Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2019

Hvað viltu borga fyrir bananann?

Þú gengur inn í verslun. Þar sérðu skyrdós á 10 þúsund krónur. Viltu borga svo mikið fyrir eina skyrdós? Nei, varla. En hvað viltu borga fyrir flugmiða? Eins lítið og hægt er, auðvitað. Hvað viltu hagnast mikið á hlutabréfum þínum (t.d. þau sem þú átt í gegnum lífeyrissjóð þinn)? Eins mikið og hægt er, auðvitað.

Neytendur gera kröfur og velja að kaupa eða sleppa því. Fjárfestar krefjast ávöxtunar. Fyrirtæki sem vill ganga vel þarf að selja ódýrt og hagnast mikið. 

En fer sama fyrirtæki þá ekki að reyna svindla til að lækka kostnað og auka hagnað? Kannski. Hið opinbera svindlar: Það kostar eins mikið og það getur en gerir eins lítið og það getur. Einkafyrirtæki vilja líka fá sem mest fyrir sem minnst. 

En hver á að fylgjast með einkaaðilunum? Það getur hið opinbera gert, en gerir það illa. Betra er að fá vottun óháðra aðila til að sýna neytendum að allt er í sóma. Þannig er það í iðnaði útsjávarvinnslu á olíu og gasi. Yfirvöld hafa einfaldlega ekki þekkingu og getu til að sinna eftirliti í iðnaði þar sem tæknin er á fleygiferð og kröfurnar alltaf að aukast vegna meira dýpis, hærri þrýsings, fleiri ætandi efna og þess háttar.

Ef hið opinbera eftirlit í Bandaríkjunum er það eina sem neytendur geta treyst á þá er illt í efni. Opinbert eftirlit fær meira fé eftir því sem það tekst verr upp. Það er hættulegt og veldur fyrirtækjum líka freistnivanda.


mbl.is Framleiðsla 737 MAX undirfjármögnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinar ófrávíkjanlegur kröfur í samningagerð

Í frétt segir:

Talið er að ESB og breska stjórn­in muni ekki ná sam­an varðandi svo­kallað backstop-ákvæði um landa­mæri Írlands og Norður-Írlands. Í ákvæðinu felst að ef eng­inn viðskipta­sam­ing­ur ligg­ur fyr­ir tveim­ur árum eft­ir út­göngu Breta verði Bret­ar áfram í tolla­banda­lagi ESB þar til bæði stjórn­völd í Bretlandi og í ESB kom­ast að sam­komu­lagi um annað.

Th­eresa May hafði reynt að fá þess­ar til­lög­ur samþykkt­ar en við litl­ar und­ir­tekt­ir í breska þing­inu. Kraf­an er ófrjá­v­íkj­an­leg af hálfu ESB.

Ég tek sérstaklega eftir orðinu "ófrávíkjanleg". Þetta virðist vera algengt orð þegar talað er um ESB og samningagerð. ESB gerir einhverjar ófrávíkjanlegar kröfur og þar stöðvast ferlið þar til mótaðilinn hefur samþykkt þær. 

En gott og vel, svona semja fleiri en ESB. En afleiðingin er núna óumflýjanlega sú að Bretar ganga samningslausir út úr ESB og að samningaborðum við ríki utan ESB. Þetta óttast menn eins og dagsetningar tölva árið 2000, en þá gerðist ekkert slæmt, og samningslaust Brexit verður heldur enginn heimsendir fyrir neinn.


mbl.is Reikna með samningslausu Brexit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta með verðbólgu

Af einhverjum ástæðum hafa menn ákveðið að það sé góð hugmynd að helminga kaupmátt gjaldmiðla á um einnar kynslóðar fresti (verðbólgumarkmiðið svokallaða er 2,5% á ári sem þýðir að hundraðkallinn er orðinn minna en 50 króna virði á innan við 30 árum, gefið að ekkert fari úrskeiðis, sem það gerir alltaf).

Menn halda líka - ranglega - að þetta megi gera á þann hátt að allir finni á sama hátt fyrir rýrnun kaupmáttarins. Það er eins og aukið peningamagn geti dreifst jafnt ofan í veski allra, sem er að sjálfsögðu ekki raunin. Verðbólga er tæki sem sumir hagnast á og aðrir tapa á. Verðbólga er flutningur á verðmætum frá sparifjáreigendum og launafólki og ofan í vasa bankamanna og eftirlætisskjólstæðinga þeirra. 

Nýr seðlabankastjóri ætlar ekki að hrófla við þessu fyrirkomulagi. Hann talar í mesta lagi fyrir svolítilli fínstillingu á því mikla stjórntæki sem miðstýrð ríkiseinokun á peningaútgáfu er. 

Framundan er því meira af því sama. Það eru öll tíðindin. 


mbl.is „Tek við mjög góðu búi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjóðið út! Bjóðið út!

Siglingar milli lands og Vestmannaeyja eiga að fara í opinbert útboð hið fyrsta og komast í hendur einkaaðila eins fljótt og hægt er. Þetta gildir um bæði skipið og hafnaraðstöðuna á báðum endum. Það þarf að koma þessu máli í jákvæðan og stöðugan langtímafarveg sem fyrst og stoppa þannig í gatið á veski skattgreiðenda. 

Einhverjum snillingi datt í hug að moka höfn út úr sandströnd við sjó. Það hefur verið eilífur hausverkur allar götur síðan. Þeir sem hafa mokað í sand á fjöru (t.d. í leik með börnum sínum) vita að allt sem er grafið út er fullt af sandi 5 mínútum seinna. Þessari höfn þarf að loka og reisa minnisvarða um fé skattgreiðenda í staðinn.

Úti í hinum stóra heimi finnast óteljandi fyrirtæki sem sérhæfa sig í hagkvæmum, hraðskreiðum og áreiðanlegum siglingum á milli tveggja áfangastaða. Það yrði mikið happ fyrir Íslendinga að fá einhvern slíkra fagaðila til að bjarga málunum hérna.


mbl.is Vilja þjóðhátíðarferju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingjans Víkingarnir og ensku vínbændurnir

Árið er 1000 e.Kr. og norrænir menn hafa sest að á Íslandi og eru jafnvel byrjaðir að breiða úr sér lengra til vesturs þar sem loftslag Grænlands heimilar sauðfjárrækt og ræktun í jörðu. Korn er ræktað á Íslandi. Í Englandi rækta menn vín. Menn gengu jafnvel á íslausri jörð í gegnum það svæði sem við köllum Vatnajökul í dag. 

Mikið hlýtur mönnum að hafa liðið illa á þessum tíma! Veðrið! Öfgarnar! Hitinn!

Nokkrum öldum síðan hafði allt snúist á haus. Thames-áin sem rennur í gegnum London fraus á veturna og vínrækt var auðvitað úr sögunni. Íslenskir bændur ræktuðu ekkert nema gras og harðgert rótargrænmeti. 

Kannski er loftslag víkingaaldar að snúa aftur en kannski er minnkandi sólvirkni að fara hrinda Jörðinni í kuldatímabil. Þá er gott að vita til þess að í jörðu er nóg af olíu og gasi til að hlýja okkur og nýta í raforkuframleiðslu.

Eitt er alveg á tæru: Losun manna á koltvísýringi hefur hér engin áhrif og ekkert að segja.

Menn ættu kannski að reikna minna og hugsa meira.


mbl.is Mun veðrið í Reykjavík minna á Belfast?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunveruleg vandamál og ímynduð

Við erum mjög upptekin af ímynduðum vandamálum. Það út af fyrir sig er ekkert nýtt því sérhvert samfélag á sérhverjum tíma hefur alltaf átt við sín ímynduðu vandamál. Vandamálið við ímynduðu vandamálin er að þau draga athyglina frá raunverulegum vandamálum. Nú eru ímynduðu vandamálin orðin svo umfangsmikil að þetta er farið að hafa verulega skaðleg áhrif á lausn raunverulegu vandamálanna.

Nokkur dæmi um ímynduð vandamál má nefna.

Ímyndað vandamál: Losun koltvísýrings

Barátta Vesturlandabúa (Kínverjum og Indverjum er skítsama) við losun koltvísýrings er að valda lokun hagkvæmra orkuvera, ofálagi á dreifikerfi rafmagns og sóun á gríðarlegu fé í óhagkvæma og klunnalega orkuframleiðslu. 

Ímyndað vandamál: Misskipting auðs

Þeir sem hagnast á peningaprentun ríkisvaldsins eru að verða ríkari á meðan launafólk og fólk á fastri opinberri framleiðslu þarf að éta verðbólguna. Þetta er auðvitað vandamál en vaxandi misskipting vegna þessa er samt ekki raunverulegt langtímavandamál, og hvað þá vandamál sem má skattleggja sig frá. Leyfum bólunni bara að springa og hættum að prenta peninga. Þá verða þeir ríkir sem finna upp hagkvæmar og nothæfar lausnir, okkur öllum til hagsbóta. Það þarf ekki að láta misskiptingu auðs valda okkur áhyggjum.

Ímyndað vandamál: Donald Trump

Mörgum finnst Bandaríkjaforseti vera mikið vandamál. Hann hefur ekki gert jafnmargar árásir og Obama eftir hans fyrstu fjögur ár og eyðir aðallega tíma sínum í að skrifa á Twitter og valda óreiðu í bandarískum stjórnmálum. Nema honum takist að stuðla að stríði við Íran er hann satt að segja frekar skaðlaus og á í mesta lagi eitt kjörtímabil eftir sem forseti þar sem hann þarf að kljást við blússandi stjórnarandstöðu allan tímann. Þetta gengur yfir.

En hver eru þá okkar raunverulegu vandamál?

Raunverulegt vandamál: Fátækt Afríku

Á mörgum svæðum Afríku er einræðisherrum haldið uppi með vestrænu hjálparstarfi. Fólkið fær ekki að stunda frjáls viðskipti (bæði vegna heimatilbúinna viðskiptahindrana en einnig tæknilegra viðskiptahindrana Vesturlanda) og verja eigur sínar fyrir ágangi yfirvalda og er talið frá því að taka í notkun hagkvæma orkugjafa. Það þarf líka að leyfa notkun DDT skordýraeitursins aftur svo malaríuskaðræðinu megi halda í skefjum á hagkvæman og öruggan hátt.

Raunverulegt vandamál: Einokun seðlabanka heimsins á útgáfu peninga

Erum við ekki orðin þreytt á þeirri óvissu sem felst í reglulegum bólum og kreppum? Eina stundina gengur allt vel hjá öllum og þá næstu er kreppa og atvinnuleysi. Þetta má skrifa á peningaprentun seðlabanka heimsins. Það þarf að koma ríkisvaldinu hvar sem er út úr framleiðslu peninga og koma á frjálsum markaði hér, rétt eins og gildir um framleiðslu og notkun á tannburstum og handsápu.

Raunverulegt vandamál: Staðbundin mengun

Mengun er að jafnaði mest þar sem virðing fyrir eignaréttinum er lítil. Á slíkum svæðum heimila yfirvöld mengandi verksmiðjum að dæla eitri og sóti yfir eigur annarra, bótalaust, til að greiða fyrir velgengni þeirra. Skólpi, rusli og plasti er dælt í sjóinn. Borgarbúar ganga um með grímur. Í Austur-Evrópu brenndi súrt regn skógana á meðan íbúar Vestur-Evrópu hreinsuðu umhverfi sitt. Óvirðing fyrir eignaréttinum getur af sér staðbundna mengun (sem getur svo auðvitað dreift úr sér).

Ímynduðu vandamálin eiga að fara ofan í ruslatunnu sögunnar sem fyrst. Það eykur plássið sem raunverulegu vandamálin fá.


Samviskubitmenningin

Samviskubit hrjáir marga að því er virðist. Samviskubitið virðist heldur ekki hafa nein landamæri.

Sá sem heimsækir vini og ættingja í útlöndum eða langar í smávegis sól á fölan kroppinn á að hafa samviskubit yfir flugferðinni.

Sá sem á fjarlæga ættingja sem gerðu eitthvað á að hafa samviskubit.

Sá sem tjáir skoðanir sínar á að hafa samviskubit yfir áhrifum orða sinna á aðra.

Karlmaður sem fær starf sem kona sótti líka um á að hafa samviskubit.

Hvítur einstaklingur sem fær starf sem ekki-hvítur einstaklingur sótti líka um á að hafa samviskubit.

Sá sem dregur í efa að það eigi að grýta lauslátar konur til dauða eða höggva hendurnar af vasaþjófum á að hafa samviskubit yfir því að menningarheimar sem stunda slíkar athafnir eru fátækir og úr fjarlægri fornöld.

Sá sem þénar vel á að hafa samviskubit yfir því að aðrir þéna minna.

Listinn er miklu lengri og nær til nær allra afkima samfélagsins. Er ekki kominn tími til að spyrna aðeins við fótum?

Nú er ég hvítur, gagnkynhneigður karlmaður sem vinn við hönnun á rörum sem flytja olíu og gas. Samviskubit mitt ætti að vera gríðarlegt! En ég þjáist ekki af samviskubiti yfir fjölskyldu minni, atvinnu eða lífsstíl. Ég er heiðarlegur maður sem kem vel fram við fólk og ber ábyrgð á mínu lífi. Bless, samviskubit!


mbl.is O'Rourke játar að hafa hagnast á þrælahaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðhiti, einhver?

Það kemur mér ekki á óvart að rekast á útlendinga sem þekkja ekki til jarðhita og áhrifa jarðhita á yfirborðsís.

En að íslenskur fjölmiðill láti plata sig - það kemur mér á óvart!

Morgunblaðið hefur innan sinna vébanda nokkra einstaklinga sem er helteknir af veðurspám tölvulíkana og dómsdagsspám vísindamanna á ríkisstyrkjum. 

Jörðin er ekki að hlýna.

Skautin eru ekki að bráðna.

Maðurinn stjórnar ekki loftslagi Jarðar með losun CO2.


mbl.is Bráðnun suðurskauts að verða óafturkræf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Millifærslusamfélagið

Á Íslandi er hægt að fara í niðurgreitt nám og þiggja á meðan niðurgreidd lán. Séu vextir LÍN bornir saman við markaðsvexti blasir við að lántakar eru nú þegar að hljóta umtalsverða styrki og nú skal enn bætt í. Eftir útskrift blasa svo við himinháir skattar til að fjármagna námið og niðurgreiddu lánin. Það þýðir að minna verður aflögu til að borga niður lánin og þau fylgja fólki oft í marga áratugi, og jafnvel í gröfina og á borð ættingja.

Þetta er millifærslusamfélagið í hnotskurn: Þú getur fengið hitt og þetta en bara í skiptum fyrir háa skatta sem um leið gera þig háðari hinum opinberu gjöfum. 

Ertu í leiguhúsnæði og þiggur vaxtabætur? Ekki hækka í launum! Þá missir þú bæturnar en skattarnir halda áfram að vera háir! 

Ertu eldri borgari eða í hjólastól en stendur til boða að vinna aðeins? Slepptu því! Þú gætir misst bæturnar og jafnvel endað á verri stað en ef þú hefðir legið heima allan daginn!

Og alltaf skal bætt í bæturnar og laun opinberra starfsmanna og gæluverkefnalistann og skattar þurfa alltaf að vera í svimandi hæðum til að halda uppi vinnufæru fólki eða ungu fólki sem þolir ekki svolitla námsmannafátækt.

Má ekki skera á þennan stóra vítahring - þessa hringavitleysu skatta og bóta - og einblína á að hjálpa þeim sem þurfa virkilega á hjálp að halda og gera það vel, á meðan vinnufært fólk fær að vinna án þess að vera refsað fyrir það?


mbl.is 30% námslána breytt í styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar stofnkostnaður er enginn

Gamalt bragð í pólitískri umræðu er að gera áætlanir sem miða við að það kosti ekkert að byggja, setja saman eða framleiða. Þannig má til dæmis láta rafbíla líta vel út á mælikvarða losunar koltvísýrings. Menn gefa sér bara að það hafi ekki kostað nein aðföng að framleiða hann og viti menn, útreikningurinn kemur vel út!

Á sama hátt hafa menn þurft að afskrifa eða færa töluvert niður stofnkostnað vegna t.d. Kárahnjúkavirkjunar (landverð hirt á verði undir markaðsverði og ávöxtunarkrafan lækkuð í botn) og Borgarlínu (þar koma engir útreikningar vel út nema falsa kostnaðaráætlanir vegna uppbyggingar).

Rafbílar eru alveg ágætt áhugamál fyrir stórborgara ríkra landa eins og rafmagnshlaupahjól eru ágæt leið til að fá húðlata unglinga til að drullast út úr húsi. Lengra nær það hins vegar ekki. Batterí rafbíla sjúga til sín sjaldgæf hráefni sem börn eru pínd til að grafa úr námum í Afríku og raunar þyrfti að tæma margar námur Jarðar bara til að rafbílavæða eins og eitt lítið Bretland. 

Það er ekkert sérstaklega umhverfisvænt við rafbíla en þeir eru flott tæki sem svala kannski tækjaþörf okkar Vesturlandabúanna í smástund, þar til við gefumst upp á að halda þessu í gangi í norðlægu loftslagi og snúum okkur að einhverju með viti.


mbl.is Rafbílar losa 75-80% minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband