Áður en blásið er í vindmyllur

Vindmyllur í íslensku samhengi hafa hingað til verið lítil tilraunaverkefni sem hafa gengið misvel. Á köflum hafa þær skilað mikilli og samfelldri orku, á öðrum köflum hafa þær brunnið. Við vitum öll hvernig vindmyllur líta út í umhverfinu og hvaða ónæði getur stafað af þeim. Vængirnir geta brotnað af og skapað hættu. Þær snúast í gegnum loftið og fuglar sem rekast á vængina koma limlestir og jafnvel höfuð- eða vænglausir út úr slíkum árekstri. Þær þurfa mikið viðhald og flestar gerðir vængja er ekki hægt að endurnýta og þá eru þeir grafnir í jörðina. Og ef það blæs of mikið, eða of lítið, þá framleiða þær ekkert.

Allt þetta vitum við og það þarf lítið að ræða það. Í Evrópu og sérstaklega Danmörku eru vindmyllur vel prófuð og þróuð tækni. Vindmyllurnar eru komnar út á sjó og á góðum dögum framleiða þær mikið af ódýrri raforku sem hefur að auki þann kost að krefjast ekki fjárútláta til Miðausturlanda. 

En reynslan þýðir ekki bara að menn geri meira af því sama. Reynsla þýðir stundum að menn stíga á bremsuna, staldra við og endurskoða fyrri áform.

birdÁhrif staðsetningar getur til dæmis þýtt mjög mikið fyrir fuglalíf. Séu vindmyllur staðsettar á slóð farfugla geta þær ollið miklum fugladauða. Ég heyri orðróma þess efnis að ný löggjöf í Hollandi muni kveða á um að stöðva vindmyllur á ferðatíma farfugla. Nú þegar er búið að kynna tækni sem hægir á vindmyllum ef ákveðnir fuglar í útrýmingarhættu, eins og ernir, nálgast þær. Vindmyllur geta einnig breytt umhverfi sínu, svo sem samsetningu sjávar og úrkomu. 

Þetta, og meira til, er lítið rætt. Vindmyllur eru almennt álitnar vera umhverfisvænar, öruggar og áreiðanlegar. Það má vel vera. Ég er ekki að andmæla vindmyllum í sjálfu sér. Ef menn vilja hafa þær frekar en uppistöðulón í umhverfi sínu þá þeir um það. En það er engin ástæða til að finna upp hjólið þegar reynslubankinn er til staðar og fer sívaxandi. Það á enginn að þurfa láta koma sér á óvart ef íslenskir gæsastofnar missa höfuðið af því menn lögðu vindmyllur á flugleiðir þeirra. Rafmagnskapla þarf að grafa í jörðu og ástæðulaust að vanmeta áhrif slíkra framkvæmda á umhverfið. Hin mikla umferð bifreiða allan ársins hring sem sinnir viðhaldi á vindmyllum er fyrirsjáanleg. Uppskriftin að byggingu og rekstri vindmylla er til og vel þekkt. Það þarf bara einhver að lesa hana.

Og þá helst áður en menn leggja í þessa vegferð.


mbl.is Risavindorkugarður undirbúinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég myndi nú segja að vindmyllur eru ekki eins umhverfisvænar og af er látið og svo sannarlega ekki ódýrt rafmagn, það er rosalega mikið viðhald sem þær þurfa, þær þurfa mikið af olíu á snúningsfleti (ætli sólarsellur séu ekki þær einu sem ekki þurfa það) og rugl mikið magn af landi, vanalega þar sem ég hef séð þessa blessuðu vindmyllu garða þá er meirihluturinn af þeim ekki í gangi og margar af þeim að grotna niður þar sem þær eru bilaðar, spaðar og annað liggjandi út um allt eins og hráviðri.

Smá samaburður á landaþörf. Er ekki með vatnsaflsvirkjanir þar sem ég fann ekki í fljótu bragði gögn fyrir það. Og fyrir Sólarsellur og Vindmyllur munum við alltaf þurfa einhverskonar aðra framleiðslu til að halda rafmagninu stöðugu þar sem það er mikið af sveiflum í sólarsellum og vindmyllum.

Margföldun á landsvæði sem þarf til að framleiða sama rafmagn.

1 - Kjarnorka

~60 - Sólarsellur

~300 - Vindmyllur

Halldór (IP-tala skráð) 6.12.2022 kl. 10:12

2 Smámynd: Birgir Loftsson

Setjum Don Kíkóti í málið.H

Birgir Loftsson, 6.12.2022 kl. 19:54

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Halldór,

Svo ég leiki varnarmann vindmylla þá er landið ekki beint upptekið þótt þar séu vindmyllur. Hreindýr geta ennþá farið á beit nú eða rollur, og refir geta ennþá fundið mýs. Raskið af viðhaldsteymunum er sennilega meira en af vindmyllunum. Landið fer úr því að vera ósnortin náttúra í iðnaðarsvæði.

Birgir,

Hringdu í kallinn! Hann hlýtur að vakna til lífsins við að heyra um þessa viðburði.

Geir Ágústsson, 6.12.2022 kl. 21:43

4 identicon

Fugladauði í kringum vindmyllurnar er gríðaregt vandamál. Stærstu fuglarnir eins og ernir (sem eru einnig í útrýmngarhættu) verða helstu fórnarlömb. Það er ekki bara árekstrar við spaðanna sem er helsti orsakavaldur, heldur eru það ósýnilega ókyyrrðin sem myndast í umhverfi spaðanna (líkt og vortex ókyrrð sem kemur frá þyrluspöðum). Fuglarnir sem fljúga nálægt þessum risa-vindmyllum geta skyndilega snúist á hvolf, farið í spin og steypst til jarðar. Það er svipað og skip sem myndi lenda í meiriháttar öldurót, eða fá á sig brotsjó sem væri ósýnilegur. 

Bragi Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.12.2022 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband