Mánudagur, 9. desember 2019
Listin að móðga
Það er ákveðin list að móðga fólk. Ásetningurinn getur verið mismunandi og aðferðirnar fjölbreyttar.
Sumir móðga af ásetningi til að særa annað fólk á persónulegan hátt.
Sumir móðga til að koma áleiðis mikilvægum og gjarnan umdeildum skilaboðum.
Sumir móðga til að gera grín að þeim sem hafa móðgunina að lífsreglu. Til dæmis með því að ganga í bol sem lofar Kölska til að gera grín að djöfladýrkendum.
En það er því miður orðið alltof auðvelt að móðga og það mætti ætla að margir hafi aldrei átt vini í kringum unglingsárin þegar allt er látið flakka. Mínir bestu vinir segja allskyns hluti um mig við mig og ég svara fullum hálsi og að lokum segja allir skál og hlægja. Ég á fjölbreyttan vinahóp sem aðhyllist allskyns trúarbrögð, stjórnmálaskoðanir og mataræði. Ekkert er samt heilagt í góðra vina hópi og það má bæði ræða allt af fullri alvöru og gera grín að því.
Þetta er lífið að mínu mati og forsenda þess að menn geti skipst á skoðunum, ögrað huga sínum og þroskað sjálfið.
Þessu eru samt ekki allir sammála. Ég sé allskyns umfjöllun um að menn reyni að loka á sumar skoðanir með notkun ofbeldis, lögreglu, dómstóla og óhróðurs. Þeir sem uppnefna aðra nasista og fasista beita sjálfir fasískum aðferðum (ritskoðun, ofbeldi og svívirðingar), sem er alveg einstaklega kaldhæðnislegt.
Þetta er furðulegt því hvernig er besta leiðin til að mæta fullyrðingum þess sem hefur rangt fyrir sér, að mati einhvers? Það er jú að leyfa viðkomandi að tala og vera síðan svarað með rökum.
Besta leiðin til að útrýma því óvelkomna er að draga það fram í dagsljósið.
Eftir að leikskóla sleppir á enginn að geta heimtað öruggt rými þar sem bara hið saklausa, viðtekna og samþykkta fær að heyrast. Þeir sem vilja slík örugg rými er bent á að kaupa sér bleiupakka og snuð og yfirgefa heim fullorðinna.
![]() |
Satanískur bolur veldur uppþoti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Laugardagur, 7. desember 2019
Mikilvægara að hleypa áfengi í matvöruverslanir
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það eindregna skoðun sína að seinka skuli klukkunni á Íslandi, enda sé það lýðheilsumál.
Gott hjá henni. Á meðan önnur ríki ræða að hætta eilífu hringli með klukkuna tekur heilbrigðisráðherra Íslands þetta ómerkilega mál upp á sína arma.
Ég er samt með annað lýðheilsumál sem er sennilega brýnna: Að hleypa áfengi inn í íslenskar matvöruverslanir og gera það ódýrara.
Þetta hefur marga kosti.
Í fyrsta lagi fær kaupmaðurinn á horninu annað tækifæri til að halda lífi í samkeppni við stórmarkaðina sem deila bílastæði með áfengisverslunum ríkisins. Um leið minnkar þetta umferð inn á þau bílastæði. Nærumhverfið styrkist.
Í öðru lagi getur áfengi komist nær því að verða afslappandi neysluvara sem má njóta í hófi og oft frekar en að vera sjaldgæfur lúxusdropi sem þarf að sturta í sig í miklu magni. Menn kaupa oftar áfengi og minna í einu og læra að umgangast það eins og hverja aðra óhollustu.
Í þriðja lagi er dregið úr freistingunni að sækja sér önnur vímuefni, lögleg eða ólögleg. Áfengi er fyrirsjáanlegt og rennur hratt úr kerfinu. Unglingar og ungt fólk gæti haldið sig við áfengið og látið önnur efni eiga sig. Ef hverfissjoppan selur bjórkippu er komin samkeppni við heimsend vímuefni glæpamannanna.
Í fjórða lagi er ekkert að því að lina aðeins þjáningar myrkursins með svolitlu áfengi. Eitt vínglas eða bjór er bæði andlegur og líkamlegur gleðigjafi, rúsína í pylsuenda skammdegisins og leið til að hrista af sér drunga dagsins.
Kæri heilbrigðisráðherra, áfengi í matvöruverslanir - fyrir lýðheilsuna!
![]() |
Svandís vill seinka klukkunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 5. desember 2019
Borið saman við hvað?
Við höfum val.
Við getum valið að láta blekkja okkur.
Við getum valið að láta hræða okkur.
Við getum valið að láta siða okkur til þótt við höfum ekki gert neitt af okkur.
Nú eru þeir til sem telja að íslenskir jöklar séu að bráðna meira en hæfilegt er að það sé mannkyninu að kenna.
Myndir af jöklum eru bornar saman og niðurstaðan dregin fram: Sjáðu! Jöklarnir bráðna og eina hugsanlega ástæðan er notkun mannkyns á hagkvæmu eldsneyti!
Þó blasir við að ef menn velja myndir á annan hátt þá sést engin sérstök bráðnun. Til að mynda er jökullinn Ok álíka lítill árið 1960 og hann er í dag (sjá myndina, tekin héðan). Síðan tók við svolítið kuldaskeið og hann stækkaði. Þá tók við svolítil hlýnun og hann bráðnaði aftur.
Hamfarir? Nei. Bara náttúrulegar sveiflur sem taka rúmlega mannsaldur að eiga sér stað, sem um leið er nógu lengi til að enginn muni neitt.
Ég vel að láta ekki hræða mig. Gildir þá einu hvort um er að ræða stjórnmálamenn, trúboða eða fréttamenn. Auðvitað er margt hræðilegt í gangi í heiminum, svo sem barnaþrælkun í kóbolt-námum Afríku til að útvega hráefni í batterí Vesturlandabúa, eilíft stríðsástand í Miðausturlöndum, eldflaugasmíði í Norður-Kóreu og spenna í samskiptum Vesturlanda og Rússa. Það er samt óþarfi að missa svefn yfir því og tapa um leið heilsu sinni. Betra er að halda sínu striki og leggja sitt af mörkum til að bæta heiminn, einn dag í einu.
![]() |
Sekúndubrot að klúðra málum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Mánudagur, 2. desember 2019
Plastframtíðin okkar
Plast hefur orðið fyrir miklu aðkasti undanfarið. Að sumu leyti er það skiljanlegt: Í stórum ríkjum þar sem iðnvæðing er ennþá á fullum hraða hafa menn ekki alveg náð að taka á sorpvandamálinu: Nokkur stórfljót eru notuð til að losa gríðarlegt magn af rusli í hafið, þar á meðal plastræmur sem ýmis dýr flækjast í og verða að myndefni fyrir ljósmyndara.
En plast er dásamlegt. Það er ekki bara notað til að verja matvæli frá skemmdum og minnka þannig matarsóun. Það er líka notað sem byggingarefni í bíla, flugvélar og báta og létta þannig þessa hluti töluvert miðað við stálsmíðina. Þetta bætir eldsneytisnýtingu, eykur hagkvæmni og minnkar hina óttuðu losun á kolefni í andrúmsloftið. Hjólreiðamenn Tour de France klæðast plasti, hjóla á plasti og drekka úr plasti. Plastið er á hraðri leið með að ýta stálinu til hliðar og það er jákvætt.
Til að búa til plast þarf olíu og sem betur fer er ofgnótt olíu í jörðu og jafnvel á yfirborðinu því eitt helsta vandamál margra olíuframleiðenda er of lágt verð á olíu, sem er til merkis um að framboðið er mikið.
Er þá ónefnt að olía er alveg frábær orkugjafi: Færanlegur, geymanlegur og hár í orkuinnihaldi.
Það er mikilvægt að benda á þetta því samkvæmt minni reynslu er almenn vitneskja um útbreiðslu, notagildi og ágæti plastsins í lágmarki. Ég hef staðið fyrir framan bekk af greindum grunnskólakrökkum sem létu koma sér mjög á óvart að plastið er að finna í skóbúnaði okkar, bíldekkjum (gervi-gúmmí), fatnaði, bifreiðum og mun víðar. Þeim er bara kennt að hata olíuna, en til vara að hlakka til brotthvarfs hennar. Þess í stað þarf að fagna tilvist hennar í umhverfi okkar.
Áfram plast!
![]() |
Bárður stærstur plastbátanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 1. desember 2019
Kjósendur og hvatar
Stjórnmálamenn eru í vanda staddir.
Hafir þeir sínar eigin hugsjónir og samfélagssýn er hætt við að kjósendur hafni þeim sem einhvers konar róttæklingum eða draumóramönnum. Ef þeir breyta of oft um stefnu og aðlaga stefnu sína að skoðanakönnunum er hætt við að þeir verði óaðgreinanlegir frá öðrum stjórnmálamönnum.
Það sem virðist virka best er að taka þátt í loforðakapphlaupinu og helst lofa miklu meira en næsti stjórnmálamaður. Og þá skiptir miklu máli að vera góður ræðumaður. Það skiptir mestu máli til að skera sig úr.
Til að geta lofað öllu fögru þarf að afneita öllum niðurstöðum þeirra sem rannsaka hegðun og atferli manna, hvort sem fagið heitir félagsfræði, hagfræði eða sálfræði. Í staðinn skal öll trúin sett á Excel-skjölin: Ef skattur er hækkaður um 5% aukast skattheimtur um 5%. Enginn mun hafa vit á því að forða eigum sínum frá aukinni skattheimtu. Slíkir hvatar eru bara dýrslegar hvatir sem mannfólkið ber ekki í brjósti. Og ef stjórnmálamaður vill banna gashylkin sem fólk notar í rjómaspraututækin sín þá er hægt að gera það afleiðingalaust. Unglingar hætta einfaldlega að sækja í vímuna og enginn annar valkostur tekur við.
Stjórnmálamaður þarf því að vera góður ræðumaður og einblína á reikniformúlur Excel.
Kjósendur falla fyrir þessu, því miður.
![]() |
Pútín sýnir mjúku hliðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 29. nóvember 2019
Hagfræði boða og banna
Ég er að lesa svolitla bók þessa dagana sem mér finnst vera gríðarlega áhugaverð: The Economics of Prohibition.
Í henni reynir hagfræðingurinn, Mark Thornton, að útskýra hvað gerist þegar hið opinbera setur á bann (algjört eða að hluta til). Í stuttu máli má segja að boð og bönn geri það sama og allt annað sem hefur áhrif á framboð og eftirspurn: Hvatar verða til.
Hvað gerist til dæmis þegar hveitiuppskera bregst? Verð hækkar auðvitað en á sama tíma byrja markaðsaðilar að leita að lausnum, t.d. ódýrari valkostum.
Þegar hið opinbera hóf herferð sína gegn kannabis hækkaði verðið auðvitað og áhættan jókst. Það myndaði hvata, meðal annars þann að fara út í kynræktun til að auka styrkleika virku vímuefnanna í kannabisplöntunni. Þegar kókaín lenti á bannlistanum urðu til hvatar til að finna aðra valkosti, gjarnan sterkari vímuefni til að minnka flutningskostnað og áhættu vegna framleiðslu, flutninga og sölu.
Nú þegar ég er kominn nokkuð áleiðis í bókinni eru ýmsar fréttir fjölmiðla farnar að blasa öðruvísi við mér. Ég sé fiska að synda á móti sterkum straum, og eftir því sem þeir synda ákveðnar eykst straumhraðinn. Áfangastað verður aldrei náð en fyrirhöfnin fer að taka meira og meira á og fer jafnvel að valda meiri skaða en ef fiskarnir hefðu sparað sér ferðalagið.
Það er hagfræði boða og banna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Fimmtudagur, 28. nóvember 2019
Enn eitt trogið fyrir ríkisgrísina
Í stað þess að stuðla að hagstæðum rekstrarskilyrðum fyrir fjölmiðla (lægri skattar, færri reglur, afnám eftirlits, lokun RÚV, heimild til að auglýsa áfengi osfrv.) á að koma upp styrkjakerfi. Þar með verður til enn eitt trogið sem svangir grísir sækja í.
Þetta trog er nú þegar lokað land fyrir sérhæfða fjölmiðla, svo sem íþróttafjölmiðla (t.d. vefsíður). Þeir þurfa því að keppa við bæði ríkisfjölmiðil og ríkisstyrkta fjölmiðla og verða væntanlega undir í þeim slag.
Það er líka viðbúið að ríkið fái aukinn áhuga á innihaldi fjölmiðla og takmarki aðgengi að troginu ef fjölmiðlar víkja of langt frá hinni samþykktu línu.
En það er allt gert til að forðast almennar og skynsamlegar aðgerðir, þ.e. minnka ríkisvaldið.
![]() |
Styrkir til fjölmiðla lækki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 25. nóvember 2019
Geisp
Enn einu sinni er gefin út skýrsla sem boðar hamfarir af því að mannkynið er að auka aðeins við magn koltvísýrings í andrúmsloftinu.
Er þetta ekki orðið svolítið þreytt?
Það hefur engum tekist að sýna fram á að svolítil aukning á koltvísýringi í andrúmsloftinu hafi áhrif á hitastig lofthjúpsins. Reiknikúnstir líkana eru ekki sönnunargögn því ef svo væri þá væri hægt að gefa út áreiðanlega veðurspá fyrir morgundaginn, en sú er ekki raunin í dag.
Vissulega er koltvísýringur svokölluð gróðurhúsalofttegund en það er vatnsgufa líka og það er töluvert meira af henni í andrúmsloftinu en koltvísýringi. Koltvísýringur skiptir raunar engu máli fyrir loftslagið. Hann skiptir miklu meira máli fyrir lífríkið: Því meira af honum, því betra, enda hefur Jörðin verið að grænka mikið undanfarin ár.
Í stað þess að tala endalaust um hitastig og loftslag og losun á koltvísýringi ættum við að tala um mengun! Við þurfum að hjálpa Kínverjum, Indverjum og Pólverjum að hreinsa ryk og sót úr útblæstri kolavera sinna. Við þurfum að stuðla að því að sem flestir hafi aðgang að ódýrri og áreiðanlegri orku, sem yfirleitt er heppilegast að afla með brennslu á olíu og gasi. Við þurfum að breiða út góðar aðferðir til að farga rusli áður en það fer út í hafið við strendur vanþróaðra ríkja.
Mengun, kæra fólk, er vandamál víða um heiminn en ekki svolítil aukning koltvísýrings í andrúmsloftinu.
![]() |
Magn gróðurhúsalofttegunda aldrei meira |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 24. nóvember 2019
Í skugga drekans
Stundum er talað um Rússland sem björn og Kína sem dreka. Í Austur-Evrópu búa menn því í skugga bjarnarins en í Austur-Asíu búa menn í skugga drekans. Ekki öfunda ég þá sem búa í slíkum skuggum!
(En búa Íslendingar ekki í skugga Bandaríkjanna? Jú, sennilega, en ef ég mætti að velja á milli skugga þá tæki ég hiklaust þann bandaríska fram yfir þá rússnesku og kínversku!)
Hong Kong er staðsett í skugga drekans. Það voru sennilega mistök að afhenta Hong Kong til Kína frekar en að heimila svæðinu að gerast sjálfstætt ríki eins og Singapore. Það er bara spurning um tíma (og marga lítra af blóði saklausra borgara ef þeir ákveða að streitast á móti) þar til Kínverjar láta til skara skríða og sölsa svæðið undir sig. Vesturlönd þora ekki að styggja Kína og hafa lítið gert til að verja Hong Kong fyrir ásælni Kínverja.
Á tímabili var mjög í tísku að tala um frelsun Tíbet. Tíbet er fátækt fjallasvæði og rækilega undir hæl Kínverja. En hvað með Taiwan? Hong Kong? Hér þegja Vesturlandabúar yfir ásælni Kínverja. Er það af því þar hefur duglegum íbúum Austur-Asíu tekist að skapa auð og velmegun? Þarf að vera fátækur fjallabóndi til að verðskulda samúð Vesturlandabúans? Maður spyr sig.
![]() |
Kjósendur flykkjast á kjörstaði í Hong Kong |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 23. nóvember 2019
Loftslagsáróðurinn kominn í vörn
Þeir sem halda því fram að koltvísýringslosun manna hafi mikil áhrif á loftslag Jarðar og sé jafnvel að hita Jörðina meira en ef engin væri losunin eru komnir í vörn, loksins.
Í alltof langan tíma hafa boðberar þessarar tilgátu nánast átt opinbera umræðu, mótspyrnulaust. Þeir hafa setið einir að sjónvarpsútsendingum og eru jafnvel komnir inn í kennslustofur barnaskóla.
Núna eru teikn á lofti um að þessi einokun á opinberri umræðu sé að líða undir lok, sem betur fer.
Og hvaða teikn eru það? Þau eru nokkur:
97% talan
Í langan tíma hefur því verið haldið á lofti að 97% vísindamanna í loftslagfræðum telji að losun manna á koltvísýringi hafi einhver til mikil áhrif á hitastig lofthjúpsins. Til að mynda heldur DV þeirri tölu mjög á lofti hér og hafnar, án efnislegra raka, skýringum á því hvernig þessi tala var búin til á sínum tíma (henda út öllum rannsóknum sem taka ekki afstöðu til hlutar mannsins í þróun hitastigs og telja svo þá sem segja berum orðum að áhrif mannsins séu meiri en engin, án þess samt að allir hafi talið áhrif mannsins mjög mikil).
97%-talan eins og hún er notuð stenst enga skoðun og blaðamenn og trúboðar hamfaranna vita það. Ákveðin vandræði fylgja því fyrir trúboðana því 97%-talan er alveg einstaklega áhrifaríkt áróðursvopn. Ef talan er í raun 90% eða 80% eða 50% eða eitthvað fjær 100%-tölunni þá eru trúboðarnir komnir í vandræði því þeir hafa ríghaldið svo fast í 97%-töluna að það gæti haft hrikalegar afleiðingar fyrir boðskapinn að trúverðugleiki tölunnar er dreginn í efa.
Opinberar aftökur
Loftslagstrúboðarnir eru hrifnir af ræðum, drottningaviðtölum og fyrirlestrum en síður af rökræðum og opnum umræðum. Þetta hafa ýmsir blaðamenn fengið að finna á eigin skinni. Þegar trúboðarnir komast að því að andspænis þeim eiga að sitja sprenglærðir prófessorar sem geta borað óteljandi göt í trúboðið þá mæta þeir einfaldlega ekki.
Nei, það er miklu auðveldara að siga tveimur spyrlum og þremur trúboðum á eina manneskju og leyfa henni helst ekki að opna á sér munninn. Þannig er reynt að myrða mannorð þeirra sem efast um trúboðið, einn einstakling í einu, og vona að aðrir læri annaðhvort að þegja eða segja amen á viðeigandi tíma.
Um langa hríð gekk þessi aðferðafræði ágætlega. Vísindamenn voru sviptir styrkjum og öðrum miðlum ef þeir sungu úr takt við kórinn. Menn voru reknir frá stöðum sínum. En núna er að verða breyting á. Rökin gegn trúboðinu hlaðast upp, trúverðugleiki líkananna er að fjara út og fleiri og fleiri byrjaðir að andmæla trúboðinu og komast upp með það án þess að vera sviptir lífsviðurværinu eða ærunni.
Opinberar aftökur verða samt áfram reyndar og jafnvel settur meiri kraftur í þær núna í örvæntingarskyni. Það mun samt ekki virka.
Vísindamenn eiga ekki að vera sammála
97%! Afneitunarsinni! Trúir ekki á vísndi! Svona upphrópanir hafa heyrst lengi. Ef allir vísindamenn eru sammála, af hverju ert þú það ekki? Þá má velta fyrir sér hvað þurfi til að vísindamenn verði í raun sammála um eitthvað. Í tilraunakenndum vísindum er það frekar undantekningin er reglan. Meira að segja tvær veðurstofur í nágrannaríkjum spá mismunandi fyrir um tímasetningu og magn úrkomu. Ef það er ekki hægt að verða sammála um hvenær rignir á morgun hvernig dettur þá einhverjum í hug að vísindamenn séu sammála um veðrið eftir 20 ár? Enda er það ekki svo. Vísindamenn eru ennþá að leika sér með líkönin, breyta grundvallarforsendum þeirra, innleiða nýja þætti og draga úr öðrum og hefur ekki ennþá tekist að búa til eitt einasta líkan sem hefur spáð einhverju rétt.
Jú, vissulega eru þeir sammála í grófum dráttum að það eru til lofttegundir sem valda loftslagsáhrifum og að aukinn styrkur hefur væntanlega meiri áhrif en minni styrkur en mikið lengra nær það ekki. Menn eru ósammála um hvað gufar mikið út úr lofthjúpnum og út í geim, hvort koltvísýringur aukist vegna hækkandi hitastigs eða hvort hækkandi hitastig leiði til hækkandi styrks koltvísýrings, um áhrif skýjafars, um áhrif geimgeisla, sólbletta, losunar eldfjalla á bæði koltvísýringi og öðru og svona mætti lengi telja.
Það hefur hljómað einkennilega í langan tíma að allt í einu á sviði loftslagsvísinda sé kominn einhvers konar sameiginlegur skilningur á gríðarlega flóknu fyrirbæri, enda er það ekki svo.
Niðurstaðan
Tími hins einhliða áróðurs er liðinn og trúboðarnir fá ekki lengur að kæfa andspyrnuna þegjandi og hljóðalaust.
Gott.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)