Á Landspítalinn að setja plástur á sár?

Íslenska heilbrigðiskerfið er margslungið. Sumt af því er í höndum foreldra (að setja plástur á sár), sumt í höndum sérhæfðra einkaaðila (að setja fyllingar í brjóst) og sumt í höndum lækna og hjúkrunarfræðinga á launaskrá hins opinbera (að skipta um liðamót).

Sumt af því sem ríkið sér um eru einkaaðilar líka að gera, svo sem liðskiptaaðgerðir.

Stundum eru einkaaðilar með samninga við ríkið þannig að aðgerðir þeirra fá að falla undir hina opinberu sjúkratryggingu þannig að fólk þarf ekki að borga aukalega ofan á ríflega skattheimtuna til að njóta heilbrigðisþjónustu utan ríkisspítalanna.

En á furðulegustu stöðum hefur ríkið ákveðið að semja ekki við einkaaðila og bjóða fólki í staðinn tvo slæma kosti:

  • Að bíða mjög lengi á biðlista eftir aðgerð innanlands (ógnarlangi biðlistinn)
  • Að bíða aðeins skemur og vera sent í flugvél til erlendra verktaka í aðgerð (langi biðlistinn)

Þriðji möguleikinn, að bíða á stuttum biðlista og sleppa sjúkrafluginu og komast í aðgerð hjá innlendum verktaka er ekki í boði.

Bæði hinn ógnarlangi biðlisti og hinn langi eru hálfgerður dauðadómur fyrir framtíð fólks á atvinnumarkaðinum. Ég þekki konu sem stendur mér nær og er á hinum langa biðlista. Liðir hennar og hluti beinagrindar eru að slitna í hverju skrefi og lífið sem öryrki blasir hreinlega við. Hún hefur ekki efni á bæði skattinum og aðgerðinni án sjúkratrygginga. 

Svona lagað yrði aldrei látið viðgangast í öðrum Norðurlöndum. Í Danmörku er hreinlega búið að lofa fólki stuttri bið og ef það þarf að semja við einkaaðila til að uppfylla það loforð þá er það gert. Punktur.

Að láta fólk slitna upp til örorku á löngum biðlistum er hreinlega út í hött og til merkis um að menn láti hugsjónir um ríkismiðstýringu stjórna því algjörlega hvaða heilbrigðisþjónusta er í boði fyrir venjulegt fólk.

Það er góð ábending að hið opinbera hugleiði vel og vandlega hvað er "kjarnastarfsemi" og hvað er "hliðarstarfsemi" á Landspítala Íslands. 

Þumalputtareglan gæti verið: Á Landspítali Íslands að setja plástur á öll sár, eða geta mamma og pabbi eða einhver annar séð um það fyrir lægra verð, á meiri hraða og án þess að senda fólk á örorkubiðlistann?


mbl.is Álagsgreiðslur verða aflagðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hin ýmsu markmið ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin hefur mörg markmið. Sum eru ákveðin af fyrri ríkisstjórnum og verða þannig markmið ríkisins.

Eitt af þeim er að halda landinu í byggð.

Annað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Á tímabili var einnig lögð áhersla á að dreifa opinberum stofnunum sem víðast um landið. Þannig var Fiskistofa flutt í hvínandi hvelli til Akureyrar og Fæðingarorlofssjóður er á Hvammstanga svo dæmi séu tekin.

Nú er talað um að niðurgreiða innanlandsflug til að hin dreifða byggð geti ferðast á milli landshluta en það þykir mörgum vera vond hugmynd.

Allt stangast þetta á en ég er með eina hugmynd sem fellur að öllum þessum markmiðum: Að Landvernd sýni gott fordæmi sem frjáls félagasamtök og flytji höfuðstöðvar sínar upp á miðhálendið.

Þannig eflist atvinnulífið á miðhálendinu töluvert og starfsfólk mun leggja sitt af mörkum til að viðhalda dreifri byggð.

Starfsmenn Landverndar munu vitaskuld fara allar ferðir sínar fótgangandi til að hrinda ekki loftslagi Jarðar fram af bjargbrún.

Á miðhálendinu er enginn flugvöllur og ófært marga mánuði á ári.

Landvernd getur hér sýnt gott fordæmi og hjálpað yfirvöldum að ná mörgum markmiðum án árekstra.

Til í þetta?


mbl.is „Ekki mjög sniðugt í loftslagssamhengi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað kostar að fá tækifæri?

Buckingham-höll auglýsti nýverið laust starf í höllinni, starf þjóns. Það hefur vakið athygli að launin fyrir starfið eru undir lágmarkslaunum í Bretlandi.

Á móti kemur frítt uppihald, ferðalög, þjálfun, starfsreynsla og lífsreynsla.

Hinn nýi þjónn drottningar mun fá ómetanlega reynslu og á ekki eftir að vera í erfiðleikum með að finna annað og betur borgað starf seinna (nema launaklifrið í Buckingham-höll sé bratt að lokinni þjálfun og gefið að eitthvað sé varið í viðkomandi).

Þetta á við um fleiri störf. Tímakaupið er kannski lágt en þegar menn hugsa málið skiptir það oft minna máli.

Lágmarkslaun eru víða svo há að óreynt fólk (t.d. ungt fólk og innflytjendur) fær aldrei tækifæri. Það þarf að ráða reynslumikið fólk sem getur allt á fyrsta degi til að réttlæta kaupið.

Lágsmarkslaun eru hindrun sem gerir atvinnuleysi oft að eina valkostinum. Þegar menn sitja heima og horfa á sjónvarpið á milli þess sem þeir fylla út umsóknir þá er engin verðmætaskapandi reynsla að verða til. Vítahringurinn verður óbrjótanlegar fyrir marga og þeir gefast upp.

Ef menn vilja að fólk afli sér reynslu og þekkingar þá þarf að henda lögbundnum lágmarkslaunum ofan í ruslafötuna og jafnvel gera það löglegt að ráða fólk launalaust

Bretlandsdrottning á hrós skilið fyrir að veita ómetanlegt tækifæri sem borgar illa.


mbl.is Drottningin auglýsir starf en launin undir lágmarkskjörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin: 90%. Aðrir flokkar: 10%

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá mörgum en nú er svo komið að Samfylkingin mælist með yfir 90% fylgi í skoðanakönnunum á meðan allir aðrir flokkar mælast samanlagt með tæp 10%. Að vísu kalla ýmsir flokkar sig öðrum nöfnum en Samfylkingin en þegar betur er að gáð er stefnuskrá Samfylkingarinnar – eða álíka fyrirbæris – ríkjandi plagg meðal flesta flokka. 

Þessi stefnuskrá er ekki mjög skýrt plagg og oft á reiki en rauði þráðurinn er vaxandi ríkisvald, fleiri reglugerðir, hærri beinir og óbeinir skattar (t.d. hærri skattar á fyrirtæki og hærri nauðungargjöld í lífeyrissjóðina), færri verðmætaskapandi störf og fleiri opinber stöðugildi. Það er svolítið óskýrt hvaða stefna ríkir í innflytjendamálum en yfirleitt er markmiðið að fjölga þeim sem treysta á opinbera framfærslu í gjafmildu velferðarkerfi, enda kjósa þeir sem þiggja slíkt yfirgnæfandi til vinstri.

Ekki er við Samfylkinguna sem stjórnmálaflokk að sakast. Hún er bara eins og hún er; hæfilega mikið á flökti, hæfilega langt til vinstri og hæfilega marktæk. Það er jafnvel ekki Samfylkingunni að þakka að stefnuskrá hennar er ríkjandi plagg í íslenskum stjórnmálum. Nei, velgengni Samfylkingarstefnunnar má skrifa á eltingaleik allra stjórnmálaflokka við skoðanakannanir og flótta þeirra frá hugsjónum. Þar hafa svokallaðir jafnaðarmannaflokkar alltaf staðið sig vel og því hafa næstum því allir aðrir flokkar reynt að verða slíkir, sem kaldhæðnislega hefur svo bitnað á atkvæðavægi hinna upprunalegu jafnaðarmannaflokka.

Sem gott dæmi um Eftirhermu-Samfylkingu má nefna Sjálfstæðisflokkinn. Hann er „enginn frjálshyggjuflokkur“ eins og formaður hans komst svo skýrt að orði á sínum tíma. Vissulega heldur hann landsfundi og þar er eitt og annað samþykkt, svo sem lægri skattar, minna ríkisvald, einfaldara regluverk og opnara hagkerfi – góðir hlutir! Raunin er samt yfirleitt (með fáum en veigamiklum undantekningum) að forystumenn flokksins kjósa með stærra ríkisvaldi, meira regluverki og jafnvel skertu viðskipta- og athafnafrelsi. Sem sagt, samkvæmt forskrift Samfylkingarinnar.

Annað dæmi um Eftirhermu-Samfylkingu er Vinstriflokkurinn, grænt framboð. Hann byrjaði sem róttækur sósíalistaflokkur sem stefndi í ævarandi stjórnarandstöðu með lítið fylgi en varð svo óvænt stór flokkur, fór að aðlaga stefnu sína að skoðanakönnunum, og varð að Samfylkingunni.

En undantekningar finnast. Miðflokkurinn hefur að einhverju leyti valið að skrifa sína eigin stefnuskrá, sem er að vísu ekki glæsilegt plagg en nógu frumlegt til að stuða blaðamenn Samfylkingarinnar. Ýmis ungliðasamtök ýmissa flokka, þar á meðal Sjálfstæðisflokksins, ríghalda í vonina um að hugsjónir skipti máli. Einn og einn þingmaður talar enn út frá eigin brjósti en uppsker fyrir vikið ekki ráðherratitil og í besta falli formennsku í einhverri fastanefnd Alþingis. Vonin lifir, en hún er veik og stendur á brauðfótum.

Það er með öðrum orðum lítið um fjölbreytni og fyrir vikið eru allir flokkar farnir að passa í sama mótið. Er slíkt ávísun á velgengni til lengri tíma? Dettur engum í hug að skapa sér sérstöðu og höfða til kjósenda á grundvelli hugsjóna og stefnufestu? Að vera ekki alltaf að lofa fé annarra og sértækum aðgerðum? Að velja ekki alltaf ríkisvaldið umfram frjálst samfélag? Hver veit! Er ekki hægt að biðja stjórnmálamenn um að svara einfaldri spurningu og taka svo afstöðu í kjörklefanum? Sú spurning gæti verið: Finnst þér að ríkisvaldið eigi að stækka, eða minnka – sinna fleiri verkefnum eða færri?

Það er mín skoðun að kjósendur vilji valkosti en ekki bara mismunandi umbúðir utan um sama innihaldið. Hleypum hugsjónum aftur inn í íslensk stjórnmál, takk.

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu í dag og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.


Tæknileg úrlausnarefni á borði stjórnmálamanna

Hvað gerir tæknimaðurinn þegar hann fær pólitískt vandamál?

Hann segir: Látið stjórnmálamennina um að leysa þetta!

Hvað gerir stjórnmálamaðurinn þegar hann fær tæknilegt vandamál?

Hann segir: Ég er með lausnina! Eða, fyrst þarf ég að láta skrifa mörg hundruð blaðsíður af skýrslum. Síðan þarf að krækja í fé skattgreiðenda. En ég er með lausnina!

Þar með er búið að útskýra megnið af dægurmálaumræðunni þar sem stjórnmálamenn eru að vasast í tæknilegum vandamálum.


mbl.is Ódýrara að grafa draslið í holu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta borgarlína?

Á meðan íslenskir stjórnmálamenn lofa tugmilljörðum í uppbyggingu á nýrri tegund strætisvagna (nema aðeins stærri en þeir í dag og fá að auki sínar eigin akreinar) sýna stóru bílaframleiðendurnir væntanlegum kaupendum framtíðina.

Í Amsterdam er ákaft unnið að því að búa göturnar undir sjálfkeyrandi bíla.

Í Kaupmannahöfn hafa sjálfakandi örlestir keyrt í næstum því 20 ár.

Það er ekki víst að sjálfakandi bílar leysi þann hefðbundna af hólmi en margir mundu eflaust vilja leggja bílnum á leið til og frá vinnu og lesa dagblaðið í staðinn eða sitja við tölvuna. Þeir sem þurfa tvo bíla í dag gætu fækkað niður í einn bíl. Þeir sem þurfa bara bíl stöku sinnum gætu notað deilibíla sem kæmu heim að dyrum og yrði svo keyrt með hefðbundnum hætti eftir það.

En hver veit!

Eitt er víst að enn eitt strætókerfið er ekki framtíðin, heldur fortíðin.


mbl.is Sjálfekinn dráttarvagn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málamiðlanir sem virka

Á Íslandi má selja rafsígarettur og vökva í þá en bara að uppfylltum allskyns skilyrðum. Dönsk löggjöf er nánast eins í þessum efnum.

Þetta er í sjálfu sér ágæt málamiðlun. Uppi eru háværar raddir sem vilja banna þessar vörur alveg og henda þar með öllum kröfum um merkingar, læsingar og innihald út um gluggann og vörunum inn á hinn svarta markað. Slíkt hefur ekki reynst vel. Í Bandaríkjunum hafa boð og bönn myndað mikið svigrúm fyrir ólöglega vökva sem innihalda olíu frá kannabisplöntunni og sú olía virðist vera stórhættuleg sem rafsígarettuvökvi.

Boð og bönn leysa einfaldlega engan vanda. Ólöglegur varningur, eða varningur sem býr við óbærilega mörg skilyrði, tekur val úr höndum neytenda og löglegra söluaðila og setur í hendur glæpamanna. Við erum að tala um neyslu á hinu og þessu sem yfirleitt er kallað ofbeldislaus glæpur og ætti alls ekki að vera glæpur.

Nei, það er enginn að tala um að fjarlægja hegningarlögin og gefa grænt ljós á barsmíðar, þjófnaði og morð.

Nei, það er enginn að tala um að rétta ungum börnum logandi sígarettur og kenna þeim að reykja.

Nei, það er enginn að tala um að blanda ungbarnamjólk með rauðvíni.

Nei, það er enginn að tala um að setja fulla unglinga undir stýri á kappakstursbíl og sleppa lausum í Ártúnsbrekkuna.

Ég er að tala um ofbeldislausar athafnir fullorðinna einstaklinga. Þær ber að heimila að öllu leyti. Og þá meina ég: Ef fullorðinn maður vill sprauta fljótandi heróíni inn í líkama sinn, og einhver er tilbúinn að framleiða og selja honum þann varning í frjálsum viðskiptum, þá á það ekki að vera á könnu lögreglu að skipta sér af. Neytendastofa getur þá gert athugasemdir við verðmerkingar, umbúðir og barnalæsingar heróínsins ef hún vill, en viðskiptin fá að fara fram án afleiðinga.

Þetta er sem betur fer og smátt og smátt að renna upp fyrir fleirum. Ég vona að sú þróun haldi áfram.


mbl.is Rafrettuvökvinn Nasty Ballin innkallaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt í fréttum: Það kostar að eignast börn!

Ekki veit ég hvað hefur farið úrskeiðis seinustu árin en svo virðist sem fólk hafi gleymt því að barneignir eru dýrar og tímafrekar (en borga til baka með öðrum hætti en peningum, vissulega).

Ég hendi því í eina sláandi fyrirsögn:

Barnafólk athugið! Barneignir eru dýrar og tímafrekar!

Þetta þekki ég ákaflega vel sjálfur. Konan mín hefur tvisvar farið í fæðingarorlof sem námsmaður og uppskorið miklu minna en lægstu atvinnuleysisbætur í svokallaðan fæðingarstyrk. Á meðan var mér vitaskuld gert að borga alla skatta í topp og fékk ekki einu sinni aðgang að skattkorti konunnar (í danska skattkerfinu) sem hefði getað drýgt launin töluvert.

En það er til töfraráð sem ég slæ líka upp sem fyrirsögn:

Sparnarráð! Haltu útgjöldum heimilisins undir tekjum heimilisins!

Þetta gæti þýtt að það þurfi að selja bílinn eða fá sér minni bíl, minnka við sig húsnæðið eða fresta því að stækka við sig a.m.k. tímabundið, fækka ferðalögunum og skipuleggja þau með góðum fyrirvara og kaupa notaðar flíkur í stað nýrra. Það þarf að versla inn á skynsaman hátt og láta hluti endast. En þetta ætti að vera hægt. Ég hef séð mörg dæmi þess.

Fyrir þá sem treysta á styrkjakerfið af einhverri ástæðu má benda á galopnar og aðgengilegar upplýsingar á viðeigandi heimasíðum þar sem allt stendur, svart á hvítu. 

Vonandi hjálpar þetta einhverjum.


mbl.is Fær 158.000 krónur í fæðingarorlof
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðsluáróður byggður á ágiskunum

Í frétt á mbl.is er nú borinn á borð gengdarlaus hræðsluáróður.

Meðal vitleysunnar eru setningar eins og:

"Ekki hef­ur tek­ist að greina ástæðuna fyr­ir far­aldr­in­um í Banda­ríkj­un­um..."

Jú, ástæðan eru íblöndunarefni í ólöglegum vökvum sem innihalda virka efnið úr kannabisplöntunni. Þegar boð og bönn fóru að herja á rafrettur myndaðist svigrúm fyrir svarta markaðinn og þar eru menn lítið fyrir innihaldslýsingar, prófanir og annað slíkt.

"Í grein­ar­gerð sem lækn­ar í Norður-Karólínu sendu frá sér í síðasta mánuði kem­ur fram að talið sé að sjúk­dóm­inn megi rekja til auka­efna í ol­í­um ..."

Já, olíum úr kannabisplöntunni, sem sumar gerðir ólöglegra vökva innihalda.

"Þeim sem vilja hætta tób­aks­reyk­ing­um sé bent á að nota viður­kennda meðferð við nikó­tín­fíkn að höfðu sam­ráði við lækni ..."

Og hvernig hefur það gengið? Tyggjó, plástrar og munnspray höfða einfaldlega ekki til þeirra sem eru vanir að hafa eitthvað í hendinni og bera að munni sér. Hér tala ég fyrir hönd fjölmargra einstaklinga, þar á meðal sjálfs míns.

"Ekki sé þó mælt með að fólk snúi frá rafrett­um og aft­ur að tób­aks­reyk­ing­um, sem eru enn skaðlegri ..."

Það er samt þetta sem gerist ef rafretturnar eru gerðar og óaðgengilegar.

Hvað vakir fyrir blaðamanni að skila af sér svona einhliða og á köflum ósannri frétt? Ég spyr af einlægri forvitni því ég skil ekki tilganginn.

Er hann sá að auka enn á tekjumöguleika hins svarta markaðar? Að gera rafretturnar jafnhættulegar og önnur efni sem er búið að fara í stríð við og setja í hendur glæpamanna?

Staðreyndin er sú að rafretturnar eru miklu, miklu hættuminni en reykingar.

Staðreyndin er sú að langflestir þola ágætlega notkun á löglegum rafrettuvökvum. Þeir sem þola almennt ekki ryk frá umferð eða sót frá opnum eldi þola auðvitað ekkert og eiga ekki að vera viðmiðunarhópurinn.

Staðreyndin er sú að rafrettur eru ódýr og skaðlítill valkostur við tóbak, a.m.k. á meðan ríkisvaldið heldur að sér höndum.

Staðreyndin er sú að sumt fólk sækist alltaf í eitthvað og rafrettur eru frábær valkostur miðað við margt annað.

Innantómur, hálfsannur áróður er eldsneyti á ríkiskláfinn sem mun leiða til verra ástands en ef heima væri setið.


mbl.is 18 látnir vegna rafrettunotkunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grænkandi Jörð

Gefum okkur að örlitlar breytingar í samsetningu andrúmsloftsins í formi aukningar á koltvísýringi úr broti af prósenti í nálægt því prósent leiði til stórkostlegra náttúruhamfara í formi hlýnunar, kólnunar eða seinkunar á náttúrulegum sveiflum hlýnunar og kólnunar eða ýki slíkar breytingar.

Mun Jörðin kvarta? Eða lífríkið?

Nei, þvert á móti. Koltvísýringur er plöntufóður. Honum er dælt inn í gróðurhús í miklu magni til að örva vöxt. Hann leyfir litlum og veikbyggðum plöntum að stækka og dafna og um leið dýrunum sem lifa beint og óbeint af þeim.

Það er því alveg einstaklega kjánalegt að tala um að aukning á styrkleika koltvísýrings leiði til dauða Jarðar. Slík aukning mun þvert á móti auka og örva líf á Jörðinni.

Hvort veðrið breytist að ráði eða ekki í kjölfarið er önnur saga.

Hættum að eyða orku í ímynduð vandamál sem eru ýkt með hreinum lygum, takk.


mbl.is „Þetta er dauðans alvara“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband