Hlutverk ríkisins?

Menn tala oft um hlutverk ríkisins. Það eigi að styðja þetta og styrkja hitt. Stuðla að þessu og draga úr hinu.

En er það svo?

Er stjórnarskráin ekki það plagg sem lýsir hlutverki ríkisins?

Þar stendur ekkert um að ríkið eigi að stuðla að sátt á vinnumarkaði. 

Stjórnmálamenn sem telja að hlutverk ríkisins sé eitthvað annað en það sem stendur í stjórnarskrá eru á hálum ís. Það er stutt stökk frá háfleygum yfirlýsingum og löggjöf sem kaupir atkvæði og til ríkisvaldsaðgerða sem brjóta á fólki með alvarlegum hætti. 

Hafi einhver stjórnmálamaður áhuga á að stuðla að einhverju sem er ekki lýst í stjórnarskrá ætti hann að segja starfi sínu lausu og finna sér alvöruvinnu.


mbl.is Ríkið stuðli að sátt á vinnumarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litlir smákóngar með litlu stimplana sína

Það að byggja hús og tengja við rafmagn, vatn, skolp og aðra innviði er ekki óþekkt verkefni.  Raunar á að vera hægt að byggja hús með öllu tilheyrandi nokkuð fyrirsjáanlega á meðan menn lenda ekki á verðmætum fornleifum í jörðinni eða klöpp þar sem búist var við sandi og leir.

Verktakar hafa yfirleitt ágæta hugmynd um hvað kostar að byggja hús. Verktökum sem gengur vel halda áfram að byggja. Aðrir fara á hausinn. Á Íslandi eru til mörg byggingafélög sem eru góð í því að byggja hús.

Svo virðist sem stærsti óvissuþátturinn sé orðinn sá mannlegi.

Verktakar virðast ekki geta fengið nauðsynleg leyfi fyrirfram. Um þau þarf að sækja jafnóðum og hætta á að lenda í löngum biðtíma. Einhver smákóngurinn á einhverri skrifstofunni frestar því að stimpla plaggið. Það veitir honum sennilega ánægju. Hann bætir við kröfurnar eða sleppir því. Ræsið á að vera hérna en ekki þarna. Teikningarnar eru allt í einu ófullnægjandi. Það á að nota annað efni í einangrun. 

Það er alltaf hætta á að lenda á fornleifum í jörðinni eða klöpp. Sú hætta virðist samt vera orðin minni en að lenda á alltof valdamiklum skriffinni í ofvaxinni stjórnsýslu.


mbl.is Gerir nýju íbúðirnar dýrari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GREYIÐ sveitastjórnarfólkið!

Aukið álag á sveitarstjórnarfólk með fleiri og flóknari verkefnum gæti átt þátt í því að tæp 60% þeirra snúa ekki aftur að loknum kosningum hverju sinni. Eða svo er okkur sagt.

Kannski er þetta ekki rétt skýring. Kannski er rétt skýring sú að flokkarnir sjálfir séu sífellt að henda úti reynslumesta fólkinu sínu í von um að eitthvað annað andlit selji sama boðskap betur.

Sé þetta hins vegar rétt skýring er erfitt að verjast hlátri.

Hver bað sveitarstjórnirnar um að taka að sér öll þessu flóknu og erfiðu verkefni?

Lögin kveða á um sumt en alls ekki allt. Sveitarstjórnir hafa í mörgum tilvikum bara sjálf ákveðið að taka að sér stór og flókin verkefni, oft með því að traðka á einkaaðilum.

Er ekki hægt að skila þessum verkefnum aftur?

Er ekki hægt að úthýsa í mun meiri mæli? Eða lækka skatta og koma sveitarstjórnum hreinlega alveg út úr mörgum af hinum erfiðu og flóknu verkefnum?

Það er hægt en er ekki gert. Af hverju? Jú af því sveitarstjórnarfólk er margt valdagráðugt, og vill skipta sér af miklu meira en það þarf skv. lögum. Besta dæmi er sennilega hið ótakmarkaða vald sveitarfélaga til að skipuleggja svæði eða sleppa því. Með skipulagsvaldinu má loka veitingastöðum, leiguherbergjum og bílaumferð. 

Sé einhver áhugi á að nýta krafta sveitarstjórnarmanna á skynsamlegan hátt þarf að fækka verkefnum þess.


mbl.is Mikil endurnýjun í sveitarstjórnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fleiri skjái, takk!

Í stöðnun ríkiseinokunarinnar lifir það sem á að deyja út oft alltof lengi.

Grunnskólakennsla er slík risaeðla. 

Það eina sem mönnum hefur dottið í hug til að nútímavæða grunnskólakennslu er að setja börnin fyrir framan tölvuskjái. Það er ekki góð leið. Börn hafa aðgang að skjá frá morgni til kvölds - sjónvarp, spjaldtölvur, tölvur og símar eru á hverju strái. Enn einn skjárinn er ekki að fara hjálpa börnum að einbeita sér eða nota samhæfðar hendur og heila.

Börn þurfa næði til að einbeita sér. Þau sem hafa ekki lært að einbeita sér áður en grunnskóla lýkur lenda í vandræðum seinna með að setja sig inn í eitthvað flókið.

Þau þurfa að læra að taka hlé frá kyrrsetu, endurnýja súrefnisbirgðir líkamans með svolítilli hreyfingu og koma sér svo aftur í gang.

Þau þurfa að læra á tölvur en þau þurfa að læra á þær eins og verkfæri, og sem valkost frekar en miðpunkt tilveru þeirra. Tölvur eru frábærar en koma alls ekki í staðinn fyrir allt, t.d. það að geta hripað eitthvað niður á blað. 

Þau þurfa að læra að lesa samhangandi texta og skilja hann. 

Þau þurfa að læra að hugsa og koma þeim hugsunum frá sér, t.d. á blað. 

Í grunnskólanum þurfa þau líka að læra á félagsnet jafnaldra sinna svo þau geti átt leikfélaga utan skólans líka. 

Vonandi þýðir nútímavæðing kennslustofunnar ekki bara fleiri skjáir. Það væri skelfilegt.


mbl.is Hvernig er skólastofa 21. aldar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vextir og vitleysa

Hvað eru réttir vextir?

Lágir vextir? Þeir auðvelda vissulega lántöku en draga um leið úr sparnaði.

Háir vextir? Þeir tryggja ákveðið aðhald og það að fjárfestingar séu úthugsaðar en gera vissulega lántökur erfiðari.

Á að stuðla að lágri en stöðugri verðbólgu? Það þenur vissulega út hagkerfið en eykur ekki verðmætasköpun. 

Á að heimila almenna verðhjöðnun, þ.e. að halda peningamagni í umferð föstu og leyfa bættri framleiðni að leiða til lækkandi verðlags? Það kemur útlánendum vel og skuldurum illa. Kjósendur sem skulda eru fleiri en kjósendur sem lána út. 

Á að miða vexti á Íslandi við vexti erlendis? Af hverju?

Ríkisvaldið á ekki að koma nálægt fjármálamörkuðum og Seðlabanka Íslands á að leggja niður. Þá verða spurningar um vexti, lántökur, verðlag og peningaprentun að verkefni hins frjálsa markaðar þar sem framboð og eftirspurn takast á, verðlag aðlagar sig að breyttum aðstæðum og stjórnmálamenn fá næði til að skrifa allskyns hvítbækur. 


mbl.is Sagði krónuna auka vaxtakostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið komi sér úr veginum

Hvað stuðlar að nýsköpun?

Opinberar nefndir? 

Opinberir styrkir?

Opinber nýsköpunarstefna?

Það held ég ekki. Auðvitað má borga manni til að finna upp hluti en það hefur fyrst og fremst þann tilgang að kaupa atkvæði handa stjórnmálamönnum.

Fyrirtæki og einstaklingar stunda nýsköpun - áhættusama, óvissa, tímafreka og krefjandi nýsköpun sem felur jafnvel í sér tekjutap og skuldsetningu - því í henni liggur gróðavon.

Össur, CCP, Skaginn X og Marel eyða stórum fjárhæðum í nýsköpun til að tryggja stöðu sína á samkeppnismörkuðum.

Ríkisvaldið skattleggur þessi fyrirtæki hægri og vinstri. Slíkt dregur úr nýsköpun þeirra.

Ríkisvaldið reynir um leið að styðja aðra til nýsköpunar, t.d. með styrkjum og undanþágum, en um leið og hún tekst upp tekur við full skattheimta sem mörg nýsköpunarfyrirtæki ná aldrei að ráða við, og þau deyja.

Það besta sem ríkisvaldið getur gert til að stuðla að nýsköpun er að fækka reglum, lækka skatta, fækka hindrunum eins og leyfisveitingum og ýmsum skráningum, og koma sér úr veginum.


mbl.is Hefja mótun nýsköpunarstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósmæður eru ríkiseign, og vilja ekkert annað

Ljósmæður geta ekki valið um aðra atvinnurekendur en opinbera aðila. Ég hef ekki séð eina ljósmóður berjast fyrir því að annað sé í stöðunni.

Það er mikið framboð af fólki sem vill vinna sem ljósmæður - svo mikið það þarf að setja upp mjög stífar aðgangshindranir að ljósmæðrastéttinni (langt nám) til að hún fyllist ekki af fólki. 

Svo já, þær eru ríkiseign og gera ekkert til að breyta því ástandi.


mbl.is Hafa engin vopn í baráttunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annaðhvort 100% traust eða 0%

Það er ekkert nýtt að ákveðinn hópur þingmanna noti aðgang sinn að trúnaðarskjölum til að búa til bitastæðar fyrirsagnir í fjölmiðlum. Menn hafa jafnvel grunað ráðherra um slíkt athæfi. 

Það þarf ekki að sanna slíka hluti svo þeir hafi áhrif á hegðun - það er nóg að menn gruni þá til að traustið sé horfið. Ef þú heldur að nágranni þinn steli hnífapörum frá þér þegar hann heimsækir þig er það nóg ástæða til að þú bjóðir honum ekki aftur í heimsókn. Komi í ljós að eitt barna þinna var bara að leika sér með hlutina og þeir enduðu í dótakassanum fær nágranninn auðvitað að koma aftur en grunurinn var nægur til að breyta hegðun þinni.

Nú hefur verið kastað skugga á traust innan nefndarstarfa á Alþingi. Menn fara því um leið að passa sig meira en áður, hvort sem hægt sé að sanna ásakanirnar eða ekki. Og slíkt er slæmt.


mbl.is „Mígleki“ upplýsingum til Stundarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt er borgin, annað bærinn

Í framtíðinni verða miðbæir lausir við fjölskyldubíla. Það blasir nánast við. Pláss miðbæjanna er takmarkað og alltof dýrmætt til að leggja undir marga vegi, og þétt umferðin eyðileggur loftgæðin. Fólk mun koma sér að miðbæjunum og hoppa þar upp í farartæki af ýmsu tagi, stór eða smá. Þau verða rafknúin og mengunin við framleiðslu raforkunnar flutt í sveitina eða til fátækari ríkja sem þurfa á peningunum að halda. Fáir sitja við stýrið. Þess í stað er tíminn nýttur til að lesa, vinna, tala í símann eða stara út um gluggann. Slys á gangandi vegfarendum eða farþegum farartækja verða fátíð. Þetta verður flott!

Utan miðbæjanna gilda hins vegar allt önnur lögmál. Þar mun fólk þurfa að komast á milli, t.d. til að versla inn eða skutlast með innkaup vikunnar, ruslið úr bílskúrnum eða krakkana á leið á æfingu. Utan miðbæjanna er plássleysi ekki sama vandamál. Þó mun það gerast að færri og færri munu hafa fyrir því að fá sér ökuskirteini. Stærri bílar sem keyra fólk á milli staða (frekar en biðskýla) taka við af mörgum smærri. Hvort sem bílar verða sjálfkeyrandi eða ekki utan miðbæjanna er aukaatriði. Menn munu vilja panta sér far á sama hátt og menn panta leigubíla í dag, en án hins himinháa verðmiða. 

Úti í sveitinni verða bílar áfram við lýði um langa framtíð. Almennt má segja að eftir því sem fjær dregur frá miðbæ ríkrar borgar, þeim mun fleiri verða fjölskyldubílarnir. 

Hvað geta stjórnmálamenn gert til að flýta nauðsynlegum breytingum?

Þeir geta selt vegakerfið til einkaaðila, afnumið skatta á bifreiðar og eldsneyti og komið sér úr veginum. Því fyrr því betra.


mbl.is Einkabílar verði brátt óþarfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sara er fyrirmynd

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands i knattspyrnu, er öflug fyrirmynd. Hún vinnur vel, gefur af sér og hefur jákvæða útgeislun. Hún lætur verkin tala. Hún leggur mikið á sig og uppsker vel. Hún kemur vel fram.

Sara mun laða óteljandi stúlkur að fótboltanum og hjálpa honum að fá meiri jákvæða athygli en hann hefði annars fengið. Hún á eftir að greiða leiðina fyrir næstu kynslóðir fótboltakvenna. 

Af hverju eru femínistar ekki Sörur heimsins? Af hverju eru femínistar - þessir háværu - yfirleitt kvenfólk með ónothæfa menntun, að vinna við eitthvað sem skiptir engu máli, gjarnan innan opinbera geirans?

Ég er aðeins að ýkja, auðvitað. Femínistar, eða þeir sem kalla sig það, eru auðvitað stór og fjölbreyttur hópur. Talsmenn þeirra eru hins vegar frekar einsleitur hópur. Þessir talsmenn vilja bara að löggjafinn tryggi þeim hærri laun án fyrirhafnar. Þeir vilja fá bæði félagslífið og yfirvinnutímana. Þeir vilja frelsið án ábyrgðar - stjórnendastöður án mannaforráða. 

Áfram, áfram, Sörur heimsins! Þið eruð hinar sönnu fyrirmyndir komandi kynslóða!


mbl.is Sara leikur til úrslita í Meistaradeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband