Bragginn er ekki vandamálið

Krafa er nú um að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, víki úr embætti. Er sú krafa innblásin af braggamálinu svokallaða.

Að mínu mati er braggamálið ekki ástæða til að stjórnmálamaður komi sér úr sæti sínu. Bragginn er einfaldlega dæmigert opinbert framúrkeyrsluverkefni þar sem verktakar fá að skammta sér nautasteikur og ráðgjafatíma óáreittir. 

Braggamálið eitt og sér er því veikburða réttlæting.

Braggamálið er hins vegar ekki einsdæmi um bruðl á fé skattgreiðenda í Reykjavík. Braggamálið er bara það sem rataði í fréttirnar. Það ætti miklu frekar að líta á það sem tákn um þá stjórnlausu óráðsíu sem á sér stað í borginni.

Eftir að hafa mjólkað skattgreiðendur eins mikið og hægt er í fjöldamörg ár, og uppskera nú ríkulega í fasteignagjöld vegna hækkandi eignaverðs sem að hluta stafar af lóðaskorti, hefur loksins tekist að skila svolitlum afgangi af rekstri borgarsjóðs. Það er ekkert afrek. Í Hafnarfirði eru menn á fullu að greiða niður skuldir fráfarandi vinstristjórnar en eru samt að lækka skatta og framkvæma. Þetta er hægt, en bara ef viljinn er fyrir hendi.

Í borgarstjórn eru menn hvergi nærri hættir að brenna fé skattgreiðenda á báli gæluverkefna og vinahygli. Borgarlínan verður óútfylltur tékki í mörg ár og upphæðirnar svimandi háar. Þar verður nóg pláss til að raða vinum sínum á launaskrá borgarinnar um ókomna tíð.

Tæknileg úrlausnarefni eins og að halda skólpi frá sjónum er borginni einnig ofviða. Það er eins og enginn vilji eða þori að taka ábyrgð á neinu. Auðvitað er ekki við borgarstjóra beint að sakast að einhver tækjabilun eigi sér stað í skolpdælustöð, en allt skipuritið sem heyrir undir hann fór á hliðina þegar kom að því að taka ábyrgð og biðja borgarbúa afsökunar á ógeðinu sem skolaðist á land.

Ónefndar eru svo holóttar göturnar, ólæsir krakkarnir og ónotaðir hjólastígarnir sem þrengja að umferð fjölskyldufólks og vinnandi manna.

Allt ber að sama brunni. Borgin er illa rekin og rekstur hennar kostar offjár, gæluverkefnin ætla engan endi að taka, skipuritið er í molum og grunnþjónustan er vanrækt.

Ef vinstrimenn vilja halda völdum í borginni ættu þeir sjálfir að átta sig á því að orðspor borgarstjóra í molum og finna einhvern annan til að taka við stjórninni. Það væri mun heillavænlegra fyrir vinstriflokkana en að bíða afhroð í kosningum eða vera neyddir til að gera eitthvað á seinasta snúning.


mbl.is Segir fráleitt að Dagur víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þó svo að umframkeyrslulega séð sé ekki mikill munur á Braggamálinu og örðum óráðssíðuframkvæmdum hins opinbera þá er þó þar einn reginmunur á. Í þessu máli liggur fyrir niðurstaða innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar þar sem fram kemur að alger óráðssía hafi verið með fjármálum í tengslum við þessa framkvæmd, en þar að auki kemur fram í niðurstöðum þeirra að allar reglur sem borgarstjórn hefur sett varðandi starfshætti starfsmanna borgarhinnar hafa verið brotnar í þessari framkvæmd og að auki hafa sveitarstjórnarlög og lög um varðveislu opinberra gagna verið brotin líka.

Krafan um að borgarstjóri víki byggir því ekki á veikum grunni, heldur byggir hún á því að þarna voru framin lögbrot við framkvæmdina sem ekki hefur enn verið svarað hvort ekki sé rétt að lögregluyfirvöld koma að rannsókn á. Mér vitanlega hafa ekki slík brot verið upplýst við önnur umframkeyrslumál.

Sigurður Geirsson (IP-tala skráð) 4.1.2019 kl. 15:02

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Góður punktur. Lögbrot hljóta að vera kærð til lögreglu.

Geir Ágústsson, 4.1.2019 kl. 16:32

3 identicon

Ég held að ekki sé á neinn hátt við Dag að sakast vegna braggamálsins. Kannski á hann einhvern þátt í því að farið var út í þetta verk en hvernig til tókst með framkvæmdina getur ekki verið á hans ábyrgð.

Bragginn er aðeins örlítið brot af öllum þeim framkvæmdum sem voru í gangi á vegum borgarinnar á þessum tíma.  Það er ljóst að borgarstjóri getur ekki fylgst náið með þeim öllum. Eftirlit hans hlýtur því að vera nokkuð yfirborðskennt og ekki víst að hann fái réttar upplýsingar. Auk þess var það borgarritari sem átti fylgjast með þeim sem báru aðalábyrgðina.

Dagur veit manna best hverju þarf að breyta til að  minnka líkur á að annað eins gerist aftur. Það er því sjálfsagt að hann sé í nefndinni sem á að gera tillögur til úrbóta. Það er hins vegar enginn missir af Hildi úr nefndinni. Innistæðulausar upphrópanir eru bara til trafala í slíkum nefndarstörfum. 

Dagur ber auðvitað pólitíska ábyrgð á málinu en slík ábyrgð nær langt út yfir það sem hvaða borgarstjóri sem er getur komist yfir. Krafa um afsögn er því fráleit.  

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.1.2019 kl. 17:39

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Það er vissulega skilið að borgarstjóri ber ekki ábyrgð á neinu, en getur um leið tekið heiðurinn af öllum borðunum sem honum er boðið að klippa.

Geir Ágústsson, 4.1.2019 kl. 20:44

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ef það er almennt viðurkennt að yfirmaður (hvort sem er einka- eða opinber) beri ekki ábyrgð á neinu - af hverju fær hann þá sérstök laun vegna "ábyrgðar sinnar"?

Kolbrún Hilmars, 5.1.2019 kl. 15:44

6 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Af hverju er einu sinni yfirmaður ef hann ber ekki ábyrgð, veit ekkert og undirmennirnir gera bara það sem þeim dettur í hug?

Ásgrímur Hartmannsson, 5.1.2019 kl. 18:05

7 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Er bara ekki kominn tími til að hrista ærlega upp í embættismannakerfinu og yfirstjórnendum þess? Afsögn borgarstjórans gæti verið fyrsta skrefið í þá áttina. Hafi hann manndóm í sér til slíks, sem hann tæplega hefur, mundi það senda skilaboð niður allan embættismannahrokaklíkuskalann. Ef hausinn fýkur, er allt eins víst að limirnir fylgi með í framtíðinni, standi þeir sig ekki. Eftir höfðinu dansa jú limirnir, ekki satt? Auli á toppnum fær enga limi til að dansa í takt, eins og berlega hefur komið í ljós.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 6.1.2019 kl. 01:34

8 identicon

Eftir höfðinu dansa limirnir

Þessi lausatök í stjónsýslu Reykjavíkurborgar mögnuðust upp þegar Jón var titlaður borgarstjóri

Dagur hefur bara ekki persónulega kraftinn né nógu mörg atkvæði bak við sig til að breyta neinu og þegar skipa verður nýjan fjármálastjóra Reykjavíkurborgar í febrúar þá mun allt fara fjandans til hjá þessari borgarstjórn

Borgari (IP-tala skráð) 6.1.2019 kl. 09:51

9 identicon

Það er einhver misskilningur í gangi um hlutverk þessarar nefndar.

Menn tala um að það sé óeðlilegt að Dagur rannsaki sjálfan sig. Innri endurskoðun er búin að rannsaka málið. Nefndin á hins vegar að koma með tillögur til úrbóta. Til þess er borgarstjóri vegna stöðu sinnar og reynslu hæfastur.

Með því að fara gaumgæfilega yfir verkferla og gera ígrundaðar tillögur til úrbóta axlar Dagur sína pólitísku ábyrgð. Merkilegt ef Hildur Björnsdóttir vill koma í veg fyrir það.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.1.2019 kl. 17:43

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Maðurinn er mjög greinilega óhæfur framkvæmdastjóri. Hvaða erindi hefur hann þarna inni?

Af hverju hefur hann yfirleitt áhuga á að sitja í nefnd sem rýnir í verkferla og skipurit einstaka stofnana? Forstjórar leggja yfirleitt breiðu línurnar en láta aðra um að sitja langa vinnufundi. Áhugi Dags á að sitja í nefndinni er grunsamlegur í sjálfu sér. 

Geir Ágústsson, 7.1.2019 kl. 09:59

11 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta eru allt asnar, vitanlega. Og engu þeirra treystandi. Nefndin er ekki annað en aulaleg leið til að breiða yfir vandamálin. Ef það eru ekki þessir sem sóa peningunum okkar þá eru það hinir.

Þorsteinn Siglaugsson, 7.1.2019 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband