Hvað viltu borga fyrir bananann?

Þú gengur inn í verslun. Þar sérðu skyrdós á 10 þúsund krónur. Viltu borga svo mikið fyrir eina skyrdós? Nei, varla. En hvað viltu borga fyrir flugmiða? Eins lítið og hægt er, auðvitað. Hvað viltu hagnast mikið á hlutabréfum þínum (t.d. þau sem þú átt í gegnum lífeyrissjóð þinn)? Eins mikið og hægt er, auðvitað.

Neytendur gera kröfur og velja að kaupa eða sleppa því. Fjárfestar krefjast ávöxtunar. Fyrirtæki sem vill ganga vel þarf að selja ódýrt og hagnast mikið. 

En fer sama fyrirtæki þá ekki að reyna svindla til að lækka kostnað og auka hagnað? Kannski. Hið opinbera svindlar: Það kostar eins mikið og það getur en gerir eins lítið og það getur. Einkafyrirtæki vilja líka fá sem mest fyrir sem minnst. 

En hver á að fylgjast með einkaaðilunum? Það getur hið opinbera gert, en gerir það illa. Betra er að fá vottun óháðra aðila til að sýna neytendum að allt er í sóma. Þannig er það í iðnaði útsjávarvinnslu á olíu og gasi. Yfirvöld hafa einfaldlega ekki þekkingu og getu til að sinna eftirliti í iðnaði þar sem tæknin er á fleygiferð og kröfurnar alltaf að aukast vegna meira dýpis, hærri þrýsings, fleiri ætandi efna og þess háttar.

Ef hið opinbera eftirlit í Bandaríkjunum er það eina sem neytendur geta treyst á þá er illt í efni. Opinbert eftirlit fær meira fé eftir því sem það tekst verr upp. Það er hættulegt og veldur fyrirtækjum líka freistnivanda.


mbl.is Framleiðsla 737 MAX undirfjármögnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Vandinn að baki þessu verður í rauninni aldrei leystur með opinberu eftirliti. Rót hans liggur í því hvernig fyrirtækjum er yfirleitt stjórnað. Áætlanagerð á þar stóran hlut að máli og skortur á heildarhugsun (systems thinking). Þetta leiðir til þess að einstakar deildir eða starfsstöðvar leggja ríka áherslu á að halda sig innan fjárheimilda, oft á kostnað heildarhagsmuna fyrirtækisins.

Þetta er athyglivert með Boeing því ég var einmitt nýlega að lesa greiningu á orsökum þess að Challenger ferjan fórst á sínum tíma. Rótin var af nákvæmlega sama toga; það þurfti að spara og það var ekki hlustað á varnaðarorð verkfræðinganna.

Þorsteinn Siglaugsson, 30.7.2019 kl. 13:16

2 identicon

Vandamálið í dag er þessi hugsun um ofurhagnað sama hvað á gengur, hagnaður á kostnað gæða, jú allir vilja fá hlutina eins ódýra og hægt er, en eru samt oftast tilbúnir að borga aðeins meira fyrir gæðin, ef mér býðst banani á 9999 krónur sem er eitraður og ekki góður og mér býðst síðan banani á 10000 krónur sem er góður og ekki eitraður, þá vitanlega mun ég alltaf velja þennan dýrari. Þannig að þessi árátta hjá fyrirtækjum í dag er að valda þeim fjárhagslegu tjóni til langs tíma, með skammtíma gróða markmiðum.

Ég til dæmis ætla mér ekki að fljúga með MAX vélunum þegar þær fara í loftið sama hversu ódýrt það er, ég mun alltaf velja eitthvað annað flugfélag en Icelandair þegar þær vélar komast í gagnið (ef þær eru notaðar í fluginu hjá mér), ég treysti ekki tækinu og ekki fyrirtækinu (boeing).

Þetta er þessi ranga hugsun hjá flestum forstjórum og fyrirtækjum í dag að ódýrasta seljist alltaf betur, þrátt fyrir að endingin á t.d. tækjum sé töluvert styttri, jú það virkar kannski til skamms tíma en síðan fær tækið og félagið vont orðspor og þá hrynur hagnaður.

Halldór (IP-tala skráð) 30.7.2019 kl. 16:45

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Við höfum öll farið í Tiger og keypt ódýrt drasl sem við vissum að þyrfti ekki að endast lengi en veitti svolitla ánægju fyrir lítið fé.

Og við höfum farið í Elko og keypt dýrt merki á ryksugu því hún átti að endast lengi jafnvel þótt ódýrara merki væri í boði, sem sýgur sosem alveg jafnvel rykið en hefur ekki yfir sér sama trúverðugleika.

Ég hef tekið þátt í hönnun á dóti sem á að endast í 30 ár í hörðu umhverfi. Því nær 30 árunum sem maður kenst (með bestun og öðru), því betra - fyrir alla. 

Opinbert eftirlit er engin trygging fyrir neinu frekar en að treysta á neytendur sem hafa ekki þekkingu á öllum ferlum framleiðslunnar. Þess vegna hafa neytendur oft sótt sér álit óháðra aðila, og fyrirtæki hafa sótt í vottun slíkra aðila, til að tryggja gegnsæi og gæði. Þannig fer alltaf einhver á hausinn ef traustið reynist falskt. 

Geir Ágústsson, 30.7.2019 kl. 19:20

4 identicon

Það er undarlegt að þegar einhver ekur of hratt og keyrir á krakka þá er það honum að kenna. Enginn segir að umferðareftirlit eigi að vera einkarekið. Enginn kennir eftirlitsaðilum um. En drepi verkfræðingar hundruði manna þá er strax reynt að koma sök á eftirlitsaðila. "Við máttum þetta af því að eftirlitið var svo slakt" "Ríkið á ekki að stunda eftirlit" "Óháður einkaaðili mundi redda öllu svona"

Ekkert eftirlit kemur í veg fyrir klúður og handvömm verkfræðinga. Þeir eru manna færastir í að taka sjensinn, fela og blekkja þar til afleiðingar klúðursins koma berlega í ljós. Best væri að gera verkfræðinga persónulega ábyrga fyrir hönnun sinni. Verkfræðingar Boeing væru þá gjaldþrota á leið í ævilangt fangelsi fyrir morðin sem þeir frömdu.

Vagn (IP-tala skráð) 30.7.2019 kl. 20:50

5 identicon

Mér sýnist nú að margir þeirra sem komu að hönnun þessara véla muni taka út sína ábyrgð, ef ekki með atvinnumissi (með blett á ferilskránni), þá að minnnsta kosti með launalækkun. Tekju- og álitsmissir Boeing er all svakalegur og og ef eitthvað vit er í eigendunum munu þeir kanna hvað gerðist og reka í það minnsta þá sem mesta ábyrgð bera og minnka starfsábyrgð sumra.

Að saka fólk um morð er alvarlegur hlutur, sá sem er sekur um slíkt má oft sæta æfilöngu fangelsi, eða jafnvel verða tekinn af lífi. Slík ásökun þarf því að vera studd fullnægjandi rökum, ella verða geljast refsiverð.

Það er því að mínu viti ástæða til að hvetja menn til að gæta orða sinna.

ls (IP-tala skráð) 30.7.2019 kl. 22:28

6 identicon

"Verk­fræðing­ur­inn fyrr­ver­andi, Adam Dickson, starfaði hjá Boeing í þrjá ára­tugi og fór fyr­ir hópi verk­fræðinga við fram­leiðslu 737 MAX-vél­anna. Í sjón­varpsþætt­in­um Panorama á BBC seg­ir hann að fjár­magn hafi skort til að sinna fram­leiðslunni á full­nægj­andi hátt.

„Það var stöðugur þrýst­ing­ur. Verk­fræðing­um voru sett mark­mið til að lækka fram­leiðslu­kostnað um ákveðna fjár­hæð,“ sagði hann og bætti því við að verk­fræðing­ar hafi einnig fengið þau fyr­ir­mæli að gera minna úr nýj­um eig­in­leik­um vél­anna og flokka breyt­ing­ar á hönn­un flug­vél­anna sem „minni hátt­ar breyt­ing­ar“ frek­ar en „meiri hátt­ar breyt­ing­ar“ svo banda­rísk flug­mála­yf­ir­völd (FAA) færu ekki í saumanna á þess­um breyt­ing­um.

Með því hafi Boeing komið í veg fyr­ir að FAA hafi sinnt ör­ygg­is­skoðunum á full­nægj­andi hátt. „Fjöld­skylda mín flýg­ur ekki 737 MAX-vél. Það er skelfi­legt að horfa upp á svona stór slys vegna hug­búnaðar sem virkaði ekki,“ seg­ir hann"

Þarna nota verkfræðingarnir sömu rök og fangaverðir nasista, "við vorum bara að fylgja skipunum". Það dugði ekki þá og ætti ekki að duga núna. Vitneskjan um hættuna var fyrir hendi en verkfræðingarnir þögðu. Hugbúnaðurinn bilaði ekki, hann virkaði ekki. Atvinnumissir (með blett á ferilskránni), eða launalækkun nær engan vegin yfir það að taka út ábyrgð á dauða 346 manns. 346 manns sem hefðu ekki þurft að deyja ef verkfræðingarnir hefðu unnið eins og þeir bæru einhverja ábyrgð á egin hönnun.

Vagn (IP-tala skráð) 30.7.2019 kl. 23:07

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það þarf að hugsa um það, hver rót vandamálsins er. Hvað er það sem hvetur til þeirrar hegðunar sem þú lýsir Vagn? Hvaða afleiðingar hefur það á menningu og hegðun innan fyrirtækisins?

Þorsteinn Siglaugsson, 31.7.2019 kl. 12:15

8 identicon

Gæðaeftirlit framleiðsluvara er bara minna en það var. Dóttir mín lenti í því að þurfa skipta út hrærivél 3 sinnum áður en nothæf fékkst, ég náði 2 þvottum á nýju uppþvottavélinni áður en hún gafst upp.

En í raun er þetta bara hagfræði. Munið eftir hvað Ralf Nader varð frægur fyrir hjá bandarísku neytendasamtökunum?

Var það beníntakur sem ekki þoldi aftankeyrslu eða var það bíllinn sem hafði bjagaða fjörðrun á aftan (líkt og VW bjallan) þannig að hjólin misstu "fótfestu" Allavega voru bílaframleiðendur búnir að reikna út að ódýrara væri að borga skaðabætur en að innkalla 

Grímur (IP-tala skráð) 31.7.2019 kl. 19:10

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Sem betur fer stendur oftast til boða að velja á milli þess sem endist (eða er búist við að endist) og þess sem þarf ekki endilega að endast. 

Nema stundum.

Af hverju þarf allt að vera í hæstu gæðum? Ef eingöngu væri hægt að kaupa Bang og Olufsen sjónvörp þá ættu fæstir kost á að eignast sjónvarp yfir höfuð. 

Auðvitað gilda aðrar kröfur þegar talað er um græjur sem skilja á milli lífs og dauða. Það er t.d. hægt að skilja á milli neðanjarðarlagna eftir því hvort þær eru nálægt íbúðarhúsnæði eða langt frá slíku, og það er gert. Í tilfelli flugvéla ættu framleiðendur eða flugfélög (eftir því hvar ábyrgðin liggur) auðvitað að vera skaðabótaskyld gagnvart hverju einasta dauðsfalli. 

Fyrirtæki komast samt hjá slíkum greiðslum því þau geta sagt: "Við stóðumst kröfur hins opinbera eftirlits og berum því enga ábyrgð, en til vara getum við borgað sektir til hins opinbera og velt kostnaðinum yfir á farþega."

Hvað sem þessu líður finnst mér full ástæða til að efast stórkostlega um gagnsemi opinbers eftirlits, almennt, og hvet til þess að við sem neytendur og borgarar krefjumst meira til að ávinna sér traust okkar.

Geir Ágústsson, 1.8.2019 kl. 10:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband