Miðvikudagur, 6. júní 2018
Á SFS að mótmæla hækkun persónuafsláttar?
Alþýðusamband Íslands mótmælir harðlega fyrirhugaðri lækkun veiðigjalda. Þar eru menn með örfá útgerðarfyrirtæki í huga - fyrirtæki með fjölbreyttan rekstur sem teygir anga sína til annarra landa og getur aðlagast sveiflum betur en önnur. Hjá ASÍ eru menn ekki með öll hin útgerðarfyrirtækin í huga - þau sem eru að sjá megnið af hagnaði sínum hverfa í skatta og sum jafnvel búin að lýsa yfir gjaldþroti vegna skattheimtunnar.
Það er athyglisvert að sjá samtök launþega mótmæla lækkun skatta á fyrirtæki. Eru rík fyrirtæki ekki betur í stakk búin en önnur til að greiða betri laun, búa til ný störf og stækka rekstur sinn? Það mætti halda. Engu að síður er mótmælt.
Nú bíð ég spenntur eftir því að sjá hvort Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) mótmæli lækkun skatta á laun og hækkun persónuafsláttar. Slík lækkun er jú til þess fallin að gera ríkisvaldið áfjáðara í skatta frá fyrirtækjum, ekki satt? Það er jú ekki svo að lækkun skatta á laun auki ráðstöfunartekjur launþega og dragi þar með úr þörf fyrirtækja til að hækka laun til að halda í starfsfólk sitt, eða hvað?
Samtök launþega og samtök fyrirtækja fara samt vonandi ekki í svona slag. Þess í stað ættu þau að átta sig á því að þau standa vörð um hagsmuni verðmætaskapandi hluta hagkerfisins á meðan ríkisvaldið sér um að hrifsa þau verðmæti til sín, á kostnað allra. Samtök bæði fyrirtækja og launþega eiga að standa saman og berjast fyrir lækkun skatta - almennt og á allt og alla - um leið og ríkisvaldið hættir öllu nema því sem það bannar öðrum, beint eða óbeint, að sinna.
![]() |
ASÍ mótmælir lækkun veiðigjalda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 5. júní 2018
Jordan Peterson, einsmannsher
Það hefur vonandi ekki farið framhjá mjög mörgum að kanadíski sálfræðiprófessorinn Jordan B. Peterson er staddur á Íslandi til að halda tvo fyrirlestra sem um hálft prósent Íslendinga á miða á.
Sá fyrri var í gær og sá seinni er í dag.
En hver er þessi maður og hvað er svona merkilegt við hvað hann er að segja?
Til að komast að því geta menn kynnt sér gríðarlega efnismikla Youtube-rás hans, eða lesið bækurnar hans.
Örstutta útgáfan er sú að maðurinn er að segja hluti - hátt og skýrt - sem nútímaleg umræðuhefð hefur lokað á, á einn eða annan hátt.
Hann er að benda á vanlíðan margra einstaklinga.
Hann er að berjast við pólitískan rétttrúnað.
Hann er að hafna afneitun á því sem er raunverulegt, t.d. líffræðilegum kynjum og muninum á körlum og konum.
Hann er að útskýra ýmislegt með notkun vísindanna, t.d. áhrif mismunandi persónuleikaeinkenna á t.d. laun og velgengni almennt.
Hann er að kenna fólki einföld en áhrifarík ráð til að ná markmiðum sínum.
Hann hvetur fólk til að fylla líf sitt af því sem skiptir máli frekar en að eltast við léttúð og stundargleði.
Ég hvet alla til að kynna sér boðskap hans. Góð byrjun (en að vísu ekki æsispennandi) fæst í þessu myndbandi:
Þriðjudagur, 5. júní 2018
Ónei, lög um eitthvað!
Það er sjaldan von á góðu þegar þingmenn ræða um að setja löggjöf um eitthvað, jafnvel þótt bara sé talað um að gera eitthvað óskýrt skýrt eða óljóst ljóst.
Löggjöf hefur yfirleitt í för með sér einhvers konar leyfisveitingu, eftirlit, skatta og skilyrði.
Nú má vel vera að vatnsgufa með snefilefnum eigi heima í löggjöfinni. Danir stóðust ekki mátið og settu löggjöf um vatnsgufu með snefilefnum, en sú löggjöf var hófstillt. Hún fólst fyrst og fremst í því að halda slíkri vatnsgufu frá svæðum þar sem börn eru á ferð (svona til að þau fái ekki vatnsgufuna ofan í útblástur frá bílum og reykháfum, ryk frá jörðinni og uppgufun frá sápum og hreinsiefnum). Punktur. Mun íslensk löggjöf láta staðar numið við það eða ganga miklu lengra? Íslendingar eru vanir að gerast kaþólskari en páfinn þegar kemur að því að apa upp löggjöf eftir öðrum. Verður einhver breyting á því?
Annars er vert að minna á að rafretturnar hafa hjálpað mörgum að hætta tóbaksneyslunni og leiða ekki til þess að unglingar leiðist út í tóbaksneyslu.
![]() |
Fengu 69 umsagnir um rafrettur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 5. júní 2018
Konur lifa lengur, eru heilbrigðari og drepa sig síður
Karlmenn drepa sig miklu frekar en stelpur.
Karlmenn eru óheilbrigðari en konur. Þeir lifa skemur.
Þeir eru meira að segja dæmdir harðar af dómstólunum en kvenfólk, fyrir sömu glæpi!
Karlmenn eru undir álagi. Sumt má skrifa á þá sjálfa: Eltingaleikur eftir peningum, völdum og titlum - þráin til að skara fram úr og gera eitthvað magnað. Annað má skrifa á kröfurnar sem gerðar eru á þá: Að hafa góðar tekjur og vera í góðu formi til að einhver kvenmaður velji þá, en um leið að sinna bæði fullri vinnu og heimilishaldinu.
Karlmenn alast upp við leiðbeiningar frá kvenkyns leikskóla- og grunnskólakennurum sem reyna bæði að móta þá að höfði kvenkynsins og halda aftur af eðlishvöt þeirra sem ungra karlmanna.
Það getur vel verið að margar stelpur séu orðnar drulluþreyttar á hinu óskilgreinda feðraveldi. En ætli margir piltar séu ekki líka orðnir þreyttir á mæðraveldinu?
Ég legg til að menn stofni til gönguferðar frá Hallgrímskirkju til Lækjartorgs og gangi þar berir að neðan (skór samt heimilaðir).
Um leið legg ég til að við hættum að tala um samfélagið eins og samkeppni karla og kvenna og tölum í staðinn um að bæta samvinnu allra í samfélaginu, óháð kyni.
![]() |
Stelpur drulluþreyttar á feðraveldinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 1. júní 2018
Enn einn jaðarskatturinn
Jaðarskattar eru eitraðir. Fólk sem lendir í þeim sér jafnvel á eftir öllum tekjuauka sínum vegna hækkandi skattprósenta og minnkandi bóta. Undantekningin hefur persónuafslátturinn sem allir hafa fengið og sem minnkar í vægi eftir því sem tekjurnar hækka, en breytist ekki í krónutölu.
Nú þegar sér persónuafslátturinn til þess að þeir tekjulægstu borga lítið sem ekkert í ríkissjóð (útsvarið þurfa allir að borga án afsláttar).
Núna er talað um að breyta krónutölu persónuafsláttarins og auka þar með á jaðarskattaáhrif hans.
Það er eins og menn hugsi aldrei um þá einföldu lausn að lækka skatta á alla línuna, minnka vægi allskyns afslátta og leyfa fólki að bæta kjör sín án refsingar.
![]() |
Afslátturinn lækki upp launastigann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 31. maí 2018
Meirihluti til eins árs
Meirihluti er að myndast í Reykjavík og að honum koma fjórir flokkar: Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og VG.
Það varð strax eftir kosningar óumflýjanlegt að flókinn meirihluti ólíkra flokka yrði að verða til. Á Íslandi er engin hefð fyrir minnihlutastjórnum.
Það blasti við að meirihlutinn væri fallinn.
Það blasti við að hinum fallna meirihluta vantaði hækju ef hann ætlaði að halda velli.
Nú virðist vera hinn fallni meirihluti vera að endurfæðast með aðstoð Viðreisnar. Það kemur ekki á óvart. Viðreisn styður borgarlínuna. Hún hefur samt bent á að fjármál borgarinnar eru í klessu og að samkeppnishæfni borgarinnar sé töluvert skert vegna hárra skatta á fyrirtæki.
Ekki veit ég hvernig Viðreisn ætlar að samræma óskir sínar um lægri skatta og aukin útgjöld. Ég efast um að Viðreisn berjist fyrir hærri opinberum skuldum. Kannski það eigi að veðja á að lóðabrask fráfarandi meirihluta og aukið innstreymi fyrirtækja í borgina bjargi málunum.
Ekki veit ég hvernig hófstillt Viðreisn ætlar að vinna með æstum Pírötum (eins konar ungliðahreyfing Samfylkingarinnar), athyglissjúkum borgarstjóra og einmanna Vinstri-grænum. Það kemur í ljós.
Það getur vel verið að menn semji nú um meirihluta til eins árs en ekki fjögurra.
Meirihlutinn féll en fékk hækju. Það er niðurstaðan... í bili!
![]() |
Eiga eftir að ræða verkaskiptingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 31. maí 2018
Fyrirsjánleiki er góður en kemur hann í veg fyrir bruðl?
Nú er lagt til að kjararáð verði lagt niður og að í staðinn komist á skipulegra ferli.
Þetta er sennilega góð hugmynd en ég efast um að hún leiði til lækkunar á launakostnaði ríkisins.
Í fyrsta lagi skammtar hið opinbera sjálfu sér alltaf ríkulega, a.m.k. í efstu lögunum. Það er hætt við að túlkanir á launaþróun verði alltaf ríkisstarfsmönnum í hag. Ef almenn laun hækka um 5% þá hækka ríkisstarfsmenn um 5%. Leiði verðbólga til þess að kaupmáttur á almennum vinnumarkaði lækki mun það ekki gilda um ríkisstarfsmennina - þeir fá einfaldlega sínar launahækkanir ofan á uppbót vegna verðbólgu.
Í öðru lagi hafa ríkisstarfsmenn talið sjálfum sér í trú um að þeir séu ómissandi. Þeir eru jú dómarar, yfirmenn og embættismenn sem fari með trúnaðargögn! Þarf ekki að verðlauna svona fólk ríkulega og tryggja að það hætti ekki í vinnunni sinni?
Í þriðja lagi er báknið svo bólgið að það er engin leið að halda aftur af frekari vexti þess. Það er alltaf einhver starfsstéttin á leið í verkfall eða býr við útrunna kjarasamninga. Þeir sem heyra nú undir kjararáð munu ekki sætta sig við að fá minna en aðrir, sama hver það er.
Eina leiðin til að koma í veg fyrir að launakostnaður ríkisins bólgni út á hverju ári er að fækka ríkisstarfsmönnum. Mestu hagvaxtarskeið vestrænna ríkja hafa verið á tímum hógværrar skattheimtu (nær 20% en 50%), minni reglugerða, frjálsari viðskipta og minna ríkisvalds. Með öðrum orðum: Þegar opinberir starfsmenn voru færri og gerðu minna.
![]() |
Leggja til að kjararáð verði lagt niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 31. maí 2018
Bröltið í Bandaríkjunum
Auðvitað eiga Bandaríkin að koma sér út úr öllum ríkjum með herdeildir sínar. Her á að verja landamæri, punktur. Vilji menn skerast í leikinn, t.d. þegar einhver yfirvöld brytja niður eigin þegna, á slíkt aldrei að leiða til varanlegs hernáms.
Um leið þarf að leggja meiri áherslu á að þjóðir eða þjóðarbrot fái að ráða sér sjálf, jafnvel þótt slíkt þýði uppskipting núverandi ríkja. Kúrdar eiga að fá sitt eigið ríki með bitum af Tyrklandi, Írak, Íran og Sýrlandi. Í Afríku þarf að brjóta upp fjölmörg landamæri frá nýlendutímabilinu og sameina þjóðir sem lifa sitt hvorum megin við landamæri innan nýrra landamæra.
Í Bandaríkjunum eru margir ósáttir við að Donald Trump sé forseti. Viðkomandi á að geta aflað stuðnings fyrir því að ríki hans lýsi yfir sjálfstæði og um leið aðskilnaði frá bandaríska alríkinu.
Sundrun eða uppskipting er oft besta sameiningaraflið.
![]() |
Vill að Bandaríkjaher yfirgefi landið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 30. maí 2018
Umbúðir minnka matarsóun
Ef það verður gert dýrara eða erfiðara að nota einnota umbúðir mun matarsóun aukast.
Sérstaklega á þetta við um plast sem er bæði þunnt og fyrirferðarlítið og andar ekki (heldur fersku súrefni frá matvælum).
Sé ætlunin sú að minnka rusl í sjónum er nærtækast að beina því til fátækra ríkja (þeirra sem menga mest) að taka upp óheflaðan kapítalisma svo íbúar þar verði nógu ríkir til að verða pjattaðir og krefjast hreinna umhverfis.
![]() |
ESB vill banna einnota plast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 29. maí 2018
Ekki er allt nám verðmætaskapandi
Það virðist vera að renna upp fyrir fleirum að ekki er allt nám verðmætaskapandi, a.m.k. ekki í þeim skilningi að nemandinn lærir neitt sem eykur verðmæti vinnu hans.
(Þetta er svolítið sérstakt í tilviki opinberra starfsmanna sem mennta sig sérhæft inn í ríkiseinokun, t.d. kennarar og ljósmæður. Þar togast ekki á sömu öfl framboðs og eftirspurnar því ríkisvaldið eignast - ef svo má segja - viðkomandi starfsmann, því hann hefur ekki úr svo miklu að moða með sína menntun.)
Þar með er ekki sagt að námið hafi verið tímasóun. Smiður sem nennir ekki að vinna úti lengur getur tekið kennararéttindi og fengið þægilega innivinnu. Vörubílstjóri sem nennir ekki að keyra bíl allan daginn getur tekið leikskólakennaranám og komist í fyrirsjáanlegri dagskrá.
Sumt nám er algjör óþarfi fyrir marga sem taka það. Tökum til dæmis venjulegan grunnskólakennara. Hann kann öll fögin. Hann kann að eiga við krakka. Hann kann að tjá sig. Hvað lærir hann í margra ára kennaranámi? Hann lærir á allskyns ferla og örugglega eitthvað um sálfræði og einelti og athyglisbrest. Varð hann betri kennari við það? Er ekki nóg að hafa 2-3 sérhæfða starfsmenn í hverjum skóla sem kunna á sértilvikin og leyfa kennurum að vera kennarar? Ég spyr af einlægni.
Kannski varð hið langa kennaranám bara til þess að svipta hann starfsreynslu og tekjum sem gerir það að verkum að viðkomandi er ólmur að fá hærri laun sem hið opinbera vill samt ekki greiða honum. Hvað gerir viðkomandi þá? Hættir og finnur aðra vinnu? Þá reyndist kennaranámið virkilega vera tímasóun og auðvitað sóun á fé skattgreiðenda.
Það er alveg hægt að mennta sig án þess að setjast á skólabekk og gleypa forsoðnar kenningar. Margir taka reglulega námskeið. Sumir nota frítíma sinn til að læra eitthvað nýtt. Sumir eru alltaf að lesa sér til um hitt og þetta. Nám er ekki hið sama og skólaganga, og skólaganga er ekki alltaf nám.
Nú þegar búið er að skera á tengsl náms og verðmætasköpunar er kannski komið tækifæri til að endurhugsa hlutverk hins opinbera í skólakerfinu?
![]() |
Ekki samband milli launa og menntunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |