Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2019
Sunnudagur, 7. júlí 2019
Þörf á jarðskjálftaskatti
Nauðsynlegt er að leggja á sérstaka skatta á jarðskjálftasvæðum til að minnka líkurnar á aukinni skjálftavirkni með tilheyrandi eyðileggingu. Skattféð má nota til að flæma fólk í burtu eða halda því það fátæku að það hafi ekki efni á barneignum.
Það blasir jú við út frá þeirri rökfræði sem menn halda á lofti í dag: Að aukin skattheimta dragi úr líkum á hörmungum. Um leið er því haldið á lofti að geta manna til að búa sig undir breytingar á umhverfi sínu sé ekki skert með hækkun skatta. Loks er því haldið fram að tölvulíkön geti séð allt fyrir og hið sama hlýtur að gilda um jarðskjálfta og allskyns annað.
Um leið þarf að skattleggja plánetuna Jörð og sólkerfið allt fyrir að fylgja ekki alltaf sömu ferlum í geimnum, með tilheyrandi breytingum á geimgeislum og agnaflutningi inn í loftslag Jarðar.
Allskyns hringrásir í náttúrunni eru líka óþolandi og þarf að jafna út - með skattheimtu!
Með öllum hinum nýju sköttum er svo kannski hægt að lækka skatta á losun koltvísýrings, sem er ósýnilegt og lyktarlaust plöntufóður sem hefur verið í jarðsögulegu lágmarki seinustu þúsundir ára en er loksins að taka aðeins við sér, plöntuvexti Jarðar til mikillar ánægju.
Búa sig undir næsta skjálfta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 3. júlí 2019
Ekki verið að verja erlent starfsfólk
Efling stendur nú í ströngu að kæra mann og annan fyrir að hafa brotið á fullorðnum karlmönnum sem kvarta að tilefnislausu.
Efling er ekki að standa vörð um lögbundin réttindi og tryggja að lögum sé framfylgt. Efling er að verja yfirráðasvæði sitt með því að gera ráðningar á útlendingum að hættuspili.
Því er ekki hlutverk stéttarfélaga að standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna? Og eru hagsmunir þeirra ekki þeir að sem fæstir bítist um þær stöður sem eru í boði, rökstutt af þeirri gölluðu hagfræði að fjöldi starfa í markaðshagkerfi sé fastur?
En gott og vel, það má alveg kæra og láta rannsaka mál og hvaðeina, en slíkt er alltaf gert á kostnað einhvers: Fyrirtækja sem þora ennþá að ráða útlendinga eða verkalýðsfélaga sem senda reikninginn á félagsmenn sína.
Efling sakar Eldum rétt um útúrsnúning | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 2. júlí 2019
Undir eilífum grun
Bankahrunið 2008 hafði djúpstæð áhrif á sálarlíf Íslendinga og sérstaklega íslenskra embættismanna, svo sem dómara og hinna ýmsu eftirlitsstofnana.
Til dæmis er ekki talið við hæfi að maður sé talinn saklaus uns sekt sé sönnuð. Nei, miklu frekar á að rannsaka menn og lögaðila svo árum skiptir - til öryggis! Því hvað ef rannsókn er hætt og upp kemst um sekt á einhvern annan hátt? Hefur regluverkið þá ekki brugðist og opinberir embættismenn hætta á að verða gagnrýndir? Ekki reknir auðvitað (við erum að tala um hið opinbera), en gagnrýndir!
Réttarríkið byggir á ákveðinni hugsjón en sú hugsjón hefur nú vikið fyrir annarri: Þú ert undir grun þar til sakleysi þitt hefur verið sannað eða viðkomandi eftirlitsstofnun gerð afturreka af dómstólunum, sem um leið eru gegnsýrðir af sama hugarfari.
Því miður.
Eimskip svarað fyrir héraðsdómi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 1. júlí 2019
Er hægt að bjarga strætó?
Það gengur illa að smala fólki inn í strætó af mörgum ástæðum og göturnar virðast alltaf vera troðfullar af bílum. Þetta er vítahringur því mikil umferð þýðir að strætó festist líka. Það á því að reyna að koma fólki í strætó með því að kalla hann borgarlínu og gefa honum sérakreinar. Samkvæmt glærunum mun það duga til að koma fólki í strætó, létta á umferðinni og allskonar annað gott.
En hvað ætli það kosti að gefa öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins, eða Íslands ef út í það er farið, strætókort? Mun það kosta tugmilljarða eins og hinn nýi strætó á sérakreinunum? Ég efast um það. Væri ekki skynsamlegra að hleypa öllum í strætó alltaf og sjá hvort það létti ekki aðeins á umferðinni?
Annars eru til margar leiðir til að laga strætó án þess að það kosti tugmilljarða eins og hið nýja strætókerfi. Það má t.d. lengja strætóana og skilgreina stutta kafla þar sem þeir komast fram úr bílunum.
Á Íslandi er ákveðin hefð fyrir því að apa eftir lélegustu hugmyndunum frá hinun Norðurlöndunum og selja svo sem "sænsku leiðina" eða álíka. Hvernig væri að apa eftir góðri hugmynd í staðinn, til tilbreytingar?
Grunnskólanemar fá strætókort | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |