Mun gervigreind segja að Manhattan sé sokkin í sæ?

Gervigrein er mögnuð. Hún mun leysa af hólmi rándýra lögfræðinga í náinni framtíð. Hún mun gera störf lækna mun auðveldari. Hún mun hjálpa okkur í daglegu lífi.

En hún mun líka segja einhverja vitleysu.

Hvernig mun fullkomnasta gervigreind dagsins í dag lýsa landslagi Manhattan í New York? Þessi gervigreind mun lesa tugþúsundir af blaðagreinum, ritrýndum vísindagreinum og bókum. Hún mun kynna sér niðurstöður líkana og spádóma helstu sérfræðinga. Og gervigreindin mun segja að Manhattan sé sokkin í sæ - hlýnun Jarðar hefur brætt jöklana, hækkað sjávarborð og kaffært mörgum strandlengjum Jarðar.

Gervigreind er tæki sem er bara jafnfullkomið og það efni sem það hefur til að vinna úr. Nú er að koma betur og betur í ljós að svokölluð loftslagsvísindi eru fálm í myrkri, ágiskanir byggðar á pólitískum ásetningi og líkanasmíði sem nær ekki utan um nema brot af raunveruleikanum. Gervigreindin gleypir slíkt í sig gagnrýnislaust og gefur þau ráð til stjórnmálamanna að kaupa árabáta fyrir íbúa Manhattan.

En sjáum hvað setur.


mbl.is IBM þróar vélmenni sem rökræðir við fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forritun eða hangs í tölvum?

Það er allt gott um það að segja að fleiri læri að forrita og tileinka sér forritun á einn eða annan hátt. 

Forritun er samt ekki galdraseyði sem feykir nemendum inn í framtíðina. Þvert á móti getur áhersla á forritun stundum bara þýtt að nemendur eru settir enn lengur fyrir framan tölvuskjá þar sem þeir missa einbeitinguna og detta inn á youtube.com.

Einu sinni reyndi ég að kenna menntaskólanemendum grunnatriði Word og Excel. Mikilvægari forrit er erfitt að hugsa sér (í þeim skilningi að sá sem kann á Word og Excel er líklega að fara spjara sig betur en ella á hvaða vinnustað sem er, sem og í einkalífinu).

Þetta reyndist sumum nemendum hin hreinasta kvöl og pína. Í stað þess að rembast og reyna og prófa og mistakast og reyna aftur og heppnast var höndin á mörgum fljót á loft og uppgjafartónn í röddinni. Það var vitaskuld mín vinna að greiða úr þeim vandræðum og gleðja ungar sálir en hvernig ætli forritunarkennsla hefði lagst í mannskapinn? Ég hefði þurft að fella 70% bekkjarins þótt hann væri samansettur úr einhverjum klárustu nemendum landsins (sem var raunin í mínu tilviki). 

Sá sem á að læra forritun þarf að nenna að læra forritun. Forritun getur verið gríðarlega verðlaunandi en um leið uppspretta gremju sem reynir til hins ýtrasta á þolinmæðina. Viðkomandi þarf annaðhvort að vilja læra forritun af mikilli einlægni eða sjá alveg rosalega stór verðlaun framundan.

Svo já, kennum krökkum að forrita. Munum samt að forritunarkennsla er ekki fyrir alla og youtube.com er fyrir mörgum mun augljósari nýting á tölvutíma.


mbl.is 30 skólar fá styrk til forritunarkennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar rasismi var álitinn nauðsynlegt hreinsunarafl

Í dag þykir ekki fínt að vera rasisti, þ.e. einhver sem dæmir heilu kynþættina eða þjóðirnar út frá einhverjum meintum hópeinkennum, án tillits til ágætis tiltekinna einstaklinga hópsins. 

Að vísu eru á þessu undantekningar, svo sem "hvíti karlmaðurinn" eða "kristnir", en látum það kyrrt liggja.

Á öðrum tímum hefur rasismi hins vegar verið talinn bæði viðeigandi og nauðsynlegur (sjá t.d. grein um "Eugenics" á Wikipedia). Fína fólkið taldi það raunar vera skyldu sína að taka þátt í varðveislu kynþátts síns og bola öðrum út. Þroskaheftir voru geldir og hömlur settar á innflytjendur. Þetta átti sér ekki bara stað í Þýskalandi nasismans heldur í fjölmörgum vestrænum ríkjum, þar á meðal Bandaríkjunum (en að vísu á töluvert mannúðlegri hátt).

Svo virðist sem Einstein hafi verið afskaplega "mainstream" að þessu leyti miðað við þessa tíma. Seinni heimsstyrjöldin fékk samt marga til að hugsa sinn gang og yfirgefa hugmyndir kynþáttahreinsunar. Sem betur fer segja margir.

Lexían er samt sú að það ber að forðast að láta viðteknar skoðanir stjórna eigin skoðunum alltof mikið. Viðteknar skoðanir eru oft afurð einhvers konar tíðaranda sem er ekki endilega innblásinn af skotheldri rökfræði eða yfirvegaðri hugsun. Viðteknar skoðanir geta verið bæði hættulegar og heimskulegar. Ég sé mörg dæmi um slíkt í dag.

Nú skal uppnefna Einstein fyrir að fylgja línunni á öðrum tímum. Hvað verður sagt um okkur eftir 100 ár? Erum við kynslóðin sem fórnaði vestrænum gildum um frelsi, jafnrétti og lýðræði á altari misskilinnar góðmennsku sem endaði á að valda bæði okkur og þeim sem við hjálpuðum óendurkræfum skaða? Erum við kynslóðin sem kastaði eigin gildum fyrir önnur í stað þess að tala fyrir ágæti okkar gilda við þá sem brytja aðra niður í nafni trúar, mannfyrirlitningar og valdaþorsta?

Það mun tíminn leiða í ljós.


mbl.is Var Einstein rasisti?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leggjum niður Seðlabanka Íslands

Íslenska ríkið á að koma sér út úr framleiðslu peninga og verðákvörðunum á lánsfé. Ríkið hætti að framleiða sement á sínum tíma. Hið sama á að gilda um peninga.

Nýlega skilaði nefnd af sér skýrslu þar sem mælt var með því að ríkisvaldið héldi áfram að standa í peningaframleiðslu. Af hverju? Jú, af því það þarf að varðveita svokallaðan fjármálastöðugleika. En þarf þá ekki líka að varðveita stöðugleika raftækjasölu, beikonframleiðslu og tölvuleikjaframleiðslu? Nei. Óstöðugleiki fjármálakerfisins er allskyns ríkisafskiptum að kenna. Með afnámi þeirra má auka stöðugleikann og koma á ástandi sem mætti e.t.v. kalla "sá á kvölina sem á völina" eða "frelsi og ábyrgð". Í dag heitir fyrirkomulagið að það megi hirða gróðann þegar vel gengur en senda reikninginn á skattgreiðendur þegar illa gengur, eða kaupmáttarrýrnunina til almennra launþega. 

Kæra ríkisvald, hættu að framleiða peninga.


mbl.is Stýrivextir áfram óbreyttir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En ...

Nýr meirihluti í Reykjavík hefur tekið upp stefnumál fráfarandi meirihluta en lofar núna allt öðrum afleiðingum. Sjáum hvað setur.

Þegar stjórnmálamenn eru í vandræðum með að stilla af framboð og eftirspurn er þá eitthvað til ráða?

Já, er það ekki?

Hvernig stilla menn af eftirspurn eftir eftirsóttustu svæðunum á tónleikum og framboði á þeim? Menn rukka meira fyrir sum svæði en önnur. 

Hvernig tryggja menn að það mæti einhver í bíó á þriðjudagskvöldi? Jú, veita afslátt. Hvað með föstudagskvöldin? Þá er eftirspurnin í hámarki og því um að gera og rukka eins mikið og hægt er án þess samt að sýna fyrir tómum eða hálftómum sal. Það er jú hluti af andrúmsloftinu að horfa á mynd í fullum sal.

Í sveitarstjórnum vefjast lögmál framboðs og eftirspurnar oft alveg rosalega fyrir mönnum. Það skal byggja ódýrt á dýrustu lóðunum! Það skal halda fólki frá vegum á álagstímum þótt aðgangur að þeim kosti jafnmikið allan sólarhringinn! Það skal rukka lítið fyrir leikskólapláss þótt eftirspurnin sé gríðarleg en niðurgreiða menningarstarfsemi sem engin eftirspurn er eftir. 

Kannski leynist eins og einn borgarfulltrúi innan Viðreisnar sem skilur einföldustu grunnatriði hagfræðinnar og getur komið þeirri þekkingu áleiðis á fundum meirihluta borgarstjórnar. Kannski. Líklegt er samt að menn ætli að fylgja þeirri formúlu sem heitir að ef þú gerir sama hlutinn tvisvar en býst við mismunandi niðurstöðu þá ertu geðveikur (en til vara í afneitun).


mbl.is Vilja draga úr fjölda bílferða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rass fjöldamorðingja sleiktur

Leiðtogi Norður-Kóreu er, og hefur verið undanfarna áratugi (óháð persónu), siðblindur og ósvífinn fjöldamorðingi.

(Ef þú ert að hugsa að Donald Trump sé engu skárri þá skjátlast þér.)

Heimsbyggðin hefur ekki vitað hvað hún á að gera við fangelsið og þrælabúðirnar sem Norður-Kórea er í heild sinni. Þar lifir lítill hópur í vellystingum og aðrir við örbirgð að því marki sem þeir mega yfirleitt vera á lífi.

Í Norður-Kóreu hafa menn passað sig vel á því að forðast myndun sæmilega efnaðrar og sjálfbjarga miðstéttar.

Menn fá allt (lesist: ekkert) ókeypis en mega um leið ekki klóra sér í rassgatinu án leyfis. Fólk grætur þegar því er sagt að gráta og hlær þegar því er sagt að hlægja.

Núna ferðast leiðtogi þessa ofvaxna fangelsis og leyfir fólki að sleikja á sér rassgatið.

Kannski eru meintar umræður við þennan mann snjallræði til að lokka hann úr greni sínu. það kemur í ljós. Kannski tekst loksins að opna á umræður um framtíð þrælabúðanna illræmdu. Kannski verður leiðtoganum viðurstyggilega mútað til að koma sér úr veginum og leyfa kúguðum þegnum hans að ná sambandi við umheiminn.

Vonandi gerist eitthvað. Norður-Kórea er svartasti blettur Jarðarinnar, bókstaflega


mbl.is Ráðherra náði einstakri sjálfu með Kim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihlutahefðin

Á Íslandi mynda flokkar yfirleitt einhvers konar meirihluta að loknum kosningum. Oft eru þetta brothættir meirihlutar og stundum fær maður á tilfinninguna að innan þeirra séu menn helst sammála um það að hafa völdin. Málefnin koma svo í öðru sæti. Reynslan gefur jafnvel til kynna að innan brothættra meirihluta verði menn eingöngu sammála um útgjaldatillögur en aldrei um lækkun útgjalda eða róttæka breytingu forgangsatriða í opinberum rekstri. 

Svona er þetta ekki alls staðar. Í Danmörku er t.d. svolítil hefð fyrir minnihlutastjórnum. Slíkar stjórnir þurfa að semja við alla flokka í öllum málum. Til að ná í gegn máli X þarf atkvæði flokka A og B, en í máli Y er betra að fá atkvæði flokka B og C. 

En er eitthvað betra en annað? Auðvitað er starfhæfur og samstíga meirihluti skilvirkasta leiðin. Brothættir meirihlutar eru hins vegar slæmir. Af hverju er þá aldrei hugleitt að koma á minnihlutastjórn? Er það af því allir flokkar vilja fá sína formannsstöðu í nefnd eða sinn ráðherra í ríkisstjórn? Eða af því forráðamenn flokkanna hafa megna óbeit á öllum hinum flokkunum? 

Í Reykjavík stefnir nú í mjög blandað bandalag einlæglega ósammála flokka sem hafa þurft tvær vikur til að pússa sig saman. Niðurstaðan verður væntanlega útvatnað skjal. Sjáum hvað setur. Kannski hefði verið betra að koma á minnihlutastjórn stærsta flokksins eða Samfylkingarinnar. Þá yrði erfiðara fyrir flokk borgarstjóra að skýla sér á bak við aðra og skauta framhjá ábyrgð. 


mbl.is Meirihluti líklega kynntur í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða líkan spáði þessu?

Mikið er talað um að þessi og hin tölvulíkön spái fyrir þessu og hinu. Sum eiga að spá fyrir um loftslagið, önnur um samspil peningaprentunar og verðlags og enn önnur um þróun byggða og umferðar.

Einu sinni var öllu tali um spádómshæfileika líkana tekið með miklum fyrirvara. Þeir fyrirvarar virðast hafa gefið eftir undanfarin ár. Tölvur eru orðnar svo öflugar að menn treysta þeim til að spá fyrir um allskyns hluti.

Þó sáu líkön ekki fyrir um hrunið árið 2008. Það gerðu hins vegar ýmsir hagfræðingar sem studdust ekki við líkön.

Þau sáu ekki fyrir um hafís við strendur Íslands í júní 2018. Þeir sem efast um líkönin hafa ekki útilokað slíkt. 

Líkön eiga aldrei að koma í stað eðlilegrar rökhugsunar. Munum það.


mbl.is Ekki ólíklegt að hafísjaka reki að landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óbreyttir skattar eru hinar nýju skattahækkanir

Það er að renna upp fyrir mörgum kjörnum fulltrúum að skattahækkanir eru ekki líklegar til vinsælda. Skattar eru líka í hæstu hæðum og nú þegar byrjaðir að drepa fyrirtæki, festa fólk í ákveðnum ráðstöfunartekjum (í samstarfi við bótakerfið) og valda flótta, t.d. flótta fyrirtækja frá Reykjavík.

En á þá að lækka skatta? Nei, því þá verður hið háværa vinstri alveg brjálað.

En hvernig er hægt að hækka skatta án þess að hækka þá?

Jú, með því að halda ýmsum hlutföllum og krónutölum óbreyttum!

Sveitarfélög hslda álagningu fasteignaskatta nokkuð stöðugum á meðan fasteignamat rýkur úr öllu valdi. Þetta er skattahækkun.

Ríkisvaldið hefur stundum reynt að fresta hækkun persónuafsláttar þótt verðbólga og laun séu á uppleið. Það er skattahækkun.

Núna á að halda veiðigjöldum óbreyttum þótt afkoma sjávarútvegs, t.d. vegna gengis krónunnar, fari versnandi. Það er skattahækkun. 

Óbreyttir skattar eru hin nýja skattahækkun.


mbl.is Leggur til óbreytt veiðigjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fulltrúi í sveitarstjórn - léttasta starf í heimi?

Um daginn rann upp fyrir mér að staða fulltrúa í sveitarstjórn (bæjarfulltrúi eða borgarfulltrúi) ætti að vera léttasta starf í heimi.

Þetta rann upp fyrir mér þegar ég hugleiddi aðeins fyrirkomulag sorphirðu í sveitarfélaginu sem ég bý í (Tårnby kommune, á Sjálandi í Danmörku).

Sveitarfélagið býður út sorphirðuna og í því útboði felst meðal annars:

  • Að sækja heimilisrusl einu sinni í viku
  • Að sækja allskyns annað rusl einu sinni í mánuði (garðúrgang, húsgögn, raftæki, málma, blandað og brennanlegt smárusl)
  • Koma öllu á sinn stað (í brennslu, í flokkun og endurvinnslu osfrv)

Þar með lýkur starfi sveitarstjórnarinnar (fyrir utan að taka á móti kvörtunum og koma áleiðis, og auðvitað að borga fyrirtækinu sem sækir ruslið).

Fyrirtækið, eða verktakinn, sér um að semja reglur um í hvaða umbúðum á að koma úrgangi frá sér (garðúrgangur í bréfpokum, smáruslið í glærum plastpokum, málmur í einum bunka).

Mikið er auðvelt að vera sveitarstjórnarmeðlimur! Það þarf bara að segja hvað maður vill, bjóða það út, borga og vinnudagurinn er búinn!

En er þetta svona auðvelt starf? Nei, af því að sveitarstjórnir eru oft að vasast í ýmsu sem þær gætu alveg sleppt. Þær þurfa að hætta því og líf sveitarstjórnarmanna verður þægilegt og afslappað og jafnvel að hluta óþarfi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband