Bloggfærslur mánaðarins, júní 2021

Veira og gögn

Nú þegar heimurinn er búinn að eyða að verða þremur misserum í allskyns tilraunir til að halda veiru í skefjum eru gögnin loks að skila sér í hendur vísindamanna sem geta þá vegið og metið hvaða sóttvarnaraðgerðir voru skilvirkar og hvaða aðgerðir gerðu ekkert nema drepa hagkerfið, ýta undir sjálfsmorð og brottfall úr skóla, flýta ellihrörnun, félagslega einangra, stuðla að gjaldþrotum og atvinnuleysi og eyðileggja íþrótta- og félagsstarf.

Umfjallanir um slíkar rannsóknir má m.a. nálgast hér og hér.

Og hvað er að koma betur og betur í ljós? Jú, til dæmis að lokanir höfðu ekki áhrif á útbreiðslu veiru en þeim mun meiri á atvinnuleysi. 

Þetta er mjög í anda fyrri leiðbeininga um aðgerðir til að halda veirum í skefjum: Ekki loka. Sendu veikt fólk heim til sín. Þvoðu á þér hendurnar. Passaðu viðkvæma hópa. Punktur.

Grímur, lokanir á fyrirtækjum, samkomutakmarkanir, stofufangelsi, landamærafangelsi og fleira slíkt voru tilraunir. Í upphafi faraldurs voru þær réttlætar sem skammtímaaðgerðir á meðan menn væru að læra á veiru og áhættuhópa vegna hennar. Það átti að fletja út kúrvuna og verja heilbrigðiskerfið. En einhvers staðar gleymdist allt þetta og enginn man lengur af hverju. Gögnin hafa heldur ekki réttlætt hinar harkalegu aðgerðir. Enn er talað í getgátum svona eins og ekkert hafi lærst seinustu þrjú misseri. Enginn hefur fyrir því að setja dauðsföll af öðrum orsökum en veiru í samhengi við meinta hættu vegna veiru. Þess þarf greinilega ekki enda allir stjórnmála- og blaðamenn á bandi þeirra sem hvað harðast vilja ganga fram, og margir læknar þora varla að tjá sig af ótta við bannfæringu eða brottrekstur.

Það er kominn tími til að enda þessa sturlun og fá gamla normið aftur.


Ríkisvaldið og skyldur sveitarfélaga

sv1995Mikið kapp hefur verið lagt á að sameina sveitarfélög undanfarna áratugi. Um leið hafa sífellt fleiri skyldur verið lagðar á sveitarfélögin. Þetta tvennt hangir saman. Eftir því sem sveitarfélög eru stærri, því meira er hægt að leggja á þau af kröfum og skyldum. Stór sveitarfélög eru líka með meira lánstraust og geta fjármagnað stærri verkefni og fleiri starfsmenn. 

Ekki eru allir sáttir við þessar endalausu sameiningar og hafa fyrir því ágætar ástæður eins og þær að fjöll og firðir færast ekki þótt landamæri sveitarfélags breytist. Áfram þarf að reka þjónustu, skóla og heilbrigðisstofnanir í þéttbýlum þótt ráðhúsið sé komið í annan bæ. 

En hvað með hin stærri verkefni eða þjónustu sem mjög fáir þurfa á að halda, svo sem við fatlaða? Jú, hérna hafa smærri sveitarfélög einfaldlega farið í samstarf við nágranna sína en haldið sínum sveitarstjórnum.sv2020

Eftir því sem fjarlægðin frá ráðhúsinu er meiri, því aftengdari verður hópurinn í ráðhúsinu frá íbúum sínum. Þetta blasir við í Reykjavík þar sem stuðningur við borgarstjórn minnkar nánast í réttu hlutfalli við fjarlægð hverfis frá miðbænum. 

Kannski það sé því frekar við hæfi að byrja að tala um sundrungu sveitarfélaga frekar en sameiningu og auðvitað fækka skylduverkefnum þeirra um leið.


mbl.is Ekki skylt að sameinast en skilmálar settir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérfræðingur í notendarannsóknum

Laus er staða sérfræðings í notendarannsóknum hjá Reykjavíkurborg. Þetta er auðvitað glæný staða enda ómögulegt að finna aðra starfsmenn hjá borginni til að „hanna þjónustur út frá þörfum og væntingum íbúa“. Borgin hefur sem sagt áttað sig á því að hún hefur ekki hugmynd um þarfir og væntingar borgarbúa á meðan aðrir hafa vitað slíkt lengi. Ákveðin viðhorfsbreyting virðist líka vera að eiga sér stað en fyrir ekki löngu síðan sagði borgarstjóri að þjónustukannanir nýttust borginni ekki til að bæta þjónustu borgarinnar. Það útskýrir kannski ýmislegt í rekstri hennar.

Nú er að vona að borgin finni einhvern til að framkvæma fullt af skoðanakönnunum „þar sem helsti hvatinn er umbætur á þjónustu fyrir borgarbúa, krefjandi viðfangsefni og nýsköpun“. Minna má það ekki vera.


Rafbílar og umhverfið

Af hverju ætti nokkur maður að kaupa sér rafbíl? 

Nokkrar góðar ástæður:

  • Hægt að hlaða hann heima hjá sér og spara sér ferðir á bensínstöðina
  • Hljóðlátur
  • Fullur af flottri tækni
  • Spara gjaldeyri sem færi annars í olíu og matarolíur sem eru ræktaðar á svæðum sem voru regnskógar en eru núna plantekrur
  • Oft flott hönnun
  • Enginn útblástur og þar með betri loftgæði

En vantar ekki eitthvað á listann? Hvað með umhverfið? Eru rafbílar ekki góðir fyrir umhverfið? Nei. Það eru þeir ekki. Þeir stuðla ekki að minni losun koltvíoxíðs í andrúmsloftið (hafi menn áhuga á slíku). Rafhlöðurnar þurfa mörg hráefni og til að ná í þau þarf að sprengja í loft upp heilög svæði innfæddra og dæla ógrynni eiturefna í umhverfið, svo ekki sé talað um að mörg hráefnanna koma frá svæðum þar sem þrælahald á börnum er notað til að knýja miðstéttarfólkið á Vesturlöndum áfram.

Rafhlöður eru frábærar. Þær eru heppilegar til að knýja lítil tæki eins og síma og hlaupahjól, vasaljós og fjarstýrða bíla. En með því að gera þær risastórar og ætla sér svo að troða þeim í stór og þung farartæki er ekki verið að bæta umhverfið og alls ekki stöðu mannréttinda í fátækustu heimshlutunum. Miklu frekar er verið að kitla tækjablæti ríkra Vesturlandabúa. Gott fyrir þá, slæmt fyrir aðra.


mbl.is Rafbílar ekki enn tilbúnir fyrir hálendið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkalýðshreyfing í leit að slagsmálum

Verkalýðshreyfingin á Íslandi er sérstök. Hún lifir að mörgu leyti á fornri (og jafnvel óverðskuldaðri) frægð og telur sig geta komist upp með hvað sem er. Pistlahöfundur á Fréttablaðinu orðar þetta ágætlega:

Sögulega séð hefur íslensk verkalýðshreyfing lagt höfuðáherslu á mikilvægi atvinnuuppbyggingar og sköpun nýrra starfa fyrir sína félagsmenn. Það er af sem áður var. Núna er þessum valdamiklu samtökum stýrt af fólki, sem best er lýst sem ábyrgðarlausum skæruliðum, sem hefur jafnan það eitt til málanna að leggja að krefjast launahækkana margfaldra á við það sem þekkist í okkar nágrannaríkjum – óháð aðstæðum í hagkerfinu hverju sinni – og hærri bótagreiðslna. 

Frægar eru nýlegar deilur milli forstjóra flugfélagsins Play og forseta ASÍ. Verkalýðsfélög boða að fyrirtæki séu sniðgengin og hlutafjárútboð hunsuð. Þau ásaka fyrirtæki um lögbrot og siga fjölmiðlum á þau. 

Nú er eins og margir hafi fengið nóg af hrópum og gólum verkalýðshreyfingarinnar. Sem dæmi eru tveir læknar sem mótmæla misvísandi framsetningu á skoðanakönnun um rekstrarform heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Ekki lætur forstjóri Play það viðgangast að verkalýðsfélag atist í fyrirtækinu hans.

Þetta er gott mál. Opinber umræða þarfnast þess að menn takist á (gjarnan málefnalega). Sem fjölbreyttust sjónarmið eiga að fá að heyrast. Nú fær verkalýðshreyfingin loksins aðhald. 


Samræmt ofbeldi

Allt tal um samræmingu skatta er ekkert annað en samræming á ásetningi yfirvalda að vilja mergsjúga hagkerfið eins mikið og mögulegt er og fækka flóttaleiðum frá skattheimtunni. 

tEn sem betur fer er heimurinn allur brotinn upp í óteljandi ríki. Ekki hefur tekist að moka heiminum undir einn hatt. Heimurinn er án ríkisvalds eins og Ísland var á þjóðveldisöld með sína goða og höfðingja.

Þetta þýðir að ennþá má finna flóttaleiðir.

Sem dæmi um notkun á flóttaleiðum má nefna fyrirtækið sem þróar samskiptaforritið Telegram

Í spurt-og-svarað á heimasíðu þeirra segja þeir:

 Where is Telegram based?

The Telegram development team is based in Dubai.

Most of the developers behind Telegram originally come from St. Petersburg, the city famous for its unprecedented number of highly skilled engineers. The Telegram team had to leave Russia due to local IT regulations and has tried a number of locations as its base, including Berlin, London and Singapore. We’re currently happy with Dubai, although are ready to relocate again if local regulations change.

Já, það er hægt að flýja, sem betur fer. En það verður erfiðara og erfiðara eftir því sem fjárþyrst og fégráðug yfirvöld "samræma" sífellt meira.


mbl.is Samkomulag G7 um fjármagnstekjuskatt í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með kjarnorkuvopn, pandabirni og skógrækt?

Nýr fríversl­un­ar­samn­ing­ur Íslend­inga og Breta er í höfn og tek­ur hann til allra þátta viðskipta milli ríkj­anna. Ásamt því að veita Íslend­ing­um mik­il­væg­an aðgang að bresk­um mörkuðum, og öf­ugt, þá er að finna í samn­ingi ríkj­anna um­fangs­mikl­ar skuld­bind­ing­ar á sviði lofts­lags­mála, sjálf­bærni og jafn­rétt­is­mála. 

En bíddu nú við, hvað með kjarnorkuvopn? Vantar ekki eitthvað um kjarnorkulaust Bretland? Og pandabirnir eru í útrýmingarhættu - gleymdist að skrifa þá inn í fríverslunarsamninginn? Síðan virðist ekki standa neitt um skógrækt. Er hún ekki mikilvæg?

Hvað um það. Á meðan tollar eru lágir og tæknilegar viðskiptahindranir í lágmarki þá gerir ekkert til að bæta við allskonar dygðarflögun í viðhengi.


mbl.is Sögulegur samningur Íslands og Bretlands í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanakönnun sem skilur eftir fleiri spurningar en svör

40% svarenda í nýrri könnun MMR leist mjög eða frekar vel á framkomnar hugmyndir um Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu. 34% leist mjög eða frekar illa á þær. Jæja, lofar góðu fyrir talsmenn Borgarlínu, en bíddu nú við! 65 prósent svarenda sögðust mjög eða frekar andvíg fækkun akreina á Suðurlandsbraut fyrir bíla úr fjórum í tvær til að rýmka fyrir uppbyggingu Borgarlínunnar. Er það ekki eitt af aðalatriðum framkominna hugmynda um Borgarlínu? Jú, mikil ósköp.

Hérna hefði verið áhugavert að sjá hvort 40% hópurinn sé hlynntur fækkun akreina, andvígur eða hlutlaus. 

Einnig hefði verið áhugavert að spyrja viðmælendur um bílaeign þeirra. Er 40% hópurinn bíllaus að megninu til eða hvað? 

Eins kemur ekkert fram um hverfi viðmælenda. Meðaltalið 40% gæti þýtt 70% í miðbænum og 10% í úthverfunum. Skiptir það engu máli?

Ég tek fram að ég hef ekkert á móti hópferðarbílum sem keyra ákveðnar leiðir á ákveðnum tímum, hvort sem þær heita strætó, rútur, flugrútur, lestir eða sporvagnar (og þá helst á kostnað notenda þeirra en ekki annarra). Fátt er notalegra en að verða keyrður frá A til B og geta nýtt tímann í eitthvað annað en að skipta um gíra og reyna forðast dauðann.

En þetta er bara ekki val fyrir alla. Alls ekki. Og meðaltalið fyrir mörg ólík svæði segir nákvæmlega ekkert. Hæfileg sundurliðun er því miður dýrari í framkvæmd en já/nei spurningarnar og því sjaldgæf, en þegar hún er framkvæmd er hún mjög upplýsandi

Takk fyrir viðleitnina, MMR, en þið þurfið því miður að prófa aftur.


mbl.is 40% leist vel á Borgarlínuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áréttað og áréttað aftur

Nokkrar setningar úr stuttri frétt:

  • Þar er tekið fram að ekk­ert bendi til or­saka­sam­heng­is á milli þeirra 20 and­láta sem til­kynnt hafa verið í kjöl­far bólu­setn­ing­ar og bólu­setn­ing­ar­inn­ar sjálfr­ar. 
  • Alls hafa 92 til­kynn­ing­ar borist Lyfja­stofn­un vegna gruns um al­var­leg­ar auka­verk­an­ir í kjöl­far bólu­setn­ing­ar. Tekið skal fram að ekki er vitað hvort um or­saka­sam­hengi milli bólu­setn­ing­ar og til­kynntra til­vika sé að ræða. 
  • „Að svo komnu er ekk­ert sem bend­ir til or­saka­sam­heng­is milli til­kynntra and­láta og bólu­setn­inga gegn COVID-19,“ seg­ir í svari Lyfja­stofn­un­ar. 
  • Aft­ur skal áréttað að or­saka­sam­hengi á milli bólu­setn­ing­ar og and­láta hef­ur ekki fund­ist. 

Það er vissara að árétta en fyrr má nú vera. Ef ekkert væri að þyrfti varla að árétta svona hressilega, eða hvað? Ef ríki heims væru ekki ósammála um öryggi hinna og þessara efnakokkteila þá þyrfti sennilega ekki að árétta svona. Ef Danir væru ekki byrjaðir að greiða út bætur vegna aukaverkana þyrfti kannski ekki að árétta svona mikið.

Kannski blaðamaður ætti að reyna velta fyrir sér af hverju hann þarf að árétta svona oft í einni lítilli frétt. Ekkert að sjá hér, er það nokkuð?


mbl.is Einungis ein alvarleg tilkynning vegna Janssen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað varð um stöðu sérhæfðs ritara skrifstofustjóra?

Í apríl auglýsti dómsmálaráðuneytið eftir umsækjendum í stöðu sérhæfðs ritara skrifstofustjóra sem ég kallaði á sínum tíma draumastarfið enda lítið um hæfniskröfur og skyldur og nánast eins og í boði væru ókeypis laun.

Ég sótti vitaskuld um og bauðst til að sinna öllum verkefnum starfslýsingarinnar sem verktaki í 25% hlutastarfi en fékk ekkert svar við þeirri umsókn. Ekki er að sjá að ráðið hafi verið í stöðuna. Var hætt við allt saman eða búin til ný staða fyrir þann eða þá sem átti að koma fyrir í stjórnsýslunni sem þurfti ekki að auglýsa, hafi það verið markmiðið?

Þetta er allt á huldu en skýringar hljóta að vera væntanlegar.


mbl.is 34 vilja í dómsmálaráðuneytið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband