Mánudagur, 6. ágúst 2018
Myndi duga í 20 ár
Markaðsvirði Apple, Alphabet, Facebook, Microsoft og Amazon myndi duga til að reka íslenska ríkið í 540 ár, að sögn.
Þetta er þó ekki rétt. Hið rétta er að sérhvert ríkisvald eyðir alltaf eins miklu og það getur eins hratt og það getur eða kemst upp með. Markaðsvirði þessara fyrirtækja myndi kannski duga í 20 ár, en á þeim tíma væri búið að malbika og gullhúða þéttofið vegakerfi yfir gjörvallt hálendið, reisa óperuhús í hverju einasta plássi, koma öllum Íslendingum á opinbera framfærslu, skipta út öllu starfsfólki fyrir erlent vinnuafl, koma öllu námi á háskólastig og leggja fiskiflotanum.
Síðan yrði að lýsa ríkisvaldið gjaldþrota og byrja upp á nýtt.
Hin verðmætu fyrirtæki eru verðmæt af því þau þjóna viðskiptavinum sínum. Ríkisvaldið er verðlaust því það hefur enginn val um að stunda við það viðskipti.
![]() |
Verðmæti Apple skiptir ekki öllu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 4. ágúst 2018
Þetta með að úthluta
Stjórnmálamenn mæla oft eigið ágæti í eftirfarandi atriðum:
- Hversu miklu af fé skattgreiðenda þeir ná að eyða
- Hversu margar undanþágur frá þunglamalegum reglum þeir ná að veita
- Hversu oft þeim tekst að troða einhverjum fram fyrir í röðina
- Hversu mikið af verkum þeirra fá umfjöllun í fjölmiðlum
Allt er þetta gott og blessað. Stjórnmálamenn hafa það hlutverk að koma í veg fyrir, hindra, beina í aðra átt, temja, féfletta og að lokum úthluta til útvalinna aðila.
Þeir mega hins vegar ekki fá áfall þegar kemur í ljós að fyrir þann eina sem fékk úthlutað eru 99 aðrir sem sitja eftir með sárt ennið. Þeir mega ekki láta það koma sér á óvart að allar hindranirnar sem þeir lögðu, en tókst að hleypa einhverjum fram fyrir, halda aftur af öðrum sem hlutu ekki náð fyrir augum þeirra.
Stjórnmálamenn mega ekki gleyma að þrátt fyrir englabauginn fyrir ofan höfuð þeirra þá valda þeir sársauka og töfum og koma í veg fyrir að fólk og fyrirtæki geti náð saman með frjálsum viðskiptum.
![]() |
Vísar ávirðingu minnihluta til föðurhúsanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 3. ágúst 2018
Ekki veitir af
ÁTVR fjárfesti í tæplega 5.700 klukkustundum til fræðslu og þjálfunar starfsmanna, u.þ.b. 142 vinnuvikum, á síðasta ári. Fræðslustundir á hvert stöðugildi voru átján, rúmlega tveir dagar á hvern starfsmann.
Ekki má það minna vera. Tveir dagar á ári á starfsmenn hlýtur að vera algjört lágmark. Námskeið í núvitund, hjólafærni og heilsu karla ættu að vera í boði á öllum vinnustöðum. Ekki viljum við að starfsmenn ÁTVR séu þjakaðir af lélegri hjólafærni eða vitund um eitthvað annað en núið.
Það er algjör óþarfi að gera frétt um námskeiðahald ÁTVR. Slíkt hefur bara þau áhrif að gera lítið úr starfsmannastefnu ÁTVR. 5700 klukkustundir hljómar eins og há tala en er það ekki því hjá ÁTVR starfa margir einstaklingar. Miklu frekar ætti að hvetja önnur fyrirtæki og opinberar stofnanir til að halda fleiri námskeið og nota ÁTVR sem gott fordæmi. Starfsmenn sem vinna hjá óþarfastofnun ríkiseinokunar í sölu á löglegum neysluvarningi þurfa á öllum þeim námskeiðum sem í boði eru til að réttlæta tilvist sína og hjálpa þeim að komast á fætur á morgnana.
![]() |
Vörðu 5.700 stundum í fræðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 31. júlí 2018
Hestvagnasmiðir mótmæla bílaframleiðslu
Það er alltaf hjákátlegt að sjá staðnaðar starfsstéttir mótmæla nútímanum. Einu sinni var tréskóm (sabat) kastað á vélar verksmiðjanna í tilraun til að eyðileggja þær (sabotage). Núna stífla leigubílstjórar göturnar í stað þess að keyra um þær af því neytendur vilja kannski velja einhverja aðra til að keyra þá um sömu götur.
Það er ekki svo að þúsundir atvinnulausra hestvagnasmiða reika um göturnar af því bílarnir voru fundnir upp. Í staðinn fyrir að framleiða kerti úr hvalaspiki vinna hendur að því að framleiða rafala og ljósaperur. Í staðinn fyrir hestvagnasmíði vinna iðnar hendur að því að setja saman bíla. Þetta hefur verið kallað hin skapandi eyðilegging kapítalismans - hin holla og nauðsynlega endurnýjun í samfélagi sem vill bæta lífskjör almennings.
Á Íslandi niðurgreiðir ríkisvaldið óteljandi tegundir rekstrar því stjórnmálamenn og skjólstæðingar þeirra í vernduðum greinum telja sig vita betur en neytendur. Kannski heldur það lífi í starfsstéttum en kannski veldur slíkt bara stöðnun þeirra og fátækt starfsmanna hennar. Kannski tryggja niðurgreiðslur framboð á íslensku lambakjöti í innlendum verslunum. Kannski valda sömu niðurgreiðslur því að hvatar til að koma sama kjöti á matseðil dýrustu veitingastaða heimsins eru drepnir.
![]() |
Loka götum til að mótmæla Uber |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 30. júlí 2018
Of mikið af háskólanámi?
Að fleiri og fleiri ljúki háskólanámi hefur verið hávær boðskapur undanfarin ár og jafnvel áratugi. Þetta er ekki heillavænleg stefna. Nú þegar afleiðingar hennar eru að koma betur og betur í ljós eru ýmsar raddir að gerast háværari sem segja að við séum með of mikið háskólanám.
Fyrir slíku má færa mjög mörg rök.
Háskólanám er tímafrekt: Duglegu fólki er haldið frá atvinnumarkaðinum þar sem það gæti verið að framleiða verðmæti.
Margt háskólanám er útvatnað og óþarfi: Til að allir geti lokið háskólanámi hefur víða þurft að gera það léttara og innihaldssnauðara.
Eftirspurn eftir sumum gráðum er engin: Þegar mikið af háskólamenntuðu fólki er byrjað að raða sér á skrá yfir atvinnulausa, jafnvel í blússandi góðæri, þá er ljóst að það er engin eftirspurn eftir náminu. Hið opinbera hefur oft reynt að sjúga til sín offramboð háskólamenntaðra en það er eitruð skammtímalausn.
Margt annað nám er gert rýrara: Iðnmenntun og annað nám er oft talað niður til að gera háskólanámið heillandi. Háskólarnir sjúga til sín fé sem gæti nýst betur í annars konar námi (eða til skattalækkana).
Háskólanám er ekki fyrir alla: Þetta er viðkvæmur punktur en staðreyndin er sú að háskólanám er ekki fyrir alla. Hér geta margir þættir skipt máli: Greind, lesskilningur, áhugi á bóknámi eða geta til að halda einbeitingu.
Háskólagráða þýðir ekki endilega verðmætaskapandi þekking: Ýmsar stéttir hafa barist fyrir því að námi þeirra sé komið á háskólastig. Má þar nefna lögreglumenn og leikskólakennara. Þetta er bragð stéttarfélaga til að takmarka aðgengi að félagsskap sínum og vera þannig í betri stöðu til að knýja hið opinbera um launahækkanir. Hér má efast um að fjölgun námsára hafi bætt verðmætaskapandi þekkingu við námið. Hér þarf virkilega að spyrna við fótum.
Kannski þessi áhersla á háskólanám sé óþarfi. Kannski smiðir, píparar, rafvirkjar og þúsundþjalasmiðir af náttúrunnar hendi megi þrátt fyrir allt una sáttir við sitt nám og hreykja sér af vinnu sinni þótt nám þeirra sé ekki á háskólastigi. Um leið geta þeir brosað af öllum sprenglærðu akademikurunum á atvinnuleysisskránni eða þeim sem standa bak við búðarborð og afgreiða cafe latté til hinna sem fengu vinnu - hjá hinu opinbera!
![]() |
Aðgengi háskólanáms stærsta spurningin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 29. júlí 2018
Enginn stingur neinn fyrir vodkaflösku
Lögreglan telur fíkniefnaheiminn vera að harðna. Menn séu í auknum mæli vopnaðir. Er það skrýtið? Hver er munurinn í refsingu á að stinga og að vera tekinn með eitthvað magn af fíkniefnum á sér? Er ekki freistandi að stinga með hníf og stinga af þegar refsingin fyrir slíku er svipuð og að vera gómaður með fíkniefni á sér?
Það á að afnema bann við efnum af öllu tagi. Þar með verða viðskipti með þau lögleg, áhættan við að eiga viðskipti með þau hverfur, verðið hrapar og hvatarnir verða að öllu leyti heilbrigðari.
Því fyrr því betra.
![]() |
Lögreglan þurfi að huga að eigin öryggi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 25. júlí 2018
Of dýrt að taka leigubíl
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur engar skýringar á auknum akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Það er hressandi hreinskilni. Nokkrar mögulegar skýringar gætu samt verið:
- Það er of dýrt að taka leigubíl: Menn freistast til að keyra heim til að spara sér tíuþúsundkallinn. Fyrir utan skutlarana á Facebook er enginn heppilegur valkostur við leigubílinn (t.d. Uber eða Lyft).
- Það er of mikið vesen að taka strætó: Hann keyrir of sjaldan eða er of lengi á leiðinni. Einu sinni tók mig klukkutíma að komast frá Kringlunni í Hólahverfið í Breiðholti eftir að Kringlukráin lokaði. Ég hefði verið fljótari að labba. bb
- Það er of langt á milli skemmtistaða: Þeim er þjappað saman á litla bletti og því langt fyrir djammarana að sækja þá með tilheyrandi ferðalögum.
- Það er að verða auðveldara að verða sér úti um fíkniefnin: Þau eru jú ólögleg og því ekki bundin af allskyns leyfum, aldurstakmörkunum og sköttum sem hrjá löglegan neysluvarning. Það er ekki hægt að stöðva smygl eða koma í veg fyrir innlenda framleiðslu.
Ég vona að menn spari sér skýrsluskrifin og eyði frekar púðrinu í að líta í kringum sig og hugleiða hvernig lögin hvetja menn til að gera eitt frekar en annað - velja að keyra í annarlegu ástandi í stað þess að labba heim eða hoppa í bifreið sem farþegi.
![]() |
Engar skýringar á auknum fíkniefnaakstri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 25. júlí 2018
Gjaldþrot: Hin friðsamlegu mótmæli markaðarins
Gjaldþrot fyrirtækis eru hin friðsamlegu mótmæli markaðarins. Neytendur geta sniðgengið fyrirtæki af hvaða ástæðu sem er. Kannski pyntar fyrirtækið saklausa kettlinga. Kannski eitrar það barnamat. Kannski starfa of margir hindúar hjá fyrirtækinu að mati kristinna neytenda eða of margir kristnir að mati múslíma. Kannski er eigandi fyrirtækisins of kjaftfor, ófríður eða leiðinlegur. Hver og einn neytandi getur sniðgengið hvaða fyrirtæki sem er af hvaða ástæðu sem er og það er allt í lagi.
Þess vegna er mikilvægt að einkavæða sem mest, minnka ríkisvaldið um 99% og koma sem flestu í hendur einkafyrirtækja.
![]() |
Tískufyrirtæki Ivönku leggur upp laupana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 24. júlí 2018
Persónuleg ábyrgð
Það er alltaf ánægjulegt að lesa fréttir af afreksfólki, og þurfa afrekin þá ekki alltaf að vera einhvers konar Íslandsmet. Stundum er afreksmanneskja einfaldlega sú manneskja sem hættir að kenna öllum öðrum um eigin vandamál, lærir að taka til hjá sjálfri sér og stendur upprétt í lífsins ólgusjó.
Það er mjög í tísku að telja alla aðra bera ábyrgð á eigin vandræðum. Auðvitað á það stundum við, óneitanlega. Sá sem lendir í bílslysi og lamast af því ölvaður ökumaður keyrði á viðkomandi má alveg kenna öðrum um eigin hrakfarir. Viðkomandi þarf að aðlagast nýjum veruleika og reiða sig í meiri mæli á aðstoð annarra. Lífið er samt ekki búið þar með. Það er alltaf hægt að bæta aðstæður sínar með réttu hugarfari og með því að hugsa í lausnum frekar en vandamálum.
Persónuleg ábyrgð er gríðarlega vanmetin, sem er alveg skelfilegt. Alltof margir vilja einfaldlega fá alla heimsins aðstoð senda af himnum ofan, þar sem æðra máttarvald er ekki Guð heldur ríkisvaldið eða jafnvel mamma og pabbi.
Er þetta foreldrum að kenna?
Eða velferðarkerfinu?
Eða sölumönnum snákaolíu?
Eða Hollywood?
Eða okkur sjálfum kannski, fyrst og fremst?
![]() |
Byrjar 17 ára í læknisfræði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 22. júlí 2018
Hvítir í Afríku
Hvíti maðurinn á ekki sjö dagana sæla í Afríku. Þar er hann pyntaður, rændur og jafnvel myrtur og enginn segir neitt, sérstaklega ekki alþjóðlegir fjölmiðlar.
Auðvitað var nýlendustefnan engin mannúðarstefna (þótt það að hafa verið undir stjórn Breta á sínum tíma hafi reynst frábært veganesti fyrir slík ríki). Þó er það svo að víða í Afríku hafa lífskjör svartra versnað eftir að yfirráð hvíta mannsins urðu minni. Í forsetatíð Nelson Mandela heitins í Suður-Afríku hrundu til dæmis lífskjör allra íbúa þökk sé sósíalískum stjórnarháttum. Þar má bókstaflega sýna fram á að það sem tók við af aðskilnaðarstefnunni hafi bitnað með neikvæðum hætti á lífskjörum svartra íbúa, og auðvitað hvítra líka.
Í Suður-Afríku í dag eru hvítir bændur myrtir, pyntaðir, rændir og drepnir og enginn segir neitt. Falli hins vegar einn sjaldgæfur nashyrningur logar allt á Vesturlöndum. Þetta er hræsni, svo vægt sé til orða tekið.
Það er gott að hugarfarsbreyting sé að eiga sér stað í Simbabve, en hún kostaði ótal mannslíf. Er Suður-Afríka núna að fara í gegnum sama ferli?
![]() |
Hætta að taka land af hvítum bændum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |