upp á henni.

Metnaðarlausa persónan: Metnaðarlaus stjórnmálamaður getur verið gulls ígildi. Hann segir skoðanir sínar án þess að spá í næstu kosningar og hljóti hann ekki endurkjör er hann með ýmsar aðrar leiðir til að afla tekna. Hann getur líka verið stuðandi. Metnaðarlausar persónur eiga það samt til að setja sig ekki inn í málin. Þær stinga upp á skattahækkunum án þess að lesa greiningar á áhrifum þeirra. Þær stinga letilega upp á boðum og bönnum til að leysa ýmis vandamál, raunveruleg og ímynduð. 

Persónan sem er samkvæm sjálfri sér: Þetta er alveg óþolandi persóna. Hún telur rekstur hins opinbera vera að fullu sambærilegan við rekstur heimilis. Að ekki eigi að fá nýtt greiðslukort til að greiða af hinu fyrra. Að yfirdráttur sé skammtímalausn. Að útgjöld eigi að vera lægri en tekjur, nema e.t.v. þegar um stærri fjárfestingar til lengri tíma er að ræða, en þær þurfa þá að vera vel ígrundaðar og skila verðmætum eða notagildi. Þessi persóna er illa liðin og kemst sjaldan nokkuð áleiðis í stjórnmálum. Skiljanlega. Hún er óþolandi í sínu endalausa tali um ráðdeild, aðhald og skynsemi, og sinn eilífa hræðsluáróður.

Hver ætlar að skrifa bókina?


mbl.is Mælir með peningastefnumóti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein skoðun sem stjórnar öllum

Fræg eru eftirfarandi orð úr Hringadróttinssögu (Lord of the Rings), í lélegri þýðingu minni:

One Ring to rule them all, One Ring to find them,
One Ring to bring them all and in the darkness bind them

**********

Einn hringur sem ræður hinum, Einn hringur finnur þá
Einn hringur sækir hina og í myrkrinu bindir þá

eye2Í dag mætti kannski segja að menn í svörtum turnum (með augu á þakinu) séu að boða eina skoðun sem stjórnar öðrum. Hin ýmsu augu eru samfélagsmiðlar og stór tæknifyrirtæki sem sækja hinar ýmsu skoðanir og binda í hina einu sönnu skoðun.

Of myrk sviðsmynd, kannski?

Í mjög athyglisverðri greinFjölmiðlar sem bergmálshellir stjórnvalda?, sem má lesa á vefritinu Krossgötum, er eftirfarandi skrifað:

Í ársskýrslu Fjölmiðlanefndar kemur fram að árið 2019 var skrifað undir starfsreglur (e. Code of Practice on Disinformation) milli Evrópusambandsins og alþjóðlegu tæknifyrirtækjanna Facebook, Google, Twitter, Mozilla, Microsoft og TikTok þar sem „fyrirtækin skuldbundu sig til að sporna gegn dreifingu rangra og villandi upplýsinga í ríkjum Evrópu”. Samráðshópur evrópskra fjölmiðlanefnda, sem Fjölmiðlanefnd situr í fyrir hönd Íslands, átti síðan að fylgjast með því hvort farið væri eftir reglunum. Með samstilltu átaki Fjölmiðlanefndar og samráðshópsins, ásamt aðstoð mennta- og menningarmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, var stórfyrirtækjum gert skylt að framfylgja reglunum á Íslandi fyrir kosningar til Alþingis haustið 2021.

Af hálfu yfirvalda var staðhæft án fyrirvara um margvísleg boð og bönn, sem sögð voru vísindaleg og því óumdeilanleg(!), gagnleg, góð og heilsusamleg, allt í nafni lýðheilsu. Þegar þetta er ritað hefur komið í ljós að margar þessara fullyrðinga voru misvísandi og rangar, auk þess sem þær báru einkenni áróðurs. Sem dæmi var ekki greint frá fyrirhuguðum bólusetningum barna gegn kórónuveirunni með spurningunni „hvort“, heldur „hvenær“, þrátt fyrir að þá þegar væri  ljóst að bóluefnin höfðu í besta falli takmarkaða virkni og í versta falli skaðleg áhrif vegna aukaverkana. Framsetningin miðaði að því að drepa niður málefnalega rökræðu, því efanum var sjaldan mætt með öðru en háði. Orðræðan í fréttaflutningi varð sömuleiðis snemma fullmótuð og einhliða. Með vísan til kennivalds og útbreiðslu tiltekinna skoðana voru önnur sjónarmið kæfð. Í anda áróðursmanna fyrri tíðar voru efasemdir um hina opinberu stefnumörkun stimplaðar sem samsæriskenningar; heilbrigður efi bældur niður og andmæli hædd sem merki um fávisku, þekkingarleysi og jafnvel vænisýki.

Já, það fór ýmislegt fram á bak við tjöldin. Kerfisbundin þöggun í samstarfi yfirvalds og tæknifyrirtækja. Ein skoðun sem átti að stjórna öllum. Á yfirborðinu sáum við virðulega fjölmiðlamenn lesa upp vel skrifaðan texta. Kannski voru þetta bara leikarar að lesa handrit.

Menn velta því stundum fyrir sér hvernig Evrópa gat á sínum tíma orðið slík gróðastía hugmynda, tækniþróunar og trúarbragða að heimsálfan - þessi litli skiki Jarðar - gat hreinlega lagt afganginn af heiminum undir sig sem nýlendur. Hvaðan kom allt þetta afl? Öll þessi tækni? Öll þessi yfirburðarþekking á raunvísindunum? Afl og þekking sem var auðvitað misnotað í nafni útvíkkunar ríkisvaldsins til að fóðra misheppnaðar hagfræðikenningar, en það er önnur saga.

Mögulega er svarið fólgið í því hvað yfirvöld voru í raun vanmáttug að kæfa niður gagnrýna hugsun, tilraunastarfsemi og frjáls skoðanaskipti. Evrópa var á þessum tíma sundruð í mörg hundruð smá og stór ríki og þegar menn eins og Martin Lúther stigu á tær kaþólsku kirkjunnar þá gátu þeir stundum fundið skjóla hjá fursta eða keisara án þess að ferðast yfir hálfan hnöttinn. 

Yfirvöld í samstarfi við eða með þrýstingi á tæknifyrirtækin gengu langt á veirutímum, jafnvel of langt. Svo langt að sjónarspilið var afhjúpað fyrir nógu marga til að eitthvað slíkt geti aldrei endurtekið sig. 

En sjáum hvað setur. Prófsteinninn er handan við hornið.


Bitlausir niðurskurðarhnífar

rvk_kynjadurNiðurskurður í opinberum rekstri er vonlaus aðgerð. Óháð því hvert niðurskurðarhnífnum er beint er honum mætt af varnarmúr af opinberum starfsmönnum sem sjá fram á að missa vinnuna, dagpeningana eða stuttu vinnudagana. Þessir starfsmenn hafa að auki sér til aðstoðar ýmis hagsmunasamtök, verkalýðsfélög og fjölmiðlamenn. Stjórnmálamennirnir sjálfir hafa jafnvel takmarkaðan áhuga á að takast á við erfið vandamál og hætta á að næstu kosningar verði þeim óhagstæðar. Þeir eru unglingar með greiðslukort og vita þannig séð aldrei hvenær heimildin er búin en eyða auðvitað eins mikið og þeir geta á meðan kortið virkar. 

Einkafyrirtæki stunda aðeins öðruvísi aðferðafræði, a.m.k. þau sem ég hef starfað hjá í gegnum upp- og niðursveiflur. Þau skoða mjög nákvæmlega hvernig þau afla tekna og hvaða útgjöld þarf að stunda til að styrkja þá tekjuöflun. Þetta getur vissulega leitt til skammtímahugsunar ef næsta ársfjórðungsuppgjöf er það eina sem kemst að: Þróunarvinnu slegið á frest eða góðir starfsmenn í tímabundinni verkefnalægð látnir fjúka. En niðurskurðurinn er tekinn föstum tökum. Deildir eru stundum lagðar niður og verkefni þeirra blásin af eða færð til annarra, allskyns stoðdeildir skornar niður að beini og samið upp á nýtt við birgja. Stundum er andrúmsloftið gert óþægilega þrúgandi á meðan hagræðingaraðgerðir eiga sér stað.

Niðurstaðan er samt sú að fitan hefur verið fjarlægð. Mögulega eitthvað af vöðvamassa líka, en það er stundum óhjákvæmilegt þegar hnífurinn þarf að fara djúpt. Í staðinn fyrir fituna má nú byggja upp vöðva. 

Ég man vel eftir því þegar bólan árið 2008 sprakk og pantanabókin hjá þáverandi atvinnurekanda mínum fraus. Fyrirtækið fækkaði starfsfólki um fimmtung, verksmiðjan fór á dagvaktir og leitað í hverjum krók og kima eftir útgjöldum til að lækka. Við sem eftir urðu drukknuðum í álagi enda var þannig séð nóg að gera til skamms tíma. Þetta borgaði sig. Þegar pantanir tóku að berast var ennþá nægur grunnur til að byggja á en vissulega eftirsjá af mörgum sem var sagt upp.

Þegar olíuverð hrundi nokkrum árum seinna af öðrum ástæðum hófst annað eins ferli en jafnvel enn fleirum sagt upp.

Svona lýsingar eru víðsfjarri öllu tali um niðurskurð hjá hinu opinbera, og er Reykjavík alveg einstakt dæmi í því samhengi. Enn stendur til hjá borginni að ráða verkefnastjóra kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar. Ekki stendur til að spóla til baka á gæluverkefnum sem búið er að sjósetja. Svigrúmið er ekkert þótt skattstofnar séu í botni, fyrirtæki í eigu borgarinnar mjólkuð um hvern dropa, mikilvæg grunnþjónusta vanrækt, mötuneyti skólanna og leikskólanna kalla lítinn bananabita banana og fjölmennar sendinefndir á vegum borgarinnar láti sér almenn farþegarými duga þegar þær fara í kokteila erlendis.

Greiðslukortið virkar ennþá og unglingurinn sáttur.


mbl.is „Vildum ekki fara í flatan niðurskurð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kínversku veiruvísindin breyta um stefnu

Vesturlönd hentu áratugum og jafnvel öldum af vísindum sínum í ruslið í upphafi ársins 2020 og keyrðu á kínverskum vísindum til upphafs þessa árs. Það er nú gott því þessi kínversku vísindi eru alltaf að taka nýja stefnu eins og við munum (grímur eða ekki, loka skólabörn inni eða ekki, drepa gamalt fólk úr einmanaleika eða ekki, og svona mætti lengi telja).

Nú lesum við í fréttum að Kínverjar eru að losa um eitthvað af fangabúðatakmörkunum sínum.

Frá Oilprice.com:

kina_oil

Frá Reuters.com:

kina_reuters

En af hverju að losa um takmarkanir núna? 

Skoðum smittölur:

kina_smit

Nei, smit koma afnámi takmarkana ekki við.

Hvað er þá að gerast?

Jú, mótmæli!

Fólk er að mótmæla!

Svo mikið að meira að segja RÚV hefur tekið eftir því.

Skítt með smittölurnar. Skítt með einhver vonlaus takmörk sóttvarnarlækna sem fá borgað fyrir að hugsa um sóttir og ekki annað. Ekki um menntun barna. Ekki um andlega heilsu eldra fólks. Ekki um listir og menningu. Ekki um almennt heilbrigði almennings.

Merkilegri voru þau kínversku veiruvísindi ekki þegar á hólminn var komið.


Orkuskiptin, rafmagnsbílar, kuldi og gróðurhúsaáhrif

Við erum á svolítið einkennilegri vegferð á Vesturlöndum og sérstaklega í Evrópu.

Við erum að ýta út bílum sem nota bensín og olíu. Í staðinn eiga að koma rafmagns- eða vetnisbílar. Rafmagn þarf að fara á batterí. Vetni þarf að framleiða með notkun rafmagns. Hvoru tveggja þýðir að við þurfum miklu meira rafmagn. Í íslensku samhengi þarf svo mikið rafmagn til að leysa af jarðefnaeldsneytið að það svarar til að virkja nokkurn veginn jafnmikið og búið er að virkja nú þegar. Í evrópsku samhengi er nauðsynleg viðbót við raforkuframleiðsluna sennilega mun hærri, hlutfallslega. 

Við erum að neita okkur um hagkvæma og aðgengilega orkugjafa og reiða okkur á mun óáreiðanlegri og dýrari orkugjafa. Við búum til mælikvarða fyrir fjárfestingar sem gefa fjárfestingum í olíu og gasi mjög lélega einkunn og drögum þannig úr slíkum fjárfestingum. Við setjum á viðskiptahöft sem draga mjög úr framboði og leiða til hækkandi verðlags á orku. Við viljum ekki virkja fleiri fallvötn því þau eru svo falleg. Það verður sífellt erfiðara að bæta við orkuframleiðsluna.

Við erum að auka orkunotkun okkar. Sumir segja að heimurinn sé að hlýna, sem krefst loftkælingar, eða að kólna, sem krefst upphitunar. Við bætum í sífellu raftækjum við líf okkar, frá fleiri flatskjáum og símum til snjalltækja af ýmsu tagi. Nú fyrir utan að okkur er að fjölga. 

Hvernig í ósköpunum á þetta að hanga saman?

Það gerir það auðvitað ekki og spilaborgin er í raun og veru hrunin í Evrópu. Kolin eru að koma aftur. Nýjar gaslindir á að opna á sumum svæðum í fyrsta skipti í áratug eða meira. Jarðefnaeldsneytið streymir inn og virðist sú regla gilda að því spilltari sem stjórnvöld eru, því meira fá þau að flytja inn til Evrópu. Kjarnorkuverum á að fjölga. Námur, sem var búið að loka, á að opna að nýju.

Allt er þetta auðvitað tímabundið ástand, segja menn. En menn byggðu upp spilaborg sem hrundi og mjög líklegt að sú saga eigi bara eftir að endurtaka sig.

Nema auðvitað að hið ótrúlega gerist og menn rifji upp hvernig samfélög án orku líta út. Þar sem fólk brennir þurrkaðri mykju innandyra til að hita vatn. Þar sem bæði hiti og kuldi er banvænn. Þar sem þvottavélar eru gagnslausar því það er engin innstunga fyrir þær.

Þá vakna menn kannski úr værum draumi og byrja á ný að samþykkja hagkvæma, örugga og sveigjanlega orku.

Því annars erum við í vandræðum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband