Hvað svo?

Þegar kerfi er meingallað og virkar ekki nema með stanslausu viðhaldi er ekki víst að neyðarviðgerð á einu tannhjóli hjálpi til lengri tíma. Skömmu seinna kemur önnur bilun upp sem þarf neyðaviðgerð. Bráðum er allt kerfið í neyðarástandi. Á endanum hrynur það.

Allir vilja fá hærri laun fyrir vinnu sína. Á frjálsum markaði er þetta vandamál leyst með samningum einstaklinga við vinnuveitendur. Telji einhver sig eiga skilið hærri laun getur hann skipt um vinnu. Eigi hann hærri laun skilið mun hann fá þau annars staðar. Eigi hann ekki hærri laun skilið kemst hann fljótlega að því í launaviðræðum.

Innan ríkiseinokunarinnar gilda allt önnur lögmál. Þar fær fólk borgað eftir starfsaldri, fjölda námskeiða og starfsheitum. Þar eru engir viðskiptavinir að borga fyrir aðgang að besta starfsfólkinu. Fólk fær handahófskennt úthlutað sérfræðingum. Sumir eru góðir og aðrir slæmir en allir vinna út frá sama kjarasamningi.

Góðar ljósmæður eiga skilið góð laun. Lélegar ljósmæður eiga skilið lélegri laun. Ef heilbrigðisráðherra getur komið á slíku fyrirkomulagi hefur hann sinnt starfi sínu.


mbl.is Þurfti að leysa málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppniseftirlitið er nauðsynlegt því ríkið hamlar samkeppni

Af hverju er þörf á samkeppniseftirliti?

Það er af því að ríkisvaldið takmarkar marga möguleika á samkeppni.

Ríkið heldur t.d. úti ýmsum rekstri í beinni samkeppni við einkaaðila. RÚV er hér gott dæmi. Það er samkeppnishamlandi.

Ríkið krefst líka ýmislegs sem kæfir samkeppni í fæðingu. Textun erlends sjónvarpsefnis er dæmi um slíkt. Af hverju þarf að texta allt sem íslenskir aðilar senda út eða endurvarpa, en ekki allt sem finnst á netinu með nokkrum músasmellum?

Ríkið heldur úti reglugerðasafni sem verndar fyrirtæki fyrir of mikilli samkeppni frá nýjum aðilum. Bankarnir eru hér gott dæmi. Þeir eru himinlifandi með reglugerðafrumskóginn sem umlykur þá. 

Ríkið takmarkar nýsköpun, bannar ákveðið orðalag í auglýsingum, flækist fyrir framkvæmdum, kemur í veg fyrir samruna fyrirtækja og dregur úr hraða þeirra breytinga sem markaðurinn er að reyna koma á. 

Ef ríkið hættir að keppa við einkaaðila og hættir að flækjast fyrir fyrirtækjum á frjálsum markaði væri engin þörf á samkeppniseftirliti.

Leggjum Samkeppniseftirlitið niður samhliða afnámi stórra lagabálka og reglugerðabunka.


mbl.is Samkeppniseftirlitið svarar Ara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pílukast með bundið fyrir augun

Það er skiljanlegt að menn geri áætlanir sem standast ekki. Það er jú ástæða fyrir því að sósíalismi/kommúnismi ganga ekki upp því þá er algjörlega treyst á áætlanir og ekki á aðlögun að síbreytilegum heimi. 

Stundum er samt eins og áætlanir séu settar saman með pílukasti þar sem þátttakendur eru með bundið fyrir augun.

Milljarður í plús! Úbbs, þeir reyndust þrír.

Tveir milljarðar í mínus! Úbbs, þeir reyndust 15!

Sem betur fer eru fleiri og fleiri byrjaðir að benda á að svona áætlanagerð gengur ekki upp og um leið að það dugi ekki að hlaða skuldum á opinberan rekstur í blússandi uppsveiflu. 

Fyrirtæki endurmeta áætlanir sínar oft á ári og reyna í sífellu að aðlaga útgjöld að tekjum. Hið opinbera aðlagar áætlanir að kosningum og aðlagar bara útgjöldin upp kosningaloforðum.

Því minna sem hið opinbera gerir, því betra. Einkavæðum allt.


mbl.is Afkoman milljörðum umfram áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allskonar fyrir annarra manna fé og fyrirhöfn

Það vantar ekki fréttir af loforðum á eyðslu á annarra manna fé þessa dagana. Að hluta má skrifa það á sveitarstjórnakosningar. Að hluta má kannski skrifa fjölda útgjaldafrétta á almenna gúrkutíð í fjölmiðlum eða blindu fréttamanna fyrir því sem er raunverulega fréttnæmt (t.d. vegasaltið sem Bandaríkin eru á: Greiðslufall eða óðaverðbólga.)

Í Reykjavík vilja menn leysa öll vandamál með auknum útgjöldum og fleiri niðurgreiddum farartækjum en varðveita um leið opinbera miðstýringu. Dýrustu grunnskólar í heimi - en jafnframt alls ekki þeir bestu - eiga að verða dýrari. Vandamál leyst, ekki satt?

Ríkisstjórnin - a.m.k. vinstrihlið hennar - fjármagnar rándýr útgjöld borgarstjórnar og um leið bitastæðar fyrirsagnir korteri fyrir kosningar til sveitarstjórna, sennilega til að reyna halda vinstrimönnum við völd í borginni. 

Íslendingar senda peninga til fjarlægra svæða án þess að stinga upp á raunverulegum lausnum við þeim mannlega harmleik sem þar á sér stað (vonandi skjátlast mér um það). Vonandi fara þeir peningar í að byggja upp sómasamlegar flóttamannabúðir í nágrenni átakanna í stað þess að greyins flóttamennirnir þurfi að daga uppi í fjarlægum heimshornum þar sem þeir eiga enga raunverulega möguleika á að koma undir sig fótunum, verða sjálfbjarga og aðlagast samfélaginu.

Börn á Íslandi standa á biðlistum til að komast í meðferðir ríkisvaldsins og lausnin er auðvitað meira skattfé í miðstýrða hítina. Hefur engum dottið í hug að bjóða út þessa starfsemi eða jafnvel veita hana á kostnað aðstandenda og góðgerðarsamtaka? Ef fíkill sprautar sig korteri eftir að hann labbar út af Vogi mun Vogur ekki missa eina einustu krónu. Á Vogi geta menn jafnvel búist við auknum fjárframlögum. (Þar með er ekki sagt að þeir hjá Vogi reyni ekki, en hafa þeir nægjanlegt svigrúm til að prófa sig áfram?)

Já, það er auðvelt að slá sig til riddara fyrir annarra manna fé. 


Þegar varan er ókeypis ert þú varan

Félagi minn sagði einu sinni (og var sennilega að vitna í einhvern):

If the product is free, you're the product.

(Á hliðstæðan hátt mætti segja um þjónustur hins opinbera: Ef þjónustan er gjaldfrjáls þá borgar þú reikninga annarra.)

Fyrirtæki eins og Facebook, Snapchat og Instagram hafa þúsundir einstaklinga í vinnu sem þurfa að fá laun. Þau laun þarf að fjármagna. Notendur vilja ekki borga áskriftargjald. Þá stendur eftir að selja auglýsingar. 

Slík auglýsingasala þarf að vera eins arðbær og hægt er. Það verður hún bara ef kaupendur auglýsenda sjá viðbrögð við auglýsingakostnaði sínum. Á hverjum einasta degi vinna samfélagsmiðlar og auglýsendur saman að því að mæla viðbrögð notenda, fylgjast með því hver vill fela hvað og á hvað er smellt. 

Annars tek ég alveg undir með þeim sem finnst vera komið fullmikið af auglýsingum á t.d. Facebook og Youtube. Um leið er ég ekki tilbúinn að borga fyrir þessar þjónustur þótt ég noti þær. Auglýsingar gefa mér aðgang að þjónustum. Fyrir það er ég þrátt fyrir allt þakklátur.


mbl.is Of mikið áreiti á samfélagsmiðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ef foreldrar keyptu þjónustuna, ekki ríkið?

Sem nýbakaður faðir í annað skipti hef ég umgengist ljósmæður töluvert á köflum og hef allt gott um þær að segja. Þetta eru fagmenn sem hafa áhuga á starfinu sínu, taka það alvarlega og bera mikla umhyggju fyrir skjólstæðingum sínum, stórum og smáum.

Foreldrar taka yfirleitt glaðir við vinnu og ráðgjöf ljósmæðra. Fæstir eignast jú fleiri en 2-3 börn á ævinni, oft með margra ára millibili, og koma því oft af fjöllum um allskyns hluti: Hvað á að gefa barni, hversu oft og hvað mikið í einu? Hvenær á að baða það? Hvað má smyrja á barnið? Hvernig á að kenna því að drekka á brjósti eða úr pela eða fá það til að taka snuð? Hvernig á að þrífa það að neðan, ofan og allt þar á milli?

Þjónusta og ráðgjöf ljósmæðra er eftirsótt.

Þó má líka nefna að oft er þjónusta ljósmæðra við móðursjúka foreldra frekar en ósjálfbjarga ungabörn. 90% af tíma ljósmæðra fer í að hughreysta óörugga foreldra á meðan heilbrigð börnin kljást í mesta lagi við smávegis meltingartruflanir og svefnraskanir sem munu ekki hafa nein áhrif á þau þegar þau eldast.

Það má líka nefna að stundum er ráðgjöf ljósmæðra jafnfjölbreytt og ljósmæðurnar eru margar. Sumir mæla með viðbótarmjólk á pela, aðrar að það sé bara reynt að mjólka meira. Sumar segja að börnin megi fá þetta eða hitt, aðrar ekki. Ljósmæður á Íslandi og í Danmörku ráðleggja ekki á sama hátt. Eldri og yngri ljósmæður ráðleggja stundum á mismunandi hátt. Sumar taka öllu með ró á meðan aðrar kalla til alla heimsins sérfræðinga. 

Vinna ljósmæðra ætti ekki að vera miðstýrð af ríkisvaldinu og alveg sérstaklega ekki sú vinna sem fer fram þegar fæðingunni sjálfri er lokið. Hún ætti að vera frjáls verktakavinna á kostnað foreldra en til vara undanþegin skatti eða að hluta niðurgreidd með litlu framlagi úr opinberum sjóðum, a.m.k. á meðan skattheimta er í hæstu hæðum.

Ljósmæður ættu sjálfar að berjast fyrir slíku fyrirkomulagi. Ljósmæður eiga að líta til starfsstétta eins og smiða, bifvélavirkja og augnlækna þar sem hæfileikar og dugnaður eru ríkulega verðlaunaðir eiginleikar. Ljósmæður eiga að átta sig á þeim möguleikum sem svigrúm frá opinberri framfærslu gefur. 

Það er leiðinlegt að sjá hvernig fer nú fyrir duglegri starfsstétt drífandi kvenna. Vonandi tekst að leysa málin á farsælan hátt, e.t.v. með nýjum nálgunum.


mbl.is Ljósmæður í heimaþjónustu óvirkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of lítið, of seint

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvetur seðlabanka iðnríkja til þess að herða peningastefnu sína í hægum skrefum svo að koma megi í veg fyrir efnahagsáföll. 

Vandamálið er að það er orðið of seint að gera eitthvað í hægum skrefum.

Hækki vextir svo einhverju máli skiptir (til að örva sparnað og halda aftur af verðhækkunum) munu skuldir verða óviðráðanlegar fyrir mjög marga, þar á meðal heilu hagkerfin og óteljandi lántekendur húsnæðislána í fjölmörgum ríkjum.

Leyfi menn vöxtum ekki að hækka (með því að takmarka peningaprentun) mun kaupmáttur gjaldmiðla halda áfram að rýrna og það mun koma fram í (snar)hækkandi verðlagi.

Það hefði verið gott ráð að leyfa gjaldþrota fyrirtækjum að verða gjaldþrota í kjölfar hrunsins 2008. Það var ekki gert. Þess í stað var áfengi bætt við bolluna og þannig reynt að halda timburmönnunum í skefjum. Slíkt endar bara með einhverju skelfilegu.


mbl.is Herði peningastefnuna hægum skrefum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verið að lofa fyrir ranga kjósendur?

Samfylkingin í Reykjavík vill setja vegi í stokk og dreifa fjármögnun loforða sinna yfir lengri tíma með notkun kennitala sem ríki og önnur sveitarfélög deila með borginni.

Gott og blessað. Kosningaloforð þarf jú að gefa út.

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort Samfylkingin sé búin að gleyma því hverjir kjósa hana og hvort hún sé farin að sækja á önnur mið og hætti jafnvel á að tapa kjarnafylgi sínu.

Kjósendur Samfylkingarinnar í Reykjavík eru ekki þeir sem festast í umferð á hverjum degi, heyra demparana molna úr bílum sínum og klára frídagana sína heima af því börn komast ekki í dagvistun.

Kjósendur Samfylkingarinnar búa nálægt miðbænum, geta hjólað í vinnuna og hafa fyrir löngu komið börnum sínum inn í grunnskólakerfið.

Samfylkingin þarf að hafa varann á. Margir eru búnir að sjá í gegnum borgarstjóra og áhuga hans á að klippa borða og um leið forðast fjölmiðlafólk þegar saurinn lekur í sjóinn.

Hún ætti kannski að halda betur utan um sína hörðustu stuðningsmenn en hættir annars á að missa þá í eltingaleik við kjósendur annarra flokka.


mbl.is Borgarlínu og Miklubraut í stokk strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskiptafréttirnar sem vantar

Það vantar ekki fréttir af bólförum Bandaríkjaforseta eða flökti á hlutabréfamörkuðum. Hins vegar er til fullt af fréttum sem íslenskir fjölmiðlar (og raunar fæstir fjölmiðlar hvar sem er) segja ekki frá.

Fyrir þær fréttir sem vantar er best að heimsækja ZeroHedge.com reglulega.

Þar er t.d. frétt og samantekt um að það sé byrjað að hægjast á evrópska hagkerfinu, og að sá hægagangur sé leiddur áfram af Þýskalandi. Hvað gerir evrópski seðlabankinn þá? Prentar peninga, kaupir skuldabréf og reynir að þrýsta vöxtum niður? Hvað verður þá um evruna? Hún er í harðri samkeppni við bandaríska dollarann og japanska jenið um að verða verðlaus sem fyrst en það vill enginn vinna slíka samkeppni.

Ekki er ástandið betra í Bandaríkjunum. Meira að segja opinberar stofnanir hafa lýst yfir áhyggjum af efnahagsástandinu og horfum þess og þá er mikið sagt. Hvað gera menn þá? Láta seðlabankann prenta peninga, kaupa skuldabréf og reyna þrýsta vöxtum niður? Hvað verður þá um dollarann? Hann er í harðri samkeppni við evruna og japanska jenið um að verða verðlaus sem fyrst en það vill enginn vinna slíka samkeppni.

Heimshagkerfið stendur á næfurþunnum ís. Viðskiptahöft eru byrjuð að aukast. Tortryggni fer vaxandi í stjórnmálunum. Menn stunda lítið æfingarstríð í Sýrlandi sem gæti alveg brotist út í stærri átök. Kjósendur kjósa aðila sem lofa öllu fögru fyrir alla en er um leið byggt á hagfræði sem stenst enga skoðun. 

Það er meiriháttar hrun í vændum. Peningabólan árið 2008 mun blikna í samanburðinum. 

Ekki safna skuldum nema til að koma þaki yfir höfuðið á þér og kannski til að eignast bíl. Ekki eyða öllum launum þínum. Ekki spara í íslenskri krónu. Ekki kjósa stjórnmálamenn sem vilja eyða meira af peningunum þínum. Ekki treysta á að fá mikið úr lífeyrissjóði þínum. Ekki vera án varaáætlunar.

Og ekki láta þögn fjölmiðla um óveðursskýin sem hrannast upp blekkja þig.


mbl.is Viðskiptaafgangur mun ekki nægja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En ruslatunnan er full!

Kannski hefur einhver hugsað eftirfarandi hugsun:

Ruslatunnur hafa minnkað, þeim hefur fjölgað, þær eru sóttar sjaldnar og kostnaður við þær hefur aukist. Krafan um fleiri ferðir á endurvinnslustöðina hefur undið upp á sig. Það má ekki henda rusli í ruslið - það þarf að henda ákveðnu rusli á ákveðna staði. Það þarf jafnvel að þrífa ruslið. 

En það kostar alltaf jafnmikið að sturta niður. Og er alltaf jafnauðvelt.

Niðurstaða: Fólk sturtar niður því sem það getur til að spara sér kostnaðinn við að henda rusli í ruslið.

Ekki nei?


mbl.is 200% aukning á skólpsorpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband