Hvenær máttu kjósa? Hvenær máttu tala?

Ég spyr mig í grein á Krossgotur.is, sem er vefmiðill rekinn af félagasamtökunum Málfrelsi, hvenær má tala og hvenær má kjósa. 

Mín niðurstaða er: Það er líklegra að þú fáir að kjósa eins og þú vilt en að þú fáir að tjá þig eins og þú vilt.

Kannski skiljanlegt, kannski ekki. Mér finnst þetta vera öfugsnúið ástand. Það skiptir nánast engu máli hvað þú kýst en öllu máli að þú fáir að taka þátt í opinberri, opinskárri umræðu. Kosningar fara fram á fjögurra ára fresti og varla hægt að tala um að nokkuð breytist á milli þeirra. Tjáning fer fram oft á dag og hjálpar okkur að slípa skoðanir, ná niðurstöðu, létta á sálinni og læra eitthvað nýtt.

Rétturinn til að kjósa er varinn með slíkum múrum í stjórnarskrá að hann verður varla tekinn af nokkrum manni. Rétturinn til að tjá sig er skilyrtur við slíkan lista af loðnum skilyrðum að það mætti segja að hann sé varla til staðar ef yfirvöld eru í ákveðnu stuði.

Það eru þau sem betur fer sjaldan, en það er annað mál. Þú sefur á handsprengju og pinninn er tengdur við þráð sem nágranni þinn getur togað í ef hann vaknar upp í vondu skapi. Þennan þráð þyrfti helst að skera á svo þú sofir í ró og næði.

Ég held að öll þessi hugsun um að við séum að kjósa valdhafa sem fulltrúa okkar í stjórnkerfinu sé mögulega byggð á misskilningi. Við kjósum, já, en þeir sem hljóta kjör breytast úr því að vera frambjóðendur í að verða valdhafar og það steikir oftar en ekki vírana i höfði þessa annars ágæta fólks.

Allt í lagi, þannig séð, ef þetta fólk hefur takmörkuð völd, vel pökkuð inn af stjórnarskrá og aðhaldi borgara, en sú er ekki raunin. 

Dettur einhverjum í hug að prófa aðra nálgun?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Síða og samtök manna sem vilja ráða hvað er sagt á þeirra eigin síðum, og stunda því ritskoðun þar, en vilja sjálfir vera óritskoðaðir á annarra síðum. 

Vagn (IP-tala skráð) 16.12.2022 kl. 10:32

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Ég held að þú sért að rugla saman tveimur orðum, ritstjórn og ritskoðun. 

Kíkjum aðeins í orðabókina.

Ritstjórnarstefna
"stefna dagblaðs, tímarits eða annars fjölmiðils hvað varðar áhersluatriði í útgáfunni og e.t.v. skoðanir á ýmsum málefnum"

Ritskoðun:
"eftirlit opinberrar nefndar með t.d. bókum og dagblöðum sem sker úr um hvort birta megi efnið óbreytt eða eigi að banna það af siðferðislegum eða pólitískum ástæðum"

Skilgreiningin á ritskoðun er reyndar alltof þröng. Hún nær til dæmis ekki utan um þrýsting og hótanir bandarískra yfirvalda og forstjóra stórra lyfjafyrirtækja á einkarekna samfélagsmiðla, eða samstarfs yfirvalda og einkarekinna fyrirtækja um að með samstilltum hætti loka á notendareikninga fjölda fólks á sama tíma, til dæmis tveimur dögum áður en viðkomandi fór í viðtal hjá Joe Rogan.

Geir Ágústsson, 16.12.2022 kl. 12:10

3 identicon

Og samt hefur þú sakað ýmsa fjölmiðla, sem fylgja einhverri ritstjórnarstefnu, um ritskoðun. Þrönga skilgreiningin á þá víst bara við þegar aðrir neita að birta efni frá þínum skoðanabræðrum. Og þið því bara að fylgja ritstjórnarstefnu en ekki að ritskoða þegar þið neitið að birta efni sem ekki er ykkur að skapi.

Vagn (IP-tala skráð) 16.12.2022 kl. 12:39

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það þarf ekki að ritskoða Íslendinga því flestir eru þeir feitir þjónar. Feitir velferðarþjónar, sallaánægðir með ástandið eins og það er. Smá nöldur annað slagið en ekkert alvarlegt meðan ríkið heldur áfram að þenjast út. Allir búnir að gleyma því að peningar vaxa ekki í ríkiskassanum.

Ragnhildur Kolka, 16.12.2022 kl. 13:19

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Nú hefur Twitter viðurkennt að hafa lokað á blaðamanninn Alex Berenson vegna þrýstings og geðþótta en ekki af því hann braut neina skilmála. Twitter á að heita samfélagsmiðill með notendaskilmála en lokar handahófskennt á þá sem segja ákveðna hluti - jafnvel að þylja upp úr ritrýndum vísindagreinum. 

Auðvitað veistu allt þetta. Þú ert bara fúll yfir að fá ekki að kalla bloggara heimskingja á þeirra eigin bloggsíðum. Kannski mígur þú líka á teppið á heimilum annarra. Það kæmi mér ekkert á óvart. Og kallar það frelsissviptingu ef þú mátt ekki.

Geir Ágústsson, 16.12.2022 kl. 13:29

6 identicon

Og hvað? Ert þú fúll yfir að Twitter sé með ritstjórnarstefnu eins og þú? Hvað með það þó Twitter loki eftir geðþótta á þá sem þeir telja þann daginn vera fífl og fávita? Þið félagarnir gerið það sama. Það vill bara svo til að þið eruð oftast sammála fíflunum og fávitunum sem flestir neita um pláss á sínum síðum.

Það verður að játast að freistingin er óstjórnleg þegar þú gerir það svona auðvelt. Þú virðist ansi oft gleyma að hugsa áður en en þú bloggar, en ég reikna samt með að þú sért fær um það.

Vagn (IP-tala skráð) 16.12.2022 kl. 14:04

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Sérðu muninn á eftirfarandi tveimur skilatextum?

"Bannað að reykja hér með öllu."

"Reykingar bara heimilar á sérstöku reykingasvæði."

"Afstöðulaus gagnvart reykingum."

Þú sem reykingamaður (skilst mér á fyrri athugasemd þinni á annarri síðu) einfaldlega hlýtur að skilja muninn á þessum skiltatextum. Eða ertu oft að láta senda þig í burtu, veist ekki ástæðuna og færð aldrei að vita af hverju?

Geir Ágústsson, 16.12.2022 kl. 15:47

8 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Stjórnarskráin er skýr um að þú mátt tjá þig um hvaðeina sem þér sýnist, en þú verður að geta staðið við ætluð meiðyrði fyrir dómi. Lög um hatursegð eða hatursorðræðu, eru stjórnarskrárbrot (ranglög) og því landráð.

Stór hluti valda-elítunnar er í dag sek um landráð.

Guðjón E. Hreinberg, 17.12.2022 kl. 09:35

9 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

... sérstaklega er rangsnúningur og þráttunarhyggja vinstri-öfga stjórnarskrárbrot og því landráð (og/eða glæpur gegn þjóð).

Guðjón E. Hreinberg, 17.12.2022 kl. 09:35

10 identicon

Lög um "hatursegð eða hatursorðræðu", eru ekki stjórnarskrárbrot. Þau falla undir allsherjarreglu Stjórnarskrárinnar sem gerir ráð fyrir að í lög séu settar takmarkanir eins og þurfa þykir. "Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum."

Stjórnarskrárbrot eru ekki landráð. Hvað teljast landráð er skýrt skilgreint í lögum. Og flest af því sem hefur frá hruni verið úthrópað sem landráð eru langt frá því að vera ólöglegt og hvað þá landráð.

Gott væri ef þeir sem hæst hrópa stjórnarskrárbrot og landráð læsu Stjórnarskrána, að minnsta kosti einu sinni, og kynntu sér hvað lögin segja um landráð. Það mundi spara þeim mikil skrif og aðhlátur. En þá hefðu þeir að vísu ekkert til að saka pólitíska andstæðinga sína um. Það er nokkuð erfitt val fyrir þá. Að fræðast og þegja eða að hrópa áfram í fáfræði.

Vagn (IP-tala skráð) 17.12.2022 kl. 14:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband