Samfylkingin: 90%. Aðrir flokkar: 10%

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá mörgum en nú er svo komið að Samfylkingin mælist með yfir 90% fylgi í skoðanakönnunum á meðan allir aðrir flokkar mælast samanlagt með tæp 10%. Að vísu kalla ýmsir flokkar sig öðrum nöfnum en Samfylkingin en þegar betur er að gáð er stefnuskrá Samfylkingarinnar – eða álíka fyrirbæris – ríkjandi plagg meðal flesta flokka. 

Þessi stefnuskrá er ekki mjög skýrt plagg og oft á reiki en rauði þráðurinn er vaxandi ríkisvald, fleiri reglugerðir, hærri beinir og óbeinir skattar (t.d. hærri skattar á fyrirtæki og hærri nauðungargjöld í lífeyrissjóðina), færri verðmætaskapandi störf og fleiri opinber stöðugildi. Það er svolítið óskýrt hvaða stefna ríkir í innflytjendamálum en yfirleitt er markmiðið að fjölga þeim sem treysta á opinbera framfærslu í gjafmildu velferðarkerfi, enda kjósa þeir sem þiggja slíkt yfirgnæfandi til vinstri.

Ekki er við Samfylkinguna sem stjórnmálaflokk að sakast. Hún er bara eins og hún er; hæfilega mikið á flökti, hæfilega langt til vinstri og hæfilega marktæk. Það er jafnvel ekki Samfylkingunni að þakka að stefnuskrá hennar er ríkjandi plagg í íslenskum stjórnmálum. Nei, velgengni Samfylkingarstefnunnar má skrifa á eltingaleik allra stjórnmálaflokka við skoðanakannanir og flótta þeirra frá hugsjónum. Þar hafa svokallaðir jafnaðarmannaflokkar alltaf staðið sig vel og því hafa næstum því allir aðrir flokkar reynt að verða slíkir, sem kaldhæðnislega hefur svo bitnað á atkvæðavægi hinna upprunalegu jafnaðarmannaflokka.

Sem gott dæmi um Eftirhermu-Samfylkingu má nefna Sjálfstæðisflokkinn. Hann er „enginn frjálshyggjuflokkur“ eins og formaður hans komst svo skýrt að orði á sínum tíma. Vissulega heldur hann landsfundi og þar er eitt og annað samþykkt, svo sem lægri skattar, minna ríkisvald, einfaldara regluverk og opnara hagkerfi – góðir hlutir! Raunin er samt yfirleitt (með fáum en veigamiklum undantekningum) að forystumenn flokksins kjósa með stærra ríkisvaldi, meira regluverki og jafnvel skertu viðskipta- og athafnafrelsi. Sem sagt, samkvæmt forskrift Samfylkingarinnar.

Annað dæmi um Eftirhermu-Samfylkingu er Vinstriflokkurinn, grænt framboð. Hann byrjaði sem róttækur sósíalistaflokkur sem stefndi í ævarandi stjórnarandstöðu með lítið fylgi en varð svo óvænt stór flokkur, fór að aðlaga stefnu sína að skoðanakönnunum, og varð að Samfylkingunni.

En undantekningar finnast. Miðflokkurinn hefur að einhverju leyti valið að skrifa sína eigin stefnuskrá, sem er að vísu ekki glæsilegt plagg en nógu frumlegt til að stuða blaðamenn Samfylkingarinnar. Ýmis ungliðasamtök ýmissa flokka, þar á meðal Sjálfstæðisflokksins, ríghalda í vonina um að hugsjónir skipti máli. Einn og einn þingmaður talar enn út frá eigin brjósti en uppsker fyrir vikið ekki ráðherratitil og í besta falli formennsku í einhverri fastanefnd Alþingis. Vonin lifir, en hún er veik og stendur á brauðfótum.

Það er með öðrum orðum lítið um fjölbreytni og fyrir vikið eru allir flokkar farnir að passa í sama mótið. Er slíkt ávísun á velgengni til lengri tíma? Dettur engum í hug að skapa sér sérstöðu og höfða til kjósenda á grundvelli hugsjóna og stefnufestu? Að vera ekki alltaf að lofa fé annarra og sértækum aðgerðum? Að velja ekki alltaf ríkisvaldið umfram frjálst samfélag? Hver veit! Er ekki hægt að biðja stjórnmálamenn um að svara einfaldri spurningu og taka svo afstöðu í kjörklefanum? Sú spurning gæti verið: Finnst þér að ríkisvaldið eigi að stækka, eða minnka – sinna fleiri verkefnum eða færri?

Það er mín skoðun að kjósendur vilji valkosti en ekki bara mismunandi umbúðir utan um sama innihaldið. Hleypum hugsjónum aftur inn í íslensk stjórnmál, takk.

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu í dag og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sch Thorsteinsson

Sæll Geir,

Það er örugglega ekkert að marka þessa skoðunarkönnun, en ég efast um að svona stórhluti fólks sé með stokkhólmseinkenni. Það var Samspillingin og VG sem að tróð þrisvar sinnum uppá okkur þessum icesave- samningunum, og neitaði okkur um þjóðaratkvæðaafgreiðslu, Tróð uppá okkur hel**íts  Árna Páls lögunum, nú og kom á öllum þessum skerðingum gegn öldruðum og öryrkjum ( 2009 ), auk þess sá til þess að 15 þúsund fjölskyldur misstu heimili sín. Byggði ekki neina skjaldborg yfir heimilin í landinu, heldur bara skjaldborg yfir viss útvalin fyrirtæki og önnur fengu að fara á hausinn. Við höfum ekki gleymt Sjóvá, SpKef og þessum útvöldu fyrirtækjunum Samspillingar (S). 

KV. 

Þorsteinn Sch Thorsteinsson, 16.10.2019 kl. 09:45

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Þorsteinn,

Þetta er allt fyrirgefið og afsökunin er: "Þessir flokkar tóku við hörðu búi frá öllum hinum og björguðu Íslandi fyrir horn."

En vonandi verður sagan skráð öðruvísi.

Geir Ágústsson, 16.10.2019 kl. 18:41

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Oft verða stjórnmál að umræðuefni á fjölmennri samkomu.Og oftast hafa víkingar týnt sverði sínu og hornum,drulludauðir og engin manngerður stjórnmàlafellibilur leysist úr þeirra læðingi! Hví kveykjum við ekki á tundrinu sem landvættirnir geyma skapaðir til að verja Ísland! Til minniga um alla sem strituðu nótt og nýtan dag og liggja nú í votri gröf. Sá sem leitar að hamingjunni kýs kommalaust ísland. Sigmundur Davíð hefur aldrei svikið loforð,er langbesti næsti forsetisráðherra.  --- Menn þora ekki fyrir fjölmiðlum að viðurkrnna það; Upp með kjarkinn og börnin okkar skapa friðsælasta efnahagslega stöndugt ríki,Ísland.

Helga Kristjánsdóttir, 17.10.2019 kl. 05:35

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Helga,

Sigmundur virðist vissulega hafa uppgötvað að það er troðningur á miðjunni og rými fyrir hugsjónir, og þótt ég deili ekki hugmyndum hans um margt þá dáist ég að kjarki hans. Um leið óttast ég að hann sé vindhani í mörgum málum.

Geir Ágústsson, 17.10.2019 kl. 07:59

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Öll erum vvið vindhanar því lognið gerir okkur að "fullu" borið fram með linum framburði og þýðir neutral......þ.þ

Helga Kristjánsdóttir, 19.10.2019 kl. 03:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband