Mánudagur, 14. janúar 2019
Er ekki hægt að skrifa bækur á kvöldin?
Látum okkur sjá. Einn vinsælasti spennusagnahöfundar Íslands og jafnvel í heiminum er lögfræðingur í fullu starfi (og stundakennari í hlutastarfi). Annar gríðarlega vinsæll höfundur er verkfræðingur á daginn (en að vísu bara í 70-80% starfi) og rithöfundur á kvöldin. Það er hægt að skrifa bækur á kvöldin, um helgar, á jóladag og á nóttinni. Það er að segja, ef maður fær engar listamannabætur.
Því hvað gerist um leið og manneskja fær bætur? Hún hættir að vinna.
Listamannabætur letja listamenn, gera listsköpun einsleitnari og að smekk lítillar úthlutunarnefndar, skapar erjur á milli listamanna, eru móðgun við skattgreiðendur og ala á andúð á listamönnum sem verða álitnir svangir litlir og latir grísir sem nenna ekki að standa á eigin fótum.
Hvernig væri að lækka skatta á launafólk svo það hafi efni á list að eigin vali?
Hvernig væri að lækka skatta á varning svo hann geti lækkað í verði?
Hvernig væri að kippa úr sambandi öllum þessum tilfærslum úr vösum skattgreiðenda ofan í hirslur úthlutunarnefnda?
Heldur einhver að fólk hætti að skrifa bækur ef ekki væri fyrir listamannabæturnar? Að allir hætti bara að skrifa og gerist lögfræðingar og verkfræðingar? Að allir hætti að lesa og horfi bara á Ríkissjónvarpið?
Listamannabætur eru ekki dýrasti útgjaldaliður hins opinbera en sennilega einn mesti óþarfinn. Þær ber að afnema með öllu, strax.
![]() |
Engar breytingar á úthlutun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 13. janúar 2019
Gefum unglingunum áfengi
Íslenskir unglingar eru nánast hættir að drekka áfengi. Þessu hefur verið slegið upp í erlendum fjölmiðlum. Borgarstjóri hefur sagt frá því í viðtölum og jafnvel hreykt sér af þessu. Allskyns samtök hafa lýst yfir ánægju sinni.
Unglingadrykkja var jú algjört böl, er það ekki?
Unglingar í dag hreyfa sig meira, borða hollar, drekka minna og eru meira í skóla en jafnaldrar þeirra fyrir 20 árum síðan.
Um leið eru þeir einmana, daprir og þunglyndir. Og þeir sofa alltof lítið.
Þeir fara minna út úr húsi og einangra sig á svokölluðum samfélagsmiðlum.
Þeir mæta í skólann og á skipulagðar æfingar en gera lítið saman þess á milli.
Það ætti kannski að gefa þessum heilbrigðu og edrú unglingum svolítið áfengi.
Þá halda þeir partý og hittast og kyssast og knúsast og rífast og kynnast á annan hátt en í gegnum textaskilaboð og táknasendingar. Þeir læra þá kannski að fara á trúnó og losa sig við eitthvað af einmanaleika sínum, þunglyndi og depurð.
Mörgum finnst frábært að unglingarnir hangi heima í skjá öll kvöld og sýni engan áhuga á áfengi og partýum. Sem stjúpfaðir 14 ára unglings sé ég alveg kostina í slíku.
En kannski er þetta ömurlegt og óheilbrigt í raun. Kannski ætti ég að gefa stráknum sinn fyrsta bjór þegar hann verður 15 ára gamall (áfengiskaupaaldurinn í Danmörku) og keyra hann í partý.
![]() |
Foreldrar senda röng skilaboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 10. janúar 2019
Farið úr skynsamlegu fyrirkomulagi í óskynsamlegt
Bráðum verður fasteignaeigendum meinað að nýta séreignasparnað sinn til að greiða niður fasteignalán sín (nema þeir séu að kaupa í fyrsta sinn).
Með því er farið úr skynsamlegu fyrirkomulagi í óskynsamlegt.
Fólk verður á ný þvingað til að leggja fyrir á lágum vöxtum í stað þess að borga niður lán á háum vöxtum. Á tungutaki heimilisbókhaldsins heitir þetta að eiga fé í sparigrís en um leið ganga um með fullnýtta heimild á kreditkortinu.
Ávinningurinn fyrir þetta fólk verður sá að eiga örlítið meiri lífeyri en þurfa svo að nýta stóran hluta hans til að greiða niður fasteignalán á háum vöxtum.
Ávinningurinn er með öðrum orðum enginn.
Ég vona að einhver hvetji ríkisstjórnina til að skipta um skoðun og afnema bann við því að nýta séreignasparnað til að greiða niður fasteignalán.
![]() |
Tæpir 58 milljarðar farið úr séreign til fasteignakaupa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 9. janúar 2019
Óttinn við tækninýjungar
Margir óttast þá hröðu þróun sem á sér stað í tækninni þessi misserin og árin. Vélmenni, gervigreind og allskyns lausnir munu gera þúsundir og jafnvel hundruð þúsundir starfa úrelt á næstu árum. Þessu má svara með því að hvetja fólk til að læra ýmislegt sem verður ekki leyst af hólmi. Nýjar tegundir starfa verða til. Mannkynið hefur prófað þetta áður. Hestvagnasmiðurinn verður að vélvirkja. Kertagerðarmaðurinn verður að rafvirkja. Lífið heldur áfram.
Hins vegar benda sumir á að hraði þróunarinnar sé slíkur í dag að aldrei hafi annað eins sést áður. Það má vel vera. Kannski þarf fólk á miðjum aldri að hugsa sinn gang. Kannski þarf fólk yfir miðjan aldur að opna námskeiðabæklinga. Þó er kannski ekkert að óttast í sjálfu sér, fyrir flesta.
Hins vegar er hægt að gera lítið langtímavandamál að stóru skammtímavandamáli. Það er hægt að gera fólk óhagkvæmt hraðar en það yrði annars, t.d. með því að þvinga atvinnurekendur til að borga hærri laun en sem nemur verðmætasköpun starfsmanna sinna. Þeir starfsmenn verða reknir eða þeim skipt út fyrir eitthvert tækið sem sinnir næstum því sama hlutverki. Þessir starfsmenn ná ekki að endurmennta sig eða þjálfa sig upp á nýtt. Þeim er varpað á dyr mun fyrr en í raun er nauðsynlegt. Óþroskuð tækni er innleidd of snemma og krefst einfaldlega annars konar starfsmanna svo hún keyri.
Verkalýðsfélög og hagfræðilega ólæsir stjórnmálamenn ættu að passa sig þegar fyrirtæki eru neydd til að gera starfsmenn sína of dýra og um leið óhagkvæma fyrr en nauðsynlegt er. Það felur bara í sér aukinn sársauka. Fólki verður mokað út af atvinnumarkaðinum í stað þess að ná að aðlagast breyttum aðstæðum.
Ég veit að það er erfitt að treysta því að frjáls samvinna og frjálst samstarf þúsundir einstaklinga leiði til niðurstöðu sem virkar fyrir alla, alltaf, til bæði skemmri og lengri tíma (hinn svokallaði frjálsi markaður, sem er andstæða valdboðs ríkis og verkalýðsfélaga). Ég mæli samt með því að reyna.
![]() |
Sjálfsafgreiðslukössum fjölgar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 8. janúar 2019
Heilræði um heilsu í reglugerð, núna!
Það er alltof mikið framboð af heilræðum um heilsu og mataræði.
Yfirleitt ganga þau út á að borða hollan mat, hreyfa sig reglulega og passa nætursvefninn, drekka áfengi í hófi og drekka nóg vatn.
Nú er komið nóg af þessu! Það á að setja þessi heilræði í reglugerð og ljúka þessari umræðu í eitt skipti fyrir öll.
Þar með getum við hætt að hugsa, taka afstöðu, hugleiða og prófa okkur áfram. Þetta mun spara samfélaginu mikinn tíma.
Þar með getum við hætt að velta fyrir okkur trúverðugleika hinna ýmsu heilsupresta. Við forðumst skottulækningar og hringl í daglegu lífi.
Reglugerð um hollar venjur gæti átt heima í flokki með reglugerðum um hvernig á að stunda fjármálaviðskipti eða halda kjúklinga. Reglugerðin velur fyrir okkur sérfræðinga og engin vandræði munu koma upp fyrir neinn í framtíðinni.
Einhverjir fúlir á móti munu mótmæla slíkri reglugerð með veikum rökum um að reglugerðir kæfa tilraunastarfsemi og hægja á lærdómsferli mannsins, sem í sífellu er að prófa eitthvað nýtt og sjá hvort það virki betur en hið gamla. En til hvers að prófa sig áfram hér? Það vita allir að pulsur eru eitraðar og vatn er gott. Hættum þessari vitleysu!
Aðrir fúlir á móti munu segja að reglugerð færi hinu opinbera of mikil völd sem það mun misnota til að stjórna okkur og jafnvel setja okkur í lífshættu. Verður hér bent á að einu sinni dæmdi hið opinbera fitu sem slæma og frúktósa sem góðan og afleiðingin er útbreidd sykurfíkn af fólki sem forðast feitmeti, en er samt spikfeitt. En hver vill ekki drekka mikið af vatni og borða kál og kjúklingabaunir? Hættum þessari vitleysu!
Loks eru það þeir sem munu halda því fram að reglugerðir myndi aðgangshindranir á markaði og tryggi þægilega stöðu nokkurra stórfyrirtækja sem uppfylla öll skilyrði og hafa efni á að halda úti lögfræðingum til að verja sig gegn samkeppni. Verður hér bent á bankana og reglugerðir í kringum fjármálaviðskipti sem slæmt fordæmi. En hver vill samkeppni í sölu á grænmeti? Gulrót er bara gulrót og skiptir engu máli hvort hún sé ræktuð af Bónus, Bauhaus eða Bjarna Benediktssyni. Hættum þessari vitleysu!
Nei, rökin hníga öll að því að setja hér umfangsmikla reglugerð sem tryggir okkur langa og heilbrigða ævi, fulla af ávöxtum og grænmeti og hreinu vatni.
Reglugerð, strax!
![]() |
7 ráð til að verða hraustari 2019 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 7. janúar 2019
Þegar pappírsvinna kemur í stað heilbrigðrar skynsemi
Hafa ekki allir heyrt um fyrirtækið sem fór þá leið að ráða bara konur því þær fá minna í laun en karlmenn sem gerði fyrirtækið svo samkeppnishæft að það þurrkaði út alla samkeppnisaðilana með dýru karlmennina á sínum launaskrám?
Nei, auðvitað ekki, því það er enginn að borga konum minna en körlum fyrir að vinna sömu vinnu.
Það sem skerðir laun fólks gildir um bæði kyn, jafnt:
- Að biðja ekki um launahækkun.
- Að taka sér löng hlé frá vinnumarkaðinum, t.d. til að ferðast um heiminn eða ala upp börn.
- Að vinna bara dagvinnu og segja nei við yfirvinnu.
- Að vinna bara að sínum verkefnum og segja nei við meiri ábyrgð.
- Að festast á launataxta opinberra starfsmanna þar sem eina leiðin til að hækka í launum er að eldast eða taka námskeið.
Þetta gildir um alla - konur og karla, svarta og hvíta, rauðhærða og ljóshærða.
Jafnlaunavottunin er tilraun til að leysa heilbrigða skynsemi af hólmi og koma á pappírsvinnu í staðinn.
![]() |
Enn án vottunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 4. janúar 2019
Bragginn er ekki vandamálið
Krafa er nú um að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, víki úr embætti. Er sú krafa innblásin af braggamálinu svokallaða.
Að mínu mati er braggamálið ekki ástæða til að stjórnmálamaður komi sér úr sæti sínu. Bragginn er einfaldlega dæmigert opinbert framúrkeyrsluverkefni þar sem verktakar fá að skammta sér nautasteikur og ráðgjafatíma óáreittir.
Braggamálið eitt og sér er því veikburða réttlæting.
Braggamálið er hins vegar ekki einsdæmi um bruðl á fé skattgreiðenda í Reykjavík. Braggamálið er bara það sem rataði í fréttirnar. Það ætti miklu frekar að líta á það sem tákn um þá stjórnlausu óráðsíu sem á sér stað í borginni.
Eftir að hafa mjólkað skattgreiðendur eins mikið og hægt er í fjöldamörg ár, og uppskera nú ríkulega í fasteignagjöld vegna hækkandi eignaverðs sem að hluta stafar af lóðaskorti, hefur loksins tekist að skila svolitlum afgangi af rekstri borgarsjóðs. Það er ekkert afrek. Í Hafnarfirði eru menn á fullu að greiða niður skuldir fráfarandi vinstristjórnar en eru samt að lækka skatta og framkvæma. Þetta er hægt, en bara ef viljinn er fyrir hendi.
Í borgarstjórn eru menn hvergi nærri hættir að brenna fé skattgreiðenda á báli gæluverkefna og vinahygli. Borgarlínan verður óútfylltur tékki í mörg ár og upphæðirnar svimandi háar. Þar verður nóg pláss til að raða vinum sínum á launaskrá borgarinnar um ókomna tíð.
Tæknileg úrlausnarefni eins og að halda skólpi frá sjónum er borginni einnig ofviða. Það er eins og enginn vilji eða þori að taka ábyrgð á neinu. Auðvitað er ekki við borgarstjóra beint að sakast að einhver tækjabilun eigi sér stað í skolpdælustöð, en allt skipuritið sem heyrir undir hann fór á hliðina þegar kom að því að taka ábyrgð og biðja borgarbúa afsökunar á ógeðinu sem skolaðist á land.
Ónefndar eru svo holóttar göturnar, ólæsir krakkarnir og ónotaðir hjólastígarnir sem þrengja að umferð fjölskyldufólks og vinnandi manna.
Allt ber að sama brunni. Borgin er illa rekin og rekstur hennar kostar offjár, gæluverkefnin ætla engan endi að taka, skipuritið er í molum og grunnþjónustan er vanrækt.
Ef vinstrimenn vilja halda völdum í borginni ættu þeir sjálfir að átta sig á því að orðspor borgarstjóra í molum og finna einhvern annan til að taka við stjórninni. Það væri mun heillavænlegra fyrir vinstriflokkana en að bíða afhroð í kosningum eða vera neyddir til að gera eitthvað á seinasta snúning.
![]() |
Segir fráleitt að Dagur víki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Miðvikudagur, 2. janúar 2019
Hvenær verður einhver öfgamaður?
Morgunblaðið kallar lýðræðislega kjörinn forseta Brasilíu öfgamann.
Það væri fróðlegt að heyra rökin á bak við þann stóra stimpil.
Eins væri fróðlegt að heyra hvers vegna háværar básúnur á vinstrikantinum sleppa við að vera kallaðar öfgamanneskjur.
Er formaður stéttarfélagsins VR á Íslandi ekki vinstri öfgamaður? Hvers vegna ekki? Það er ekki eins og hann feti hinn gullna meðalveg.
Hvað með formann stjórnmálaflokksins Íslensku þjóðfylkingarinnar? Kallast hann hægri öfgamaður? Hann talar oftar en ekki eins og venjulegur, danskur sósíaldemókrati. Eru það öfgar á Íslandi?
Kannski er hyggilegt að spara stóru stimplana fyrir stór tilefni. Annars er hætt við að sterkustu orðin þynnist út í tali okkar. Þá fer venjulegt fólk að fá á sig óvenjulega stimpla, og ég efast um að það sé neinum til gagns.
Um leið vil ég brydda upp á öðru orði sem á e.t.v. oft betur við um fólk sem talar ekki eins og meginlína fjölmiðlafólks mælir fyrir um: Róttækur.
Það er hægt að vera róttækur án þess að vera öfgamaður. Orðið felur heldur ekki í sér neinn sleggjudóm annan en að lýsa hneykslun blaðamanns á því að einhver vogi sér að stíga út fyrir þröngan hring pólitísks rétttrúnaðar. Um leið má kalla sjálfan sig róttækan til að leggja áherslu á að meginlína fjölmiðlafólks eigi ekki við um allt.
Er forseti Brasilíu ekki bara róttækur, eins og formaður VR?
![]() |
Boðar herferð gegn vinstri hugmyndafræði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Sunnudagur, 30. desember 2018
Hvað ef Marel ræki sjúkrahús?
Marel er virkur þátttakandi í að auka verðmætasköpun sjávarútvegs á Íslandi og raunar um allan heim.
Þar vinna vélvirkjar, stálsmiðir, forritarar, viðskiptafræðingar og verkfræðingar hörðum höndum að því að aðstoða viðskiptavini sína í að fá meira fyrir minna, eða svo hið óvinsæla orð sé notað, að græða. Hver einasti fiskur sem dreginn er á land er meira virði í dag en áður en Marel kom til leiks. Sá fiskur fæðir fleiri og minna endar á ruslahaugum eða í gini svína. Að hugsa sér!
Það er því áhugavert að velta fyrir sér hvað gæti gerst ef Marel, eða skyld fyrirtæki, fengi að koma að rekstri heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Væri hægt að sjálfvirknivæða eitthvað? Væri hægt að innleiða tækni þar sem mistækar hendur mannsins vinna í dag? Væri hægt að nota gögn á markvissari hátt? Væri auðveldar hægt að spá fyrir um erfiða sjúkdóma og gera þá auðvelda?
Þessu munu Íslendingar sennilega aldrei komast að því þegar kemur að ríkisrekstri eru þeir fastheldnir. Það tókst með herkjum að einkavæða sementsverksmiðju og bílaskoðun og jarðgöng undir fjörð og koma lit í sjónvarpið og öðrum en RÚV í rekstur ljósvakamiðla. Það mun sennilega aldrei takast að einkavæða Landsspítalann jafnvel þótt hægt væri að sækja dæmi um vel heppnaða einkavæðingu af því tagi til Norðurlandaþjóðanna (sem er vel á minnst hægt).
"Fylgjum fordæmi nágranna okkar í Evrópu" segja Íslendingar, en bara þegar sömu nágrannar innleiða hærri skatta, fleiri reglur og meiri ríkisrekstur. Þetta viðmið á aldrei við þegar kemur að því að sleppa tökunum. Íslendingar eru að þessu leyti kaþólskari en páfinn.
![]() |
Stofnendurnir ótrúlega framsýnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 28. desember 2018
Risaeðlur skipuleggja viðbrögð við loftsteini
Fyrir 65 milljónum ára skall loftsteinn á Jörðina sem breytti veðurfari Jarðarinnar allrar í þá veruna að risaeðlurnar gátu ekki þolað við, eða svo hljóðar ein kenningin.
Risaeðlurnar gátu ekki brugðist við með neinum hætti. Þær gátu litið til himins og séð hvað var að gerast og beðið örlaga sinna.
Verkalýðsfélög eiga í vændum sömu örlög og risaeðlurnar.
Fólk mun ekki sætta sig við að láta aðra semja um laun sín, kaup og kjör. Vissulega mun fólk vilja aðgang að lögfræðingi til að renna yfir samninga og bregðast við brotum á réttindum sínum. Slíka þjónustu veita verkalýðsfélög vissulega en sömuleiðis sérhæfðir aðilar sem láta það alveg eiga sig að byggja sumarbústaði og niðurgreiða gleraugu, t.d. Félag lykilmanna á Íslandi. Í Danmörku eru slík stéttarfélög kölluð gul stéttarfélög, á meðan risaeðlurnar kallast rauð stéttarfélög (með skírskotun í kommúnískar rætur þeirra).
Launataxtar rauðu stéttarfélaganna umbuna meðalmennsku. Þeir sem standa sig best fá ekki hærri laun. Þeir lélegustu njóta meðallauna eins og aðrir og hafa enga hvata til að bæta við sig verðmætaskapandi hæfileikum. Stéttarfélögin byggja sér risahallir og ráða fjölda einstaklinga til að miðla sumarbústöðum og gleraugnastyrkjum. Allt kostar þetta félagsmenn fúlgur fjár sem þeir fá aldrei til baka, sama hvað þeir fara oft í sumarbústað.
Auðvitað er ríkisvaldið ekki að fara afnema ýmis forréttindi stéttarfélaganna. Það hentar ríkisvaldinu ákaflega vel að sópa ákveðnum fagstéttum inn í girðingar og geta svo bara átt við þær þar. Ríkið lofar starfsöryggi í skiptum fyrir flókna launataxta sem fólk festist í. Þetta tryggir trygga kjósendur sem óttast ys og þys hins frjálsa markaðar.
Loftsteininn er samt lagður af stað og risaeðlurnar ættu að líta til himins.
![]() |
Formaður VR bjartsýnn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |